Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Toshiki Toma

Hverjir eru guðfræðingar?

Ég hef nú búið á Íslandi í um 19 ár en ég er enn að uppgötva eitthvað sem er mér framandi miðað við minn upprunalega menningarheim, hefð eða skynsemi. Um daginn sótti ég fund Félags guðfræðinga og þar lærði ég í fyrsta sinn að hugtakið „guðfræðingur“ er samkvæmt málvenju á Íslandi skilgreint í íslenskri orðabók: „maður með embættispróf í guðfræði“. Það felur sem sagt ekki í sér manneskju sem hefur lokið BA-prófið í guðfræði.

Í raun skiptir guðfræðinám, t.d. hjá Háskóla Íslands í tvennt, annars vegar í BA-nám, sem er 180 einingar og lýkur með BA-prófi og framhaldsnám fyrir embættispróf, sem er BA-próf auk 120 eininga og lýkur með embættisprófi. Þá dettur mér strax þessi spurning í hug: „Ef guðfræðingur þýðir einungis manneskja sem er með embættispróf, hvaða heiti hefur þá manneskja sem hefur klárað BA-nám? Formlegt heiti á því hjá Háskóla Íslands virðist vera „maður sem er með BA-próf í guðfræði“. Svo virðist vera að manneskjan fá ekki viðurkenningu sem guðfræðingur.

Þessi uppgötvun vakti með mér undrun og forvitni, þar sem mér skilst að guðfræðinám á BA-stigi og nám fyrir embættispróf hafi ólíkar forsendur og að framhaldsnám í guðfræði sé ekki endilega nám fyrir embættispróf. Hver er munurinn á þessum forsendum? Í stuttu máli sagt er guðfræðinám opið öllum sem áhuga hafa á málinu, þ.ám. fólk sem trúið á aðra trú en kristni eða tilheyrir engum trúarbrögðum. Þetta er akademísk grein og gagnrýni er vel tekið svo framarlega sem hún sé á akademískum grunni.

Hins vegar er námið fyrir embættispróf aðallega hannað fyrir þá sem stefna að því að vera prestar eða þjóna í kirkjulegu umhverfi í framtíðinni. Áherslan í náminu er því lögð á atriði eins og prestsþjónustu, predikanir og messuflutning. Því verða (eða hljóta) þeir sem stefna að embættisprófi að vera trúaðir, þó að það sé ekki skilyrði fyrir náminu. Munurinn á milli þessara tveggja námsleiða varðar grundvallarviðhorf nemenda í námi. Annað er akademískt viðhorf sem er óháð trúarlegum bakgrunni manns, og hitt er kristilegt og kirkjulegt viðhorf.

Ef þessi skilningur er lagður í málið er mjög undarlegt að skilgreina „guðfræðing“ aðeins út frá embættisprófi eins og málvenja Íslendinga hefur hingað til gert. Þá er sú hætta til staðar að vel menntaður maður en gagnrýninn á kristna trú á akademískum grundvelli verði útilokaður frá umræðunni ef hann er aðeins með BA-próf. Einnig má benda á að ekki stefna allir „kristnir“ guðfræðingar að því að starfa innan kirkjunnar og vilja því ekki fara í nám sem gefur embættispróf. Að takmarka „guðfræðinga“ einungis við þá sem lokið hafa embættisprófi er því ekkert annað en takmörkun á akademísku frelsi. Þeir sem eru búnir að mennta sig til BA-prófs í guðfræði eiga að sjálfsögðu að kallast guðfræðingar eins og háskólanemar verða stjórnmálafræðingar eða lögfræðingar eftir sitt BA-nám.

Guðfræðingar í nútímasamfélaginu

Mér virðist þessi árekstur málvenjunnar um guðfræðinga og akademískrar skilgreiningar marka eins konar tímamót íslensks samfélags sem varða trúarbragðaviðhorf manna. Ég er sjálfur kristinn maður og efast ekki um ómetanlegt virði kristinnar trúar en samtímis hika ég ekki við að hvetja til eðlilegrar og eftirsóknarverðrar breytingar í trúarbragðaumhverfi sem passar þróun samfélagsins, akademískum samskiptum eða eflingu mannréttinda.

Guðfræðinám í Háskóla Íslands er núna undir guðfræði- og trúarbragðadeild, sem þróast hefur úr guðfræðideild. Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, sagði að þetta væri jákvæð þróun fyrir Háskólann og samfélagið í ávarpi sínu á prestastefnu 2011. Ég tel einnig að þetta sé jákvætt fyrir kristið fólk á Íslandi og kirkjuna okkar.

Kristni er enn ríkjandi trú hérlendis og verður það á næstunni. Engu að síður er kominn tími til að kirkjan eigi samræðu. Samræðu við önnur trúarbrögð en kristni, samræðu við guðleysingja, samræðu við fólk sem hefur ákveðna skoðun um kirkjutengd málefni eða samræðu á meðal okkar í kirkjunni um ákveðin málefni. Og þeir sem leiða slíka samræðu og umræðu frá mismunandi sjónarhornum hljóta að vera BA-menntað fólk á akademískum grunni, þar sem það er ekki endilega bundið við kirkju sem stofnun og einnig starfar það í gjörólíkum starfsgreinum.

Í mínum huga er „guðfræðingur“ maður sem hefur hlotið BA-gráðu eða frekara framhaldsnám í guðfræði og flestir í samfélaginu munu vera sammála mér. Þá verðum við að þurrka út stig af stigi gamalt hugtak um guðfræðing sem er með embættispróf í guðfræði. Og ég tel að kirkjan sjálf og Háskóli Íslands eigi að vera upphafsstaður þeirrar nýjungar.

Um höfundinn30 viðbrögð við “Hverjir eru guðfræðingar?”

 1. Jóhanna Magnúsdóttir skrifar:

  Góð pæling hjá þér Toshiki, ég hefði haldið að það sem lægi bak við Cand. theol. væri forsenda þess að vera kallaður guðfræðingur? .. Hvað segir guðfræðideild Háskólans?

 2. Jóhanna Magnúsdóttir skrifar:

  p.s. ég hef stundum til gamans kallað mig “óvígðan prest” .. en menn hafa misgaman af því, enda prestur lögverndað starfsheiti.

 3. Sigríður Guðmarsdóttir skrifar:

  Sæll Toshiki,
  Hvað hefur þú fyrir þér í því að “flestir í samfélaginu munu vera sammála þér”?
  Með sömu rökum ættu þá allir sem hafa lokið BA prófi í lögfræði að kallast lögfræðingar í stað þess að miðað sé við mag.jur. prófið. Er það þá líka brot á akademísku frelsi?
  Það að hafa BA próf í ákveðinni grein segir nákvæmlega það sem þarf til að lýsa menntunarstigi, sumsé það að viðkomandi hafi lokið grunnnámi á háskólastigi í þeirri grein. Ég tel að það myndi veikja embættispróf presta ef þetta væri gert og átta mig ekki alveg á tilganginum.

 4. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Þú bendir á það í pistlinum Toshiki að þau sem hafa lokið embættisprófi í guðfræði byrji fyrst á að ljúka BA-prófi í guðfræði. Af því mætti draga þá ályktun að þessi titill, guðfræðingur, tengist því að hafa lokið framhaldsnámi í guðfræði og ekki grunnnámi.

  Og hefur ekki málvenjan á Íslandi verið sú að fólk með MA-próf í guðfræði og doktorspróf í guðfræði hefur verið kallað guðfræðingar, jafnvel þótt þau hafi ekki lokið embættisprófi?

  Spurningin mín er þessi: Hvaða efnislegu rök hníga að því að víkka út þennan titil þannig að hann nái líka yfir þá sem hafa lokið grunnnámi?

 5. Toshiki Toma skrifar:

  Sæl, gott fólk.

  Sigríður: “Það að hafa BA próf í ákveðinni grein segir nákvæmlega það sem þarf til að lýsa menntunarstigi, sumsé það að viðkomandi hafi lokið grunnnámi á háskólastigi í þeirri grein.”

  Ég segi ekki að maður má ekki lýsa nenntunarstig sitt, hver semnámsgrein viðkomandi er. Maður er með rétt að lýsa því og fá almmenilegt mat. Ég bendir á samt einfaldlega að BA gráða í guðfræði er alveg nóg menntun fyrir mann til að kallast “guðfræðingur”.

  Árni Svanur: “Og hefur ekki málvenjan á Íslandi verið sú að fólk með MA-próf í guðfræði og doktorspróf í guðfræði hefur verið kallað guðfræðingar, jafnvel þótt þau hafi ekki lokið embættisprófi?”

  Það er sem sé árekstur sem gersit núna. Málvenja Íslendinga, ef má mark það eftir Íslensk orðabók, er þanig að guðfræðingur verður að vera með embætisprófi.
  Hins vegar er málvenja (?) eða málnotkun fólks er öðruvísi og MA eða Dr innifelast í guðfræðing.

  Tillagan mín er sú að á sama hátt stækka hugtak um “guðfræðing” til BA gráðu-fólks líka.

  Árni:”Hvaða efnislegu rök hníga að því að víkka út þennan titil þannig að hann nái líka yfir þá sem hafa lokið grunnnámi?”

  Mig langar að spyrja í öfugt. Hver eru rökin af því að við megum ekki kalla BA fólk “guðfræðing”? Er BA í háskóla svo ómetanleg gráða?

 6. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Ég held að BA-gráða í guðfræði sé góðra gjalda verð. Í ljósi þess að þú leggur til breytinguna þá vil ég heyra hver rökin eru.

 7. Toshiki Toma skrifar:

  Sæll aftur, Árni Svanur.

  Ég held að ég var búinn að sýna fram rökin mín, en þau eru til að efla samskipti meðal “guðfræðinga” og skapa meira og mismunandi tækifæri fyrir umræðu.
  Þessi breyting varðar fyrst og femst hugsjón manna og viðurkennningu um fólk sem er með guðfræðimenntun, femur en réttindi eða önnur hagsmunaatriði.

 8. Toshiki Toma skrifar:

  Kæra Sigga,

  “Ég tel að það myndi veikja embættispróf presta ef þetta væri gert”

  Hver er ástæða þess að þú heldur það? Hjálpaðu mér að skilja þetta atriði betur.

 9. Jóhanna Magnúsdóttir skrifar:

  Ágæta fólk, þegar ég var í mínu guðfræðinámi (sem lauk í febrúar 2003) var það þannig að BA nám í guðfræði var 3 ár, en nám til embættisprófs 5 ár.

  Erfiðustu fögin að mínu mati voru tungumálin; grískan, hebreskan og ritskýring. Það var stór hluti námsins sem skildi að BA nám og nám til embættisprófs. Á þeim tíma var það ekki þannig að maður kláraði 3 ár til BA prófs og hélt svo áfram, heldur var þetta allt samtvinnað og lokaritgerðin ekki fyrr en á lokaári.

  Fyrir mér var þetta nám “blóð, sviti og tár” .. mér fannst það býsna erfitt. Nokkrum árum eftir guðfræðigráðuna fór ég í kennsluréttindanám, sem mér fannst mjög létt - svona miðað við t.d. grískuna og ritskýringuna. Auðvitað eru létt fög í guðfræði, og auðvitað er misjafnt hvað okkur þykir erfitt.

  En s.s. þegar ég hafði lokið við mín fimm ár fékk ég útskrift sem Cand. theol eða guðfræðingur. Þessu fylgdi líka starfsþjálfun úti á landi og í Reykjavík, auk embættisgengis.

  Þegar út á vinnumarkaðinn kom gekk ég á ýmsa veggi hvað störf varðaði, m.a. innan kirkjunnar og þótti mér þá ástæða til að fara að framkvæma þá hugmynd sem ýmsir höfðu áður átt, um stofnun félags guðfræðinga. Einnig hringdi ágætis vinkona mín í mig, sem er orðin prestur í dag og sagði mér frá “framhjáhlaupi” í embættisveitingu presta og fannst þessi stofnun tímabær.

  Undirbúningsnefnd var kölluð til, og var fyrsti fundur í borðstofunni heima hjá mér. Félagið var ætlað sem hagsmunafélag fyrir guðfræðinga fyrst og fremst, og vissulega til að efla guðfræðilega umræðu, vera þrýstingsaðili fyrir kirkjuna (yfirstjórn hennar og ráðandi aðila) um að fara eftir lögum og reglum. Félagið hélt ýmis málþing um stöðu guðfræðingsins, bæði örþing og stærri þing. M.a. í Neskirkju þar sem rætt var um hvernig staðið væri að vígslu, ráðningum o.fl.
  Sjá hér:
  Guðfræðingurinn, vígslan og þjónusta kirkjunnar.

  http://www.kirkjan.is/dagbok/atburdur/840

  Við reyndum að efla félagsandann með uppákomum, - leigðum efri hæðina á Sólon, þar mætti stjórnin ásamt örfáum félagsmönnum svo að þar var augljóslega ekki þörfin á þeim tíma.

  Félaginu bárust ýmis erindi frá guðfræðingum, á sínum tíma, t.d. þegar þeim þótti á sér brotið við ráðningar og þá beitti félagið sér með ýmsum hætti.

  Félagið var því stofnað utan um hefðbundna og þrengri skilgreiningu guðfræðings.

  Við getum alveg kastað fram yfirlýsingum eins og “við erum öll guðfræðingar” sem við vissulega erum, en þarna er átt við titil sem fólk hefur unnið sér inn fyrir með ákveðnum forsendum.

  Það er líka hægt að segja að við séum öll prestar, og það sagði Lúter líka. En samt megum við ekki skrá okkur sem slík í símaskránni - og auðvitað verðum við að eiga inni fyrir því.

  Á bak við heiti eins og lögfræðingur, sagnfræðingur, jarðfræðingur o.s.frv. liggur ákveðið nám. Ef það á að breyta forsendum fyrir heitinu þá hlýtur það að þurfa að koma frá þeim sem skipuleggur námið og vísa ég þessu því heim til guðfræðideildar. Hvernig skilgreinir hún guðfræðingur?

  Varðandi félagið; þá kom fram góð tillaga frá Nínu Leósdóttur, guðfræðingi, um að búa til “Félag um guðfræði og trúarbragðafræði.”

  Það gæti verið svona regnhlífarfélag í raun, fyrir alla guðfræði-og trúarbragðafræðimenntaða.

  Að sama skapi mætti alveg blása lífi í hið gamla Félag guðfræðinga, sem hefur legið í dvala í einvhern X tíma, en sjálf er ég frekar ósammála því að víkka út starfssvið þess og eiginlega bylta áherslum.

  Það veitir ekkert af rödd hins almenna guðfræðings (hins óvígða prests) en margir þeirra bíða spenntir á hliðarlínunni - heyra köllun sína en fá ekki brauð. Rödd guðfræðingsins sem fær ekki greitt frá kirkjunni og hefur því frelsi til að gagnrýna störf kirkjustjórnar án þess að vera að gagnrýna vinnuveitanda sinn.

 10. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Ég held að ég var búinn að sýna fram rökin mín, en þau eru til að efla samskipti meðal “guðfræðinga” og skapa meira og mismunandi tækifæri fyrir umræðu.

  Er orðið sjálft lykilatriði í þessu sambandi? Gætum við ekki allt eins talað um mikilvægi þess að efla samskipti meðal fólks með guðfræðimenntun og skapa fleiri tækifæri fyrir guðfræðilega umræðu?

 11. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Félagið var því stofnað utan um hefðbundna og þrengri skilgreiningu guðfræðings.

  Ég tók líka þátt í samtalinu í kringum stofnun þessa félags Jóhanna. Það er alveg rétt að það var ákveðinn hópur sem hafði fyrst og fremst áhuga á að ræða embætti og vígslur, en það gilti ekki um alla sem komu að þessu samtali.

  Ég taldi þá og tel enn að félag sem heitir Félag guðfræðinga eigi að beita sér fyrir mun víðara samtali og er sammála þeim sem vilja sjá félagið beita sér fyrir samtali um guðfræði og samfélag. En ég á enn eftir að sjá rökin fyrir útvíkkun á hugtakinu guðfræðingur.

 12. Jóhanna Magnúsdóttir skrifar:

  Reyndar er þetta ekki alveg rétt hjá mér, þó að megináherslan hafi á sínum tíma verið á hagsmuna-og réttindamál guðfræðinga, var að sjálfsögðu áhugi fyrir að stuðla að umræðu um guðfræði í samfélaginu.

  “2. gr.
  Markmið félagsins er að efla guðfræði sem sjálfstæða fræðigrein í íslensku samfélagi og auka áhrif hennar í þjóðfélagsumræðu. Félaginu ber að standa vörð um hagsmuni og réttindi guðfræðinga og beita sér fyrir nýjum og auknum tækifærum þeirra til starfa innan samfélagsins með samstarfi við guðfræðideild Háskóla Íslands, kirkju og stjórnvöld. Félagið komi á tengslum og samvinnu við félög guðfræðinga erlendis.”

 13. Guðbjörg Snót Jónsdóttir skrifar:

  Þakka þér fyrir þessa grein með réttmætum athugasemdum. Ég sjálf er BA í guðfræði og leyfi mér að kalla mig guðfræðing, og enginn hefur hingað til gert neina athugasemd við það, og látið það óátalið. Ég spyr líka, hvers vegna við BA-fólkið megum ekki kalla okkur guðfræðingar. Við erum þó menntuð í greininni, þótt við séum ekki kandidatar. Mér finnst líka lítið réttlæti í því, að aðeins kandidatar einir megi kalla sig guðfræðinga,ekki síst eftir þær breytingar, sem hafa orðið á náminu, eftir að ég fór úr deildinni. Það verður að gera breytingar hér á og leyfa öllum þeim, sem eru útskrifaðir úr deildinni úr BA-námi að kalla sig guðfræðinga líka, ekki aðeins þeim, sem eru útskrifaðir úr prestsnámi. Annað gengur ekki.

 14. Theodóra Gunnarsdóttir skrifar:

  Ég held að í flestum greinum eru gerðar kröfur um að viðkomandi klári master til að geta verið titlaður sem “fræðingur”.

  Það ætti að vera kostur fyrir þá sem fara í guðfræði og ætla sér ekki endilega að þjóna kirkjunni að fara í master sem er byggt meira á akademískum grundvelli(slikt nám ætti að vera í boði annaðhvort hér heima eða erlendis).

 15. Sigríður Guðmarsdóttir skrifar:

  Sæll Toshiki,
  Ég vísa aftur á samanburð minn við stétt lögfræðinga, þar sem námið er byggt upp á svipaðan hátt og okkar og framhaldsnámi lýkur með mag. teol gráðu annars vegar og mag.jur gráðu hins vegar. Þessar gráður gefa réttindi til embættisgengis lögfræðinga og presta. Þú hefur ekki svarað því Toshiki, hvort þú teljir það brot á akademísku frelsi að einungis fólk með mag.jur. gráðu megi kalla sig lögfræðinga. Gráðurnar okkar og lögvarin starfs og menntunarheiti eiga sér sögu sem sjálfsagt er að íhuga vel áður en þeim er breytt.

  Það standa ýmis spjót á embættisprófi presta nú um stundir og ýmsir telja að menntun presta og djákna eigi ekki heima í ríkisháskóla, heldur eigi Þjóðkirkjan að taka þann hluta námsins yfir sjálf. Ein af röksemdunum fyrir því að mag.teol. námið eigi áfram að vera í Háskóla Íslands er að þetta er nám sem er sambærilegt við embættispróf lækna og lögfræðinga. Ég hygg að hringl með hugtök geti gefið slíkri umræðu byr undir báða vængi. Það er af þeirri ástæðu sem ég talaði um að það að færa guðfræðingstitilinn niður á BA stigið myndi veikja embættisprófið við erfiðar aðstæður.

  Ég vil líka benda á að ef fólk með BA gráðu mætti kalla sig guðfræðinga (sem þeim er ekki heimilt því að það hefur hvorki lokið mag.theol. né cand.theol. námi), hvað þá um djákna? Hvar ætti að setja mörkin á guðfræðingsstimplinum? Mætti fólk sem lyki diplómu í guðfræði kalla sig guðfræðinga? En Endurmenntun HÍ? Ef rökum þínum Toshiki væri fylgt, myndi það ekki vera skerðing á akdademísku frelsi ef þessir hópar fengju ekki að kalla sig guðfræðinga?

  Ég tel því að hér þurfi að stíga varlega til jarðar.
  Kveðja, Sigríður

 16. Sigurvin Jónsson skrifar:

  Kærar þakkir Toshiki fyrir frábæra grein.

  Ég hef talað fyrir því með lagabreytingartillögu að Félag guðfræðinga verði útvíkkað á þann hátt að það sé opið öllum sem lokið hafa háskólamenntun með guðfræði og/eða trúarbragðafræði sem aðalgrein.

  Minn skilningur, gegn ríkjandi málvenju guðfræðinga, er sá að það að einskorða hugtakið guðfræðingur við þá sem að lokið hafa cand. theol. eða mag. theol. námi sé ekki réttlætanlegt. Nóg er af orðum til að aðgreina þá sem að hafa lokið slíku námi, sbr. kandídat í guðfræði, embættispróf og embættisgengi, þó að hið almenna heiti sé ekki frátekið fyrir þau sem lokið hafa slíkri gráðu.

  Guðfræði er í eðli sínu ekki játningarbundið fag þó að í háskólasamfélögum séu kennd fög sem að eru játningarbundin. Guðfræði er fyrst og fremst akademísk fræðigrein sem nýtir sér aðferðafræði annara hugvísinda, félagsvísinda og raunvísinda til að skoða hinn kristna átrúnað. Slík guðfræðiiðkun krefst þess að guðfræðingurinn láti ekki trúarskoðanir (eða skort á þeim) stýra þeim niðurstöðum sem hann kemst að við rannsóknir sínar.

  Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands kennir og iðkar slíka guðfræði enda eru þar bæði nemendur og kennarar sem ekki játast evengelísk-lútherskum sið. Guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ kennir einnig fög sem að eru strangt til tekið ekki akademísk, sbr. helgisiðafræði, en slík fög eru víða erlendis kennd í prestaskólum á háskólastigi og eru ekki talin eiga heima í almennum háskólum.

  Íslenska Þjóðkirkjan setur þjónum sínum þröngar skorður og krefst þess að þau sem hafa embættisgengi, megi þjóna sem prestar, hafi 5 ára háskólamenntun í guðfræði frá Háskóla Íslands eða sambærilegum háskóla sem kennir guðfræði á evangelískum grunni. Þess utan krefst hún starfsmenntunar í kirkjunni og gerir kröfu um sálfræðimat. Þessar kröfur kirkjunnar eru eðlilegar og þarfar enda prestum kirkjunnar veitt mikil ábyrgð. Þær eiga þó ekki að stýra því hvernig að hugtakið guðfræðingur er notað.

  Það er skoðun mín að það sé ekki réttlætanlegt að neita manneskju, sem að lokið hefur guðfræðimenntun á háskólastigi frá erlendum háskóla sem að kennir játningabundna guðfræði ólíka þeirri sem að Þjóðkirkjan játar, um að kallast guðfræðingur. Þannig tel ég að jafnt megi tala um sr. Patrick Breen sóknarprest Kristskirkjunnar á Landakoti og Hafliða Kristinsson fyrrverandi forstöðumann Fíledelfíusafnaðar sem guðfræðinga.

  Guðfræðingur er ekki lögverndað starfsheiti og engin rök hníga að því að slík lögverndun eigi sér stað. Þau fræðaheiti sem að eru lögvernduð eru yfirleitt notuð í merkingu starfsstéttar, sbr. sálfræðingur sem vísar til þeirra sem að hafa réttindi til að veita sálfræðimeðferð, en ekkert slíkt starfsheiti liggur að baki hugtakinu guðfræðingur. Prestur er lögverndað heiti á starfsstétt.

  Tillaga mín að opnun Félags guðfræðinga byggir á þeirri sannfæringu að félag sem ber slíkt heiti eigi að vera breiðfylking guðfræðimenntaðs fólks en ekki hagsmunafélag þeirra sem þrá prestsvígslu innan Þjóðkirkjunnar. Til þess er Prestafélag Íslands en í lögum þeirra segir ,, Tilgangur félagsins er að vera málsvari íslenskra presta og guðfræðinga og gæta hagsmuna þeirra í öllu því er varðar störf þeirra og embætti, réttindi og skyldur.”

  Félag guðfræðinga sem stendur opið öllum þeim sem hafa háskólamenntun á sviði guðfræði og/eða trúarbragðafræði getur orðið vettvangur þar sem að sú fræðagrein sem að sameinar okkur verður hafin til vegs og virðingar. Það er að mínu áliti besta leiðin til að standa vörð um stöðu guðfræðinga í samtímanum.

  Sigurvin Jónsson guðfræðingur.

 17. Árni Svanur skrifar:

  Minn skilningur, gegn ríkjandi málvenju guðfræðinga, er sá að það að einskorða hugtakið guðfræðingur við þá sem að lokið hafa cand. theol. eða mag. theol. námi sé ekki réttlætanlegt.

  Ég leyfi mér að efast um að þetta sé ríkjandi málvenja og ítreka það sem ég sagði hér að framan um að hugtakið guðfræðingur megi allt eins nota um þá sem hafa lokið hvers konar framhaldsnámi í guðfræði þótt við notum það ekki um þá sem hafa lokið BA-prófi eða diplómu.

  Félag guðfræðinga sem stendur opið öllum þeim sem hafa háskólamenntun á sviði guðfræði og/eða trúarbragðafræði

  Trúarbragðafræði og guðfræði eru ekki sama fræðigrein. Ég sé ekki hvernig er hægt að kalla félag sem er hugsað fyrir þessar tvær fræðigreinar Félag guðfræðinga. Það hlýtur að þurfa að kalla það Félag guðfræðinga og trúarbragðafræðinga.

 18. Toshiki Toma skrifar:

  Kæra Sigga,

  Þakka þér fyrir mjög fróðlega athugasemd þína. Gott að skilja betur hvað er það sem þú hefur í huga. Þetta hjálpar mér að gera það skýrara sem ég vil gagnrýna.

  Ég mun skrifa aftur til að sýna fram áframhaldandi skoðun mína en gefðu mér aðeins lengri tíma. Ég get ekki tjáð mig almennilega á íslensku innan skmmara tíma.

 19. Sigurvin Jónsson skrifar:

  Takk Árni Svanur fyrir þín viðbrögð.

  Ég tók fram að það sé málvenja meðal guðfræðinga, ég held að almennt í hugum fólks sé hugtakið guðfræðingur jafn loðið og önnur sambærileg heiti. Viðskiptafræðingur merkir t.d. í dag að viðkomandi hafi háskólamenntun með viðskiptafræði sem aðalgrein (minnst 120 ECTS) en merkti áður cand. oecon. próf þar sem það eitt var í boði við HÍ.

  Guðfræði og trúarbragðafræði eru í eðli sínu mun skyldari fræðigreinar en t.d. viðskiptafræði og hagfræði en þær eru saman með félag: Félag viðskipta- og hagfræðinga. Segja má að guðfræði sé undirgrein trúarbragðafræði og um sama viðfangsefni sé að ræða með sömu greiningartækjum þó að umfangið sé víðara í almennri trúarbragðafræði.

  Tillaga mín til breytinga á lögum Félags guðfræðinga gerir ráð fyrir því að nafni félagsins verði breytt í Félag guðfræðinga og trúarbragðafræðinga. Hægt er að kynna sér lagabreytingartillöguna á http://felag.gudfraedi.is/.

  Miðað við núverandi skilgreiningu er t.d. Magnús Þorkell Bernharðsson ekki gjaldgengur í félagið en hann er einn merkasti fræðimaður á sviði trúarbragða sem að við Íslendingar höfum átt.

 20. Auður Inga Einarsdóttir skrifar:

  Heil og sæl.
  Ég vil benda á að þeir sem lokið hafa BA í sálfræði geta ekki kallað sig sálfræðinga.

 21. Sigríður Guðmarsdóttir skrifar:

  Góðan dag,
  Guðfræði er ekki undirgrein trúarbragðafræði, né heldur trúarbragðafræði undirgrein guðfræðinnar. Yfirleitt er ólíkri aðferðafræði beitt við þessar tvær greinar og þær eru mjög ólíkar að aldri, hefð og gerð. Mér þykir fyrir því að Sigurvin skuli nafngreina einstaklinga og diskútera hæfi þeirra hér á opnum vef Þjóðkirkjunnar. Sýnum aðgát og ræðum prinsípp en ekki persónur.
  Kveðja, Sigríður

 22. Sigurvin Jónsson skrifar:

  Sigríður.

  Sambærileg þróun er að eiga sér stað í samfélagi lögfræðinga. Hugtakið lögmaður er lögverndað starfsheiti þeirra sem hafa cand. jur. gráðu ásamt héraðsdómsréttindum Hdl. Í lögum félags lögfræðinga segir: ,,Nýir félagar velkomnir. Lögfræðingar sem lokið hafa grunnnámi í lögfræði (90 einingum) frá viðurkenndum háskóla geta gengið í Lögfræðingafélag Íslands.” http://www.logfraedingafelag.is

  Lagabreytingartillaga mín að breytingum á lögum Félags guðfræðinga er ekki ætlað að breyta skilgreiningum á hugtakinu guðfræðingur. Enda eru engar lögformlegar skilgreiningar á hugtakinu aðeins málvenja guðfræðinga og presta. Það sem vakir fyrir mér er að opna félagið öllum þeim sem hafa menntun á þessu sviði. Sú þróun verður að mínu mati ekki til þess að gengisfella guðfræðimenntun heldur til að styrkja hana. Með því að halda fram hinni akademísku arfleifð og aftengja félagið umræðu um vígslur og embættisveitingar getur það orðið vettvangur til að fjalla um guðfræði og trúarbrögð á trúverðugan hátt.

  Ég vona að ég hafi ekki móðgað þá einstaklinga sem ég nefni á þessum vef með ummælum mínum og líklega hefði verið rétt að leita leyfis áður en þeir eru nefndir. Ég er aðeins að ræða hugtakanotkun í tengslum við þeirra menntun og störf en ekki þeirra persónu.

 23. Jóhanna Magnúsdóttir skrifar:

  Þegar ég skrifaði um aðdraganda að stofnun félags guðfræðinga, vildi ég nú aðallega rekja hvers vegna það var stofnað, eða réttara sagt hvaða eldmóður var þar í gangi. Allir sem komu þar að, og voru það bæði prestar og guðfræðingar (allir prestar að vísu guðfræðingar) voru sammála um að prestafélagið hefði ekki tíma aflögu til að sinna þessum málefnum guðfræðinga sem þá brunnu á þeim. Það var ekki einungis að fá vígslu, heldur að vekja athygli á hæfni guðfræðinga til annarra starfa. Einnig var tekinn herferð í að kynna þá sem prédikunaraðila fyrir fyrirtæki of félög og að þeir fengju jú einstaka sinnum greitt fyrir störf sín, en ekki litið á að starfskraftar þeirra væru eitthvað sem þeir ættu alltaf að gefa þjóðfélaginu.

  Prestar fá s.s. greitt fyrir sínar prédiknanir, en guðfræðingur (sem er ekki með vígslu) yfirleitt ekki.

  Síðan var, eins og ég tók fram hér að ofan, tilgangur að vekja athygli á siðlausum/ólögmætum embættisveitingum og vera þannig aðhald fyrir yfirstjórn kirkjunnar sem ítrekað klikkaði á eigin reglugerðum. Prestafélagið hafði ekki verið, að því virtist, verið ötult við að sinna því.

  Þörfin var svo sannarlega til staðar, á sínum tíma, fyrir hagsmunafélag guðfræðinga, þrátt fyrir tilveru Prestafélagsins, sem hafði í nógu að snúast að skoða kaup, kjör og aðbúnað prestanna.

  Það er því ekki hægt að benda á Prestafélagið og segja guðfræðingum að leita réttar síns þangað, þrátt fyrir að það komi fram í tilgangsyfirlýsingu þess:

  ,, Tilgangur félagsins er að vera málsvari íslenskra presta og guðfræðinga og gæta hagsmuna þeirra í öllu því er varðar störf þeirra og embætti, réttindi og skyldur.”

  Það er mér persónulega að meinalausu að fólk kalli sig guðfræðing með BA próf í guðfræði, og ég fagna því, með stóri F-i að líf er komið í samfélag guðfræðimenntaðs fólks.

  Spurningin er hvort að í dag sé þörf á hagsmunafélagi guðfræðinga (að hefðbundnum skilningi) eða ekki? .. Það eru ekki alveg sömu hagsmunir sem liggja að baki hjá guðfræðingi og guðfræðingi, vegna þess m.a. að námið er ekki hið sama og fólk kannski ekki að stefna að því sama.

  Ég held að enginn geti amast við þvi að félag sé stofnað sem heiti Félag guðfræðinga - og trúarbragðafræðinga, en spurning hvort að eigi að yfirtaka hið “gamla” sofandi Félag guðfræðinga, þegar forsendur fyrir þeirri stofnun eru í raun mjög ólíkar.

  Ég veit að margt fólk kom að umræðunni, en þeir sem settust niður í upphafi, komu að lagagerð og unnu undirbúningsvinnuna voru með hagsmunafélag í huga, - að sjálfsögðu með áðurnefndri útvíkkun um umræðu við samfélagið.

  Mín tillaga er að láta Félag guðfræðinga hvíla í friði, en stofna nýtt Félag fagfólks í guðfræði-og trúarbragðafræði, eða eitthvað álíka.

  Erum við komin út í eintölu á trúarbragðafræði? Trúarbragðsfræðingur? :D

  Knús og góða helgi..

  Jóhanna

 24. Sigríður Guðmarsdóttir skrifar:

  Sæl þið sem lesið,
  Lögfræðingarnir já. Fólk með BA gráðu hefur aðgang að Lögfræðingafélaginu en það kemur hvergi fram í lögum félagsins að fólk sem einungis hafi lokið grunnnámi megi kalla sig lögfræðinga. Reyndar er orðið notað í þessari merkingu á upphafssíðu heimasíðu félagsins, en hvergi í lögunum.

  Margir lögfræðingar eru verulega ósáttir við það að fólk með BA gráðu í lögum kalli sig lögfræðinga og bera þar við almannahagsmunum. Almannahagsmunir standa til þess að fólk fái faglega þjónustu þar til bærra aðila. Dæmi eru um að fólk með BA gráðu hafi jafnvel opnað stofur til lögfræðilegrar ráðgjafar. Þá getur sú hætta skapast að almenningur telji sig vera að fá ákveðinn standard á ráðgjöf í samræmi við hinn gamla skilning orðsins lögfræðingur. Þetta mál er alls ekki útkljáð meðal lögfræðistéttarinnar og við myndum gera vel í því að hlusta á þeirra varnaðarorð. Eins hefur verið spurt hvort Lögfræðingafélagið, sem er áhugafélag geti tekið ákvörðun um þetta.

  Sálfræðingar verða að hafa lokið meistaragráðu til að þeir megi kalla sig þessu nafni. Þar koma til almannahagsmunir. Eins má færa fyrir því rök að almenningur geti leitað til guðfræðings með vandamál sín og ætlast til þess að fá þá faglegu þjónustu sem tilheyrir embættisprófinu, s.s. starfsmenntun og sálgæsluþjálfun. Enginn getur bannað guðfræðingi að opna stofu og taka á móti fólki til sálgæslu þótt hann sé ekki vígður. Sigurvin nefnir strangar kröfur kirkjunnar til þeirra sem starfa á vettvangi hennar. Þetta eru ekki einungis kröfur kirkjunnar, heldur kröfur Guðfræðideildar HÍ um fagmennsku, en sú deild annast starfsmenntun presta. Standa ekki almannahagsmunir til þess að starfsheiti séu sem skýrust og gagnsæjust til þess að almenningur fái faglega þjónustu án þess að kunna skil á mismunandi diplómum og gráðum í háskóla?

  Ég tel því að mikilvægt sé að stærsta félag guðfræðinga á Íslands, Prestafélag Íslands, taki þetta mál föstum tökum, t.d. með viðræðum við fagfélög hinna gömlu skólana sem mynduðu hryggjarstykkið í Háskóla Íslands 1911, sumsé við Lögfræðingafélag Íslands og Læknafélag Íslands. Ég tel einnig að Guðfræðideild Háskóla Íslands eigi að vinna að því að hugtakið guðfræðingur verði lögverndað starfsheiti, enda sé það í anda almannahagsmuna.

  Það er hins vegar sjálfsagt mál að stofna félag um guðfræði og trúarbragðafræði, en það félag ætti ekki að kallast félag Guðfræðinga.

  Með kveðju, Sigríður

 25. Guðbjörg Snót Jónsdóttir skrifar:

  Ég er bæði sammála Toshiki og Jóhönnu, en Sigríði vil ég segja þetta: Þegar ég segi fólki, sem spyr mig, hvaða menntun ég hef, að ég sé BA í guðfræði, þá hváir það og spyr, hvað í ósköpunum það sé. Það geti enginn verið BA í guðfræði; annaðhvort hljóti ég að vera guðfræðingur eða ekki. Að reyna að útskýra, hvað í því felst að vera BA í guðfræði fyrir fólki, og ég tala nú ekki um útlendingum, sem botna alls ekkert í því, hvað verið er að tala um í því sambandi, hefur reynst mér þrautin þyngri, og það svo, að ég hef hreinlega gefist upp á því að reyna það, og finnst það auðveldast að kalla mig guðfræðing til þess að komast hjá misskilningi. Ég er líka sammála því fólki, sem segir, að þeir sem eru guðfræðimenntaðir eru annaðhvort guðfræðingar eða ekki, og ekki hægt að fara í kringum það með öðrum titlum. Það er líka erfitt að ætla, að ´guðfræðingur´ eigi að vera einhver monttitill kandídatanna, og aðrir þeir, sem guðfræðimenntaðir eru, megi ekki nota það heiti, ekki síst ef þeir hafa hluta embættisprófs, eins og sum okkar BA-fólks hafa. Íslenskufræðingar eru kallaðir það strax eftir BA-próf, sagnfræðingar sömuleiðis sagnfræðingar eftir BA-próf. Ég sé ekki rökin fyrir því, að við BA-fólkið megum þá ekki kalla okkur guðfræðinga, líka til að einfalda málið fyrir þeim, sem skilja ekki, hvernig nokkur maður getur verið BA í guðfræði. Annars sagt Þórir Kr. Þórðarson heitinn alltaf, að þetta BA-próf væri mesta vandræðamál. Mér sýnist það ætla að verða það eftir þessu að dæma.

 26. Toshiki Toma skrifar:

  Kæra fólk, þakka ykkur fyrir mjög virk viðbrögð við erindi sem ég lagði til upphafslega. Mjög fróðlegt að hlusta á ykkur.
  Hins vegar er umræðan farin langt í burtu frá atriði sem ég var að velta fyrir mér og því kaus ég að gera neina frekari athugasemd. En umræaða er lifandi og ég fagna því að hún byrjaði að fara á sína leið.

  Mig langar að gera það skýrt einu sinni enn að ég hafði í mínum huga í byrjun. Það er fyrst og fremst hvaða hugtak orðið “guðfræðingur” á að bera með sér í dag almennt. Hver eru skilyrði fyrir mann til að kallast guðfræðing? Mér finnst þetta eiga skilið að hugsa betur og ræða. Ég tel BA nám dugi fyrir heiti guðfræðingur, en margir virðast vera ósammála. Þá hvað vantar þar? Enginn er búinn að benda á þá skort ennþá. Ég er til í að samþykkja ef BA mennataður maður þarf að læra eitt eða tvö ár í viðbót yfir BA menntun sína.

  En ég get ekki verið sammála því að þessi viðbótarnám er sama og embættisprófsnám. Ástæðu þess var ég búinn að segja í erindinu mínu.
  Þegar orðið “theologian” er þýtt á íslensku sem “guðfræðingur”, er þessi þýðing rétt? Að hluta “já, en að hluta “nei”, þar sem enskt orð “theologian” krefst ekki embættisprófs.
  Mér finnst þessi tvennt (cand.theol. og guðfræðingur) skulu vera aðskilin skýrt. Að sjálfsögðu er cand.theol. guðfræðingur, en guðfræðingur þarf ekki endilega að vera cnad.theol.

  Sem sé, tel ég hugtak um guðfræðingur almennt má vera slakt og viðtækt. þannig getur umræða eða skoðunarskipti meðal guðfræðinga (eða guðfræðimennataðra manna) verið fjölbreyttari og skemmtilegri.

  Ég á alls ekki við eins og menntun guðfræðings með embættispróf er sama og BA menntaðs manns, eða maður getur vígður aðeins með BA prófi. Það er allt annað mál. Einnig er umræða, sem varðar réttindi manns til nokkurs félags, ekki innan ramma hugmyndar minnar að sinni.

 27. Þórður Guðmundsson skrifar:

  Sæl og blessuð.

  Ég er með kandídatspróf í guðfræði og lauk því fyrir einhverjum árum síðan. Það er erfitt að ljúka prófi í guðfræði og ég t.d. valdi mér ekki auðveldan kost sem var að læra grískuna ansi vel. Ef ég hefði einungis tekið BA prófið þá hefði ég getað sleppt þeim ósköpum enda það erfiðasta við námið að læra grískuna.

  Það kostar milljónir að fara í gegnum háskóla og læra þetta fag, en fyrir vikið koma ákveðin laun sem er þessi menntun með þeim réttindum sem fylgja. Úr því má ekki lítið gera og af þeim sökum er manni alls ekki á sama um þessa menntun.

  Það að hægt sé ljúka BA prófi án þess að taka grísku (sem er erfitt fallfag) og vart hebresku heldur, er gegn því að maður geti kallað sig guðfræðing og það til jafns á við aðra sem lokið hafa meira námi í faginu. Ég sat t.a.m. sjálfur heilan vetur vikulega inná skrifstofu kennara og þýddi m.a. öll Ignatíusarbréfin úr grísku, tvo tíma í senn án hlés.

  Það er mín skoðun að þeir sem taka hvort heldur er diplómu eða BA-próf verði ekki guðfræðingar fyrr en þeir hafa lokið framhaldsnámi sem þarf ekki endilega að vera embættispróf, heldur bara meira nám í guðfræði.

  Er til of mikils mælst að gera kröfu til þess að maður verði að vera ákveðið mikið menntaður til þess að geta haft nafnbótina guðfræðingur? Ég er ekki að vísa í neinn hroka heldur vil ég hafa ákveðinn status sem í raun fellur ef fólk með BA gráðu getur sagst vera guðfræðingar en þá um leið yrði hugtakið guðfræðingur að fræðimannastétt með mun minna innihaldi en ætti að vera þar sem statusinn færist niður.

  Það að ná því stigi að geta orðið guðfræðingur á ekki að vera auðvelt mál heldur erfitt, og auðvelt próf til þess að geta kallast guðfræðingur er ekki áhugavert að mínu mati. Það að ná heitinu guðfræðingur á að þýða mikið, erfitt og innihaldsríkt nám; að lágmarki fimm ár að læra.

  Með kveðju,

  Þórður Guðmundsson

 28. Guðrún Áslaug Einarsdóttir skrifar:

  Umræðan um hver sé guðfræðingur finnst mér bæði áhugaverð en um leið dapurleg. Mér finnst hún áhugaverð að því leyti að hún minnir mig á hversu mismunandi við manneskjurnar hugsum og horfum á tilveruna. Mér finnst hún dapurleg að því leyti að ég tel hana hugsanlega geta grafið undan tiltrú fólks og virðingu fyrir okkur sem guðfræðingum. Í mínum huga er guðfræðingur starfsheiti. Það gefur til kynna eitthvað ákveðið sem nafnið stendur fyrir, ákveðna menntun, ákveðna færni. Fólk í samfélaginu hefur rétt á að þessi skilgreining sé skýr. Að fólk viti til hvers sé hægt að ætlast af guðfræðingi, hvers konar þjónustu guðfræðingur veitir. Ég tilheyri þeim hópi guðfræðinga sem hingað til hafa ekki sóst eftir vígslu sem prestur. Ég tek eftir því á vinnumarkaðnum að heitið guðfræðingur nýtur virðingar og væntingarnar sem eru gerðar eru svipaðar og gerðar eru til presta. Bent hefur verið á að nú á tíma þar sem atvinnuleysi guðfræðinga er staðreynd ætti að vera enn mikilvægara að halda fast í hefðbundnar skilgreiningar svo sú menntun sem fólk hefur aflað sér missi ekki gildi sitt. Ég styð skilgreiningu Prestafélag Íslands og Félags guðfræðinga á því hver sé guðfræðingur., Það á ekki að þurfa að halda neinum frá því að taka virkan þátt í guðfræðilegri umræðu né að vera niðurlægjandi á einn eða neinn hátt. Mér fyndist það frekar bera vott um fagmennsku og virðingu fyrir sjálfum okkur og fólkinu í landinu að skilgreiningarnar á því hver sé guðfræðingur séu skýrar og gegnsæjar.

  Með kveðju

  Guðrún Áslaug Einarsdóttir

 29. Toshiki Toma skrifar:

  Þakka fólki fyrir innsendingarnar og umræðuna.
  Mér sýnist það séu mismunandi áherslur á málið, en aðal atríði er kannski tvö.
  1. Hvað er nægileg og nauðsynleg menntun fyrir fólk til þess að vera “guðfræðingur”? (Og hvort embættispróf skuli vera tengt við heiti guðfræðings?)
  2. Hvaða jákvæð/neikvæð áhrif breyting á skilgreingi um “guðfræðing” munu færast fyrir fólk sem á hluta að málinu um guðfræði?

  Ég vona að umræða þess verði haldin áfram á almennilegan umræðuhátt á næstunni.

  Bestu kveðjur

 30. Arnaldur Máni Finnsson skrifar:

  Heil og sæl, hér berast kveðjur frá Orðinu, riti félags guðfræðinema og ritstjóra þess.

  Ástæða tilskrifs á þessum vettvangi er sú að vekja þarf athygli á nauðsyn guðfræðilegrar umræðu um ýmis mál - meðal annars þess sem fram hefur komið hér að ofan. Umræðuhefð innan samfélags guðfræðinga og presta er að mörgu leyti ábótavant, eins og íslenskri umræðuhefð annars almennt. Hér er sem fari kettir um heitan graut, þ.e. mögulega opnun á félagi guðfræðinga - og þó. Vissulega fjallar Sigurvin um þá tillögu sína. Það sem hér er því um að ræða er a) hvort félag guðfræði-og trúarbragðafræðinga eigi að vera stofnað á grunni hins eldra félags og hvaða menntun þurfi til þess að hafa aðgang að því. Og b) hvort að þeir sem í því félagi eru hafi rétt til að kalla sig guðfræðinga í ljósi þeirrar félagsaðildar, þrátt fyrir að hafa aðeins lokið BA-námi í guðfræði.
  Sjálfur hef ég skoðanir á þessu máli - og harma “svefndrunga” félags guðfræðinga. En þær eru ekki aðalatriði hér heldur það að heilnæm umræða eigi sér stað um þessi mál og vil ég bjóða þeim sem hafa áhuga á að birta efni þar sem tekið er á þessum málum - nú eða umræðuhefðinni - í Orðinu. Næsta rit á að koma út með haustinu og efni um þessi mál á þangað erindi. Ég vil benda á að þó þar sé um Rit félags guðfræðinema að ræða - er þó um málgagn Fisksins, félags guðfræði-og trúarbragðafræðinema að ræða - og í það skrifa ólærðir og leikir, guðfræðinemar, heimspekingar, prófessorar - prestar, biskupar - guðfræðingar, sagnfræðingar og trúarbragðafræðingar til þess fyrst og síðast að “eitthvert líf” sé í umræðunni um vettvang íslenskrar guðfræðimenntunar og so videre. netfang innsendra greina er ordid@hi.is
  Einnig er hægt að gerast vinur Orðsins á facebook og ræða möguleg greinarskrif þar. Kveðja - Arnaldur Máni

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 10246.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar