Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Lena Rós Matthíasdóttir

Innræting eða kennsla

Samfélag getur ekki talist opið, lýðræðislegt og heiðarlegt nema það taki öllum trúar og menningarheimum fagnandi og upplýsi einstaklinga um fjölbreytileika lífsins. 

Séu tillögur Mannréttindanefndar skoðaðar í þessu ljósi, sjáum við því miður aðeins tillögur sem eru til þess fallnar að draga úr þekkingu, stuðla að fordómum og þar með að byggja múra í milli trúar- og menningarheima.  Samkvæmt tillögunum má segja börnum mínum frá Nýjatestamenntinu í skólunum en ekki rétta þeim það til lestrar.  Fyrir mér hljómar það alveg eins og ef íslenskukennarinn mætti aðeins segja börnum mínum frá Njálu en ekki rétta þeim hana til lestrar.

Umburðarlyndið er okkur nauðsynlegt og raunar er eitt af meginstefjum í boðskap Jesú Krists, stefið um náungakærleikann.  En Jesús fór ekki bara inn í musterið til að boða náungakærleikann, hann fór að mestu með boðskapinn út úr musterunum og til fólksins.  Þess vegna mun kristin kirkja alltaf sækja út í lífið og uppfræða fólk í daglegum önnum þess. 

Orð Krists, ,,Leyfið börnunum að koma til mín“ voru ekki töluð inn í skólaumhverfi barna.  Þau voru sögð í eyru lærisveina, fullorðinna manna og kvenna.  Þau voru sögð til að útskýra eðli Himnaríkis.  Þar segir Jesús að börnin eigi að vera hjá sér, í návist sinni, því þeirra sé himnaríkið og að hver sem ekki taki við himnaríki eins og barn muni aldrei inn í það koma.  Þar með kennir hann okkur fullorðna fólkinu að líta til barnanna og læra af þeim hvernig við eigum að lifa lífinu.  Himnaríkið er í huga Jesú Krists einhvers konar ástand sem börnum er eiginlegt.  Sem dæmi fara börnin ekki í manngreinarálit, þau horfa á manneskjuna eins og hún er, án fordóma.  Í þeirra huga er enginn munur á því þegar prestur kristinna eða formaður trúlausra heimsækir skólann þeirra.  Þannig var Jesús og þannig samfélag viljum við líka skapa.  Samfélag sem rýfur niður múra og tekur öllum á þeirra forsendum.  Slíkt samfélag verður ekki skapað með því að banna„hið heilaga“ í opinberu rými hins daglega lífs. 

Setningin„Leyfið börnunum að koma til mín, því slíkra er himnaríki“ getur ein og sér legið til grundvallar málstað þeirra sem vilja gera ráð fyrir„hinu heilaga“ í opinberu rými.  Til að geta lifað því himnaríki sem Jesús talar um, (ástandi þar sem kærleikur og manngæska eru drifkrafturinn) þarf að vera rými fyrir þann siðferðisboðskap.  Þann boðskap ætlaði Jesús öllum mönnum, burt séð frá trú þeirra, kyni, kynferði, aldri, stétt, menningarheimi, þjóðerni o.s.frv.  Við getum ræktað þennan eiginleika með börnunum okkar með því að leifa þeim að kynnast„raunverulega“ því hvernig unnið er með hið heilaga í mismunandi trúarbrögðum landans.  Að loka slíka sjálfsprotna þekkingarleit úti elur á fáfræði og fordómum. 

Kristni var ekki til sem trúarbrögð þegar Jesús gekk um hér á jörðunni.  Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga og skoða hvernig Jesús gaf sig að öllum, óháð trúarskoðunum og hvernig hann fór aldrei í manngreinarálit.  Hann átti samfélag við trúlaust fólk af sama kærleiksþeli og fölskvalausri mannvirðingu og þegar trúaðir áttu í hlut.  Miðað við orðin hans: „Farið og gerið allar þjóðir að lærisveinum!“  er ljóst að hann vildi ná til allra með speki sína og hefur því hugsað þetta í mun víðara samhengi en við gerum í dag.  Því miður erum við alltof duglega að tileinka trúarbrögðum orð Guðs.  Margir halda því fram að kennsla um speki Guðs og kærleiksvisku sé trúarleg innræting.  En til að lesa um speki Jesú frá Nasaret, þurfum við að opna Nýjatestamenntið.  Það að rétta barni Nýjatestamenntið er því ekki innræting, heldur aðferð til upplýsingar, leið til að kynna fyrir barninu grunngildi þess siðar er þjóðlífið að mestu byggir á.

Í fimmtu grein Ágsborgarjátningarinnar er sérstaklega tekið fram að embætti prestsins sé stofnað til að„kenna“ (athugið ekki til að innræta) boðskapinn og einnig til að útdeila sakramenntum (í messum ekki í skólum).  Þar af leiðandi ættu allir leiðtogar kristinna safnaða að ganga keikir út í hið opinbera rými og kenna öllum þjóðum speki Krists, nefnilega boðskapinn um náungakærleikann.  Það er svo í sjálfvald hvers og eins sett, hvort hann/hún opni hjarta sitt fyrir Guði og einungis á valdi heilags anda að hræra við sálum þeirra sem þannig leita Drottins.  Enn hef ég ekki heyrt fréttir af börnum sem turnuðust til hinnar eða þessarar trúarinnar í samfélagsfræðitímum, það er næstum fásinna, enda kennarar fagfólk á sínu sviði sem virða mörk boðunar og kennslu.

Viskan sem Jesús hafði fram að færa getur aldrei rifið niður eða skaðað.  Menn aftur á móti geta valdið skaða, hverrar trúar eða lífsskoðunarstefnu þeir annars aðhyllast.   Það er þó ekki þar með sagt að það sé boðskapnum um að kenna, heldur miklu fremur skorti mannsins á skilningi boðskaparins.  Ég treysti bæði fulltrúum trúfélaga og annarra lífsskoðanafélaga og kennarastéttum á öllum skólastigum, fullkomlega til að vega og meta hvar mörkin í milli fræðslu og innrætingar liggja, enda hafa þessir hópar hingað til, í flestum tilfellum staðið sig með sóma þegar kemur að kennslu barna í efni tengdu siðferði og trú. 

Ég ber fullkomið traust til presta, forstöðumanna trúfélaga, ásatrúarmanna og til vantrúarmanna að kenna börnunum hvernig við eigum að umbera aðra og gera fyrir aðra það sem við viljum að aðrir geri fyrir okkur.  Ég treysti þeim fullkomlega til að segja frá helginni í þeirra lífsskoðunarkerfi án þess að vera með innrætingu.  Kristnin hefur engan einkarétt á náungakærleik, jafnvel þótt Jesús hafi haft hann í forgrunni hjá sér.  Ég er hins vegar Þjóðkirkjunni afar þakklát fyrir að hafa sinnt þessari þjónustu við samfélagið, að uppfræða og tala máli kærleikans´í hinu opinbera rými, því ég hef ekki orðið vör við vilja trúlausra að koma inn í skólana og deila með börnunum sögum og söngvum um náungaást og mannvirðingu.  Vonandi hef ég rangt fyrir mér í þeim efnum.  

Um höfundinn10 viðbrögð við “Innræting eða kennsla”

 1. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Umburðarlyndið er okkur nauðsynlegt og raunar er eitt af meginstefjum í boðskap Jesú Krists, stefið um náungakærleikann. En Jesús fór ekki bara inn í musterið til að boða náungakærleikann, hann fór að mestu með boðskapinn út úr musterunum og til fólksins. Þess vegna mun kristin kirkja alltaf sækja út í lífið og uppfræða fólk í daglegum önnum þess.

  Það er nú frekar vandræðalegt að halda því fram að umburðarlyndi hafi verið þungamiðja í boðskap Jesú um leið og þú minnist á musterið, því það var einmitt í musterinu þar sem Jesú beitti ofbeldi gegn fólki af því að hegðun þess braut gegn trúarskoðunum hans. Ekki mjög umburðarlynt. Í guðspjöllunum er Jesús ekki umburðarlyndur, hann kallar þá sem sýna ekki trú öllum illum nöfnum, beitir þá ofbeldi og hótar þeim ofbeldi (helvíti).

  Í fimmtu grein Ágsborgarjátningarinnar er sérstaklega tekið fram að embætti prestsins sé stofnað til að„kenna“ (athugið ekki til að innræta) boðskapinn og einnig til að útdeila sakramenntum (í messum ekki í skólum). Þar af leiðandi ættu allir leiðtogar kristinna safnaða að ganga keikir út í hið opinbera rými og kenna öllum þjóðum speki Krists, nefnilega boðskapinn um náungakærleikann. Það er svo í sjálfvald hvers og eins sett, hvort hann/hún opni hjarta sitt fyrir Guði og einungis á valdi heilags anda að hræra við sálum þeirra sem þannig leita Drottins.

  Ef prestar trúa þessu virkilega, þá eru þeir algerlega óhæfir til þess að koma í skóla og kynna trú sína.

  Það er nefnilega augljóst að áróður og innræting geta valdið því að krakkar tileinki sér ákveðna skoðun, og ef að prestar halda að einungis einhver andavera geti gert krakka trúaða, þá er augljóst að þeir sjái enga ástæðu til að passa sig þegar þeir fjalla um trú.

  Við getum bara ímyndað okkur ef að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins segði að ekkert sem hann segði gæti haft nokkur áhrif á stjórnmálaskoðanir krakka.

  …enda kennarar fagfólk á sínu sviði sem virða mörk boðunar og kennslu.

  En prestar eru ekki fagfólk á sama hátt, þeir virða ekki mörk boðunar og kennslu.

  …, því ég hef ekki orðið vör við vilja trúlausra að koma inn í skólana og deila með börnunum sögum og söngvum um náungaást og mannvirðingu.

  Lena, ég er nú nokkuð viss um að þegar þið farið í skólana og syngið með krökkum þá er ekki bara sungið um “náungaást og mannvirðingu”, heldur líka Jesú og guð. Ég hef engan áhuga á að fara í leikskóla og notfæra mér trúgirni barna annars fólks til að troða trúleysi mínu upp á börnin.

 2. Lena Rós Matthíasdóttir skrifar:

  Hjalti Rúnar! Ég vil byrja á að þakka þessar athugasemdir þínar.

  Við virðumst vera sammála um fyrirbærin áróður og innrætingu, þ.e. að slíkt geti beinlínis valdið því að fólk tileinki sér ákveðna skoðun. Einmitt þess vegna er mikilvægt að leggja á það áherslu að prestar og leiðtogar lífsskoðanafélaga kenni þegar þeir vísitera skóla. Ég geri skýran greinarmun á kennslu og boðun og finnst ég í raun hvergi boða nema þegar ég útlegg ritningarlestra dagsins frá predikunarstóli, í nánum samtölum við fólk sem til mín leitar, í kirkjulegum athöfnum og á bæna- og kyrrðarstundum. Í öllu öðru tilliti tel ég mig uppfræða um Jesú og um kristið líferni. Ég get því miður ekki greint á skrifum þínum hvaða skilning þú leggur í muninn á kennslu og innrætingu. Áhugavert væri að sjá þá skilgreiningu.

  Svo verð ég að segja, með fullri virðingu fyrir þér, Hjalti, að mér þykir þú brattur að tala um það sem augljóst mál að prestar sjái enga ástæðu til að passa sig þegar þeir fjalla um trú. Þessi setning er í besta falli kjánaleg og í versta falli nýð.

  Varðandi söngvana í skólunum, þá er eiginlega ekki hægt í nútímasamfélagi að koma inn í skóla og láta börnin syngja sálma. Þau einfaldlega eru alltof fá sem kunna þá. Þessi skipti sem ég hef heimsótt grunnskólana, er yfirleitt ekkert sungið, aðeins spjallað saman og/eða sögð saga.

  Í leikskólunum vilja börnin nánast undantekningarlaust syngja eitthvað og þá eru það leikskólalög sem presturinn kann lítið sem ekkert en hlustar í andakt á þau sýna hvað þau kunna. Þó man ég eftir því að hafa oftar en einu sinni sungið: ,,Jesús er besti vinur barnanna”, vegna þess að mörg lítil börn kunna það einfalda lag og vilja fá að syngja það. Leikskólakennarar stýra söngstundum við svona heimsóknir og presturinn er gestur á staðnum sem fær að hlýða á og njóta.

  Þannig er þetta nú í mínu tilfelli, en ég tala að sjálfsögðu ekki fyrir allra hönd og eflaust mjög misjafnt frá skóla til skóla hvernig þessum heimsóknum er háttað.

  Mér þykir leitt að þú skulir ekki sjá hag barna í því að kynnast lífsskoðun þinni. Ég lít á það sem mannréttindi mín og barnanna minna að fá að kynnast því hvernig þú umgengst helgina í þínu lífi. Reyndar finnst mér þú og skoðanabræður þínir helst til duglegir að hnýta í skoðanir annarra og mættuð að mínu mati vera ötulli að tal um ykkur sjálfa. Hvað er hinum trúlausu heilagt í tilverunni? Mér finnst ekki nóg að börnin mín fái að heyra af því að til sé trúleysi.

  Ég tel mig ekki hafa næga innsýn í lífsskoðun þína til að geta útskýrt réttilega fyrir börnum mínum, það gætir þú hins vegar. Ég treysti því líka að börnum mínum sé búið nógu heilbrigt brjóstvit til að greina það sem þeim er fyrir bestu í lífinu og jafnvel þótt ég kenni þeim það sem ég kann í minni trúariðkun, þá treð ég ekki á skoðanavitund þeirra. Mér dettur það ekki í hug og dettur heldur ekki í hug að ætla þér slíka framkomu við mín börn.

  Ég styð opið, líðræðislegt og umburðarlynt samfélag sem tekur öllum lífsskoðunarfélögum fagnandi (svo fremi að þau séu ekki mannfjandsamleg) og vil frekar taka þátt í að brjóta niður múrana þar í milli en að byggja þá. Þögning nærir fordóma, um það getum við lesið mörg dæmi af mannkynssögubókum.

  Merkilegast af öllu í þessum punktum frá þér, þykir mér þó athugasemdin í lokin um að þú hafir: ,,…engan áhuga á að fara í leikskóla og notfæra mér trúgirni barna annars fólks til að troða trúleysi mínu upp á börnin”. Þarna liggur þá hundurinn grafinn í skoðanaágreiningi okkar, því þú virðist ekki treysta sjálfum þér til að greina í milli kennslu og boðunar/innrætingar og þar með treystirðu væntanlega engum öðrum. En treystirðu börnunum þínum til að velja og hafna?

  Ég treysti mér til að gera greinarmun á boðun og kennslu (er reyndar alltaf að verða færari og færari í þeirri grein) og treysti þess vegna öðrum til að ræða við börnin mín og þeim að taka á móti fræðslunni.

  Þessi þjóð þarf á því að halda að lífga upp á góðu gildin og ,,massa” einstaklingana upp í andlegri hreysti. Til þess að vel megi takast ættum við öll að taka höndum saman í stað þess að slá á fingur hvors annars. Við erum komin með tærnar á fjölþjóðmenningarþröskuldinn og því ríður á meir en áður að öll þau sem hér búa, hvar í lífsskoðun sem þau merkja sig, þekki rækilega til höfuðtrúarbragða landsins og kunni að eiga uppbyggilegt og nærandi samtal við önnur trúarbrögð og lífsskoðanir án þess að höggva hugsunarlaust í eigin rætur. Til að svo megi verða þarf að fræða. Ekki bara að segja frá Njálu, heldur láta þau líka lesa í Njálu.

  Ég hvet þig, Hjalti Rúnar, að nýta þessa orku þína og áhuga til að setja saman fræðslukver og fara með í skólana. Þú gætir örugglega einhvers staðar nælt þér í styrk til verksins. Svo skaltu fá í lið með þér trúlausa um allt land að fylgja pésanum eftir inn í skóla landsins.

  Það vildi ég gjarna taka þátt í skólaheimsókn með þér og við myndum bæði segja frá grunnhugmyndum okkar um hið heilaga í tilverunni. Sérlega spennandi verkefni!

  Bið ég þig vel að lifa og óska þér andlegs hreystis inn í nýja árið!

 3. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Ég geri skýran greinarmun á kennslu og boðun og finnst ég í raun hvergi boða nema þegar ég útlegg ritningarlestra dagsins frá predikunarstóli, í nánum samtölum við fólk sem til mín leitar, í kirkjulegum athöfnum og á bæna- og kyrrðarstundum. Í öllu öðru tilliti tel ég mig uppfræða um Jesú og um kristið líferni. Ég get því miður ekki greint á skrifum þínum hvaða skilning þú leggur í muninn á kennslu og innrætingu. Áhugavert væri að sjá þá skilgreiningu.

  Lena, værirðu ekki að boða trú ef þú ferð reglulega í leikskóla og lætur krakkana “tala við guð” og syngur með þeim “Jesús er besti vinur barnanna”?

  Í fljótu bragði má segja að kennsla snýst um að upplýsa um skoðanir sínar en innræting snýst um að fá viðkomandi til að aðhyllast skoðanir sínar.

  Svo verð ég að segja, með fullri virðingu fyrir þér, Hjalti, að mér þykir þú brattur að tala um það sem augljóst mál að prestar sjái enga ástæðu til að passa sig þegar þeir fjalla um trú. Þessi setning er í besta falli kjánaleg og í versta falli nýð.

  Þetta á að klárlega við marga presta. Svo var punkturinn minn sá að ef prestur telur það ekki mögulegt fyrir hann að gera börn trúuð (af því að það er bara einhver andavera sem getur það), þá sér hann auðvitað ekki ástæðu til að passa sig.

  Þó man ég eftir því að hafa oftar en einu sinni sungið: ,,Jesús er besti vinur barnanna”, vegna þess að mörg lítil börn kunna það einfalda lag og vilja fá að syngja það. Leikskólakennarar stýra söngstundum við svona heimsóknir og presturinn er gestur á staðnum sem fær að hlýða á og njóta.

  Fyrst að þetta er raunin, hvers vegna í ósköpunum minnistu bara á “[söngva] um náungaást og mannvirðingu” í pistlinum?

  Vandamálið er einmitt það að þið eruð að fara í leikskóla og láta krakka syngja lög sem fjalla um hvað guð og Jesú eru frábær. Að láta síðan eins og trúleysingjarnir séu síðan að kvarta yfir söngvum um “náungaást og mannvirðingu” er ótrúlega ómerkilegt.

  Mér þykir leitt að þú skulir ekki sjá hag barna í því að kynnast lífsskoðun þinni.

  Nei, ég sagði það aldrei. Börn mættu gjarnan læra um trúleysi (og þá ekki frá prestum, enda myndi það líklega snúast um að trúleysingjar séu heimskingjar).

  Það sem ég sagði var að ég hefði ekki áhuga á að fara í leikskóla og boða trúleysi, ólíkt prestum, sem hafa mikinn áhuga að komast í snertingu við ómótaða huga barna.

  Þarna liggur þá hundurinn grafinn í skoðanaágreiningi okkar, því þú virðist ekki treysta sjálfum þér til að greina í milli kennslu og boðunar/innrætingar og þar með treystirðu væntanlega engum öðrum. En treystirðu börnunum þínum til að velja og hafna?

  Nei, veistu hvað, ég treysti sjálfum mér til þess, en ég treysti ykkur prestunum ekki af því að ég hef séð dæmi um að þeir stundi boðun í skólum.

  Það vildi ég gjarna taka þátt í skólaheimsókn með þér og við myndum bæði segja frá grunnhugmyndum okkar um hið heilaga í tilverunni. Sérlega spennandi verkefni!

  Hvað segirðu? Myndirðu vilja fá mig í að segja frá skoðunum mínum í grunnskólum? Ég sem ég hélt að ég og félagar mínir í Vantrú stunduðum svo lélegt siðferði með því að “ráðst” á Þjóðkirkjuna. Viltu virkilega að börn heyri um skoðanir okkar?

 4. Björn Erlingsson skrifar:

  Þakka þér góðan pistil Lena. Ég undra mig oft á yfirgangi vantrúarmanna sem ætla sér það hlutverk að velja fyrir mig sem foreldri að mín börn fái ekki að njóta fræðlsu um tilteknar lífskoðanir í opinberu rými. Þessar lífskoðanir eru trú mín og ég er í hópi fjölmargra foreldra sem hafa skírt börn mín til samfélags um iðkun og tjáningu þessarar trúar sem hluta af sínu lífi, - og er dýrmætur og nauðsynlegur hluti af lífi mínu.
  Mér finnst að trúarlíf mitt og barna minna eigi að vera ósnert af skólayfirvöldum og það er eðlilegt að setja starfsemi trúfélaga skorður í samfélaginu.

  Skólinn er og verður hluti af samfélaginu og ef við byggjum um hann múr til að þóknast tilteknum minnihlutahóp þá höfum við tekið skref sem færir hann út úr samfélaginu, alið á fáfræði og þröngsýni; - og við höfum þar með gengið gegn eðli skóla sem samfélagsstofnunar. Ég get verið jafn gáttaður á þessari fáfræði og uppgjöf samfélagsins í meðvirkni við kvörtunum minnihlutahópa trúlausra sem telja sig fá gallaða þjónustu af samfélaginu hvað þetta varðar.

  Það er verðugt uppeldislegt og félagslegt viðfangsefni skólans að einstaklingar í minnihlutahópum fái að njóta sín í samfélaginu á eigin forsendum. Það er gott fyrir meirihlutann að sjá að mismunandi lífskoðanir og trú geti lifað og eigi að þrífast hlið við hlið þar sem raunverulegt trúfrelsi ríkir. Gerum við það vinna allir á og ekki síður minnihlutahópar sem ég tel að komi frá því sem þroskaðri og betri einstaklingar við að takast á við þær aðstæður sem þeir koma óhjákvæmilega til með að lifa við, - því ekki mun meirihlutinn legja af trú sína til að þóknast þeim.

  Þakka þér góðan pistil og skarpa umræðu. Yfirlýsingagleði brenglað sinni og fordómar í garð trúaðra sem hafa trúariðkun og tjáningu sem hluta af sínu lífi og lífskoðunum gegnur oft fram af manni. Umræða og viðhorf trúaleysingja líkjast í þessum efnum gömlum viðhorfum (og fáfræði) til holdsveikra og ef þetta samfélag væri samkvæmt sjálfu sér í þessu þá væri eðlilegra að beina spjótum sínum að innrætingu og viðhorfum sem vitað er að eru slæm á allan máta fyrir börn og grafa undan félagslegum og andlegum þrótti þeirra í lífinu.

  Óska þér gleðilegs árs og deili með þér von um að samfélgið hlúi að ljósinu sem oftar en ekki sést ekki vel fyrr en það er borið inn í myrkrið, því miður (og sem betur fer stundum).

 5. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Ég undra mig oft á yfirgangi vantrúarmanna sem ætla sér það hlutverk að velja fyrir mig sem foreldri að mín börn fái ekki að njóta fræðlsu um tilteknar lífskoðanir í opinberu rými.

  Björn, ég veit ekki hvaða vantrúarmenn þú ert að tala um en ég veit ekki til þess að neinn sé að fara fram á að það verði ekki frætt um hin ýmsu trúarbrögð og lífsskoðanir í skólum.

  Ef þú heldur það, þá er ég hræddur um að þú hafir fallið fyrir lygaáróðri kirkjunnar manna.

 6. Lena Rós Matthíasdóttir skrifar:

  @Hjalti:

  Að sjálfsögðu myndi ég vilja að kennurum í samfélagsgreinum stæði til boða að fá þig til að koma og kynna þitt lífsskoðunarfélag og sérstaklega hvað varðar það sem ykkur er heilagt í þeim félagsskap. Það dýpkar skilning barnanna á viðfangsefninu.

  Skilningur þinn á muninum á innrætingu og trú er nákvæmlega hinn sami og skilningur minn. Svo ágreiningurinn snýst ekki um það. Ég held að þetta snúist að mestu um traust. Við verðum að læra að treysta fagfólki fyrir börnunum okkar. Mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna þú treystir mér ekki til að segja frá Jesú, kirkjunni, trúnni án þess að vera með innrætingu.

  Ég ætti kannski að bjóða þér með mér í skólaheimsókn næst þegar hóað verður í mig… mér finnst það reyndar mjög sniðug hugmynd.

  Mikið svakalega er ég nú eitthvað skemmtileg! ;)

 7. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna þú treystir mér ekki til að segja frá Jesú, kirkjunni, trúnni án þess að vera með innrætingu.

  Hvað skilurðu ekki við þetta:Nei, veistu hvað, ég treysti sjálfum mér til þess, en ég treysti ykkur prestunum ekki af því að ég hef séð dæmi um að þeir stundi boðun í skólum.Ég hef bara séð of mörg dæmi um það að prestur fari í skóla (stundum á fölskum forsendum) og sé að stunda trúboð.

 8. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Úps, átti að vera svona:

  Hvað skilurðu ekki við þetta:

  Nei, veistu hvað, ég treysti sjálfum mér til þess, en ég treysti ykkur prestunum ekki af því að ég hef séð dæmi um að þeir stundi boðun í skólum.

  Ég hef bara séð of mörg dæmi um það að prestur fari í skóla (stundum á fölskum forsendum) og sé að stunda trúboð.

 9. Sveinn Þórhallsson skrifar:

  Lena, trúleysi sem slík er ekki lífsskoðun. Allavega ekki í sama skilningi og kristni.

 10. Sveinn Þórhallsson skrifar:

  Annars er mér fyrirmunað að skilja hvers vegna prestar og aðrir kirkjunnar menn treysta fagstéttinni kennurum ekki til að fræða börn um trúarbrögð.

  Mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna þeir telja eigin aðkomu að skólakerfinu svo nauðsynlega.

  Mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna margir prestar og aðrir kirkjunnar menn þurfa að segja ósatt um tillögur Mannréttindaráðs Reykjavíkur.

  Mér er fyrirmunað að skilja hvað er svo slæmt við að setja reglur um aðkomu lífsskoðunarfélaga að veraldlegu, opinberu rými; að skólum þar sem ALLIR eiga að eiga athvarf óháð lífsskoðunum foreldra.

  Mér er fyrirmunað að skilja hvers vegna margir prestar og aðrir kirkjunnar menn setja sig ekki inn í skólastefnu þá sem unnið er að m.a. í Reykjavík og kallast “skóli fyrir alla” eða “skóli án aðgreiningar” ÁÐUR en þeir tjá sig um skólakerfið og eigin aðkomu að því.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3736.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar