Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

G8 hópurinn

Viljum við tvær raðir?

Skammdegið færist yfir og skuggi Hrunsins hvílir enn yfir þjóð okkar. Allt bendir til að svo muni verða enn um hríð. Eins og útlitið er nú mun hátíð ljóssins ekki hrekja hann burt. Það er vaxandi fátækt í ríku landi! Þetta er þverstæða en engu að síður raunveruleiki. Það eru tvær raðir að myndast.

Önnur heldur uppi ímynd velmegunar en hin er raunveruleiki skugga, óhreinu börnin hennar Evu.

Á haustdögum hafa færri fengið Frostrósarmiða en vildu. Langar biðraðir mynduðust. Fólk vílaði ekki fyrir sér að standa í röð til að verða sér úti um glæsilega söngveislu með úrvals söngvurum þjóðarinnar.

Við heyrum að upppantað sé á jólahlaðborðin. Sem betur fer gengur lífið á Íslandi sinn vanagang.

Það hefur ekkert breyst, eða hvað? Jú, það er annað fólk í öðrum röðum.

Biðraðir upp á marga tugi metra eru hvarvetna þar sem sjálfboðaliðar útdeila mat. Viku eftir viku teygir biðröðin sig lengra og lengra út í kuldann.

Undarlega stutt er síðan þessi þjóð norður við heimskautsbaug gortaði af því að vera komin fram úr Norðurlöndunum á mælikvarða velmegunar.

Hugmyndafræðingar litu til Bandaríkjanna til að finna nógu glæsilegan samanburð.

Draumsýnin sem vonir stóðu til að rættist í almennum glæsileik varð ekki að veruleika. Nærtækara væri að tala um martröð frekari misskiptingar þar sem bláfátækir eru nú meðal okkar en einnig ofsaríkir. Þannig erum við líklega eftir allt saman eins og stórþjóðin í vestri. En ekki einu sinni þar fáum við að vera fremst meðal jafningja. Bandaríkin eru komin lengra en við í því að mæta fátæktinni með súpueldhúsum og matarmiðum. Okkar fólk stendur enn úti í kuldanum.

Jafnvel þótt tekist hafi að verja kaupmátt þeirra sem verst standa umfram hinna duga lægstu laun og bætur engan veginn fyrir nauðþurftum. Allt annað en laun og bætur hækkar. Við höfum glutrað niður því sem við vorum hvað stoltust af sem þjóð, nokkuð jöfnum hlut fólksins í landinu.

Á undanförnum áratugum var hér tiltölulega lítil misskipting. Þá horfðum við í forundran á andstæðurnar í Bretlandi og Bandaríkjunum og skildum ekkert í margföldum launamun. Nú erum við engu skárri. Auk þess höfum við orðið okkur til skammar í alþjóðasamfélaginu.

Það líður að jólum. Það er alltaf sárt að standa í biðröð eftir mat. Það er jafnvel enn erfiðara um jólaleytið. Það er kalt og dimmt. Stingurinn í brjóstinu meiri en á öðrum tíma ársins yfir því að geta ekki séð um sig og börnin sín eins og vert væri. Það er átakanlegt að verða vitnin að röðunum. Mótsögnin við friðar- og kærleiksboðskap jólanna er hrópandi. Við eigum ekki og megum ekki loka augunum fyrir vaxandi misskiptingu. Hvernig viljum við mæta framtíðinni? Er betra að vera í tveim röðum en einni?“

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3305.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar