Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Þórhallur Heimisson

Konungarnir 3 -og fleira sem EKKI er að finna í jólaguðspjallinu.

Hérna ætla ég til gamans að nefna nokkur atriði úr jólasögunni sem þú taldir þig örugglega vita að bæru þar á góma - en hvergi er sagt frá - fyrr en mörgum öldum eftir að guðspjallið var ritað.

Þó að sumir vilji meina að einmitt þessi atriði sýni tengsl sögu Jesú við sögur af gömlum guðum fornaldarinnar - eins og einn broslegur pistlahöfundur Ríkisútvarpsins gerði fyrir stuttu í síðdegisútvarpinu og fór nú heldur flatt á sagnfræðinni.

Þetta eru sem sagt allt síðari tíma viðbætur - til að krydda söguna.

1. ASNINN sem María sat á á leiðinni til Betlehem. Hans er hvergi getið fyrr en á 4. öld.

2. LÖMBIN. Sama er að segja um sauðféð í fjárhúsinu. Hvergi er á það minnst í guðspjallinu, það bættist fyrst við á 4. öld eins og asninn.

3. KONUNGARNIR ÞRÍR. Bíddu, heita þeir ekki Kasper, Melkíor og Baltasar? Jú, það vita öll börn. Og líka að þeir voru þrír. Og pistlahöfundurinn á Rúv tengdi þá við stjörnurnar 3 í konungabelti stjörnumerkisins Orions.

En, nei, því miður, ekki er orð að finna um fjölda þeirra eða nöfn  í guðspjallinu.

Og hvað eru eiginlega þessir „konungar“? Magoí heita þeir á grísku - sama orð og magician á ensku.

Líklegast stjörnuspekingar.

En ekki konungar.

4. ÚLFALDARNIR - sem vitringarnir riðu á. Sama má segja um þá og asna Maríu. Þeir bættust inn í söguna löngu síðar, líklega á 8. öld.

5. FJÁRHÚSIÐ. Jú, það er sagt frá því í guðspjallinu….eða þó ekki og alls ekki í þeirri sætu útgáfu sem við eigum að venjast. Í guðspjallinu er það bara ómerkilegt og venjulegt hús. Inni í Betlehem meira að segja.

Glansmyndin af fjárhúsinu, jólastjörnunni, dýrunum öllum etc varð fyrst til í helgileikjauppsetningu í Þýskalandi á miðöldum.

6. Meyfæðingin - Frumgetinn? Nei, ekkert af þessum flóknu orðum er að finna í sögunni. Aðeins að Jesús var frumburður Maríu - hennar fyrsta barn.
Svona er nú það.

Sagan er miklu einfaldari en menn halda og boðskapurinn skýrari.

Allt hitt bættist við löngu síðar -glimmerið og guðfræðin.

Þannig að kannski ættu pistlahöfundar sem gera lítið úr jólaguðsjallinu að lesa söguna fyrst - og koma svo með sínar skoðanir

Lesa fyrst.

Tala svo.

Og hafa það sem sannara reynist.
það er nú alltaf fyrir bestu.

Um höfundinn32 viðbrögð við “Konungarnir 3 -og fleira sem EKKI er að finna í jólaguðspjallinu.”

 1. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  6. Meyfæðingin - Frumgetinn? Nei, ekkert af þessum flóknu orðum er að finna í sögunni. Aðeins að Jesús var frumburður Maríu - hennar fyrsta barn.

  Viltu ekki lesa söguna aðeins betur?

  En trúir þú ekki á meyfæðinguna?

 2. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Sæll Hjalti minn. Það er nú allt annað mál. Nú erum við að ræða um jólaguðspjallið - textann og söguna þar - en ekki eitthvað annað. Þú getur lesið allt um kenninguna um meyfæðinguna á blogginu mínu kæri vinur, og skoðun mína á þeirri kenningu.
  Og gleðileg jól

 3. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Er þetta sem sagt ekki meyfæðing?

  Fæðing Jesú Krists varð með þessum atburðum: María, móðir hans, var föstnuð Jósef. En áður en þau komu saman, reyndist hún þunguð af heilögum anda.

 4. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Eins og ég segi - þú getur lesið allt um meyfæðinguna sem kenningu og guðfræði á blogginu mínu. Kíktu endilega á það og fræðstu um hvað hugtakið meyfæðing þýðir og stendur fyrir. En hér er rætt um jólaguðspjallið - og texta þess - eins og þú sérð ef þú lest pistilinn.

 5. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Eins og ég segi - þú getur lesið allt um meyfæðinguna sem kenningu og guðfræði á blogginu mínu. Kíktu endilega á það og fræðstu um hvað hugtakið meyfæðing þýðir og stendur fyrir.

  Þórhallur, ertu viss um að þetta sé að finna á blogginu þínu? Ef ég man rétt ætlaðirðu á sínum tíma að skrifa um þetta en hættir við? Ég finn amk hvorku umfjöllun um þetta á blogginu þínu, né skoðun þína á meyfæðingunni.

  En hér er rætt um jólaguðspjallið - og texta þess - eins og þú sérð ef þú lest pistilinn.

  Og ég var að vitna í fæðingarfrásögnina í Matteusarguðspjalli. Og miðað við að þú segir að tala og nafn vitringanna sé síðari tíma viðbót, þá hefurðu greinilega Matteusarguðspjall líka í huga, af því að vitringarnir eru bara í Matteusarguðspjalli.

 6. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Hvar er talað um “meyfæðingu” í Matteusarguðspjalli?

 7. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Á meðan þú leitar að hugtakinu “meyfæðing” í Matteusarguðspjalli getur þú lesið færslu sem er að finna undir

  http://thorhallurheimisson.blog.is/blog/thorhallurheimisson/entry/1113711

  þar sem ég fjalla um þessar pælingar þínar.

 8. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Hvar er talað um “meyfæðingu” í Matteusarguðspjalli?

  Hérna:

  Fæðing Jesú Krists varð með þessum atburðum: María, móðir hans, var föstnuð Jósef. En áður en þau komu saman, reyndist hún þunguð af heilögum anda. Jósef, festarmaður hennar, sem var grandvar, vildi ekki gjöra henni opinbera minnkun og hugðist skilja við hana í kyrrþey. Hann hafði ráðið þetta með sér, en þá vitraðist honum engill Drottins í draumi og sagði: “Jósef, sonur Davíðs, óttastu ekki að taka til þín Maríu, heitkonu þína. Barnið, sem hún gengur með, er af heilögum anda. Hún mun son ala, og hann skaltu láta heita Jesú, því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum þeirra.” Allt varð þetta til þess, að rætast skyldu orð Drottins fyrir munn spámannsins: “Sjá, mærin mun þunguð verða og son ala. Nafn hans mun vera Immanúel,” það þýðir: Guð með oss. Þegar Jósef vaknaði, gjörði hann eins og engill Drottins hafði boðið honum og tók konu sína til sín. Hann kenndi hennar ekki fyrr en hún hafði alið son. Og hann gaf honum nafnið Jesús. (Matt 1.18-25)

 9. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Ég hefði auðvitað líka átt að feitletra “mærin mun þunguð verða” (sem höfundurinn telur eiga við um Maríu).

  Svo sé ég ekkert um skoðun þína á meyfæðingunni í þessari færslu sem þú vísaðir á.

 10. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Hvað segir þú Hjalti, hvar stendur orðið “meyfæðing”?

 11. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Orðið “meyfæðing”? Það er sagt “mærin er þunguð”, ég veit ekki hvort eitthvað sérstakt grískt orð sem þú ert að leita að sé þarna, en þarna er meyfæðingin klárlega.

 12. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Þú sem sagt túlkar orðin “mærin er þunguð” sem “meyfæðing”?

 13. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Já (svo ekki sé minnst á hitt sem ég feitletraði).

 14. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Hvað áttu við með því?

  Þú veist auðvitað að orðið sem þýtt er með “mærin” á íslensku er líka notað um unga stúlku - t.d í Septúagintu sem þessi texti er tekinn úr.

  En þú lest sem sagt orðið “meyfæðing” inn í texta þar sem orðið “meyfæðing” kemur ekki fyrir - eins og pislahöfundur Rúv les 3 konunga inn í sama texta, sem heldur ekki nefnir 3 konunga á nafn.

  Þannig að hvað átt þú eiginlega við með þessari túlkun þinni?

  Hvað meinar þú þegar þú túlkar þetta sem “meyfæðing”?

  Og hvað þýðir þá “meyfæðing” í þínum munni?

 15. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Ein af aðalmerkingum parþenos er “hrein mey” og í ljósi þess að í textanum er lögð áhersla á að þetta sé yfirnáttúrulegur getnaður og að Jósef hafi enn ekki sofið hjá Maríu, þá finnst mér þetta eðlilegasta túlkunin.

  Og hvað þýðir þá “meyfæðing” í þínum munni?

  Að verða ólétt án þess að fá aðstoð hins kynsins.

 16. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Bíddu nú við - nú ertu að tala um þungun en ekki fæðingu. Ertu ekki að rugla kallinn minn? Við erum að tala um fæðingarfrásagnirnar. Þú ert greinilega að tala um eitthvað annað? Þýðir sem sagt “meyfæðing” þetta?

 17. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Bara svo ég skilji þig: Ertu að spá í hinar guðfræðilegu kenningar um guðlegt eðli Jesú Krists?

  Þá bendi ég þér aftur á bloggfæsluna mína um þær kenningar sem þú hefur ekki lesið nægilega vel held ég.

  Og svo auðvitað pælingarnar í fyrsta kafla Jóhannesarguðspjalls um Orðið. Sem snúast um þetta.

  En þetta kemur auðvitað ekkert við þessum pistli.

 18. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Meyfæðing vísar til þess að barn sé getið án þess að karlmaður hafi komið þar að.

  Þetta segir til dæmis Britannica:

  Virgin Birth, doctrine of traditional Christianity that Jesus Christ had no natural father but was conceived by Mary through the power of the Holy Spirit.#

  Ef þú ert með íslenska orðabók við hendina eru þær líklega með sömu skýringu á “meyfæðingu”.

 19. Þórhallur Heimisson skrifar:

  “Virgin Birth, doctrine of traditional Christianity”

  Sem sagt - þú ert að spá í hinar guðfræðilegu kenningar um guðlegt og mannlegt eðli Jesú Krists?

  En ekki textann sem ég er að fjalla um?

 20. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Ég er að benda á að í textanum er klárlega sagt að getnaður Jesú hafi átt sér stað án þess að karlmaður hafi látið í té sæði, meyfæðing.

 21. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Það er þín túlkun á hinni guðfræðilegu kenningu sem kallast meyfæðing - og sem er unnin upp úr textanum í Matteusi - en er þar hvergi að finna.

 22. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Það er þín túlkun á hinni guðfræðilegu kenningu sem kallast meyfæðing…

  Ertu að segja að meyfæðing Jesú vísi ekki til þess að hann hafi ekki átt neinn líffræðilegan faðir? Að það vísi ekki til þess að María hafi verið hrein mey þegar getnaður Jesú átti sér stað?

  …og sem er unnin upp úr textanum í Matteusi - en er þar hvergi að finna.

  Það er tekið fram að Jósef hafi ekki sofið hjá Maríu fyrir getnað og fæðingu Jesú, heldur er sagt að þvert á móti hafi heilagur andi verið að verki, svo er orðið yfir hreinar meyjar notað um Maríu í sama texta.

  Sérðu enga meyfæðingu þarna?

 23. Valgarður Guðjónsson skrifar:

  Skondin umræða…

  Ertu sem sagt að halda því fram, Þórhallur, að “þunguð af heilögum anda” og að “Jósef hafi ekki kennt Maríu fyrr en eftir að hún ól þeim son” sé annað en meyfæðing?

  Forvitninnar vegna..

  Hver er munurinn á þessu og meyfæðingu? Og ef þetta er ekki meyðfæðing, hvað þýðir þá meyfæðing? Hvaða önnur túlkun er til á hinni guðfræðilegau kenningu sem kallast meyfæðing?

 24. thorhallurheimisson skrifar:

  Aðeins varðandi þýðinguna á “ung stúlka” eða “meyja” - sem þú hefur eitthvað misskilið.

  Heimild Matteusar er úr spádómsbók Jesaja - en eins og ég sagði frá grísku þýðinguna þar sem notað er orð yfir unga stúlku sem einnig má þýða sem “meyja”. rétt hjá þér.

  En í hebreska textanum hjá 1esaja stendur “ung kona” eins og bent er á í nýju þýðingunni.

  Ekki meyja.

  Þannig að Jesja er að tala um unga konu - þannig er það bara. Matteus notar aðra þýðingu.

  Allt er þetta skemmtilegt en snertir ekki söguna af fæðingu Jesú.

  Enda engar líffræðipælingar þar.

  Höldum okkur við textann - ekki hlaupa um víðan völl eins og pistilritari Rúv.

  Guðspjöllin eru ekkert að velta sér upp úr þessum sæðispælingum þínum Hjalti minn.

  Aftur a móti vitna þau um það kraftaverk og þann leyndardóm og þá trú að Guð hafi gerst maður í Jesú Kristi.

 25. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Ein athugasemd frá mér sem hefur týnst í kerfinu. Og sem ég því endurtek.

  Það er varðandi orðið “meyja, ung stúlka”.

  Eitthvað hefur þú misskilið mig þar Hjalti. Þegar Matteus vitnar í Jesaja, notar hann grísku þýðinguna, Septuagintu. Þar stendur “parþenos” sem hefur þessa tvöföldu merkingu “meyja, ung stúlka”. En samkvæmt upprunalega hebreska textanum stendur klárlega “ung stúlka” - ekki “meyja”.

  Þannig er það líka þýtt í Jesaja í dag í ísl þýðingunni og athugasemd varðandi orðið undirstrikar þetta.

  Enginn spádómur um meyjar og meyfæðingar þar - hvað þá aðrar “dogmur” sem ásækja suma svo mjög.

  Allt komið úr túlkun sumra á Septuagintu!

 26. Valgarður Guðjónsson skrifar:

  Eftir stendur nú samt spurningin hvort getnaður af völdum heilags anda og að María hafi ekki verið við karlmann kennd fyrir fæðingu Jesú, skv. guðspjallinu eigi að heita eitthvað annað en meyfæðing?

  Var María samkvæmt þínum skilningi á textanum hrein mey? Ef ekki, hver var, aftur samkvæmt þínum skilningi á textanum, líffræðilegur faðir Jesú?

  Og forvitninnar vegna, trúir þú á meyfæðinguna? Er hún ekki mikilvægur hluti trúarjátningarinnar? Eða er trúarjátningin þýðingarvilla, ef ég má vera erfiður?

 27. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Athugasemdin þín virðist vera komin núna.

  Já, hebreska orðið í Jeaja 7.14 þýðir ekki “hrein mey”. En eins og ég sagði, þá er í Matt 1 lögð áhersla á það að Jósef hafi ekki sofið hjá henni og að hún sé “þunguð af heilögum anda”. Í þessu samhengi er eðlilegt að telja að parþenos þýði “hrein mey”, en það er eitt af aðalmerkingum parþenos.

  Guðspjöllin eru ekkert að velta sér upp úr þessum sæðispælingum þínum Hjalti minn.

  Það er sérstaklega tekið fram að hún hafi ekki sofið hjá Jósefi fyrir getnað og að þau hafi ekki stundað kynlíf fyrir fæðingu Jesú. Höfundurinn var klárlega með “sæðispælingar”.

 28. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Nei Hjalti minn - það er nú síðari tíma vandamál. En lestu nú blessaður ábendinguna mína um bloggið þar sem ég ræði hinar guðfræðilegu kenningar - og sjáðu hvort þú fáir botn í málið.

  Lesa fyrst Hjalti.
  Skrifa svo.
  Það er góður siður

 29. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Þórhallur minn, ótrúlegt en satt, þá las ég þetta sem þú vísaðir á.

  Er það ekki “sæðispæling” að segja að Jósef hafi ekki sofið hjá Maríu (og geti ekki verið faðir Jesú)?

 30. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Svo væri afskaplega gaman að fá útskýringu á því hvað “þunguð af heilögum anda” þýði.

  Svo væri líka gaman að fá að heyra álit þitt á Lúk 2.34-37. Þar er engillinn nýbúinn að tilkynna Maríu um að hún muni eignast son. María spyr hvernig í ósköpunum það geti verið þar sem að hún hafi ekki sofið hjá neinum. Engillinn svarar að heilagur andi muni koma yfir hana, og minnir hana um leið á að guð geti gert kraftaverk eins og með frænku hennar. Er engin meyfæðing hérna?

 31. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Valgarður - eins og hér hefur komið fram er kenninguna um meyfæðinguna ekki að finna í textanum sem slíkum.

  Hún er tilraun síðari tíma manna til að skýra með fátækum orðum þann mikla leyndardóm að Guð hafi orðið maður í Jesú Kristi.

  Guðspjallamennirnir túlka þann leyndardóm reyndar með ólíkum hætti. Matteus og Lúkas í fæðingarfrásögunum, Markús í skírnarfrásögninni og Jóhannes með hinum heimpekilega texta um Orðið, Logos, sem varð hold og bjó hjá okkur mönnunum.

  Eins og aðrir kristnir menn játa ég trú á þann leyndardóm, og fagna á jólum Guði sem gerðist maður í Jesú Kristi.

  En við ættum að varast að lesa síðari tíma pælingar og skýringar inn í texta ritningarinnar, eins og pistlahöfundur Rúv gerði - en í stað þess lesa þá af einlægni og frásögn þeirra.

  Leyfa þeim að tala.

  En ekki tala þá í kaf.

 32. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Eins og aðrir kristnir menn játa ég trú á þann leyndardóm, og fagna á jólum Guði sem gerðist maður í Jesú Kristi.

  En játar þú trú á þann leyndardóm að Jesús hafi verið getinn af heilögum anda (ekki af Jósefi eða öðrum karlmanni) og fæddur af Maríu mey (sem þýðir að hún hafi ekki stundað kynlíf)? Trúir þú á meyfæðinguna?

  En við ættum að varast að lesa síðari tíma pælingar og skýringar inn í texta ritningarinnar, eins og pistlahöfundur Rúv gerði - en í stað þess lesa þá af einlægni og frásögn þeirra.

  Leyfa þeim að tala.

  En ekki tala þá í kaf.

  Já, gerum það. Eins og ég hef bent á hérna þá eru tveir textar sem virðast klárlega segja að fæðing Jesú hafi verið meyfæðing.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3654.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar