Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Vigfús Bjarni Albertsson

Þeir eru skemmtilegir þessir lærisveinar

Sálgætirinn, Jesús, var frelsandi þegar hann opnaði augu okkar fyrir systkinum okkar. Það er svo auðvelt að vera blindur á það sem blasir við okkur. Það er svo auðvelt að sjá hvað það er sem aðgreinir mig frá öðru fólki. Mikið er það fallegt í fari frelsarans hvernig hann reynir að opna mig fyrir því sem ég á sameiginlegt með systkinum mínum. Ég vildi stundum hafa reynst betri í því að sjá hvað ég er líkur þeim sem stendur við hlið mér. Það er mikið fagnaðarerindi lífi fólks að uppgötva það sem sameinar fremur en það sem aðgreinir. Kannski bara gott íhugunarefni fyrir mig í dag og sem flesta aðra daga? Það er líka gott íhugunarefni fyrir mig hversvegna flísarnar sem ég sé hjá náunganum fara svona í taugarnar á mér, kannski á ég eitthvað af þeim líka?

Er það ekki stundum merkilegt að ég reyni að skilgreina og greina fólk í kringum mig þannig að ég hljóti að vera af einhverri annarri gerð? Leiðinlegt hvað það hendir mig oft. Ætli þetta sé einhver dulinn ótti? Óttinn nærir hrokann hjá mannskepnunni og hún er hræðsluvera.

Sálgætirinn Jesús kallar svo skemmtilegan hóp saman, lærisveina. Þeir eru svo innilega venjulegir eins og ég skil það. Þeir eru svo fallega mennskir eins og þeir birtast mér og því gengur mér vel að tengjast þeim. Þeir virðast vera venjulegir fjölskyldumenn og daglaunamenn, leitandi eftir skilning og tilgang. Þeir virðast heillast af tíðaranda, stundum hafa þeir alvarlega rangt fyrir sér, það gerist. Niðurstaða þeirra er að gerast hugrakkir fylgismenn. Það finnst mér aðdáunarvert. Guð gefi mér styrk til að gera það.

Það er hlýlegt að kynnast þessum lærisveinum, það er svo gott að kynnast skrifum Páls. Þetta er frelsandi boðskapur og sannar svo vel hve mikið Kristur talar inn í nútímann. Ég og lærisveinarnir virðumst vera svo ósköp lítið breyttir, leiðinlegt hvað við ruglum mikið saman framþróun mannsandans og tækni. Það er líka fallegt hvernig Kristur vill að þessum lærisveinum fjölgi. Hún er svo dýrmæt þessi setning, fylg þú mér. Hún frelsar þann sem á hana hlustar sem hvatningu. Hvatning til að leggja upp í fallegt ferðalag, þar sem persónan fær tækifæri til endurskoða sig, þroska sig. Þetta er ekki skóli fullkomnunar heldur íhugunar. Ég er fallinn í skóla fullkomnunar en á tækifæri í skóla íhugunar og iðrunar, skóli sátta. Kannski að öldurnar lægi á vatninu ef ég treysti því.

Um höfundinn2 viðbrögð við “Þeir eru skemmtilegir þessir lærisveinar”

  1. Sigrún Óskarsdóttir skrifar:

    Takk fyrir pistilinn Vigfús Bjarni. Það vill svo skemmtilega til að ég hef einmitt verið í þessum pælingum með þörf okkar á að skilgeina okkur, það eum “við” og “hin” í stað þess að horfa til þess sem sameinar. Sjáumst í skóla íhugunar, iðrunar og sátta:)

  2. Sigga Dóra skrifar:

    …já…mér er þetta einmitt oft ofarlega í huga. Þessi tilhneiging okkar til þess að aðgreina “mig” frá öllum hinum - eins og “ég” sé eitthvað öðruvísi, verður til þess að draga úr manni kjarkinn og þorið til þess að takast á við lifið með þeim hætti sem mann helst langar til. Við erum nefnilega öll sömu blómin á sama enginu - öll að takast á við þetta endalausa verkefni að finna tilgang okkar í lífinu…þessi blessaði tilgangur… ætli hann sé einhver? Að átta sig á þessum einfalda sannleik - að “ég” er ekki nafli alheimsins, heldur hluti af alheiminum, verður til þess óttinn hverfur. Við hvað er að vera hræddur, þegar við erum öll í sama liðinu?

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2534.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar