Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Jóhanna Ingibjörg Sigmarsdóttir

En það bar til um þessar mundir …

j

Jólaguðspjallið, frásögnina úr 2. kafla Lúkasarguðspjalls þekkjum við flest. En það er eitt að þekkja söguna af fæðingu frelsarans og annað mál hvort við leyfum henni að hafa áhrif á okkur og móta líf okkar. Jólin geta líka auðveldlega orðið flótti frá raunveruleikanum. Fólk flýr inn í hið óræða, sem við köllum„jólastemmingu”, leitast við að gera vistlegt og hlúa að öryggi heimilisins, ef tími skyldi nú gefast til að kyrra hugann og gleyma hversdagsleikanum um stund.

Jólin eru hátíð ljóss og gleði, sem við þurfum sannarlega á að halda í svartasta skammdeginu. Ef jólin eru bara raunveruleikaflótti þá missa þau tengslin við lífið í heild, þá verða þau okkur óhjákvæmilega vonbrigði, og þegar hversdagslífið tekur við aftur finnum við fyrir meiri tómleika en nokkru sinni fyrr.

Í jólaguðspjallinu er horfst í augu við raunveruleikann. Þar er sagt frá fjölskyldu sem býr við erfiðar aðstæður. Fæðing frelsarans á sér stað og stund í veraldarsögunni. Við heyrum það í upphafsorðum guðspjallsins.„En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara…,”. Guðspjallið á sitt upphaf í þessum heimi, heimi sem þekkir til valdsmanna og valdboða. Fagnaðarerindið er boðað í okkar heimi:„Yður er í dag frelsari fæddur.” Barnið sem var í heiminn borið er í raun komið til að vera frelsari okkar, þinn og minn. Við megum taka hvert einasta orð guðspjallsins til okkar, trúa því og lifa í því.

Hirðarnir fátæku fengu fyrstir fregnir af fæðingu Jesú. Fyrst urðu þeir hræddir. Þeir voru alls óvanir allri dýrð, bæði andlegri og veraldlegri. En þeir trúðu því sem þeim var boðað. Þeir treystu og þeir hlýddu. Trú þeirra og von nægði þeim til að halda af stað og þeir fengu að sjá dýrð Guðs.

Þannig vill Guð vísa okkur leið, í lífi okkar, í gráum hversdagsleikanum. Vegna jólanna getum við einmitt skynjað, að við erum ekki lengur ein með áhyggjur okkar og sorgir. Jesús þekkir þær því hann varð maður. Hann er hér með gleði sína og frið. Guð er okkur nálægur vegna hans sem fæddist á jólum.

Jólin flytja boðskap í dimmum heimi um nýja fullvissu, nýja sannfæringu. Jólin flytja okkur eins og hirðunum nýjan fögnuð sem veitir þrótt í daglegu lífi. Jólin eiga erindi til okkar með nýja von, án vonar getur enginn maður lifað.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2577.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar