Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Skyldar færslurLeita

Munib Younan

Vonin í myrkrinu

Í síðara Korintubréfi, 4. kafla, 6. versi segir: „Því að Guð sem sagði: „Ljós skal skína fram úr myrkri!“ lét það skína í hjarta mitt til þess að birtu legði af þekkingunni á dýrð Guðs eins og hún skín frá ásjónu Jesú Krists.“

Frásögnin af námumönnunum í Síle sem voru innilokaðir undir margra tonna björgum í 69 daga, snerti alla heimsbyggðina. Á meðan björgunaraðgerðum stóð og ástvinir þeirra báðu og hjálpuðu til, gátu námumennirnir ekki gert neitt annað en að bíða. Von þeirra var fólgin í þeirri hjálp sem kom að ofan. Í myrkri og efa þurftu þeir að bíða eftir björguninni en þeir gáfu aldrei upp vonina. Loks kom dagurinn þegar þeir einn af öðrum voru hífðir upp á yfirborð jarðar, upp í skínandi sólarljósið.

Eins er með okkar dimmu veröld, inn í hana fæddist Kristur í Betlehem forðum, sem er ljós heimsins og von mannkyns.

Hvar sem þú finnur þig, hvar sem þú ert í heiminum, þegar þú ert umkringd myrkri heimilisofbeldis, hungurs og fátæktar, myrkri heilsuleysis, ranglætis og kúgunar, myrkri tilgangsleysis, einmanaleika og útilokunar - þá er boðskapur jólanna um ljósið sem skín fram úr myrkrinu og inn í hjarta þitt, þér ætlaður. „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist“ (Jóh 14.27).

Við sjáum myndina af ljósi Guðs sem frelsar og leysir, á jólakorti Lútherska heimssambandsins sem er frá El Salvador. Þar eru María og Jesúbarnið í hlutverkum flóttafólks dagsins í dag. Ljósið af himnum umvefur þau og lýsir upp umhverfið með mildum geislum sínum. Upplýst af ljósi barnsins í Betlehem er umhverfi þess kallað til að vera samfélag sem er sjálft ljós heimsins.

Kristín Þórunn Tómasdóttir þýddi.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2726.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar