Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Skyldar færslurLeita

Tryggvi Gíslason

Hátíð barnanna - hátíð ljóss og friðar

Gamalt orðtak segir, að tvisvar verði gamall maður barn. En hvers vegna er þetta sagt? Flestir lesendur þekkja svarið. En fyrir þá, sem ekki hafa velt þessu fyrir sér, liggur að baki þessu orðtaki sú hugsun – sú staðreynd, að þegar við eldumst og verðum gömul, förum við að hugsa aftur eins og börn og við verðum öðrum háð, eins og börn, við verðum mildari og kunnum betur að meta hið einfalda í lífinu og líkjumst því einnig á þann hátt meir því sem við vorum sem börn.

Jól

Fyrir hver jól les ég lítið ljóð eftir skáld bernsku minnar, Stein Steinarr. Ljóðið kallaði hann Jól – og það hefst þannig:

Sjá, ennþá rís stjarnan, sem brennur björtust og mildust
á bládjúpum miðsvetarhimni hins snæþakta lands.
Sjá, ennþá nálgast sú hátíð, sem hjartanu er skyldust
og huggar með fagnaðarsöngvum hvert angur manns.

Ljóð Steins Steinars er annars vegar lofsöngur um jólin, um hátíðina „sem hjartanu er skyldust og huggar með fagnaðarsöngvum hvert angur manns”. Hins vegar er ljóðið ádeila á sýndarmennsku og óhóf kauphátíðarinnar sem jólin hafa verið gerð að. Mér er hins vegar ofar í huga lofsöngurinn um jólin í þessu litla ljóði.

En hvers vegna eru jólin sú „hátíð, sem hjartanu er skyldust”, hvers vegna hlökkum við svo til jólanna, hvers vegna hlakka þeir, sem varðveitt hafa barnið í hjarta sér, til jólanna og hvað gerir jólin svona einstök í hugum okkar? Í fyrsta lagi eru það minningar frá bernskujólum okkar – með foreldrum okkar og systkinum þegar lífið var einfalt og fagurt í hreinni barnslund og sakleysi hugans sem gera jólin svo einstök í hugum okkar. Í öðru lagi eru það minningar frá jólunum með börnunum okkar, sem við eigum mörg – með litlum börnum með litlar áhyggjur. Nú eiga sum okkar einnig minningar með barnabörnum, og allar þessar minningar gera jólin að sjálfsögðu einstök í hugum hvers og eins okkar?

En það er raunar annað og meira sem gerir jólin að hátíðinni sem er hjartanu skyldust – jólin eru fæðingarhátíð frelsarans og frelsari mannkyns var barn. Það er barn sem varð frelsari okkar. Þetta er fagurt upphaf kristinnar trúar. Barn fæddist heiminn til þess að frelsa heiminn – til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.

Barnið og jólin eru því tengd á svo marga lund. Við tölum líka um jólin sem „hátíð barnanna” af því að við viljum gleðja börnin okkar og af því að við viljum gleðjast eins og börn – og síðast en ekki síst minnumst við barnsins sem varð frelsari mannsins.

Hátíð ljóssins og friðarins

En jólin eru einnig „hátíð ljóssins”. Þau lýsa upp svartasta skammdegið og fæðing barnsins, frelsarans, kom með ljósið inn í heiminn, eins og hann sagði: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins.”

Lengi hefur mér þótt Lúkasarguðspjall heillandi. Ekki síst hefur upphaf þess hrifið mig af því að það ber í sér hreinskilni og vináttu og vekur traust. Ef til vill er það sagnfræðingurinn í mér sem hefur heillast af traustri heimild læknisins Lúkasar, sem ritaði einnig Postulasöguna til vinar síns Þeófílíusar.

Í upphafi Lúkararguðspjalls segir: „Margir hafa tekið sér fyrir hendur að rekja sögu þeirra viðburða, er gerst hafa meðal okkar, samkvæmt því, sem þeir menn hafa flutt okkur, er frá öndverðu voru sjónarvottar og urðu þjónar orðsins. Nú hef ég athugað kostgæfilega allt þetta frá upphafi og réð því einnig af að rita samfellda sögu fyrir þig, göfugi Þéófílus, svo að þú megir ganga úr skugga um sannindi þeirra frásagna sem þú hefur fræðst um.”

Hér er um að ræða rannsóknarfræðimennsku, eins og nú er sagt. Læknirinn Lúkas, sem var grískur að uppruna, tók sér fyrir hendur að kanna sögu Jesú og ein kunnasta frásögn Lúkasarguðspjalls er hrífandi og fögur frásögn af fæðingu frelsarans, Jólaguðspjallið, sem hefur fylgt okkur frá því við vorum börn:

„En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústusi keisara að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. … Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. … Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsinu. … En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim. … Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu: „Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnunum.””

Jólin eru því ekki aðeins hátíð ljóssins heldur einnig hátíð friðarins.

Skáld fullorðinsára minna er Jónas Hallgrímsson, listaskáldið góða. Jónas má með réttu kalla fyrsta nútímaskáld Íslendinga af því að við getum lesið ljóð hans eins og um samtímaljóð væri að ræða. Síðustu jólin, sem Jónas lifði – jólin 1844 – orti hann lítið ljóð sem hann nefndi Jólavísu og hljóðar þannig: „Jólum mínum uni ég enn, / og þótt stolið hafi / hæstum guði heimskir menn hef eg til þess rökin tvenn / að á sælum sanni’ er enginn vafi. Þessi litla vísa hefur verið tekin sem dæmi um trúarvissu Jónasar Hallgrímssonar þegar hann segir: „að á sælum sanni’ er enginn vafi”.

Á ævidögum Jónasar Hallgrímssonar á fyrri hluta 19du aldar – og lengi síðan hafa margir sagt guðstrú væri blekking og krafist þess að færðar væru sönnur á tilvist Guðs. Meðal þessara manna var þýski heimspekingurinn Ludwig Feuerbach, samtíðarmaður Jónasar. Hann var efnishyggjumaður og aðhylltist afstæðishyggju og gagnrýndi trúarbrögðin og sagði, að Guð hefði ekki skapað manninn heldur maðurinn skapað Guð. Þessu er Jónas að andmæla þegar hann segir: … þótt stolið hafi hæstum guði heimskir menn hef eg til þess rökin tvenn að á sælum sanni’ er enginn vafi.

Það er trú okkar að á sælum sanni’ er enginn vafi. Í þeirri trú – í þeirri trúarvissu höldum við jól, fæðingarhátíð frelsarans, hátíð ljóssins og hátíð friðarins.

Gleðileg jól.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3876.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar