Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Hjalti Hugason

Að ræða eða ræða ekki 62. gr. stjórnarskrárinnar

Dómkirkjan, Jón og Alþingishúsið

Í Fréttablaðinu 11. maí s.l. birtist hvatning frá nokkrum trú- og lífsskoðunarfélögum, baráttusamtökum fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju og jafnvel baráttusamtökum gegn trú til Stjórnlagaráðs um að „bera fram sérstaka tillögu um afnám 62. greinar stjórnarskrár Íslands og afnema þar með ákvæði um sérstaka vernd þjóðkirkjunnar.“ Telja þessi samtök vænlegast að sértæk tillaga um niðurfellingu greinarinnar verði lögð í dóm kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu samfara kosningu um nýja stjórnarskrá.

Ljóst er að ákvörðunarvald um niðurfellingu eða breytingu á 62. gr. stjskr. er í höndum þjóðarinnar. Það mál verður því að bera undir þjóðina í almennri atkvæðargreiðslu sbr. 2. mgr. 79. gr. stjskr. hvort sem það verður gert á grundvelli sértækrar tillögu, sem hluti af viðamikilum stjórnarskrárbreytingum eða við kosningar um alveg nýja stjórnarskrá. Með áskoruninni er Stjórnlagaráð hvatt til að velja alveg ákveðna leið í þessu efni, þ.e. að fara bókstaflega að fyrirmælum 79. gr. stjskr. og einangra 62. gr. þannig frá öðrum greinum stjórnarskrárinnar. Svo virðist sem þessi leið sé farin til að koma í veg fyrir sérstaka umræðu um greinina.

Markmið þeirra sem undir hvatninguna rita er að afnema ákvæði um sérstaka vernd Þjóðkirkjunnar og tryggja jafnrétti og fullt trúfrelsi einstaklinga óháð trúar- og lífsskoðunum þeirra. Þetta er í alla staði virðingarvert markmið sem keppa bera að. Meginhugsun þess kemur raunar þegar fram í 63.–65. gr. núgildandi stjórnarskrár. Þá ber þess að gæta að í innlendum og erlendum dómum hefur komið fram að þjóðkirkjuskipan á borð við þá sem fram kemur í 62. gr. stjskr. brjóti ekki í bága við trúfrelsi. Stjórnlagaráði ber þó vissulega að þróa þessa hugsjón áfram inn í 21. öldina. Það er hins vegar ekki víst að það verði best gert án umræðu um 62. gr.

Nú þegar liggur fyrir Stjórnlagaráði tillaga um að ná sama markmiði og að ofan getur en með uppstokkun á öllu efni sjötta kafla stjskr. og nýjum tengslum hans við mannréttindaákvæði stjskr. Þar er lagt til að öll trú og lífsskoðanir verði lagðar að jöfnu, að staða trú- og lífsskoðunarfélaga verði jöfnuð þannig að ríkið styrki og verndi öll slík félög sem óska skráningar og uppfylla þau skilyrði sem um hana gilda og að sérstaða meirihlutakirkjunnar í landinu verði frekar táknræn en lagalegs eðlis. Á þennan hátt er mögulegt að þróa þá trúfrelsishefð sem hér hefur ráðið för frá 1874 á farsælan hátt inn í fjölhyggju 21. aldarinnar.

Það er vonandi að Stjórnlagaráð reynist þeim vanda vaxið að taka einnig þann hluta stjórnarskrárinnar sem að trú- og kirkjumálum lýtur til málefnalegrar umræðu en hlaupi ekki frá vandanum með þeirri ódýru lausn sem fram kom í fyrrgreindri hvatningu.

Að lokum skal Stjórnlagaráði óskað velfarnaðar í vandasömu starfi.

Um höfundinn3 viðbrögð við “Að ræða eða ræða ekki 62. gr. stjórnarskrárinnar”

 1. Matti skrifar:

  Hver eru þessi “baráttusamtökum gegn trú” sem þú vísar í þarna í greininni Hjalti? Ég kannast ekki við þessi samtök.

  Ljóst er að ákvörðunarvald um niðurfellingu eða breytingu á 62. gr. stjskr. er í höndum þjóðarinnar.

  Af hverju er það ljóst? Það að eitthvað megi senda í þjóðaratkvæði þýðir varla að það verði að senda það í þjóðaratkvæði.

  Af hverju má ekki einfaldlega breyta þessu eins og öðru í stjórnarskránni - og kjósa svo um nýja stjórnarskrá?

  Svo virðist sem þessi leið sé farin til að koma í veg fyrir sérstaka umræðu um greinina.

  Þetta eru bara dylgjur Hjalti!

  Á þennan hátt er mögulegt að þróa þá trúfrelsishefð sem hér hefur ráðið för frá 1874 á farsælan hátt inn í fjölhyggju 21. aldarinnar.

  Það hefur varla verið raunverulega trúfrelsishefð stóran hluta þess tíma sem þú nefnir. Auk þess skekkist myndin á þeirri staðreynd að fyrir 1874 var ekki trúfrelsi og eitt tiltekið trúfélag hafði því gríðarlega mikið forskot á aðra hópa í samfélaginu.

  ps. Geri ekki ráð fyrir svari nú frekar en fyrri daginn.

 2. Birna G. Konráðsdóttir skrifar:

  Til þess að fólk geti myndað sér skoðun er afar nauðsynlegt að ræða þetta ákvæði í stjskr. sem og öll önnur. Stjórnarskráin á að vera hryggjarstykki fyrir ísl. löggjöf. Til þess að hún virki sem slík þarf að fara fram málefnaleg umræða um innihald hennar, rök með og á móti. Önnur vinnubrögð eru ekki gæfuleg að mínu viti.
  Takk fyrir þetta Hjalti.

 3. Matti skrifar:

  Er einhver á móti umræðu um málið? Ef svo, eru það ekki fyrst og fremst andstæðingar aðskilnaðar?

  Ég skil ekki af hverju þetta tiltekna mál er eitthvað flóknara en önnur sem ræða þarf varðandi breytingu á stjórnarskrá.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2997.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar