Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Arnfríður Guðmundsdóttir

Vantraust á vígðar konur?

Það er algengt að gengið sé út frá því að jafnrétti kynjanna aukist með tímanum. Þessvegna hafa konur tíðum verið hvattar til að sýna þolinmæði í baráttu sinni fyrir auknum réttindum þar sem þetta sé allt á réttri leið. Fullu jafnrétti verði örugglega náð að lokum, bara ef við gefum því nauðsynlegan tíma.

Fyrir fjórum árum ritaði ég pistil sem birtist á tru.is undir heitinu „Hvar eru vígðu konurnar?“ Þar rakti ég þátttöku kvenna á Kirkjuþingi frá árinu 1998, þegar aðeins ein (vígð) kona var fulltrúi á Kirkjuþingi (5% af heildarfjölda). Árið 2002 varð mikil breyting á kynjasamsetningu Kirkjuþings þegar konum fjölgaði úr einni í sex, þrjár prestsvígðar og þrjár úr hópi leikmanna. Þetta voru fyrstu kosningar eftir samþykkt jafnréttisáætlunar kirkjunnar, sem tók gildi 1. Janúar 1999. Í kosningunum árið 2006 urðu konur tæplega helmingur leikra á Kirkjuþingi (alls átta af sautján) á meðan vígðum konum fækkaði um eina og urðu tvær af tólf vígðum fulltrúum (eða tæp 17%). Er þar að finna skýringu á heiti pistilsins sem ég ritaði fyrir fjórum árum. Að auki fækkaði konum í Kirkjuráði niður í eina á kjörtímabilinu 2006-2009. Þar með átti vígð kona ekki lengur sæti í æðstu valdastofnun kirkjunnar.

Á síðasta vori var svo enn á ný kosið til Kirkjuþings. Á nýju Kirkjuþingi héldu leikmenn óbreyttu kynjahlutfalli en vígðum konum fjölgaði um eina frá síðasta þingi (eru nú þrjár en karlarnir níu, eða 25%). Þetta er vissulega fjarri settu marki jafnréttisáætlunar kirkjunnar, þar sem miðað er við að hlutfall karla eða kvenna fari ekki undir 40% í nefndum og ráðum kirkjunnar. Viðmiðið er í samræmi við ákvæði í íslenskum jafnréttislögum og stefnu alþjóðlegra kirkjuhreyfinga sem íslenska þjóðkirkjan er aðili að. Hlutfall kvenna er þó ennþá lægra í Kirkjuráði sem kosið var fyrir tæpum mánuði síðan, eða 20%. Þar er kynjahlutfallið óbreytt frá síðasta kjörtímabili, þar sem situr aðeins ein kona en fjórir karlar og engin kona úr hópi prestsvígðra fulltrúa Kirkjuþings.

Að engin prestsvígð kona sitji í Kirkjuráði, sem kosið er af fulltrúum á Kirkjuþingi, veldur mér áhyggjum. Það gengur vissulega hægt að jafna kynjahlutfallið í hópi prestsvígðra á Kirkjuþingi. En að Kirkjuþing, annað kjörtímabilið í röð, treysti sér ekki til að framfylgja jafnréttisáætlun sem það samþykkti sjálft mótatkvæðislaust vekur spurningar um vinnubrögð Kirkjuþings en jafnframt trúverðugleika þess. Lítur Kirkjuþing kannski svo á að það sé á engan hátt bundið af íslenskum lögum (a.m.k. ef um jafnréttislög er að ræða) eða samþykktum sem það sjálft hefur staðið að? Mér finnst erfitt að skilja þessa ítrekaðu útilokun prestsvígðra kvenna úr Kirkjuráði ekki sem vantraustsyfirlýsingu gegn þeim. Getur verið að það sé málið?

Um höfundinn9 viðbrögð við “Vantraust á vígðar konur?”

 1. Pétur Björgvin Þorsteinsson skrifar:

  Það er bæði þarft og brýnt að benda á þetta misræmi eins og þú gerir hér Arnfríður og þakka ég þér fyrir að koma fram á ritvöllinn með þessa ábendingu. Við hana má bæta að í framkvæmdaáætlunarhluta Jafnréttisstefnu kirkjunnar setur kirkjan sér sérstaklega það markmið að

  4.3. Að jafna hlut kynjanna í stjórnunarstöðum innan kirkjunnar

  Hér hefði ég viljað sjá kirkjuþingsfulltrúa taka af allan vafa um að það sé einbeittur vilji kirkjustjórnarinnar að gæta þess að kynjahlutfall sé sem jafnast. En því miður missti kirkjuþing af þeirri lest. Enn eina ferðina tekst okkur sem kirkju að birta mynd af okkur sem forpokaðri, gamaldags kirkju. Hvert glatað tækifæri eins og þetta er skref í átt að hnignun kirkjunnar.

 2. Kristín Þórunn skrifar:

  Glatað tækifæri = hnignun kirkjunnar.

 3. Arnfríður Guðmundsdóttir skrifar:

  Bestu þakkir, Pétur, fyrir að hnykkja á þessu. Þessi nýja framkvæmdaáætlun sem Kirkjuþing hefur nýlega samþykkt með endurskoðaðri jafnréttisáætlun tekur af öll tvímæli um vilja kirkjunnar í orði. En svo þegar á reynir þá sitjum við uppi með óbreytt ástand. Það er mikilvægt að lyfta upp þessu misræmi og kalla eftir viðbrögðum þeirra sem málið varðar.

 4. Sigríður M. Jóhannsdóttir skrifar:

  Kirkjustjórnin sem var með eina konu innan dyra hefur gætt þess að í nefndir og ráð kirkjunnar sem kirkjuráð ræður yfir sé jafn hluti karla og kvenna, í aðal og varanefndum. Síðasta kirkjuráð sat frá 2006 - 2010. Þar sem ég var í Kirkjuráði sl. tvö tímabil eða í 8 ár, hef ég ekki orðið vör við erfiðleika að ná fram jafnréttismálum en konur þurfa líka að vera tilbúnar að standa í brúnni.

 5. Pétur Björgvin Þorsteinsson skrifar:

  Sigríður, takk fyrir innleggið, ég veit vel að þú hefur aldeilis staðið vaktina í Kirkjuráði og hef á engan hátt efni á því að setja nokkuð út á þín störf þar. En eftir stendur að sú mynd sem birtist almenningi samanber þessa frétt er af karllægri kirkju, en ekki kirkju jafnréttis. Myndir fela í sér skilaboð og við þurfum að vera meðvituð um það. Mynd af forystu kirkju þar sem karlar og konur standa jafnvígis og eru nokkurn vegin jafn stórir hópar eru skilaboðin sem ég vil að kirkjan gefi t.d. til dóttur minnar.

 6. Guðrún Karlsdóttir skrifar:

  Takk fyrir að skrifa þennan pistil Arnfríður.
  Það er áhyggjuefni að meirihluti fulltrúa okkar á kirkjuþingi telji ekki ástæðu til þess að kjósa vígða konu í kirkjuráð. Ég hef ekki orðið vör við skort á framboði kvenna til kirkjuþings eða í kirkjuráð.
  Það eru til aðferðir til þess að ná fram jafnari hlutföllum þegar kosið er (t.d. fléttukosning) og mér finnst ljóst að tími sé kominn til þess að taka upp einhverra þessara aðferða við kosningar á kirkjuþing og í kirkjuráð. Annað virðist ekki virka.

 7. Matti skrifar:

  Ég skil ekki vandamálið. Er ekki rík hefð fyrir þessu ójafnrétti? Hafa karlmenn ekki stjórnað gegnum tíðina?

  Hingað til hefur hefðin talist nægileg réttlæting á trú.is - gott að sjá að hlutirnir breytast, það verður spennandi að fylgjast með framhaldinu :-)

 8. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Þetta þykir mér heldur einföld sýn á trú.is Matti. Það er fjöldi pistla sem fæst með gagnrýnum hætti við hefðina birtur hér á vefnum. Prédikanir líka. Þú þarft greinilega að lesa meira ;)

 9. Kristín Þórunn skrifar:

  Æ já það er satt, konur eru svo ansi óviljugar að standa í brúnni (andvarp!)

  Annars er fjallað um þessa grein Arnfríðar hér í dag: http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/12/16/hvar_eru_vigdu_konurnar/

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4086.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar