Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Sigrún Óskarsdóttir

Tökum höndum saman

Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín. Matt 25.35-37

Það eru miklar andstæður í samfélaginu okkar. Velmegun þrátt fyrir Hrun. Orð eins og „nýríkir“ og „nýfátækir“ hafa merkingu. Bilið breikkar. Sum hafa alltof mikið, önnur alltof lítið. En það er alveg ljóst að óháð efnahag er þörfin fyrir umhyggju og nálægð hrópandi. Það eru allskonar tilboð um afþreyingu í boði en mest þráum við samfélag. Hvort sem rótin að einsemd er kvíði, ótti, ofbeldi eða depurð þá eigum við sem samfélag að láta okkur líðan hvers annars varða.

Flótti frá því að takast á við lífið hefur ýmsar birtingarmyndir. Aukning í fíkniefnaneyslu. Vændi, skipulagt og tilfallandi. Rán, barsmíðar og nauðganir. Við eigum ekki að sætta okkur við að geta ekki gengið óhrædd um götur borgarinnar okkar. Við eigum ekki að sætta okkur við aukið ofbeldi í skjóli nætur. Við megum heldur aldrei loka augum fyrir heimilisofbeldi og þeirri staðreynd að alltof mörg börn búa við kynferðislega misnotkun og annarskonar misbeitingu.

Hver ber ábyrgð? Þegar kemur að börnunum okkar er eðlilegt að beina sjónum að heimilum, skóla og einnig kirkjunni. Í fjölmenningarsamfélagi er nauðsynlegt að kirkjan eigi samtal og samstarf við önnur trúarbrögð um að styðja hvert annað í því að taka ábyrgð og berjast gegn hverskyns mismunun og óréttlæti. Við eigum að taka höndum saman og byggja farsælt samfélag með víðsýni og umburðarlyndi að leiðarljósi.

Sem kirkja höfum við skyldu að gegna. Við eigum ekki að leita skjóls, heldur veita skjól. Við eigum að taka þátt. Við eigum að vera kirkja orða og verka. Orð Jesú í Matteustarguðspjalli eru orð sem hvetja til verka. Hjálparstarf kirkjunnar vinnur óeigingjarnt og metnaðarfullt starf. Í söfnuðum landsins er merkilegt menningar-, samfélags og trúarstarf unnið með kærleikann að leiðarljósi.

Kirkja er samfélag fólks sem trúi, og vonar. Við þurfum á von að halda á erfiðum tímum. Trúin færir okkur von um batnandi tíð. Kærleikurinn er drifkrafturinn sem þarf til þess að trúin og vonin fái næringu.

Það er víða þröngt í búi þessa aðventu. Einstaklingar og fjölskyldur leita aðstoðar í kirkjum og á fleiri stöðum þar sem aðstoð er veitt fyrir jólin. Það reynist mörgum þung skref að leita eftir aðstoð. Við erum fámenn þjóð og rík -þrátt fyrir allt- hér eiga allir að hafa sómasamlega í sig og á um þessi jól og ekki bara um jólin, heldur alla daga. Guð gefi okkur vit og vilja til þess að sú verði raunin.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2791.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar