Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Sigurður Árni Þórðarson

Hetjur óskast

Hendur.Ég minnist stúlku, sem óð inn í miðjan strákahóp til að verja varnarlausan dreng. Hún sýndi hugrekki. Ég minnist félaga, sem hjólaði í valdakerfi og forkólfa þess vegna þess að honum misbauð óréttlæti. Ég veit um nokkur, sem hafa staðið með fórnarlömbum þrátt fyrir hæðnisglósur og þrýsting. Þau eru hetjur og ég dáist að þeim.

Formæður okkar og karlar þeirra höfðu hugmyndir um hvað þyrfti að kenna börnum til lífs og farsældar. Dyggðalistar voru skráðir og lastalistar líka. Sumir urðu til í skugga musteranna, en aðrir á vígvöllum og við líkbörur. Því betur, sem ég skoða samfélag okkar, því sannfærðari verð ég um nauðsyn n.k. þjóðræðu um siðvit fyrir framtíð. Skóli og kirkja hafa köllun í því máli og hlutverki að gegna.

Við síðustu aldamót var gerð könnun á gildum og löstum Íslendinga á þeim tímamótum. Íslendingar töldu sig þá vera duglega, áræðna, opna, réttláta, ræktarsama við þjóðmenningu og land, vera friðsama, umburðarlynda, sjálfstæða og töldu sig líka vera húmorista! Lastamegin var t.d. agaleysi, neysla, asasótt, efnisdýrkun, meðvirkni, höfðingadýrkun, guðleysi, sýndarsókn, hroki og vinnuþrælkun! Veikleika og styrkleika þarf að tékka reglulega. Hið eftirsóknarverða þarf að nefna og setja í forgang. Engin viska verður til nema einstaklingar og mannfélagið allt ræði gildi sín og viðurkenni hvaða lesti ber að forðast. Er græði einhvern tíma góð?

Hugrekki er ekki á þessum Íslandslista og virðist orðið fágætt. Eru hetjur sem næst útdauðar? Fáir málsvarar spretta fram þegar á fólk er hallað og það beitt órétti. Enginn skortur er á sýndarmennum eða á fífldirfsku. Í siðklemmum og átökum reynir á fólk. Mér sýnist þorri Íslendinga vera gungur, sem læðast burt eins og hýenur þegar fólk er beitt órétti, vilja ekki ógna eigin öryggi þegar fólk er beitt félagslegu, kynferðislegu og andlegu ofbeldi. Þau eru of fá, sem standa víllaus með fórnarlömbum. Af hverju hefur hugprýðin verið gengisfelld? Er það ekki orðið sjúkt samfélag, sem beitir hetjur og málsvara réttlætis einelti og jafnvel þöggun?

Hvort ertu gunga eða hugprúð? Það er engin hugdirfska að verja eigið vígi og hagsmuni. En þegar þú stendur við hlið þeirra, sem verða fyrir órétti, þorir að fórna eigin hag í þágu hinna niðurþrykktu kemur dýrmæti þitt í ljós, innræti þitt. Þau, sem verja réttlæti og fórna jafnvel eigin öryggi eru okkar dýrmætasta fólk – hinir slípuðu demantar.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Hetjur óskast”

 1. Fanney Halla Pálsdóttir skrifar:

  Ágæti Sigurður Árni

  Já við Íslendingar erum „…gungur, sem læðast burt eins og hýenur þegar fólk er beitt órétti, vilja ekki ógna eigin öryggi þegar fólk er beitt félagslegu, kynferðislegu og andlegu ofbeldi.“

  Herra Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands þáverandi sóknarprestur í Hallgrímskirkju ásamt séra Hjálmari Jónssyni þáverandi þingmanni voru þeir einu sem virðast hafa hlustað á þá konu sem svo mikið hefur verið í fjölmiðlum og fjallað um. Þeir tveir virðast þeir einu sem hlustuðu á þessa konu og voru tilbúnir til að leggja henni lið. Þeir tveir, sóknarprestur og þingmaður, virðast þarna tilbúnir að bæta inn í sitt líf og vinnu þaðan í frá og til æviloka þá vitneskju sem þar fékkst. Hins vegar er einnig ljóst að að þeir gera sér grein fyrir stöðu sinni og þess aðstöðumunar sem á þeim og þessari konu var. Þeir eru í ábyrgðastöðum og gátu látið sín viðhorf á móti öðrum en þessi kona án áhrifa. Þeir hafa alist upp við gott atlæti, fengið að þroska og rækta sínar tilfinningar og búa sér örugga og góða framtíð. Þessi kona var sköðuð í æsku og líf hennar erfitt af þeim sökum. Þegar hún var fullorðin notaði síðan kollegi þeirra sér aðstöðumuninn sem á þeim var og það á siðlausan, ógeðfelldan, brenglaðan og grófan hátt sem þessi kona greindi þeim frá.

  Ljóst má vera að hlutverk þeirra var fyrst og fremst sem sálusorgara og fulltrúi löggjafavalds. Þeim bar því fyrst og fremst að styrkja og styðja þessa konu þannig að hún gæti fengið frið fyrir áreiti Ólafs Skúlasonar og annarra hans líka eins og unnt var. Hún gæti fengið frið til að hlú að sér og börnum sínum og byggja þeim gott líf og verið óáreitt af slíkum mönnum sem búast má við að áreiti hana.

  Jafnhliða er ljóst að þeir öxluðu þá ábyrgð sem stöðum þeirra fylgir að þekking um þetta háttarlag yrði þaðan í frá og ævi þeirra á enda, hluti af þeirra vinnu. Þeir öxluðu þaðan í frá þá þungu ábyrgð að vinna grunninn undir þá vinnu sem og herra Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands að vera burðarás í þeirri vinnu þaðan í frá hröktum börnum í hag sem nú stór hluti þjóðarinnar leggur einnig sinn góða hug í.

  Sú leið sem biskup Íslands herra Karl Sigrbjörnsson biskup Íslands, þáverandi sóknarprestur í Hallgrímskirkju, vildi fara er eðlilegri og skynsamari leið og hefði gefið langtum betri og effektívari vinnu hröktum börnum í hag. Sú leið hefði verið margþættari, heilsteyptari og leið sem kristnu þjóðfélagi sæmir að fara. Tel ég að sú leið hefði leitt til þess nú fyrir miðjan fyrsta áratug aldarinnar að koma á skipulagi og vinnu hröktum börnum í hag í sókn og sem skjöldur fyrir hrakin börn í stjórnkerfinu.

  Sú mikla athygli sem þessi kona krefur fyrir sitt tillegg hefur farið afar illa með þessa vinnu og þungur róður þá fyrir herra Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands, þá sóknarprest Hallgrímskirkju. Hans vinna þá sýnir mikla ögun og þekkingu hans á því skrifræði sem stjórnkerfið er að vegna kröfu þessarar konu um hlutdeild þá hversu mikilvægt var að koma á formlegum fundum og skráðum yfirlýsingum til að hafa a.m.k. þess atburði documenteraða í stjórnkerfi kirkjunnar sem hluti af sögu hennar sem til að geta síðan unnið þessum málaflokki hag innan kirkjunar má telja einstaklega mikið afrek og hugdirfska. Án þess værum við jafnvel enn að berjast við að koma málefnum m.a. Breiðavíkurdrengjanna upp á yfirborðið. Þó má ekki gleyma þætti séra Hjálmars Jónssonar Dómkirkjuprests, þáverandi þingmanns, sem fann þann prest sem gæti áorkað slíku.

  Nú vænti ég þess að við förum í formlega opinbera kortlagningu á þessu mikla afreki og hugrekki þessara tveggja mann þar sem þessi kona kaus fjölmiðlaathygli og skrum, að láta hana ekki sitja uppi sem ´gálu og glæfrakvenndi´ eins og hefði verið, heldur að fara fyrir skjöldu innan stjórnsýslu kirkjunnar, óbreyttur prestur og fá þessa atburði documenteraða sem og leggja sína vinnu áfram í að taka á þessum málaflokki í þjóðfélaginu.

  Mikil vinna er að baki og mikil vinna framundan.

  Góðar kveðjur,

  Fanney Halla Pálsdóttir

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2550.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar