Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Guðrún Karls Helgudóttir

Veljum við jafnan rétt?

Mannfjöldinn II

Á vegum þjóðkirkjunnar starfa 28 stjórnir og starfsnefndir. Karlar stýra 20 nefndum og konur 8. 

Í tengslum við þjóðkirkjuna starfa 23 félög og stofnanir. 16 karlar eru formenn, forstöðufólk, forsetar, forstjórar, framkvæmdastjórar eða rektorar og 7 konur. 

Prófastar í þjóðkirkjunni eru 10. Sex eru karlar og 4 eru konur. 

Vígðir kirkjuþingsfulltrúar eru 12. Níu eru karlar og 3 eru konur. 

Í Reykjavíkurprófastdæmum og Kjalanesprófastdæmi eru 32 sóknarprestsstöður. Þeim gegna 26 karlar og 6 konur. Í öðru Reykjavíkurprófastdæminu gegnir engin kona stöðu sóknarprests. 

Í kirkjuráði sitja þrír vígðir þjónar kirkjunnar, einn þeirra er biskup Íslands. Enginn þeirra er kona. Tveir prestar eru varamenn, annar þeirra er kona. 

Innan Þjóðkirkjunnar starfa 3 biskupar. Enginn er kona. Kona hefur aldrei verið biskup í Þjóðkirkjunni. 

Þetta er ekki tæmandi mynd af kynjahlutföllum í þjóðkirkjunni þegar horft er til æðstu embætta hennar, stjórna, ráða og stofnanna. Ég hef ekki skoðað sóknarprestsstöður á landsbyggðinni. 

Ljóst er að þjóðkirkjan á langt í land í að staðan verði viðunandi. 

Í jafnréttisstefnu kirkjunnar segir að markmið hennar sé að stuðla að jafnri stöðu og jöfnum rétti kvenna og karla í þjóðkirkjunni og jöfnum möguleikum kynjanna til starfa, áhrifa og þjónustu. 

Í framkvæmdaáætlun fyrir árin 2010-2012 segir m.a.: 

Að greina hlut kvenna innan kirkjunnar. 
Þess skal gætt að við tilnefningar og skipan í ráð og nefndir að farið sé eftir 15. gr.laga nr. 10/20087. 
Hins sama skal gætt við ráðningar á starfsfólki sókna og stofnana kirkjunnar að 
sem jafnast hlutfall sé milli kynjanna. Á árabilinu skal sérstaklega horft til þess að taka saman tölulegar upplýsingar, greina þær út frá kyni og gera skýrslu um stöðuna. 

Að jafna hlut kynjanna í stjórnunarstöðum innan kirkjunnar 
Að afla upplýsinga um hlutfall kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum og stuðla að jafnri stöðu kvenna og karla. 

Verkefni: Aflað verði upplýsinga um stöðuna í ljósi 15. og 18. gr. laga nr. 10/2008 og þeim komið til þeirra aðila sem koma að vali eða ráðningu fyrrnefndra aðila og gerðar verði tillögur að vinnulagi sem styðji sóknarnefndir og valnefndir og aðra ákvörðunaraðila í þeirri viðleitni að fara að jafnréttislögum.

Þetta eru sjálfsögð markmið en við munum ekki ná þeim því til kirkjuþings og í kirkjuráð var kosið árið 2010 og þar hafa vígðar konur ekki sömu stöðu og vígðir karlar fyrr en árið 2013 í fyrsta lagi. 

Þegar valið er eða kosið í nefndir og ráð í kirkjunni þá eru það yfirleit kollegar sem velja eða kjósa aðra kollega. Meirihluti presta eru karlar og þeir virðast upp til hópa ekki kjósa eða velja prestvígðar konur. Kannski gera konurnar það ekki heldur. Þessar aðferðir sem við höfum við að velja fólk til trúnaðarstarfa virka augljóslega ekki. Regluverkið er til. Áætlunin er til. Samt gerist ekkert. 

Er ekki kominn tími til þess að endurskoða hvernig við veljum eða kjósum í nefndir og ráð? Þarf kannski sérstakt öðlingaátak í kirkjunni sambærilegt við það sem nú stendur yfir á þorranum? Er ekki kominn tími á hugarfarsbreytingu hjá kirkju sem vill láta taka mark á sér á tuttugustu öldinni? 

Valið er okkar. 

Um höfundinn3 viðbrögð við “Veljum við jafnan rétt?”

 1. Arnfríður Guðmundsdóttir skrifar:

  Bestu þakkir fyrir þenna góða pistil. Þó að þetta sé ekki tæmandi úttekt þá sýnir hún vel stöðuna í kirkjunni. Við þurfum að bretta upp ermarnar og vinna að breytingum. Næsta verkefni er að kjósa konu í Skálholt. Þegar hafa flottar konur gefið kost á sér í embættið. Það er okkar að styðja þær.

  Hugmyndin um öðlingaátak í kirkjunni er góð hugmynd. Það er örugglega enginn skortur á þeim í okkar hópi. Ég auglýsi hér með eftir innleggi frá þeim inn í þessa umræðu!

 2. Kristín Þórunn skrifar:

  Takk fyrir samantektina Guðrún.

  Þessar tölur tala sínu máli og hvetja okkur vonandi til að fara eftir okkar eigin samþykktum.

  Nýleg könnun sýnir að alltof lágt hlutfall íslenskra ungmenna treystir konum jafn vel til að vera kirkju- og trúarleiðtogar og körlum.

  Hvernig á að bregðast við því?

 3. Guðmundur Pálsson læknir skrifar:

  Kysi ég mann í nefnd og hefði úr tvennu að velja: Unga konu sem hefði áberandi feminísk viðhorf sem ég teldi andstæð heilagri ritningu og eldri mann trúaðan með jafnmikla hæfni kysi ég karlmanninn.

  Stæði ég frammi fyrir vali milli trúaðrar konu og vantrúa karlmanns í háa stöðu ( segjum prestkosningu ) þá veldi ég konuna.

  Fyrst og síðast þarf kirkjan á trúuðu fólki að halda í stöður yfirboðara og leiðtoga. Fátt er mikilvægara og ég held að mann hafi ekki „rétt” á neinu gagnvart kirkju og Guði.

  Vantrúa einstaklingar eiga ekki að komast neitt áfram innan kirkjunnar. Regluverk og andi kirkjunnar ætti að tryggja það. Hafi konur þetta að leiðarljósi og uppfylla skilyrðin svo allir sjái komast þær örugglega til hárra embætta.

  Þetta er vitaskuld leikmanns skoðun en mér finnst þetta mikilvægt.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3840.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar