Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Hjalti Hugason

Viljum við kjósa kött í sekk?

Fyrir skömmu birti ég hér á síðunni og víðar pistil um trúmál og stjórnarskrárbreytingar einkum hvort bera ætti kirkjuskipan landsins (núv. 62. gr. stjskr.) upp til sérstakrar þjóðaratkvæðagreiðslu án frekari umræðu eða ekki. Nokkur umræða hefur skapast um pistilinn og nú er mál að draga saman nokkra þræði.
Umræðan virðist hafa skýrt það sem ég varpaði fram í pistlinum sem sé að það væri „galið“ að bjóða þjóðinni upp á sérstaka kosningu um þessa einu grein. Það væri líkt og að bjóða henni kött í sekk. Í raun skiptir hin umdeilda 62. gr. sáralitlu máli. Staða þjóðkirkjunnar veltur ekki á henni einni og hún kemur heldur ekki í veg fyrir breytingar. Allra síst stendur hún í vegi fyrir stefnumarkandi umræðu eins og einhver hefur haldið fram. Sú umræða er raunar þegar komin af stað.

Fjórar stefnur
Eins og ég les viðbrögð við pistli mínum um „þjóðkirkju í vari“ hafa fjórar meginlínur komið í ljós. Best er að byrja á þeim sem lengst vilja ganga í breytingum.
Einn af þeim sem bregt við heldur því fram að eina ákvæðið sem fram þurfi að koma í stjskr. sé um „rétt fólks til að iðka trú og stofna um það félag.“ Þessu er auðvelt að vera sammála. Hvað hann raunverulega á við skýrist þó í síðara viðbragði þar sem hann segir: „Er ekki máið að afnema sérlög um trúfélög og hafa bara ein lög um félög…“ Þarna liggur einmitt hundurinn — nú eða kötturinn — grafinn. Það hangir sem sé eilítið meira á spýtunni hjá sumum sem segjast aðeins vilja afnema kirkjuskipanina eina. Þeir vilja sumir algerlega „sekúlera“ stjskr. en er það ábyggilega besti kosturinn á tímum vaxandi fjölhyggju? Ég efast um það.
Önnur stefna kemur fram í ummælum nýkjörinnar stjórnlagaþingskonu sem segir að ekki sé góður kostur að „fella 62. gr. niður og setja ekkert annað ákvæði um stöðu trúmála í hennar stað“. Þar með mælir hún gegn ofangreindu sjónarmiði. Athyglisvert er þó að hún segir að umræða um trúmál í stjórnarskránni „megi alls ekki verða á kostnað annarra mikilvægra atriða sem þarf að taka afstöðu til“. Vissulega er þetta satt og rétt en hér er sett fram sjónarmið sem alltaf hefur verið ríkjandi við stjórnarskrárbreytingar frá 1874. Það hefur aldrei þótt tími, tækifæri eða ástæða til að ræða trúarlegan rétt sérstaklega. Þess vegna sitjum við uppi með 19. aldar ákvæði nú í upphafi 21. aldar. — Verður svo enn um sinn? Vonandi ekki.
Þriðja línan felst í því hvort núverandi trúfrelsisákvæði í 63., 64. og að nokkru leyti 65. gr. stjskr. nægi ekki til að setja leikreglur á sviði trúmála. Þetta er að mínu mati kostur sem verðskuldar alla athygli. Rétt væri þó að færa fyrri greinarnar tvær til nútímalegra horfs og staðsetja þær með öðrum mannréttindaákvæðum. Þarna þyrfti að kveða vel á um rétt fólks til trúarlegrar tjáningar en vernda líka stöðu þeirra sem vilja vera laus við slík áreiti.
Loks hefur komið fram fjórða stefnan sem felst í því að óska eftir enn nánari tengslum ríkis og kirkju og/eða trúfélaga til að tryggja að þau breyti í anda almennra mannréttinda. Þetta er sannarlega umdeild leið ef hún er aðeins farin með afdráttarlausari lagasetningu. Með samningum má þó komast lengra og ná því besta út úr hugmyndinni sem annars virðist ekki góð.

Markmiða er þörf
Áður en hrapað er að ákvörðun eftir klassísku íslensku munstri en það felst sem kunnugt í því að taka fyrst ákvörðun og sjá svo til hvort slampist ekki án stórslysa — eða a.m.k. Hruns — virðist þörf á að spyrja hvaða markmiðum við viljum ná með breytingum t. d. á 62. gr. stjskr. Ef við gerum það ekki fer fyrir okkur eins og frændum okkar í Svíaríki sem hugðust aðskilja ríki og kirkju um aldamótin 2000 en átta sig nú á því áratug síðar að það sem gerðist var aðeins tengslabreyting, “relationsförändring“, sem hefur bæði orðið jákvæð og neikvæð en ekki valdið neinu stórtjóni. Spurningin er sem sé: Hvert viljum við fara?
Viljum við veraldarvætt ríkisvald sem ekki sé skilgreint af neinum trúarbrögðum eða kirkjudeild? Ef svo er höfum við það nú þegar. 62. gr. stjskr. bindur ekki hendur ríkisvaldsins nema að einu leyti. Það má ekki setja þjóðkirkjunni löggöf sem brýtur í bága við lútherska guðfræði og hefð eins og hún er skilgreind í fimm ákveðnum höfuðjátningum lútherskrar kirkju. Ríkisvaldið sjálft er á hinn bóginn algerlega óháð lútherskri játningu. Kirkjumálaráðherra þarf t. d. ekki einu sinni að vera í kirkjunni.
Viljum við veraldarvætt samfélag sem ekki taki í neinu mið af lútherskri eða þess vegna kristinn hefð? Vera má að niðurfelling 62. gr. sé eitthver skref í þá átt. Það er þó fyrst og fremst þjóðfélagsleg og menningarleg þróun meðal þjóðarinnar sem sker úr um hvort þetta ástand kemur hér upp fyrr eða síðar. Kirkjuskipanin ræður raunar sáralitlu þar um. A.m.k kemur hún ekki í veg fyrir að þessar aðstæður skapist meðal þjóðarinnar. Það er þó alls óvíst hvort meirihluti þjóðarinnar telur þetta æskilegt markmið. Eins og horfir í dag virðist það þó lengra undan en margir huggðu um miðbik 20. aldar. Tímabil „sekúlaríseringarinnar“ er liðið í bili. Nú er rætt um endurkomu trúarbragða í Evrópu.
Viljum við hugsanlega aðeins aukið trúfrelsi og/eða aukið jafnræði trúfélaga? Það er mjög sanngjörn ósk sem auðvitað á að taka alvarlega. 62. gr. stjskr. ræður þó ekki úrslitum í því efni. Niðurfelling hennar tryggir ekki þetta markmið og hún kemur tæplega heldur í veg fyrir það. Stjórnarskráin mælir vissulega fyrir um stuðning og vernd einu trúfélagi til handa. Hún bannar hins vegar ekki að öðrum sé veitt hliðstæð vernd. Mismunun trúfélaga er með öðrum orðum ekki óhjákvæmileg afleiðing 62. gr. stjskr.

Æskilegar breytingar
Hér hefur verið látið að því liggja að spurningin sem vert sé að spyrja sé ekki hvort hlaupa beri til og fella 62. gr. stjskr. brott eins fljótt og hægt er. Því skal þvert á móti haldið fram að við verðum að taka glímuna um það hvert við viljum fara þó svo það taki óhjákvæmilega einhvern tíma hjá einhverjum. Ýmsum markmiðum sem haldið hefur verið fram í aðskilnaðarumræðunni má þó ná með ákveðnum fínstillingum.

Margir velta með réttu fyrir sér hvort það sé eðlilegt að börn séu skráð í trúfélag (oftast móður) frá fæðingu eða ekki. Að vísu má færa fyrir þessu málefnaleg rök. Foreldrar (forráðamenn) fara með frumlægan uppeldisrétt barna og eiga því að hafa úrslitaáhrif á t. d. trúarlega mótun þeirra. Það er því tæpast óverjandi að barn fylgi móður í þessu efni þar til annars er óskað. Hins vegar má færa fyrir því mjög gild guðfræðileg rök að skráning í kristið trúfélag, þar á meðal þjóðkirkjuna, fari eingöngu fram við skírn. Hugsanlega hefur þjóðkirkjan hikað við að taka þetta skref vegna þess að með því má líta svo á að hún þrengi inntökuskilyrði sín, nálgist það að verða játningarkirkja en ekki þjóðkirkja sem sé öllum opin.
Aðrir benda á fjárhagslega mismunun trúfélaga. Vissulega grundvallast fjárhagstengsl ríkis og þjóðkirkju að mestu leyti á eignatilfærslu frá þjóðkirkjunni til ríkisins á 20. öld og eru því alls ótengd þjóðkirkjuskipaninni og 62. gr. stjskr. sem slíkri. Þó koma og til aðrar greiðslur frá ríki til sjóða þjóðkirkjunnar sem önnur trúfélög eiga ekki hlutdeild í.
Fastlega kemur til álita að breyta þessu atriði óháð kirkjuskipaninni. Til dæmis mætti hugsa sér að öll skráð trúfélög fengju fé frá ríkinu er næmi hlutfalli af umræddum greiðslum til þjóðkirkjunnar. Ætti hlutdeild hvers og eins að ráðast af höfðatölu í trúfélaginu, fjölda starfsstöðva og dreifingu þeirra um landið. Þá þyrfti og að taka tillit til þeirra samfélags- og menningarlegu hlutverka er hvert trúfélag gæti sýnt fram á að það gegndi meðal þjóðarinnar í heild en ekki aðeins eigin félagsmanna. Raunar mun þjóðkirkjan sjálf hafa bryddað upp á fyrirkomulagi af þessu tagi án árangurs.

Má bjóða upp á samstarfskirkjulíkan?
Möguleikar á tengslum trúfélaga og ríkisvalds eru fjölmargir eins og skýrst hefur í þeirri umræðu sem hér var rakin. Einn möguleiki er svokallað samstarfskirkjulíkan sem lítið hefur farið fyrir í íslenskri umræðu.
Í því felst að öll trúfélög sem það vilja geta myndað tengsl við ríkisvaldið af líku tagi og þjóðkirkjan hefur nú. Til þess að öðlast þá stöðu þurfa frjáls trúfélög og fríkirkjur vissulega að afsala sér hluta af frelsi sínu og veita utanaðkomandi aðilum — einkum ríkinu — aukna innsýn í starf sitt. Auk þess er eðlilegt að krefjast að þau starfi í anda lýðræðis, jafnréttis og almennra mannréttinda. Í staðinn gætu þau öðlast hlutdeild í þeim (meintu) gæðum sem þjóðkirkjan nýtur nú, þ. e. njóta einhvers fjárhagslegs baklands og þess „móralska stuðnings“ sem ríkið veitir þjóðkirkjunni nú. Á þennan hátt væri janfstaða trúfélaga tryggð. Lífsskoðunarfélög ættu að sjálfsögðu að eiga kost á sömu stöðu.
Eftir stendur að „sekúlaristarnir“ verða að vinna þjóðina á sitt band vilji þeir ná markmiðum sínum. Þeir verða að sýna henni fram á að þeir hafi uppá eitthvað að bjóða sem sé ótvírætt betra en samfélag þar sem 1000 blóm fá að gróa í sama beði. — Eða erum við Íslendingar þegar orðin „sekúlaristísk“ þjóð sem vill fá að una glöð í efnishyggju í friði fyrir allri trú? Ég efast um það.

Um höfundinn8 viðbrögð við “Viljum við kjósa kött í sekk?”

 1. Matti skrifar:

  Hér vantar vísun á pistilinn og umræðurnar sem Hjalti fjallar hér um með sínum hætti!

 2. Matti skrifar:

  Hver eru eiginlega rökin gegn því að aðskilja algjörlega ríki og kirkju? Að ríkið skiptir sér ekkert af trúmálum og að trúfélög hafi engin afskifti af ríkinu.

  Ég sé ekki að þau komi fram hér frekar en áður.

 3. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Í raun skiptir hin umdeilda 62. gr. sáralitlu máli. Staða þjóðkirkjunnar veltur ekki á henni einni og hún kemur heldur ekki í veg fyrir breytingar.

  Ef þetta er rétt þá finnst mér undarlegt að sumt fólk frá kirkjunni skuli vera svona rosalega á móti því að fella hana brott. Svo er auðvitað hægt að réttlæta mismunum með því að vísa í þessa grein.

  Þarna þyrfti að kveða vel á um rétt fólks til trúarlegrar tjáningar en vernda líka stöðu þeirra sem vilja vera laus við slík áreiti.

  Ég veit ekki hvort það sé þörf á því, held að ákvæði um tjáningarfrelsi dugi alveg.

  Niðurfelling hennar [62. greinarinnar] tryggir ekki þetta markmið og hún kemur tæplega heldur í veg fyrir það. Stjórnarskráin mælir vissulega fyrir um stuðning og vernd einu trúfélagi til handa. Hún bannar hins vegar ekki að öðrum sé veitt hliðstæð vernd. Mismunun trúfélaga er með öðrum orðum ekki óhjákvæmileg afleiðing 62. gr. stjskr.

  Þetta er eflaust satt svo langt sem það nær. En með þessu ákvæði er hægt að réttlæta mismunum. T.d. ef við hefðum ákvæði eins og: “Sjálfstæðisflokkurinn er þjóðstjórnmálalfokkur Íslands og skal ríkið að því leytinu til styðja hann og vernda.“, þá væri alveg hægt að segja að þessi grein myndi ekki tryggja mismunun, þar sem að það segir ekki beinlínis að aðrir flokkar myndu ekki fá þessa vernd. En það er ljóst að með vísan í svona ákvæði væri hægt að réttlæta mismunun.

  Hugsanlega hefur þjóðkirkjan hikað við að taka þetta skref vegna þess að með því má líta svo á að hún þrengi inntökuskilyrði sín, nálgist það að verða játningarkirkja en ekki þjóðkirkja sem sé öllum opin.

  Önnur ógöfugri (og að mínu mati sennilegri) ástæða er sú að með þessari breytingu sæi kirkjan fram á fækkun meðlima og þar af leiðandi minni pening.

 4. Matti skrifar:

  Takið samt eftir einu:

  Viljum við hugsanlega aðeins aukið trúfrelsi og/eða aukið jafnræði trúfélaga? Það er mjög sanngjörn ósk sem auðvitað á að taka alvarlega.

  Af hverju talarðu hér um “jafnræði trúfélaga”? Af hverju ekki “jafnræði íslendinga”? Íslendingar eru ekki allir í trúfélögum og þeir sem standa utan trúfélaga eiga að vera algjörlega jafngildir þjóðfélagsþegnar og þeir sem í trúfélag eru skráðir. Vissulega geri ég mér grein fyrir því að þetta er framandi hugsun fyrir þá er útskrifast úr guðfræðideild en reynið samt að hugsa þetta aðeins. Til er fullt af fólki sem er ekki í trúfélagi. Til er fullt af fólki sem trúir ekki á neinn gvuð.

  Stjórnarskrá Íslands á ekki að mismuna fólk út frá því hvort það er skráð í trúfélag eða ekki. 62. grein stjórnarskrárinnar gerir það. Þið getið reynt að verja þá mismunun en þá eruð þið að mínu mati að misskilja tilgang stjórnarskrár. Við getum alveg eins sleppt slíku plaggi ef markmið þess er ekki að sjá til þess að allir þegnar landsins séu jafnréttháir.

 5. Guðmundur Pálsson skrifar:

  Góðan daginn komið þið sæl.

  Mín skoðun er sú að stjórnarskrá Íslands MEGI ekki mismuna fólki eftir því hvort það er trúað eða ekki. Þetta er grundvallaratriði sem ég held að flestir Íslendingar séu í hjarta sínu sammála þessu. Mismunun hefur verið í gangi en við höfum ekki viðurkennt hana eða ekki séð hana.

  Annað grundvallaratriði að mínu áliti er að sjálf kirkjan getur aldrei orðið sterk við hliðina á ríkinu nú þegar ríkisvaldið er óðum að breyta um eðli og þarf að taka tilliti til fjölmenningar. Þetta er eins og hjónaband þar sem maðurinn er kominn með hjákonu.

  Þrengt er að þjóðkirkjunni og hún á um tvo kosti að velja: Að halda í gömul tengsl eða sleppa. Velji hún fyrri kostinn er mín skoðun er sú að kirkjan muni verða verða veikari rödd á meðal fólksins því ávallt þarf hún að spyrja sig hvernig hinn veraldlega stjórnskipan lítur á ólík vandamál - og gæta sín síðan á því að viðhorf hennar stangist ekki á við ríkið.

  Þetta leiðir til þess að hún verður að taka á sig veraldlegan stakk sem ég held að trúuðu fólki líki ekki og hinir vantrúa munu aldrei skilja slíka kirkju eða átta sig á raunverulegum tilgangi hennar.

  Af langri reynslu gerir heimskirkjan þetta ekki, (sú kaþólska og orþódoxa) og geta þær því varðveitt og boðað trúna ómengaða af áhrifum hins veraldlega valds og tímans trillta dansi. Þannig kirkjur geta verið sannar og sterkar og boðað skoðun sína meðal fólksins í aðskiljanlegustu málum séð með augum trúarinnar. Fólk er hjartanlega fegið að slíkar raddir skuli vera til.

  Kristinn siður er svo sérstakur, eilífur og róttækur að veraldlega valdið mun aldrei geta skilið hana. Þetta er því grundvallaratriði að kirkjan haldi sig frá ríkisvaldinu.

  Ég hef bent á það áður að engin stofnun eigi samt að taka þessa ákvörðun um samband ríkis og kirkju heldur þurfi þjóðin öll að koma að henni í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er nauðsynlegt til að fá sátt um niðurstöðuna.
  Hlutverk kirkjunnar í þessu sambandi er að kalla fram eðllegar og sanngjarnar umræður um málið eins og Hjalti virðist raunar vera að gera.

 6. Matti skrifar:

  Umræðuhefð ríkiskirkjunnar er alltaf jafn áhugaverð. Við hin höldum þá bara áfram að ræða málin.

  Í raun skiptir hin umdeilda 62. gr. sáralitlu máli. Staða þjóðkirkjunnar veltur ekki á henni einni og hún kemur heldur ekki í veg fyrir breytingar

  Ég held þvert á móti að 62. grein stjórnarskrár komi í veg fyrir breytingar. Þetta get ég rökstutt t.d. með vísan í síðustu leik- og grunnskólalög, þar sem einmitt var vísað í 62. greinar stjórnarskrár í umræðum á Alþingi til að réttlæta að halda vísun í kristna trú í leik- og grunnskólalögum.

  Það er að mínu mati algjörlega ljóst að meðan 62. grein stjórnarskrár er eins og hún er í dag getur Alþingi ekki breytt sambandi ríkis og kirkju. Það skortir einfaldlega vilja þingmanna, jafnvel þó vilji þjóðarinnar sé afar skýr.

  Þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta mál er að mínu mati ekki nauðsynleg - frekar ætti að kjósa um nýja stjórnarskrá í heild sinni. Þar með væri þetta atriði.

  Segið mér annars, af hverju ætti þjóðin að kjósa um samband ríkis og kirkju en ekki t.d. að landið yrði gert að einu kjördæmi eða að ráðherrar sitji ekki á Alþingi. Af hverju er þetta eitthvað merkilegra en hitt?

 7. Hjalti Hugason skrifar:

  Við Matti erum sammála — um praktísku hliðina.

  Engar sérkosningar um 62. gr. eins og Þorvaldur Gylfason virtist leggja til um daginn heldur kosningar um nýja eða endurskoðaða stjórnarskrá þar sem m.a. er tekið á trúmálunum með vönduðum hætti.

  Ég held Matti ofmeti hins vegar 62. gr.– 1. jan. 1998 urðu miklar breytingar á sambandi ríkis og kirkju. Kirkjan var aðgreind frá ríkinu sem stofnun. Ekki kom 62. gr. í veg fyrir það.

  Loks er ég ekki sannfærður um beint samband milli nefndrar greinar í grunnskólalögum og 62. gr. Það er örugglega mögulegt að fella gildagrein grsk-laga út að óbreyttri 62. gr. Það er líka hægt að færa önnur rök fyrir að hún skuli vera inni jafnvel þó 62. gr. félli brott. Það eru hin klassísku rök um menningararfinn sem breytist ekkert við það að 62. gr. hverfi. Enda er þar vísað til „kristinni arfleifð íslenskrar menningar“ en ekki ev.-lúth. kenningar sérstaklega.

 8. Matti skrifar:

  Ég held Matti ofmeti hins vegar 62. gr.– 1. jan. 1998 urðu miklar breytingar á sambandi ríkis og kirkju. Kirkjan var aðgreind frá ríkinu sem stofnun. Ekki kom 62. gr. í veg fyrir það.

  Enda minnkaði “stuðningur” ríkis við kirkju ekki vitund við þær miklu breytingar. Þetta voru breytingar sem kirkjan sjálf óskaði eftir.

  Nú er ég að tala um breytingar sem kirkjan berst gegn. Vísað verður í 62. grein til að koma í veg fyrir slíkar breytingar. Það hefur satt að segja þegar verið gert ítrekað.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3307.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar