Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir

Mýtan um tómu kirkjuna

Messa við lok landsmótsins (5)

Í fréttum Ríkisútvarpsins annan dag ársins kom fram að þriðjungur landsmanna hefði sótt kirkju um jól. Vitnað var í tölur úr Þjóðarpúlsi Capacent. Það er gríðarlega mikill fjöldi þó að skilja mætti annað af fréttinni, sem í báðum tilvikum var orðuð á þann hátt að „aðeins“ þriðjungur sækti messu um jól. Ég staldraði við þetta orðalag og reiknaði nokkrum sinnum hve margir teldust þriðjungur landsmanna. Niðurstaðan var alltaf rúmlega hundrað þúsund manns. Það var ekki laust við að mér þætti fréttamaðurinn tala niður kirkjusókn með smáorðinu „aðeins“.

Mér er stórlega til efs að mörg lönd þar sem kristni er ríkjandi trú geti státað af jafnalmennri þátttöku í helgihaldi um jól. Til samanburðar má nefna að 15% meðlima norsku kirkjunnar (ekki 15% landsmanna) sóttu messu á aðfangadagskvöld í fyrra. Könnun Capacent spyr ekki um kirkjudeildir og því má reikna með að það sem hér flokkast undir kirkjusókn sé bæði Þjóðkirkjan og aðrar kristnar kirkjudeildir.

Það eru heldur ekki margir viðburðir hér á landi sem draga jafnmarga til sín og jólahátíðin gerir í kirkjum. Mýtan um tómu kirkjuna er hins vegar sterk og mér varð einmitt hugsað til fréttamanns sem sagði fyrir nokkrum árum við mig að „kirkjan væri hvort sem er tóm“ og var þá að ræða um Hallgrímskirkju í desembermánuði. Allan þann mánuð ómar kirkjan af söng og helgihaldi og má sem dæmi nefna að þar voru 800 manns við aftansöng og 720 við miðnæturmessu um síðustu jól. Rúmlega 2000 manns tóku þátt í helgihaldi í kirkjunni yfir háhelgina en mun fleiri ef aðventan er talin með. Alls tóku hátt í þrettán þúsund manns þátt í helgihaldi og tónleikum í Hallgrímskirkju í desember 2010. Þá eru ótaldir þeir sem komu í öðrum erindagjörðum. Kirkjan var ekki tóm.

En það er auðvitað ljóst að ekki fara allir í kirkju um jól. Helgihald á öldum ljósvakans skiptir líka máli þegar jólahald Íslendinga er skoðað. Vinsælasta útvarpsefnið ár hvert er útsending Rásar 1 frá guðsþjónustu í Dómkirkjunni á aðfangadagskvöld og um síðustu jól hlustuðu 99.000 Íslendingar á aldrinum 12-80 ára á útsendinguna á Rás 1 eða í gegnum Sjónvarpið. Að auki horfðu 16,4% á jólamessu Sjónvarps á aðfangadagskvöld. Stöð 2, Bylgjan og Vísir.is sendu líka út aftansöng á aðfangdagskvöld.

Í fyrrnefndri könnun Capacent, þar sem þátttakendur merktu við ýmsa þætti í jólahaldi, var staðhæfingin um kirkjusókn orðuð: „Fer í kirkju fyrir eða um jólin.“ Þetta bendir til þess að telja megi þátttöku í aðventukvöldum með í þessari tölu. Ekki um kirkjudeildir og því má reikna með að það sem hér flokkast undir kirkjusókn sé bæði Þjóðkirkjan og aðrar kristnar kirkjudeildir.

Upplýsingar um þátttöku í helgihaldi og kirkjusókn benda til að aðventukvöld séu almennt vel sótt og kirkjur fullar á aðfangadag, bæði hjá Þjóðkirkjunni og öðrum kristnum kirkjum.

Í stærri sóknum Þjóðkirkjunnar er helgihald alla jóladagana. Í minni prestaköllum, svo sem víða í sveitakirkjum er iðulega messað einu sinni í hverri kirkju prestakallsins um jól. Þátttaka þar er iðulega góð, enda sýndi könnun Capacent að kirkjusókn á landsbyggðinni var hlutfallslega betri en meðal höfuðborgarbúa, 41% á móti 30%. Það er gaman að skoða tölur um kirkjusókn frá fámennari stöðum. Sem dæmi má taka að í Hofsprestakalli á Vopnafirði sóttu 500 manns guðsþjónustur í kirkjunum um aðventuna, jól og áramót, en á Vopnafirði búa um 650 manns. Í Eiðaprestakalli tóku að meðaltali 55% sóknarbarna þátt í messunum um jól.

Það er því greinilegt að það að sækja kirkju eða hlýða á helgihald er hluti af jólaundirbúningi og jólahaldi landsmanna og enn er stór hópur sem gerir það. Kirkjusókn er þó mest í elsta hópnum og hlýtur það að vera hvatning til safnaða um allt land að sofna ekki á verðinum heldur halda áfram góðu starfi svo að ekki færri en þriðjungur landsmanna njóti þess að fylla áfram kirkjurnar fyrir eða um næstu jól.

Um höfundinn10 viðbrögð við “Mýtan um tómu kirkjuna”

 1. Matti skrifar:

  Það er því greinilegt að það að sækja kirkju eða hlýða á helgihald er hluti af jólaundirbúningi og jólahaldi landsmanna…

  Ekki allra landsmanna - enn vissulega sumra.

  …enn er stór hópur sem gerir það

  Stærri hópur sem gerir það ekki.

  Annars hef ég aldrei skilið af hverju það þarf alltaf að snúa út úr því þegar bent er á litla kirkjusókn. Kirkjusókn er lítil á Íslandi, jafnvel þó margir mæti um jól og fermingarbörn sé skylduð til að mæta í messur. Gagnrýnendur kirkjunnar eru fullkomlega meðvitaðir um það.

 2. Torfi Stefánsson skrifar:

  Gott að fólk mæti í kirkju á jólum en þá er líka eins gott að prestarnir nái að notfæra sér það en elti ekki sinn “eigin anda, er tala, hvað þeim í hug kemur, það þeir aldrei í ritningunni sáu” eins og meistari Vídalín sagði eitt sinn.
  Hann beinir orðum sínum til prestanna (svo eru prestarnir að kvarta yfir gagnrýni Vantrúarmannanna!): “Svo kalla og þessir guðsorð, hvað sem þeir rugla, ef munnurinn alleina freyðir eins og á skeiðmæddum hesti. Refarnir eru soltnir í eyðimörkinni, svo ráfa og nokkrir kennendur um þurra staði og finna ekki, hvar með þeir kunni sitt eða annarra líf að næra. Þeir sníkja út úr óþörfum og fávísum bókum það sem engum er til nota: skröksögur, heimskulegar samlíkingar og rangar útleggingar á stundum, til að tefja tímann, svo það verður ei varið að menn mega heyra þær sumar predikanir, af hverjum enginn er nokkru nær í sínu sáluhjálparverki.”

 3. Adda Steina skrifar:

  Kommentið um “aðeins” snéri að því að 100.000 manns hefur aldrei verið talið lítið á Íslandi. Ég geri yfirleitt greinarmun á kirkjusókn og messusókn. Messusókn er mismikil eftir söfnuðum en hún er aðeins hluti af starfi kirkjunnar og iðulega mæta mun fleiri í kirkjuna yfir vikuna vegna ýmissa annarra safnaðarstarfa.

 4. Matti skrifar:

  > Kommentið um “aðeins” snéri að því að 100.000 manns hefur aldrei verið talið lítið á Íslandi.

  Jú, þriðjungur er oft talið lítið. Ef könnun bendir til þess að þriðjungur styðji ríkisstjórn telst það lítið, ef þriðjungur þjóðarinnar á fyrir skuldum sínum telst það lítið og svo framvegis.

  Þegar því er haldið fram að 90-95% íslendinga séu kristnir hlýtur það að teljast lítið að einungis þriðjungur þeirra fari í kirkju um jólin. N.b. inni í þessu er allt - líka tónleikar í kirkju sem lítið hafa með kristni að gera.

  Samhengið skiptir máli. “Mýtan” stendur enn.

 5. Skúli skrifar:

  Nei, hvernig sem á málin er litið er þetta gríðarleg aðsókn. Þriðjungur þjóðar sem sækir tiltekinn atburð er hreint magnað. Á engan hátt sambærilegt við það þegar horft er til afstöðu fólks, aðstæðna eþh. Það að þriðji hver íslendingur skuli halda af stað til kirkjunnar á þessari hátíð eru mikil tíðindi og fráleitt að fjölmiðlar skyldu setja “bara” þar á undan.

  Það er augljóst af þessum tölum að dæma að sóknarkirkjan nýtur mikils trausts.

  Það þýðir þó ekki að áminning Matta á fullan rétt á sér. Við getum alltaf gert betur!

 6. Matti skrifar:

  > Nei, hvernig sem á málin er litið er þetta gríðarleg aðsókn.

  Nei, ekki ef við trúum því að íslendingar séu kristin þjóð.

  > Þriðjungur þjóðar sem sækir tiltekinn atburð er hreint magnað

  Þetta er afar villandi framsetning Skúli, hrein blekking. Hér er ekki um að ræða einn atburð heldur marga atburði yfir hátíðarnar. Allskonar tónleikar, guðsþjónustur og jafnvel jarðarfarir.

  > Það er augljóst af þessum tölum að dæma að sóknarkirkjan nýtur mikils trausts.

  HA!

  Fyrirgefðu, traust þjóðarinar til hinna ýmsu stofnana hefur verið mælt. Þjóðkirkjan nýtur ekki mikils trausts.

 7. Skúli skrifar:

  Já, við skulum auðvitað hafa það í huga að Íslendingar eru kristin þjóð, enda kemur fram í könnuninni:

  “útsending Rásar 1 frá guðsþjónustu í Dómkirkjunni á aðfangadagskvöld og um síðustu jól hlustuðu 99.000 Íslendingar á aldrinum 12-80 ára á útsendinguna á Rás 1 eða í gegnum Sjónvarpið. Að auki horfðu 16,4% á jólamessu Sjónvarps á aðfangadagskvöld. Stöð 2, Bylgjan og Vísir.is sendu líka út aftansöng á aðfangdagskvöld.”

  Vissulega nær aðventan yfir þetta líka en starfið í söfnuðunum verður líka alltaf öflugra og öflugra eftir því sem leiðtogar þar öðlast meiri reynslu. Aðventukvöldin hafa hlotið góðar viðtökur, með hugvekjum, lestrum, sálmum, helgileikjum oþh.

  “Fyrirgefðu, traust þjóðarinar til hinna ýmsu stofnana hefur verið mælt. Þjóðkirkjan nýtur ekki mikils trausts.”

  Rétt athugað. Hins vegar nýtur sóknarkirkjan mun meira trausts og könnunin sýnir það vel.

 8. Matti skrifar:

  Skúli, þú trúir þessu ekki einu sinni sjálfur.

 9. Skúli skrifar:

  Ég held að flestir þeir sem þekkja mig myndu fremur kalla mig bölsýnismann fremur en að ég láti stjórnast af óskhyggju! Óvægin sjálfsrýni er a.m.k. mjög góður kostur að mínu mati.

  Þessar tölur eru ekki heilagar og sjálfsagt er að velta þeim fyrir okkur. Mér finnast hins vegar athugasemdir pistlahöfundar um að fjölmiðlar hafi gert lítið úr þessum mikla fjölda - réttmætar.

  Svo hefur fólk meira álit á sóknarkirkjunni sinni en þjóðkirkjunni sem slíkri. Einhver könnunin leiddi það í ljós.

  En kirkjan hefur alla burði til þess að verða öflugra samfélag, ekki endilega í fjölda heldur gæðum. Ykkur Vantrúarfélögum ætti þá ekki að þurfa að leiðast.

 10. Adda Steina skrifar:

  Athugasemd mín í greininni var við orðalagið “aðeins” og þar erum við Skúli sammála. Það þýðir ekki að ekki sé hægt að gera betur. Þeir sem starfa innan kirkjunnar, í söfnuðunum, vita að þar er starf alla vikuna, ekki bara á sunnudögum og þangað leita margir. Og í öllu tali um hrun á trausti til stofnana þá virðast samt tæplega 50% þjóðarinnar bera mikið traust til prestanna í sinni sókn og tæplega 44% bera mikið traust til sóknarkirkjunnar sinnar. Vissulega viljum við alltaf gera betur en þetta sýnir nú samt að eitthvað er gert rétt.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4156.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar