Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Karl Sigurbjörnsson

Guðsvegir og manna

Góð vinkona gaukaði að mér þessari vísu:

Hvílík breyting um helgar traðir
hefur ei sést um áraraðir.
Til kirkjunnar allir geysast glaðir
Nú Guðs vegir eru malbikaðir.

Þessi visa mun ort af því tilefni að sunnudaginn eftir að vegurinn að Kópavogskirkju var malbikaður voru óvenju margir við kirkju!

Hún er falleg kirkjan ykkar og ber stórum svip yfir bæinn, einhver fegursta kirkja 20. aldarinnar á Íslandi. Og þangað er alltaf gott að koma, þó að ekki geysist þangað allir glaðir, eins og í stökunni. Vegir mannanna eru svo margvíslegir og fararsniðið með ýmsu móti. Og hvar liggja Guðs vegir?

Sagan segir að þegar Lækjargatan í Reykjavík var breikkuð fyrir miðja síðustu öld, þá var séra Bjarni, sem bjó þar spurður álits á þessari stórframkvæmd. Og svaraði: „Hvað á maður svo sem að segja um það, hér hef ég staðið og hvatt menn til að fara mjóa veginn!“

Já, hvar eru Guðs vegir? Þeir eru væntanlega ekki malbikaðir 2×2 breiðir. Þar mun vera þröngt hlið og mjór vegur. „Þar sem góðir menn fara eru Guðs vegir,“ sagði víst norska skáldið forðum, og oft er til þessa vitnað, einkanlega í minningargreinum. Hvað merkir það? Hvað er góður maður, og hvað eru Guðs vegir?

Kirkjan sem hér ber yfir er eins og varða sem bendir á þann veg, Guðs veg, sem hlykkjast um mannlífið í öllum þess margbreytileika. Hún er sem varða sem bendir á hann sem segir um sjálfan sig: Ég er vegurinn! Í nafni hans er henni ætlað að halda uppi iðkun, orði og atferli sem bætir lífið, mannlíf og samfélag, mótar og ræktar gott fólk og gott samfélag, gott líf.

En hefur kristin trú haft einhver áhrif?

„Væri maðurinn án eilífrar vitundar, væri allt byggt á óhömdu, ólgandi afli, sem byltist um í myrkum ástríðum og leiðir af sér allt sem er stórt og allt er smátt, ef að baki alls dyldist botnlaust og óseðjandi tóm, hvað væri þá lífið annað en örvænting? Væri þessu þannig farið, ef ekkert heilagt band væri til sem tengdi saman mannkynið, ef kynslóðir kæmu hver af annarri fram eins og laufið í skóginum, ef hver kynslóð tæki við af annarri eins og fuglasöngurinn í skóginum, ef mannkynið færi um heiminn eins og skip um hafið, eins og vindurinn um eyðimörkina, í gáleysi, sem ekkert gott hlýst af, ef eilíf gleymska sæti ætíð óseðjandi um bráð sína og ekkert afl hefði mátt til að hrifsa hana frá henni – hversu tómt og vonlaust væri þá ekki lífið.“ Þetta segir danski spekingurinn, Sören Kierkegaard. Hvaða band er hann að tala um? Það er trúin, öllu heldur, það er Guð.

Það er kallað eftir siðbót í samfélaginu, stjórnlagaþing á að setja okkur ný grundvallarlög og helst finnst manni sem mikilvægast alls sé að sópa burt öllu því gamla og slíta þá þætti og þræði sem tengt hafa kynslóðirnar frá alda öðli í landi hér.

„Að fortíð skal hyggja ef frumlegt skal byggja.“

Grundvallardyggðir eru ekki sjálfsprottnar, koma ekki af sjálfu sér, leysast ekki úr læðingi gegnum lagasetningu, ekki einu sinni stjórnarskrá, þeirra rætur liggja annars staðar. Hitt megum við vita að gott fólk mótar gott samfélag. Sterkur siðferðilegur grundvöllur fyrir mannlegum samskiptum er forsenda framtíðarinnar.

Rómaveldi hrundi vegna þess að það hafði ekki lengur neinn siðferðilegan mælikvarða í athöfnum sínum. „Brauð og leikir“ var kjörorðið. Það er ekki uppskrift að góðum mönnum, góðu fólki, góðu samfélagi. Það kemur annað til.
Hér á landi hefur verið kerfisbundið unnið að því að byggja upp það sem Matthías Jóhannessen kallar „arfleifðarbrostið sirkussamfélag.“ Þar sem keppikeflið æðsta er að hafa það gott hvað sem það kostar, og eina dauðasyndin er að vera leiðinlegur. Og menn gleyma uppruna sínum og rótum, hið andlega samhengi menningar og samfélags trosnar. Af rótleysi sprettur friðleysi.

Í Biblíunni segir: „Nemið staðar við vegina og litist um og spyrjið um gömlu göturnar hver sé hamingjuleiðin, og farið hana og þér munuð finna sálum yðar hvíld.”(Jer.6.16)

Textar og frásagnir Biblíunnar eru grunntextar okkar menningar og siðar á Íslandi. Þar er bent á hamingjuveginn og heilla fyrir einstaklinga og þjóð. Ýmsir vilja vera láta að þarna sé eitthvað það á ferðinni sem umfram allt verði að bægja frá þeim ungu og ómótuðu. Við stöndum mitt í byltingu á Íslandi.

Í árdaga byltingarinnar í Rússlandi sagði Lenin: „Bylting vor getur aldrei heppnast fyrr en goðsögnin um Guð er upprætt úr meðvitund mannsins.” Mér finnst ég heyra óminn af þessu í ýmsum „mannréttindaráðum“ sem beitt er í íslensku samfélagi í dag.

Ég held mikið upp á söguna af prófessornum sem hitti mann á stéttinni við háskólann og þeir tóku tal saman og gleymdu stað og stund. Uns prófessorinn sér að klukkan er að verða eitt og segir við manninn: Hvaðan var ég að koma þegar við hittumst? Úr bænum, svaraði hinn. Æ, það var gott, sagði prófessorinn, þá er ég búinn að borða!

Við höfum gleymt okkur. Við vitum ekki hvaðan við komum eða hvert skal stefnt. Það er ef til vill alvarlegra að vita ekki hvaðan við komum, vegna þess að þá vitum við ekki hvar við eigum heima, hverjar rætur okkar eru. Arfleifðarbrostið samfélag.

Ég tel að þorri folks vilji að arfleifðin góða berist áfram til komandi kynslóðar. Ég tel að meirihluti landsmanna vilji standa við hin kristnu grunngildi og vill að þau fái enn að móta íslenskt samfélag, og það gerist ekki nema sagan sé sögð og lærð og tjáð, sagan um Jesú og boðskapinn hans góða. Gildi eru aldrei í tómarúmi, grunngildi samfélagsins eru þræðir sem tengja, og vefur verðmæta og viðmiða, og þau spretta úr samhengi frásagna, minninga, reynslu og sögu, sameiginlegrar vitundar um hvaðan við komum og hvert leið manns er stefnt.

Veraldarhyggjan ræður svo víða för. Og það viðhorf að aðgengi að upplýsingum sé sem það sem gildi, minni áhersla er lögð á menntun þar sem saman fer hinn hvassi skilningur, haga hönd og hjartað sanna og góða, eins og Stephan G. segir í stökunni sinni góðu. Hinn vitri maður og skólafrömuður, dr. Broddi Jóhannesson, sagði eitt sinn á liðinni öld: „..hitt má hverjum vera ljóst að margvís en tilfinningasljór maður er ein hin ömurlegasta ófreskja sem óprýtt getur þessa jörð, og enginn getur verið fátækari, því að hann á ekkert, sem honum er nokkurs vert.“ Þetta eru kröftug og umhugsunarverð orð.

Kommúnisminn byggði á vísindalegri efnishyggju, eins og það kallaðist. Þó að heimsveldi kommúnismans hafi hrunið þá stöndum við andspænis vísindalegri and-trúarhyggju sem rekin er af miklum þunga og trúarlegum hita á vesturlöndum. Þar er klifað á því að heimsmynd vísindanna hafi afsannað trúna og byggt Guði út. Þvílík firra! Ég gæti talað lengi um þetta, en það ætla ég ekki að gera nú, nema vitna í Nóbelsverðlaunahafann, kjarneðlisfræðinginn Werner Heisenberg, sem sagði: „Fyrsti sopinn af bikar náttúruvísindanna gerir mann að guðleysingja – en á botni þess bikars bíður Guð.“
Heimsmynd vísindanna þarf ekki að standa gegn heimsmynd trúarinnar. Þær geta staðið saman og auðgað lífssýn og afstöðu. Hin kristna heimsmynd er í innsta grunni þakkargjörð til Guðs, undrun og lotning gagnvart lífinu, Guði. Og traust á að það eru rök og tilgangur og ekki nóg með það, það er hugsun, vilji, góðvild og ást í innsta grunni tilverunnar.

Rússneska skáldið og andófsmaðurinn, Sinijavski, ritaði í Gúlaginu:„Það er nauðsyn að trúa. Ekki af hefð né ótta við dauðann, ekki af því að enginn veit nema…, ekki af auðsveipni eða uggsemi, ekki til að varðveita vissa húmaníska hugmynd, ekki til að bjarga sál sinni eða vera frumlegur. Það er óhjákvæmilegt að trúa af þeirri einföldu ástæðu, að Guð er.“

Já, það er málið, Guð er. Mannvitið er dásamleg Guðs gjöf. Vísindi og tækni nútímans eru dásamleg undur sem sannarlega hafa auðgað lífið og bætt umtalsvert. En þó að vísindi og tækni geti vegið og mælt vetrarbrautina í bak og fyrir, og skilgreint innstu lífsparta mannsins, þá nægja vísindi og tækni seint vit til þess að ná lífsnauðsynlegu hugarsambandi við aðra manneskju, ástvin þinn eða barn. Maðurinn, mannssálin, er meiri en svo að okkur sé ætlað að snúa aðeins einum fleti vitundarlífsins á móti því. Bæði manneskjan og veruleikinn búa yfir of mikilli auðlegð til þess. Og Guð er meiri en það allt. Guð er meiri en, og fegurst og æðst af öllu er Kristur. Ríki hans, veldi hans ber mörg heiti en á merkiskildi hans er ætíð fyrirgefningin, umhyggjan, miskunnsemin, frelsið.

Getur samfélag, menning, þjóð gleymt Guði, og tapað vegum hans?

Evrópa gekk í gegnum gríðarlegar samfélagstilraunir á 20. öld sem var guðlaust ríki og samfélag. Það var í Þýskalandi nasismann og Sovétríkjunum. Þau spor ættu að hræða. Úr hrævareldi þeirrar tilraunar er Evrópa samtímans risin.
Árið 1922 var hungursneyð í Sovétríkjunum, og var Úkraína einna verst úti. Fullyrt hefur verið að þessi hungursneyð hafi mikils til verið af manna völdum, vegna endurskipulagningar landbúnaðarins og pólitískra hreinsana. Kunn er saga af Bukharin, sem Lenin kallaði bjartasta eftirlæti bolsévikaflokksins, og var talsmaður ríkisstjórnarinnar, hann var sendur frá Moskvu til Kænugarðs til að ávarpa fjölmenna guðleysissamkomu. Í klukkustund hamaðist þessi glæsilegi ræðumaður gegn kristinni trú og sið, og svo virtist sem ræðusnilld og rökvísi hans hefði ekki skilið eftir stein yfir steini í trúarkerfi kristninnar. Þegar lófatakinu loks linnti að lokinni ræðunni stóð aldraður prestur upp. Hann sneri sér að áheyrendum og heilsaði þeim með hinni fornu páskakveðju orþódoxkirkjunnar: „Kristur er upprisinn!“ Og mannfjöldinn spratt á fætur og svaraði, og það var sem brimgarður skylli gegn hamravegg: „Hann er sannarlega upprisinn!“ 

Þetta var af því að fólkið var alið upp við venju, sið, hefð. Innantómar venjur, er það gjarna kallað, innantómir siðir og hefðir. En venjur og hefðir eru ekki innantómar, þær minna á, tengja. Þær eru eins og vörður við veginn, sem vísa á leiðina gegnum torleiði og örævi. Þær eru eins og skiltið hér á götuhorninu, það gefur vísbendingu, minnir á og greiðir för. Þú getur ákveðið að hafa það að engu, þú um það. En ef skiltin hyrfu þá yrði væntanlega erfiðara en ella að rata um hið villugjarna gatnakerfi Kópavogs! Hefðirnar og siðurinn minna okkur á, svo við gleymum ekki hvar við erum stödd, hvaða samfélagi við tilheyrum. Helgar og hátíðir, siðir og venjur, rauðu dagarnir á almanakinu, athafnir á krossgötum lífsskeiðanna, vörður á veginum.

Guðleysisstefna kommúnismans gekk hart og markvisst fram gegn kristni og kirkju og ætlaði sér að afmá hana með öllum ráðum. Öllum var skylt að sýna kristnum venjum, táknum, trú og sögu fyrirlitningu. Og það gerðu menn, nauðugir viljugir, því allur frami, jafnvel lífið, var í veði. Svo vitum við hvað varð þegar kommúnisminn féll. Kristin kirkja reis af gröf sinni. Vegna þess að fólk hélt loga trúarinnar við, sótti kirkjur, tók börn með sér þangað, kenndu börnum að signa sig og biðja í laumi. Og trúin lifði af guðleysið og harðræðið og ofsóknir allar. Bænin í Jesú nafni lifði af og bar ávöxt.

Guðsþjónusta kirkjunnar snýst um að falla inn í stærra samhengi. Skynja þráðinn sem tengir og veginn til hamingju og heilla. Orðið sem þýtt er sem trú eða trúarbrögð, religion, merkir einmitt tengsl, samhengi. Flestir eiga minningar um að hafa verið við skírnarathöfn, eða í kirkju með pabba og mömmu afa og ömmu, börnum sínum, vinum. Nú fjölgar þeim sem eiga litla eða enga minnningu um kirkjuna og iðkun hennar og litla tilfinningu fyrir því að tilheyra samfélagi sem stendur fyrir andlegt samhengi og minningu, vera á vegi sem kynslóðir hafa þrautreynt sem hamingjuleið Guðs vegum. Þörfin hverfur af því menn eiga ekki minningar sem tengja við hana. Og maður glatar möguleikum sínum að heyra og þekkja og elska Guð. Lengi vel er manni það alls ekki ljóst. Við tökum alla jafna ekki eins vel eftir því sem hverfur og hinu sem kemur. Það þekkjum við ofur vel. Einn vordag finnst okkur birta um bæinn og tilveran fái nýjan lit og hljóm, af því að lóan er komin. En við tökum aldrei eftir því þegar síðasta lóan kveður. Áður en maður veit af er hún horfin, og haust og vetur er yfir og allt um kring. Þessvegna er það sem Kristur varar enn og aftur við: Gættu að hvar þú stendur, gef gaum að orðum þínum, gættu að því hvað þú hugsar og geymir í hjarta þínu, gættu að því að þú sért ekki á leið út í ógöngurnar burt frá Guði og vilja hans, afvega af hamingjuvegi.

Rækt og uppeldi trúar þarfnast athafna, hefða, stunda og staða til að skapa og viðhalda þessari minningu. Svo minningin
um Guð lifi og hrífi eins og fuglasöngur á vori og andvari í trjágrein. Að Guð er, og elskar. Vegurinn, sannleikurinn og lífið.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2591.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar