Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Halldór Gunnarsson

Barn fæðist

Barn fæddist og helg urðu jól. Jóhannesarguðspjall segir frá því með einni setningu: “Í upphafi var orðið og orðið var hjá Guði og orðið var Guð” Hann tengir fæðingu barnsins við sköpun himins og jarðar eins og segir í fyrstu Mósebók: “Í upphafi skapaði Guð himinn og jörð”

Alltaf er það jafn mikið kraftaverk, sem vekur með foreldrum hamingju og kærleika. Það höfðar til hins ósýnilega og eilífa, þegar fyrsti andardrátturinn er gripinn, brjóstið lyftist og skilin verða milli móður og barns.

Þessa sköpun má líkja við þá óskiljanlegu sköpunarhæfileika okkar, þegar við í breytni okkar og samskiptum, breytum hugsun okkar í orð frá okkar ósynilegu vitund til þess veruleika, sem við lifum í, heyrum og sjáum og getum þannig eins og þreifað á. Og síðan þetta stórkostlega að kenna barninu með því að tala við það.

Barn fæðist og hvað tekur síðan við?

Um fjögur þúsund börn fæðast árlega á Íslandi, sem sannarlega er það dýrmætasta sem við eigum, sem foreldrar gagnvart nýfæddu barni upplifa og síðan taka árin við að ala barnið upp til unglings- og fullorðinsára.

En það er, að því er virðist eitthvað mikið að gagnvart uppeldi. Heimilið er ekki eins og áður skjól uppeldis. Þriðja hvert hjónaband endar með skilnaði, áfengisböl nær til þriðju hverju fjölskyldu, fíkniefni ná til um 10% unglinga, róandi lyf eru gefin börnum í barna- og unglingaskólum og einangrun barna á heimilum birtist í því að barnið lifir og hrærist með tölvunni, í spennu tölvuleikja, hasarmynda og klámmynda. Börnin eru að týnast í þessum dauða efnisheimi okkar fullorðinna, þar sem þau fá minni tíma til að vera börn og æ minni leiðsögn frá foreldrum? Þeim er mörgum komið nýfæddum í dagfóstur, síðan í leikskóla og þaðan í grunnskóla, þar sem ætlast er til að uppeldið fari fram. Þar virðist stefna í, að ekki megi boða þar kristna trú eða fara með faðir vorið.

Spyrja má við þær aðstæður hvort við séum kristin þjóð? Við kristnitöku þjóðarinnar árið 1000 var heimilað að bera út börn. Sú heimild virðist enn vera til staðar, þar sem árlega fara fram um 1000 fóstureyðingar, þrátt fyrir nýja fóstureyðingartækni nútímans með svo nefndri “eftirápillu” og síðan skimuninni, þannig að það stefnir í, að aðeins heilbrigðum börnum sé leyft að fæðast!

Barn fæðist. Hvernig helgar það þig í lífi þínu? Ertu foreldri eða afi eða amma eða frændi eða frænka barnsins, sem kveikir með þér tilfinningar kærleika? Njóttu þess þá að nálgast barnið, hlúa að því og tala við það og kenna því bænir. Finndu þetta stórkostlega sem flæðir um þig þegar þú gleður barnið og gefur af sjálfum þér, tíma þinn, orðin þín og faðmlag. Nýttu þér einnig tækifærið, sem jólin vilja gefa þér til að nálgast barnið í sjálfum þér, með barnatrúnni, sem þú áreiðanlega átt í hjarta þínu. Tengdu hugsun þína til hinna fyrstu jóla og taktu þannig á móti jólaboðskapnum í einfaldleik sínum, því aðeins þannig ertu fær um að skilja nálægð Drottins Guðs í lífi þínu.

Barn fæddist og þá skildum við þetta heilaga og ósýnilega í lífi okkar. Þessa tilfinningu eigum við að geta tengt við hátíð jóla, sem koma til okkar með boðskap Drottins Guðs, um hvernig það veika verður sterkt og hvernig hið sýnilega vald með allri sinni tækni bregst og einfaldleikinn einn verður eftir, sem öllu máli skiptir í lífi okkar, að eiga einhvern að, sem kveikir með manni tilfinningar hamingju og kærleika.

Barn fæddist í jötu. Það var orð Guðs inn í líf okkar sem við getum heyrt en hávaði og skarkali heimsins með allri sinni tækni býður okkur annað. Jólin hverju sinni reyna að brjótast til okkar með hjálp þeirrar geymdar sem við eigum frá bernskujólum og þá lifum við heilaga stund. Guð gefi þér þá stund og með því heilög og gleðileg jól.

Um höfundinn4 viðbrögð við “Barn fæðist”

 1. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Þar [í leik- og grunnskólum] virðist stefna í, að ekki megi boða þar kristna trú eða fara með faðir vorið.

  Það hljómar eins og þér finnist það slæm þróun.

  Spyrja má við þær aðstæður hvort við séum kristin þjóð?

  Ég heyrði nú prest segja það í útvarpspredikun síðastliðins sunnudags að yfir 90% þjóðarinnar væru kristinnar trúar. Hann hlýtur að hafa haft einhverjar góðar ástæður fyrir að fullyrða þetta.

 2. Guðmundur Pálsson læknir skrifar:

  Þakka þér fyrir greinina Halldór, þú segir:
  „Við kristnitöku þjóðarinnar árið 1000 var heimilað að bera út börn. Sú heimild virðist enn vera til staðar, þar sem árlega fara fram um 1000 fóstureyðingar, þrátt fyrir nýja fóstureyðingartækni nútímans með svo nefndri “eftirápillu” og síðan skimuninni, þannig að það stefnir í, að aðeins heilbrigðum börnum sé leyft að fæðast!”

  Spurningin er, hvers vegna andæfir þjóðkirkjan sem stofnun ekki fóstureyðingum hér á landi? Lágmark væri að halda uppi virkum umræðum um þetta ágreiningsmál og hvetja menn til að skoða samviku sína. Spyrja hvað er landi og þjóð fyrir bestu og Guði þóknanlegt? En hún gerir það ekki. Virðist hafa lagst til svefns og sefur þungt. Þetta er atriði sem mér finnst ekki sæma kristinni kirkju.

 3. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Spurningin er, hvers vegna andæfir þjóðkirkjan sem stofnun ekki fóstureyðingum hér á landi?

  Mér dettur í hug tvær hugsanlegar ástæður:

  1. Meirihluti starfsmanna Þjóðkirkjunnar er sáttur við eða fylgjandi núverandi löggjöf og framkvæmd hennar.

  2. Þjóðkirkjan sem stofnun veit að þetta er umdeilt mál og afstaða í umdeildu máli myndi hugsanlega valda því að einhver myndi skrá sig úr kirkjunni og það þýddi minni tekjur.

 4. Guðmundur Pálsson læknir skrifar:

  Hittinn ertu og spaugsamur Hjalti Rúnar er þú segir: “Meirihluti starfsmanna þjóðkirkjunnar er sáttur við eða fylgjandi núverandi löggjöf og framkvæmd hennar.”

  Þetta er eflaust rétt hjá þér en viðhorfið er ekki kristið heldur er það heiðið (gert í heiðnum sið fyrir 1000 eins og Halldór segir) eða kannski veraldlegt fyrst. Kirkjan á auðvitað ekki að spila með veraldarhyggjunni. Ef hún leikur aðra fiðlu með valdinu er það er hið örugga kennimerki þess að hún er áttavillt.

  Enginn sannkristinn maður getur látið sem fóstureyðingar skipti ekki máli. Það liggur í innsta eðli kristinnar kenningar að verja ungviðið og frumstig þess og það er ávöxtur bænarinnar að maðurinn fær vitneskju um að þetta samþykkir Herrann aldrei. Þó er það mannsins að ákveða hvað hann gerir því hann er frjáls.

  Kirkjan sem stofnun getur hins vegar ekki ráðið yfir fóstureyðingamálum, skoðun löggjafans og þess háttar, það er annað mál, en hún á auðvitað að hvetja til umhugsunar og rannsóknar á samviskunni. Sérstaklega að hvetja til þess að maðurinn geri það í bænum sínum.

  Það er skoðun mín að hún eigi að andæfa jafnvel þótt hún hafi ekki valdið.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3004.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar