Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Kristján Valur Ingólfsson

Leiðin heim

Fólk í ferðum

Opnunarhátíð Hörpunnar var og verður ógleymanleg stund. Fjórar klukkustundir. Eitt andartak. … manstu barn mitt þann dag er regnið streymdi um herðar þér og augu og skírði þig og landið til dýrðar nýjum vonum … Eins og í miðju alls hins dásamlega þessa augnabliks, hvítklæddur skari æskufólks að syngja Vorkvæði um Ísland eftir Jón Óskar og Jón Nordal. Manstu?

Móse leiddi Ísraelsmenn út úr þrælahúsinu í Egyptalandi og tók stefnuna á fyrirheitna landið, þar sem fólkið myndi búa sér nýtt heimili. Leiðin var löng og lá um eyðimörk. Hún tók mörg ár. Margir dóu á leiðinni. Það var ný kynslóð sem komst á leiðarenda. Kynslóðin sem komst heim.

Þegar sinfóníuhljómsveitin tók sig upp frá Háskólabíói og gekk sína táknrænu göngu að nýja tónlistarhúsinu til að eiga þar heima síðan, þá var það ekki löng ganga. En leiðin úr Háskólabíói að Hörpu var samt mjög löng. Og hún lá um eyðimörk. Og margir dóu á leiðinni. Það var í raun ný kynslóð sem komst á leiðarenda. Nú er hún komin heim.

Það sem gefur jafnvel vonlausum eyðimerkurgöngum tilgang og kraft eru vinjarnar.
Þess vegna setur maður sér ekki það mark að þurfa að klára gönguna í gegnum
eyðimörkina alla í einni lotu. Maður stefnir á næstu vin. Þar sem er lind og skjól,
endurnæring og hvíld fyrir næsta áfanga. En vin er ekki varanlegt heimili. Það liggur handan eyðimerkurinnar.

Pílagrímagöngur eru eyðimerkurgöngur. Í sérstökum skilningi. Þær hafa sér einkenni umfram aðrar göngur. Þær gerast bæði ytra og innra. Hið ytra eru þeir göngur frá einum stað til annars, en hið innra eru þær ferðalag inn í djúp hugarfylgsnanna og sálarinnar. Pílagrímagöngur hafa afmarkað upphaf og ákveðinn endi og í það minnsta tvo áningarstaði á leiðinni. Hinn fyrri er til þess að gleðjast yfir því sem er að baki og fagna því að leiðin að marki hefur styst, en síðari áningarstaðurinn er þegar fyrst sést til leiðarenda.

Prúðbúið fólk streymdi frá Hörpunni út í vornóttina eftir andartaksáningu í dásamlegri vin, sem minnir í senn á hrun og von. Okkur sem byggjum þetta land hefur mörgum fundist við vera á einskonar eyðimerkurgöngu, sem enn er ekki lokið. Við getum gert hana að pílagrímagöngu.

Trúin er ganga með Kristi. Pílagrímaganga. Eyðimerkurganga.Frá vöggu til grafar. Lífsganga. Leiðin heim.
Við erum á leiðinni heim. Þreytt í fótum, en glöð.
Við erum á leiðinni heim. Á göngu til dýrðar nýjum vonum!

Við hina fornu pílagrímaleið milli Oslo og Niðaróss er Granvollen. Það er áningarstaður að fornu og nýju. Á ráðstefnu sem þar var haldin fyrir nokkum árum var kynntur og sunginn sálmur fyrir pílagríma sem heitir Vi er et folk på vandring. Sálmurinn er eftir sænsku skáldkonuna Britt G Hallqvist, en Eyvind Skeie þýddi hann á norsku. Lagið gerði norska tónskáldið Egil Hovland.

Við erum fólk í förum,
ef ferðin er erfið og löng,
við setjumst við læki og lindar
og leitum þín Guð, í söng.

Við erum fólk í förum,
á flótta, í óró og nauð,
og leitum að sátt þegar saman
er safnast um vín og brauð.

Við erum fólk í förum
og færumst í trúnni æ nær
því heima sem heimfús leitar,
og himininn okkur ljær.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2300.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar