Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Kristín Þórunn Tómasdóttir

Kirkja í sókn kallar til starfa

Hópurinn frá Neskirkju bregður á leik

Í gær fór fram prests- og djáknavígsla í Dómkirkjunni í Reykjavík. Þar voru fjórir guðfræðingar vígðir til hins heilaga prests- og prédikunarembættis og tveir djáknar vígðir til kærleiksþjónustu í samfélaginu.

Margt áhugavert var við vígslu gærdagsins. Helmingur vígsluþeganna vígðust til starfa í öðru landi en þrír prestanna hafa verið ráðnir sem prestar í Noregi. Norski biskupinn Ingeborg, sem flutti vígsluræðuna, nefndi það einmitt að þessar aðstæður skapist vegna þess að það vanti presta í Noregi og prestar fái ekki störf á Íslandi. Hún sagði líka að það sem geri þetta mögulegt, sé sú staðreynd að við tilheyrum og þjónum öll sömu kirkju Jesú Krists í heiminum.

Fjórði presturinn var vígður til þjónustu í æskulýðsstarfi í Neskirkju í Reykjavík. Vígsla til æskulýðsstarfs er ekki nýmæli en djákni var vígður til æskulýðsþjónustu í Hallgrímssöfnuði 1965 og prestur til æskulýðs- og ellistarfs í Bústaðasöfnuði árið 1983. Nokkur dæmi eru um slíkar vígslur síðan.

Í aðdraganda vígslu gærdagsins spunnust nokkrar umræður sem snerta nauðsyn og góða skikkan sem viðhafist í sambandi við köllun og ráðningu presta. Slíkt er eðlilegt og skiljanlegt ekki síst í ljósi þeirrar stöðu sem ríkir meðal íslenskra presta og guðfræðinga, að nýjar stöður verða ekki til og eldri stöður treglega auglýstar, ef þær losna. Til að mynda voru málefni kynja í þjónustu kirkjunnar rædd, eins þörfin á því að hafa vígða starfsmenn í barna- og æskulýðsstarfi.

Í því sambandi kom fram að Nessöfnuður, sem kallar viðkomandi prest, ræðst í að taka þetta skref til að styrkja barnastarf kirkjunnar með ákveðnum hætti. Kreppa ríki í þjóðfélaginu og kreppa ríki í barna- og unglingastarfi kirkjunnar. Við því vilji söfnðurinn bregðast og kallar því prest til að efla æskulýðsstarfið, styrkja hina kirkjulegu vídd, og bæta aðstæður viðkomandi starfsmanns sem hefur verið umsjónarmaður barna- og unglingastarfs Neskirkju síðastliðin ár.

Djáknarnir sem vígðust í gær halda utan um samfélagsþjónustu safnaða annars vegar í Reykjavík og hins vegar á Snæfellsnesi. Í Fella- og Hólakirkju starfa nú tveir prestar og tveir djáknar og er það eini söfnuðurinn á landinu sem býr svo vel. Á Snæfellsnesi styrkist samfélagsþjónusta safnaðarins með því að fá djákna til starfa við hlið prestsins, þó í litlu starfshlutfalli sé.

Þjónustuhlutverk kirkjunnar, sem er aðgreint í prestsþjónustu, djáknaþjónustu og biskupsþjónustu, lýtur ekki eingöngu praktískum lögmálum heldur miðlar guðfræði sem sprettur upp úr sjálfsmynd kirkjunnar og skilningi okkar á því til hvers kirkjan er kölluð í heiminum. Það er, að vera farvegur náungakærleikans í ólíkum myndum.

Presturinn er vígður til að boða gleðiboðskap trúarinnar um ást Guðs og frelsi til handa manneskjunni, í orði og verki. Djákninn er vígður til að boða kærleika Guðs til manneskjunnar allrar, í orði og verki. Biskupinn er vígður til að hafa tilsjón með söfnuðunum og vera prestur prestanna.

Nýafstaðin djákna- og prestsvígsla er tímanna tákn um að kirkjan í landinu hafi frumkvæði og hugrekki til að mæta þörfum umhverfisins fyrir gleðiboðskapinn og vera þar með í sókn. Við gleðjumst yfir fleiri prestum og fleiri djáknum til að vitna um trúna á Jesú Krist í heiminum með orðum og verkum.

Um höfundinn2 viðbrögð við “Kirkja í sókn kallar til starfa”

 1. Jóhanna Magnúsdóttir skrifar:

  Þakka þér pistilinn Kristín Þórunn, - ég hef verið ein af þeim sem hef spurt spurninga hvers vegna embætti eru ekki auglýst, en fátt hefur verið um svör, eða ég ekki þótt svara verð, sem er nú enn sorglegra.

  Fékk þó loksins svar frá sr. Gunnlaugi Stefánssyni, þegar ég sendi fyrirspurn á guðfræðingalista, sem ég var þakklát fyrir. Það er að sjálfsögðu ekki við þig að sakast í þeim málum.

  Ég spurði um auglýsingar í embætti, en við vitum að embætti eru veitt án auglýsinga og ekki eru það alltaf bara söfnuðir sem kalla og greiða, án þess að ég fari að telja það upp.

  Persónulega finnst mér að kirkjan ætti að ganga fram sem fyrirmynd og auglýsa embætti, jafnframt að huga að jafnrétti, en það eru 3 karlkyns prestar við Neskirkju núna. Er það skv. jafnréttisáætlun kirkjunnar?

  Ég tek það fram að það eru allt flottir prestar og góðir og yndislegir menn. En málið snýst ekki um það.

  Þetta er ekki skrifað vegna þess að ég sjálf sé að falast eftir embætti, heldur vegna þess að mér sárnar að kirkjan skuli ekki starfa í anda jafnréttis og í raun í sama takt og þjóðfélagið sem við erum að reyna að bæta eftir leiðinda spillingu.

  Mínar skoðanir verða mér örugglega ekki vinsælda, enda ekki í slíkri leit, en ég hef fyrir þó nokkru ákveðið að lifa af heilindum og standa með réttlætinu, “no matter what” ..
  Það er ekki við þá sem vígslu hljóta að sakast, að mínu mati, heldur yfirstjórn kirkjunnar sem lætur slikt viðgangast.

  Kveðja, Jóhanna

 2. Kristín Þórunn skrifar:

  Heil og sæl Jóhanna.

  Takk fyrir viðbrögð - eins og þú segir sjálf fjallar pistillinn minn ekki um þetta þó ég nefni að umræður hafi skapast um málefni kynja og köllunar í aðdraganda þessarar vígslu.

  Það er mikilvægt að hafa í huga það sem þú nefnir - takk fyrir að halda því til haga.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2501.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar