Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Íris Kristjánsdóttir

Góðan æskulýðsdaginn

Æskulýðsdagurinn í Hjallakirkju

Hvað gerir suma daga betri en aðra? Já, það má spyrja sig. Bestu dagar lífs mín eru venjulega þeir sem ég eyði í skemmtilegum félagsskap, þar sem gleði og góð stemningin ríkir, þar sem hlátur og líf einkennir samskiptin. Ég átti svoleiðis dag núna á æskulýðsdaginn. Hann var vissulega annasamur en líka stórskemmtilegur.

Æskulýðsútvarpsguðsþjónusta

Um morguninn var æskulýðsguðsþjónusta í Hjallakirkju sem var útvörpuð. Krakkarnir í æskulýðsfélagi kirkjunnar stóðu sig afskaplega vel. Auðvitað þurftum við að taka mið af útvarpshlustuninni við allan undirbúning. Það þýddi ekkert að sýna leikrit eða þess háttar – hið talaða og sungna orð var í fyrirrúmi. Og þau gerðu þetta af stakri prýði.

Eftir hádegi var fjörug barnaguðsþjónusta í kirkjunni, fjölmörg börn mættu í kirkjuna, hlýddu á söguna um góða hirðinn og léku sér við Rebba ref. Við sungum mikið og lékum, og svo fengu börnin bækur að gjöf frá kirkjunni í lok stundarinnar. Þau eldri fengu Kata og Óli fara í kirkju og þau yngri Litlu bókina um Jesú.

Seinnipart dagsins var svo Batamessa á vegum Vina í bata, 12 spora starfsins í kirkjunni. Góður hópur fólks úr Vinum í bata á höfuðborgarsvæðinu safnast saman til messu einu sinni í mánuði sér til uppbyggingar. Þema dagsins var framtíð kirkjunnar og okkar, og hljómuðu orð spámannsins úr Jeremía vel inn í þær hugleiðingar: Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð.

Ekki slökkva á farsímunum

Þessi orð komu einnig upp í huga minn síðar um kvöldið þegar ég fór á Bænarý í Digraneskirkju. Ja, svei mér þá, við þurfum sko aldeilis ekki að óttast framtíð kirkjunnar með svona öflugt ungt fólk innan hennar! Bænarý er allt öðruvísi guðsþjónusta. Þar ertu vinsamlega beðin um að slökkva EKKI á farsímanum og að taka eins margar myndir og þú vilt!

Bænarý 2011Bænarý 2011

Formið er hið sama en framkvæmdin allt öðruvísi, tölvur og tækni skipa stóran sess og þú færð t.d. sms með guðspjallstextanum á þeim tíma þegar hann er lesinn! Einnig blessunarorðin í lokin. Söngurinn er kröftugur, alveg í anda unglinganna og að mínu skapi! Prédikun er flutt með aðstoð tölvumiðla og var að þessu sinni einnig í formi samtals milli tveggja presta. Það heppnaðist afskaplega vel, þá ekki síst vegna þess að í prédikuninni fór einnig fram samtal við þau sem sátu og hlýddu á.

Svona á æskulýðsdagur að vera

Svona eiga helgidagarnir að vera. Og svona á æskulýðsdagur að vera. Samtal milli þeirra eldri og yngri á forsendum beggja. Þær fyrirætlanir sem Guð hefur með okkur eru okkur til heilla, ekki óhamingju. Og það á einnig við um kirkjuna í heild sinni.

Hvers vegna þurfum við að halda upp á æskulýðsdaginn? Eru ekki allir dagar æskulýðsdagar? Jú, vissulega, en þegar við tökum frá einn dag sem sérstaklega er ætlaður unga fólkinu þá erum við sem eldri erum minnt á mikilvægi þess að gefa þeim tækifæri til að taka þátt, undirbúa og framkvæma lofgjörð og tilbeiðslu eftir þeirra höfði. Það bæði virkar og sendir þau skilaboð að þau eru mikilvægur hópur innan kirkjunnar.

Það var þreytt en sæl kona sem fór heim síðla að kveldi æskulýðsdagsins. Viðburðir dagsins gáfu mér ekki aðeins kraft og styrk heldur einnig gleði og ánægju yfir kirkjunni okkar. Mikið erum við rík! Það skiptir sannarlega miklu máli að við hlúum vel að æskulýðsstarfinu, ekki einungis vegna unga fólksins heldur líka þeirra sem eldri eru, því þau ungu gefa hinum eldri kraft, ekki satt? Tvö orð standa upp úr eftir viðburði dagsins: Meira svona!

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2371.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar