Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Hjalti Hugason

Trúmál í endurskoðaðri stjórnarskrá

Dómkirkjan, Jón og Alþingishúsið

Babýlonarútlegð hugsjónarinnar um heildarendurskoðun stjórnarskrár okkar í kjölfar Hruns 2008 er nú loks á enda. Stjórnlagaþing hefur að vísu umbreyst í stjórnlagaráð. Full ástæða er þó til að óska þeim þjóðkjörnu fulltrúum sem nú hafa hlotið endurnýjað umboð frá Alþingi allra heilla í ábyrgðarmiklu hlutverki. Jafnframt hljóta allir sem af þessari háleitu hugsjón hafa hrifist að kosta kapps um að leggja sitt af mörkum til að stuðla að sem farsælastri lausn.

Byggingarvandi

Eitt af þeim viðfangsefnum sem stjórnlagaráð mun glíma við er að um kirkju- og trúmál er fjallað í sérstökum kafla í núgildandi stjórnarskrá. Hann hefur að geyma svokallaða kirkjuskipan (62. gr.) og trúfrelsisákvæði (63. og 64. gr.). Afleiðingin er að þetta efni svífur í lausu lofti án lífrænna tengsla við aðra þætti stjórnarskrárinnar.

Engin efnisleg rök mæla með þessari efnisskipan þar sem trúfrelsi er órofa hluti almennra mannréttinda sem fjallað er um í næsta kafla á eftir. Hér er aðeins um sögulega hefð frá 1874 að ræða en í fyrstu stjórnarskrá okkar var fjallað um kirkjumál sem eitt af þeim sérmálum sem þjóðin fékk aukna sjálfsstjórn í. Við þær aðstæður gat verið eðlilegt að setja fram sérstakan trúmálabálk. Varla er mögulegt að viðhalda þessari 19. aldar efnisskipan í nýrri eða endurskoðaðri stjórnarskrá.

Ný trúmálagrein

Hér með er lagt til að 62.–64. og eftir atvikum 2. málsgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar verði sameinaðar. Þá er lagt til að hin sameinaða grein verði færð yfir í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Virðist eðlilegt að hún komi á eftir greinum sem fjalla um almennt skoðana-, tjáningar-, og félagafrelsi. (þ.e. eftir núv. 74. gr.). Allt þetta efni mun svo væntanlega færast framar í stjórnarskrána.

Hin endurskoðaða grein gæti hljóðað á eftirfarandi hátt:

Allir eiga rétt á að iðka trú eða lífsskoðun í samræmi við sannfæringu sína og að stofna um það félög. Öllum er frjálst að standa utan slíkra félaga. Enginn má skorast undan almennri þegnskyldu vegna trúar- eða lífsskoðana. Enginn er skyldur til að greiða persónuleg gjöld til trú- eða lífsskoðunarfélags sem hann á ekki aðild að.

Ríkisvaldið skal styðja og vernda öll skráð trú- og lífsskoðunarfélög.

Evangelíska lúterska kirkjan er þjóðkirkja á Íslandi. Breyta má þessu með lögum. Slík lög skal bera undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar í leynilegri atkvæðagreiðslu.

Hér er eins og sjá má byggt á grunni núgildandi trúfrelsisákvæða. Þó er gengið afdráttarlausar út frá rétti einstaklinga en nú er gert. Hinu breytta trúfrelsisákvæði er ætlað að að taka af tvímæli um skoðana-, tjáningar- og félagafrelsi á sviði lífsskoðana. Þá er því ætlað að standa vörð um rétt þeirra sem standa vilja utan allra trú- og lífsskoðunarfélaga. Loks er því ætlað að jafna stöðu trú- og lífsskoðunarfélaga að teknu tilliti til stærðar þeirra, stöðu og starf og eftir því sem Alþingi ákveður með lögum (t.d. fjárlögum).

Útmörk trúfrelsis

Jafnræðisreglan (65. gr. stjskr.) kveður á fullnægjandi hátt á um að ekki megi skerða rétt fólks vegna trúar eða lífsskoðana. Af þeim sökum virðist óhætt að fella brott ákvæði um að enginn megi „neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna“ eins og segir í núv. 64. gr. stjórnarskrárinnar.

Hins vegar er ljóst að setja þarf trúfrelsinu útmörk og undirstrika að fólk geti ekki með skírskotun til trúar skorast undan „almennri þegnskyldu“ eins og segir í sömu grein. Í því hlýtur m.a. að felast að öllum sé skylt að halda almenn lög samfélagsins í heiðri. Af þeim sökum virðist mega fella brott ákvæði um að ekki megi „kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu“ eins og segir í 63. gr. En í því felst einmitt að ekki megi í nafni trúar brjóta gegn hegningarlögum eða hugsanlega öðrum lögum og koma þar hjúskapar- og dýraverndarlög einkum upp í hugann.

Þyki sjónarsviftir af hinu klassíska orðalagi 19. aldar í þessu efni má að ósekju skjóta því inn á viðeigandi stöðum í tillögugreininni hér að ofan.

Aukið jafnræði

Hér er lagt til að trú- og lífsskoðunarfélög verði lögð að jöfnu hvað stuðning og vernd ríkisvaldsins varðar eins og t.d. er gert í Noregi. Með lífsskoðunarfélögum er ekki átt við heimspekiklúbba upp og ofan heldur félög sem eru málsvarar einhverrar skilgreindrar trúarlegrar eða veraldlegrar sannfæringar og standa fyrir veraldlegum athöfnum (t.d. borgarlegum nafngjöfum, fermingum, giftingum og útförum).

Í þeirrri kirkjuskipan sem að ofan er lögð til aðeins sagt að sú kirkja sem meirihluti þjóðarinnar kýs að tilheyra skuli hafa nokkra sérstöðu þar til löggjafa og þjóð kemur saman um að breyta ákvæðinu. Fær kirkjuskipanin þar með hlutlausari stöðu en nú er raunin og kveður fyrst og fremst á um táknræna sérstöðu vegna yfirburðastærðar, hlutverks og sögu lúthersku kirkjunnar í landinu.

Engin bylting

Einar og sér mundu breytingar á borð við þær sem hér eru lagðar til tæpast valda nokkurri byltingu. Ákvæði hennar þyrfti að útfæra í ýmsum sérlögum, meðal annars í lögum um skráð trú- og lífsskoðunarfélög, hugsanlegum sérlögum um þjóðkirkjuna og e.t.v. fleiri lögum líkt og nú er gert.

Gildi hinnar endurskoðuðu trúfrelsisgreinar felst einkum í því hve víðan ramma hún myndar fyrir iðkun trúar og lífsskoðana í landinu og hversu mikið jafnræði hún rúmar. Hún samræmist því vaxandi einstakling- og fjölhyggju betur en núgildandi trúmálabálkur.

Fyrri pistlar

Viljum við koppalogn?

Hlutleysi eða „sekúlarismi“?

Um höfundinn5 viðbrögð við “Trúmál í endurskoðaðri stjórnarskrá”

 1. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Er það rétt skilið að þú viljir hafa “Evangelíska lúterska kirkjan er þjóðkirkja á Íslandi.”, til þess að kveða upp á um “táknræna sérstöðu”?

  Mér finnst gott að þú virðist hafa tekið undir þau rök að það gangi ekki að kveða á um sérstaka vernd og stuðning fyrir Þjóðkirkjunni í stjórnarskránni, en ég efast um að þessi setning verði ekki einmitt notuð í þeim tilgangi.

  Það væri gaman að sjá útskýringu á því hvað þú átt við með annars vegar “Evangelíska lúterska kirkjan” (þú ert líklega ekki að tala um t.d. Fríkirkjuna í Reykjavík, ertu ekki bara að tala um Þjóðkirkjuna?), og hvað það eigi að þýða hérna að það sé “þjóðkirkja”.

 2. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Þegar ég les betur yfir eina efnisgrein, þá verð ég að taka til baka þau ummæli að þú virðist ekki vilja kveða á um forréttindi Þjóðkirkjunnar:

  Í þeirrri kirkjuskipan sem að ofan er lögð til aðeins sagt að sú kirkja sem meirihluti þjóðarinnar kýs að tilheyra skuli hafa nokkra sérstöðu þar til löggjafa og þjóð kemur saman um að breyta ákvæðinu.

  Þessi tillaga þín á sem sagt ekki að breyta því að Þjóðkirkjan njóti forréttinda (”nokkra sérstöðu”)?

 3. Arnfríður Guðmundsdóttir skrifar:

  Takk fyrir þennan pistil, Hjalti. Þetta er gott innlegg inn í þá umræðu sem á eftir að fara fram í kringum væntanlega endurskoðun Stjórnlagaráðs á stjórnarskránni. Við þurfum á því að halda að þessi umræða fari fram víðar en í stjórnlagaráðinu sjálfu. Ég vona að sem flestir muni taka þátt í umræðunni. Það er mikilvægt að umræðan verði málefnalega og upplýsandi en muni ekki einkennast af ómálefnalegum fullyrðingum og skítkasti.

 4. Pétur Hafstein skrifar:

  Þetta er skörp greining, Hjalti, eins og annað sem þú hefur skrifað um þessi mál og ég er að flestu leyti sammála. Nokkrar athugasemdir langar mig samt að gera við þetta.

  Þú óskar hinum þjóðkjörnu fulltrúum í stjórnlagaráði allra heilla í ábyrgðarmiklu hlutverki. Ég tek undir þær efnislegu óskir en hlýt að segja að það er enginn þjóðkjörinn í ógildum kosningum - ekki einu sinni þeir einstaklingar sem nú eru skipaðir í stjórnlagaráð á grunni ógildra kosninga. Slík staðhæfing er ekkert annað en rökræn lokleysa svo að notað sé orðtak hins merka og látna fræðimanns dr. Ármanns Snævarr. Með þessu er enginn dómur lagður á ógildingu Hæstaréttar á ógildingu kosninganna til stjórnlagaþings en þó skal aðeins minnt á að Alþingi fékk réttinum þennan kaleik í lögum - og við það verða menn að sætta sig hvort sem þeim er það ljúft eða leitt.

  Það er vissulega brýnt umræðuefni hvort tími sé til þess kominn að breyta ákvæðum stjórnarskrár um þjóðkirkju og trúmál. Ég get vel fallist á það í ljósi breyttra viðhorfa og þróunar þótt ég skrifi ekki undir það að ákvæði núgildandi stjórnarskrár um þessi efni svífi “í lausu lofti án lífrænna tengsla við aðra þætti stjórnarskrárinnar.” Og mér finnst engu máli skipta hvar í stjórnarskránni hlutirnir eru sagðir, öll ákvæði hennar eru jafngild og bollaleggingar um að eitt ákvæði verði framar öðru í röðinni lýsa engu öðru en fordild - og á því þurfum við síst að að halda við endurskoðun stjórnarskrárinnar.

  Þú setur fram mjög athyglisverða tillögu um endurskoðaða grein um trúfrelsi og þjóðkirkju og ég get í meginatriðum tekið undir hana. Þó kemur upp í hugann hvort nokkur þörf sé á 2. mgr. tillögunnar: Ríkisvaldið skal styðja og vernda öll skráð trú- og lífsskoðunarfélög. Er einhver þörf á svona “verndarákvæði” ef það er að öðru leyti tryggt að öll trúfélög skuli njóta janfræðis gagnvart lögum? Er ekki alveg eins gott að kveðja í eitt skipti fyrir öll þessa verndarhugsun 19. aldar? Þjóðkirkjan þarf ekki á henni að halda - og hvers vegna þá önnur trúfélög? Sérstaða þjóðkirkjunnar byggist á tengslum við þjóðina en ekki ríkið - nema að því leyti sem það er samnefnari þjóðarinnar. Þjóðkirkjan á ekki heldur að njóta forréttinda á sviði fjármála eða að öðru leyti en í réttarríki verður engu að síður að halda gerða samninga eins og kirkjujarðasamkomulagið 1997. Það stendur þótt skilið verði til fulls á milli ríkis og kirkju með því að fella úr gildi núgildandi ákvæði 62. gr. stjórnarskrárinnar.

 5. Örn Bárður Jónsson skrifar:

  Sendi þér, Hjalti, síðbúnar þakkir fyrir þessa grein sem er mjög gott innlegg í mikilvæga umræðu.
  Tillaga þín um breytingar á 62. gr. núverandi stjórnarskrár sýnist mér í fljótu bragði vera mjög í anda B-tillögu um nýja stjórnarskrá skv. 17. gr. á s. 201 í I. bindi Skýrslu stjórnlaganefndar.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4481.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar