Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Lena Rós Matthíasdóttir

Ertu morgunfúl(l) eða…?

,,Góðan dag, það er kominn nýr dagur, skóladagur!”  Rödd mín ómaði um húsið í morgunsárið.  Klukkan var sjö að morgni hins kalda þriðjudags sem jafnframt var fyrsti skóladagur eftir jólafrí.  Viðbrögð barna minna voru ærið misjöfn.  Yngsta stýrið, sem hóf grunnskólagöngu sl. haust, spratt á fætur með bros á vör og hélt langa ræðu um það í hvaða föt hún ætlaði, hvað hún vildi fá í morgunverð og hvernig hún ætlaði að vera dugleg að læra í skólanum í dag.  Svipað var upp á teninginn hjá þeirri næst elstu, en hún er á tólfta ári og ábyrgðin uppmáluð þótt ekki geti ég sagt að gleðin hafi verið eins mikil yfir því að jólafríið skyldi vera á enda.  En hún lét sig hafa það. 

 

Annað var upp á teninginn hjá hinum tveimur.  Unglingurinn komst bara alls ekki á fætur og hvorki heyrðist frá honum hóst né stuna, en næst yngsta barnið sem nú er komið á níunda ár, sneri sér á hina hliðina og hóf að kveinka sér og barma. „Það er svo kalt, ég er svo þreytt, það er svo kalt”.  Þannig vældi hún í hálftíma áður en hún svo mikið sem hreyfði annan fótinn undan sænginni.  Ég missti þolinmæðina og sagði henni, höstugum rómi, að rífa sig framúr því nú færi skólinn rétt bráðum að byrja.  Aumingjans unginn staulaðist framúr rúminu með tárin í augunum yfir harðneskju þessa heims. 

 

Allt fór þetta þó vel að lokum.  Börnin voru öll komin á sína staði á réttum tíma, södd og allt að því úthvíld.  Já, þótt ótrúlegt megi virðast, var sú morgunfúla alsæl þegar í skólann kom og hljóp fagnandi á móti vinkonum sínum og bekkjarfélögum.  

 

Mér varð hugsi.

 

Er þetta ekki einmitt einhvern veginn svona, þegar Guð sækir okkur heim?   Hann hittir okkur misjafnlega fyrir.  Sumir bregðast við um hæl, brosandi á vör, fullkomlega meðvituð um hið heilaga í tilverunni.  Önnur gera það af skyldurækninni einni saman og skortir gleðina og barnslega einlægni trúarinnar.  Sumir láta sér fátt um finnast, heyra hvorki né sjá og halda út í lífið andlega hrjótandi.  Enn aðrir taka þetta á tárunum, ganga í gegnum gríðarlegar fæðingarhríðar inn í hina lifandi og endurnýjandi trú, en setjast síðan að í hinu heilaga með bros á vör.

 

Hvernig bregst þú við, þegar Guð kallar þig?  Ertu morgunfúl(l) eða… ?

 

 

 

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3302.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar