Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Sigrún Óskarsdóttir

Afmælisdagur í Genf, London og Reykjavík

21. maí 2011

Sumarblóm

Klukkan hringdi og ég var smá stund að átta mig á hvar ég var stödd. Jú, ég var á hótelherbergi í Genf, klukkan var 4.30 að morgni. Eftir klukkustund kemur leigubíll og ekur mér á flugvöllinn. Tveggja daga fundur í höfuðstöðvum Lútherska heimssambandsins að baki. Ég á afmæli. Ég man ekki eftir að hafa áður vaknað alein á afmælisdeginum mínum. Þetta er sá fertugasti og fjórði. Ég raula afmælissönginn í hálfum hljóðum í sturtunni. Brosti með sjálfri mér og hugsaði að það væri næstum líkara því að ég væri fjögurra ára svo upptekin sem ég var af þessum degi sem þó bæri tölur sem gæfu ekki tilefni til sérstakrar athygli.

Búin að pakka og nú skal haldið niður í morgunverðarsal. Viðkunnalegur næturvörður hafði lofað mér kaffibolla kvöldið áður jafnvel þótt morgunverðurinn byrjaði ekki fyrr en kl. 6 að öllu jöfnu. Hann hafið gert gott betur því brauð og álegg var fram borið og ég settist alein við borð með bókina mína. Ég vandist því að ferðast ein á prestsskaparárum mínum í Noregi og kunni að njóta þess að vera ein með bók að lesa eða punkta hjá mér eitthvað sem mér datt hug. En þarna var ég afskaplega upptekin af því hvað ég var ein.

Leigubíllinn kom á mínútunni og næturvörðurinn sem áður var getið tók töskuna fyrir mig og setti í skottið. Þegar ég þakkaði honum fyrir og var að sveifla mér inn í bílinn brosti hann og sagði: „happy birthday“. Ég var svo hissa og glöð að brosið hélst langleiðina út á flugvöll. Merkilegt hvað bláókunnugum manninum tókst að gleðja mitt litla hjarta með þessum tveimur orðum og brosinu sem þeim fylgdu. Ég keypti súkkulaði í fríhöfninni, fannst það einhvernvegin tilheyra. Sviss og súkkulaði, það heyrir saman.

Það var millilent í London og ég hálfkveið fyrir þar sem Heathrow er svo risastór flugvöllur og ég þekkti mig lítið þar. Langar raðir til að komast inn í landið. Vegabréfaskoðun þar sem starfsfólkið virtist næstum vélrænt fara yfir það sem þeim bar að kanna. Fólk á ferð allastaðar að. Loksins kom að mér. Ungur maður rennir augum yfir þær upplýsingar sem um mig eru að finna í vegabréfinu. Hann réttir mér það aftur og segir eldsnöggt um leið og birti yfir augnsvipnum: „happy birthday“. Aftur varð ég innilega glöð og hissa, þakkaði fyrir mig og hélt mína leið með bros á vör.

Á leiðinni heim í flugvélinni ákvað ég að punkta þetta hjá mér og svo myndi ég skrifa lítinn pistil um þetta á tru.is í næstu viku.

Ég var varla lent þegar foreldrar mínir hringdu í tilefni dagsins og þegar heim var komið tók ég á móti kossum og hamingjuóskum frá eiginmanni og börnum. Vinkonur mínar Kolbrún Sif og Kristín Þóra voru svo mættar eins og um var samið og við hlupum út í íslenska vorið saman. Ég bauð upp á svissneskt súkkulaði á tröppunum heima þegar hring í Elliðaárdalinn var lokið.

Eiginmaðurinn grillaði og fjölskyldan sameinaðist við veislu borði. Ég fór að sofa sæl og glöð eftir viðburðaríkan afmælisdag í þremur löndum. Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég skírði um síðustu helgi litla stúlku sem fæddist 25. mars 2009. Daginn sem ókunnir menn glöddu mig og minntu um leið á hvað oft þarf lítið til að gleðja þau sem á vegi okkar verða.

Ég óska þér sem þessa frásögn lest góðs dags í dag og minni á gleðidaga kirkjunnar frá páskum til hvítasunnu. Guð gefi þér sem flesta gleðidaga á lífsgöngunni.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2018 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2116.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar