Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Sigrún Óskarsdóttir og Hjalti Hugason

Skýrsla Rannsóknanefndar og Kirkjuþing

Skýrsla rannsóknarnefndar Kirkjuþings um viðbrögð og starfshætti þjóðkirkjunnar vegna ásakana á hendur Ólafi Skúlasyni var afhent forsætisnefnd Kirkjuþings föstudaginn 11. júní sl. Umræða um hana hefur að mestu náð að síga í hefðbundið íslenskt far: Hún hefur verið persónugerð og að miklu leyti snúist um hvort núverandi biskup eigi að fara frá, eða hvort honum beri þvert á móti að leiða það uppbyggingarstarf sem framundan er. Það er miður að sjónarhornið hefur orðið svo þröngt.

Ábyrgð einstaklinga
Með þessum orðum er ekki gerð tilraun til að draga athygli frá þeim athugasemdum sem gerðar eru í skýrslunni við framgöngu tilgreindra einstaklinga, stjórna eða ráða. Þau sem þar eru nefnd hljóta að líta í eigin barm og vega og meta hvort þau njóti áfram traust í kirkjunni. Til þess þarf tíma og tilfinningalegt svigrúm. Hér verður ekki sest í dómarasæti yfir þeim.

Upphaf en ekki endir umræðu
Við sem þetta ritum sátum nýafstaðið aukakirkjuþing sem kallað var saman vegna útgáfu skýrslunnar er hún hafði legið frammi yfir hvítasunnuna sem er annatími í kirkjunni. Mörg þeirra sem kölluð voru til að bregðast við skýrslunni á þinginu hafa því líklega verið í tímaþröng að kynna sér hana. Almennar umræður um efni hennar urðu nær engar. Skýrslan er hátt í 340 bls. og drög að ályktun þingsins var ekki lögð fram fyrr en á þinginu sjálfu. Trúlega hafa margir þingfulltrúar talið sig varbúna til að tjá sig um skýrsluna. Á þinginu var því einungis tekið fyrsta skrefið í að vinna úr skýrslunni. Stóra verkerfið framundan er að að skoða gagnrýni hennar, ábendingar til úrbóta, sem og það sérfræðilega efni sem hún miðlar um eðli og afleiðingar kynferðisofbeldis.

Það var mikilvægt að kalla saman kirkjuþing eins fljótt og unnt var eftir útkomu skýrslunnar. Undirbúningur að þeim úrbótum sem mælt er með í skýrslunni þolir ekki frekari bið. Þar er um að ræða verklagsreglur um meðferð kynferðisafbrota í kirkjunni, stóraukna fræðslu um slík brot og endurskoðun á samstarfi kirkjulegra embætta og stofnana í meðferð slíkra brota.
Kirkjuþing á komandi hausti hlýtur að leggja grunn að því að eftirleiðis verði gætt fyrirmyndavinnubragða í þessum viðkvæmu málum. Forvarnir þjóðkirkjunnar og viðbragðsáætlun verða jafnframt þróaðar áfram. Þingið þarf enn fremur að gaumgæfa fleiri þætti þessarar viðmiklu skýrslu og bregðast við efni hennar.

Er kirkjan lokaður klúbbur?
Við lestur Rannsóknarskýrslunnar vaknar sú áleitna spurning hvort þjóðkirkjan hafi brugðist við neyðarópi þolendanna í „biskupsmálinu“ eins og lokaður klúbbur.

Þjóðkirkjan er stór og oft er rætt um að innan hennar gæti andstæðra fylkinga.
Er það svo? Standa klerkar og trúnaðarmenn þvert á móti þétt saman þegar á reynir? Ríkir traust og samstaða inn á við, jafnvel hlýðni og undirgefni studd guðfræðilegum og trúarlegum undirtónum, en vantraust og efasemdir út á við? Var þess vegna svo lengi daufheyrst við og þagað um neyðaróp kvennanna?

Sé spurningunum svarað játandi er vafamál hvort skipulagsbreytingar í kirkjunni nægja einar og sér til að vinna bug á vandanum. Það er til bóta að skilgreina valdmörk, koma í veg fyrir uppsöfnun valds og áhrifa hjá fáum einstaklingum, efla lýðræði og gegnsæi og afmarka boðleiðir. Á sama tíma er mikilvægt að rýna í félags- og stofnunarmenningu kirkjunnar, brjóta upp hefðbundin tákn og ramma sem viðhalda leyndarhyggju og samstöðu á fölskum grunni og endurheimta með því laskað traust.

Framtíð þjóðkirkjunnar hlýtur að felast í þessu. Kirkja getur verið þjóðkirkja af mörgum og ólíkum ástæðum: vegna stærðar sinnar, lögfræðilegrar stöðu eða hvernig hún skilur hlutverk sitt svo nokkuð sé nefnt. Þó er ljóst að skorti trúnað og traust milli kirkju og þjóðar er tómt mál að tala um þjóðkirkju.

Hvernig á kirkjan að mæta þolendunum?
Hvernig mætir kirkjan svo þolendunum þegar skaðinn er skeður? Við því er ekki til neitt eitt svar. Þolendur eru fleiri en einn og því um mismunandi reynslu, tilfinningar og persónuleika að ræða.

Hér hlýtur fyrsta skrefið þó ætíð að felst í opnum samskiptum við hvern og einn þolanda þar sem gagkvæmur trúnaður, traust og virðing eru til staðar. Með stuðningi fagfólks þarf hverjum þolanda að gefast kostur á að finna leið til að finna málinu farveg á sínum eigin forendum. Eftir það ferli er hugsanlega kominn tími til að ræða sátt við kirkjunna og mögulega fyrirgefningu á mistökum, vanrækslu eða jafnvel brotum sem framin að hafa verið..

Hvernig sættist kirkjan við fortíð sína?
Skugginn af „biskupsmálinu“ mun grúfa yfir þjóðkirkjunni enn um sinn. Hún þarf að svara fyrir sjálfri sér og örðum ágengum spurningum um það hvernig slíkir atburðir gátu átt sér stað á upplýstri öld sem við héldum að sú 20. væri er leið að lokum hennar. Hún þarf að sættast við eða a.m.k. sætta sig við þennan þátt í fortíð sinni eins og ýmsa aðra þætti sem hafa reynst henni sárir. — Hvernig gerir hún það?

Hér finnast ekki einföld svör. Vakandi sjálfsrýni kann þó að hjálpa til og þá ekki síst til þess að reyna að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig. Það er styrkur kirkjunnar að geta tekist á í ýmsum álitamálum. Það að sitt sýnist hverjum ber ekki að líta á sem flokkadrætti og rýg heldur taka ögruninni, leiða mál til lykta með ábyrgri umræðu og stefna að lausnum..

Gagnrýnisraddir í þjóðkirkjunni eru hluti af samvisku hennar. Þær eru óþægilegar en ógna kirkjunni ekki né stefna einingu hennar í hættu. Það sem gæti hinsvegar ógnað kirkjunni eru gamalgróin varnarviðbrögð sem kjúfa kirkjuna og einangra hana frá umhverfinu.

Um höfundinn2 viðbrögð við “Skýrsla Rannsóknanefndar og Kirkjuþing”

 1. Guðbjörg Snót Jónsdóttir skrifar:

  Þið afsakið vonandi, þótt ég segi það, en mér finnst nú þessi ósköp, sem við höfum haft sem hæst um núna vegna skýrslunnar innan okkar kirkju, vera hálf lítilsiglt mál og heldur smávægilegt, sem tekur varla að tala um, miðað við þann hrylling, sem við erum nú að lesa um í blöðunum þessa dagana um það, sem gekk á innan kaþólsku kirkjunnar hér á árum áður, og hefur komið biskupi og kanslara kirkjunnar til að kalla á svipaða rannsóknarskýrslu, og heimt var í okkar kirkjudeild. Það liggur við, að það taki varla að minnast á það, sem gerðist hjá okkur, miðað við þær hörmungar, sem er verið að lýsa að hafi gerst í Landakoti, og mann setji algerlega hljóðan vegna þess, nema til þess eins að lýsa vanþóknun sinni á þeim ósköpum.

 2. Fanney Halla Pálsdóttir skrifar:

  Já ég tek undir með Guðbjörgu, mann setur hljóðan. Ég tel að við sem þjóð eigum Stígamótum og þeim öðrum sem sinna þeim málafokki sem þar er, mikið að þakka að hafa tekið þennan málaflokk einnig að sér því ekki gerðum við það. Þeir þættir sem eru ólíkir þessum tveimum málaflokkum höfum við sem þjóð auk þess í engu sinnt og ættum að skammast okkar fyrir að virða ekki Stígamót og þær konur meira fyrir þeirra miklu vinnu sem og að leggja okkar til.

  Ég tel að þar sem við sinntum ekki hröktum börnum fyrr þá muni Stígamótakonur og þær sem sinna þeim málaflokki almennt ekki treysta okkur fyrir þeim þáttum sem ólíkir eru með þessum hópum fyrr en við getum sýnt óyggjandi að við séum traustsins verð.

  Ég tel einnig að sú krafa okkar að við veitum þeim ekki læknisþjónustu, hjúkrun, sjúkrahúsvist, sjúkraþjálfun, talþjálfun, raddþjálfun og stuðningi í skóla eins og vera ber, fyrr en þau hafa greint okkur frá hver hrottinn er, sé ómanneskjuleg. Ef við sinntum þessum börnum eins og langveikum börnum og fötluðum börnum þá fengjum við þau fyrr inn á spítalana og gætum hlynnt að þeim. Það er erfitt að sjá á eftir barni af spítala og vita að það verði pyntað aftur og stríðshrjáð en þó meiri von að það komist aftur undir læknishendur og fái hjúkrun og þjálfun. Það mun taka langan tíma að byggja slíkt kerfi upp. Ég tel einnig að með slíku kerfi, þó taki langan tíma að byggja upp, þá munu börnin fyrr geta greint frá hver pyntaði það og gerði það stríðshrjáð. Þá mun það smá saman eðlilega greina frá sínu lífi og varpar það ljósi á hver hrottinn er og þá hægt að fá staðfestingu hjá því. Einnig ef barn í stríðshrjáðu ríki er látið standa úti í skothríðum borgarinnar og e-h hrotti segir því að ef það hreyfi sig á e-h hátt þá muni e-h láta lífið. Þegar skot ríður af og barninu finnst það hafa hreyft sig þá telur það sig hafa átt sökina og hrottinn búin að ná tökum algerlega á lífi barnsins. Síðan þarf það að horfa upp á hrottan og það sem þar fer fram og sett á ábyrgð barnsins og er slíkt talið hrottaleg pynding einnig.

  Ef það eru börn hér á Íslandi sem verða fyrir ofangreindu og í okkar friðsama samfélagi þá er það kallað misnotkun af sálfræðingum og félagsfræðingum. Misnotkun getur verið misnotkun á aðstöðu, það að hafa aðgang að ljósritunarvél á vinnustað og ljósrita lítilsháttar fyrir Lyons eða Rótary, misnotkun á áfengi.

  Ég sá kvikmynd í ríkissjónvarpinu nú í júní frá sáttanefnd í Suður Afríku, sannsögulega skilst mér. Þar var sýnd m.a. aðstaða til pyntinga og pyntingatól og háttarlag valdsmanna við að ná í fórnarlamb sem ekki yrðu eftirmálar að að pynda. Staðurinn valinn þar sem erlendir diplómatar eða aðrir sem færu um kæmu ekki á. Fórnarlambið einangrað og pyntað. Eftir slíkt verða fórnarlömb stríðshrjáð. Hvernig hægt er að líta á þjáningar hrakinna barna á annan hátt get ég ekki skilið.

  Góðar kveðjur,

  Fanney Halla Pálsdóttir

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3126.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar