Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Örn Bárður Jónsson

Svipmót þjóðar, landhelgi og andhelgi

Við lifum tíma umbrota og átaka. Tekist er á um hugmyndafræði, hagstjórn, stjórnmálastefnur og hin stærri stef tilverunnar. Stöðugt er tekist á um landamerki á mærum hagsmuna og hugmyndaheima.
 Þá liggur e.t.v. beinast við að spyrja um hið stóra samhengi: Hvar liggja mörk þessa lífs? Hversu stór er landhelgi lífsins? Hvar liggja mörk hins mögulega og hver eru mörk hins stærsta sem til er? Hver eru mörk almættisins? Hér er dæmi um formúlu sem svarar því með sínum hætti: „Guð er hringur, hvers miðja er allstaðar og ystu mörk hvergi.“ Landhelgi hans nær skv. þessu utan um allt og ystu mæri eru ekki til.

Engin mörk ná utan um almættið en hins vegar hefur allt í hinum skapaða heimi sín mörk. Fjögurra mílna landhelgi Íslands var ekki stór á sínum tíma en hún var aðeins áfangasigur. Þá voru mærin færð í 12, 50 og loks 200. „Föðurland vort hálf er hafið“, segir í sjómannasálmi einum.

Um aldir hafa menn barist og þrefað um landamerki. Saga Íslands á liðinni öld er saga sjálfstæðis og stöðu gagnvart umheiminum. Hver þjóð þarf að marka sér stöðu og hafa sjálfsmynd. Og nú er spurt um sjálfsmynd þjóðar? Hvað mun standa í nýrri stjórnarskrá? Verður hún einskonar nýtt andlit þjóðar eftir lýtalækningar með botoxi, hrukkusléttun, nefminnkun og varastækkun? Eða fær hún að eldast með reisn og taka eðlilegum breytingum eins og lífið sjálft, vaxa sem tré með fögru limi? Og svo má líka spyrja í ljósi umræðunnar á síðast liðnum misserum um kirkju og kristni: Hvar liggja mörk andhelgi þjóðarinnar? Og hver ver andhelgina?

Við eigum okkar andhelgi eða andlegan arf, menningar- og trúararf. Sótt er það þessum arfi með ýmsum hætti nú á síðustu tímum. Við sem látum þennan arf okkur einhvers varða þurfum að hjálpast að við að varðveita hann, verja andhelgina, stand vörð um hin gömlu og grónu gildi sem verið hafa þjóðinni sem leiðarsteinn í stafni í þúsund ár. Gerum það, hvert og eitt, og þá mun okkur farnast vel sem þjóð og rata út úr þeim hafvillum sem við lentum í.

Jólin eru hátíð ljóss og friðar. Friður er og verður aðeins til sem ávöxtur réttlætis. Stuðlum að réttlátu þjóðfélagi á grunni kristinna gilda og friðurinn mun renna upp eins og sólin sem breytir nótt í dag.

Ég óska lesendum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Svipmót þjóðar, mæri og andhelgi
Pistill ritaður fyrir Vesturbæjarblaðið í desember 2010.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4088.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar