Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Guðrún Karls Helgudóttir

Vakin af værum svefni vanans

Nú eru hópar í samfélaginu sem vilja draga úr samstarfi trúfélaga og skóla og ég tel ýmislegt sem hægt er að ræða í þeim hugmyndum. Það getur verið erfitt að vera barnið sem fær ekki að taka þátt þegar skólinn fer í heimsókn í kirkjuna eða þegar presturinn eða djákninn kemur í heimsókn í leikskólann.

Skólinn er ekki staður fyrir trúboð. Trúboð á heima í kirkju en ekki í grunnskólum eða leikskólum. Um þetta er reyndar enginn ágreiningur og mörkin hafa verið að skerpast undanfarin ár að frumkvæði þjóðkirkjunnar. Ég skil þessa hópa því að mörgu leyti og mér finnst sitthvað gott í tillögum mannréttindaráðs en að sama skapi þykir mér sumt í tillögum þeirra bera vitni um þótta í garð kristni og þá sérstaklega þjóðkirkjunnar.
En hvernig ætli hægt sé að vinna þetta svo að réttur barna sé tryggður og að foreldrar séu sáttir?

Hagsmunir barnanna hljóta alltaf að vera í fyrirrúmi. Ég efast ekki eitt augnablik um að skólar, leikskólar, öll trúar- og lífsskoðunarfélög, íþróttafélög, skátar, tónlistarskólar og öll þau er vinna með börn vilji hag barna sem bestan.

Margt kirkjunnar fólk hefur brugðist ókvæða við þessum tillögum mannréttindaráðs sem hér um ræðir enda upplifa mörg okkar tóninn í tillögunum sem yfirlætislegan. Reyndar veit ég ekki til þess að prestar séu hangandi á snerlinum í grunnskólum landsins og vilji komast inn til þess að berja börnin í höfuðið með Nýja testamentinu. Ég kannast heldur ekki við að það sé raunin í leikskólunum.

Það sem mér finnst skorta er samtal um þessi mál við trú- og lífsskoðunarfélög, skólastjórnendur og foreldra með það að markmiði að komast sameiginlega að ásættanlegri lausn. En raunin er sú að Siðmennt er eina lífsskoðunarfélagið sem kom að tillögugerðinni.

En hver veit nema það sem margir Íslendingar upplifa sem árás lítils hóps á kirkju og kristni sé það besta sem hefur komið fyrir kristni á Íslandi?

Nú er fólk allt í einu farið að tala um trú á annarri hverri kaffistofu og í fjölskylduboðum og skrifa í blöðin og blogga um trúmál og kirkju. Það getur ekki verið annað en gott. Kannski þurftum við, kristið fólk á Íslandi, að láta vekja okkur af værum svefni vanans.

Ég vona, trúi og bið þess að við þurfum ekki að óttast hugmyndir þessa hóps heldur verði þær einmitt til þess að styrkja trúfrelsi á Íslandi. Trúfrelsi er frelsi til trúar og trúleysis. Vonandi sprettur af þessu samtal sem kennir okkur að umgangast hvert annað af meiri virðingu hvaða lífsskoðun eða trú við höfum. Tölum saman af yfirvegun og með velferð barnanna okkar í huga. Samræða þeirra hópa er málið varða er lykillinn að farsælli lausn.

Um höfundinn5 viðbrögð við “Vakin af værum svefni vanans”

 1. Halldór Logi Sigurðarson skrifar:

  >Það getur verið erfitt að vera barnið sem fær ekki að taka þátt þegar skólinn fer í heimsókn í kirkjuna eða þegar presturinn eða djákninn kemur í heimsókn í leikskólann.

  Auðvelt að koma í veg fyrir slíka sundrung; prestar eða djáknar fara bara ekki í skóla eða leikskóla.

  >Skólinn er ekki staður fyrir trúboð. Trúboð á heima í kirkju en ekki í grunnskólum eða leikskólum. Um þetta er reyndar enginn ágreiningur og mörkin hafa verið að skerpast undanfarin ár að frumkvæði þjóðkirkjunnar

  En svo virðist sem þjóðkirkjan virðist ekki vilja keyra það í gegn þegar á hólminn er komið.

  >En hvernig ætli hægt sé að vinna þetta svo að réttur barna sé tryggður og að foreldrar séu sáttir?

  Nokkurn vegin eins og mannréttindaráð vann þetta?

  >Reyndar veit ég ekki til þess að prestar séu hangandi á snerlinum í grunnskólum landsins og vilji komast inn til þess að berja börnin í höfuðið með Nýja testamentinu. Ég kannast heldur ekki við að það sé raunin í leikskólunum.

  Auðvitað ekki.
  http://neskirkja.is/safnadarstarf/born/
  Auk þess sem það ætti að vera eitthvað sem prestar sóttust eftir, eru þeir jú ekki búnir að sverja þess eið eða eitthvað svoleiðis með prestvígslu að breiða út kristni?

  >Það sem mér finnst skorta er samtal um þessi mál við trú- og lífsskoðunarfélög, skólastjórnendur og foreldra með það að markmiði að komast sameiginlega að ásættanlegri lausn.

  Það þarf í raun ekki því hér er góð lausn:
  Fulltrúar trúarbragða; haldið ykkur fjarri skólum landsins!

  >En raunin er sú að Siðmennt er eina lífsskoðunarfélagið sem kom að tillögugerðinni.

  Og þess vegan er þetta svona skelfilegt. Nú skil ég.

  >En hver veit nema það sem margir Íslendingar upplifa sem árás lítils hóps á kirkju og kristni sé það besta sem hefur komið fyrir kristni á Íslandi?

  Lítils hóps? Árás? Er það árás á kristni og kirkju að banna trúboð? Nei, það ýtir einungis undir rétt barna til þess að móta eigin skoðanir og ná gagnrýninni hugsun áður en farið er að ýta að þeim trúarbrögðum.
  Væri það árás á pólitík og alþingi Íslands að banna stjórnmálaflokkum að fara í skóla og leikskóla og “fræða” um stjórnmálaskoðanir.

  >Kannski þurftum við, kristið fólk á Íslandi, að láta vekja okkur af værum svefni vanans.

  Já, og sætta ykkur við jafnrétti.

  >Tölum saman af yfirvegun og með velferð barnanna okkar í huga. Samræða þeirra hópa er málið varða er lykillinn að farsælli lausn.

  Þess vegna langar mig til þess að biðja um að þessari gagnrýni minni verði svarað, ekki bara annar eins pistill verði skrifaður.

 2. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Reyndar veit ég ekki til þess að prestar séu hangandi á snerlinum í grunnskólum landsins og vilji komast inn til þess að berja börnin í höfuðið með Nýja testamentinu.

  Hver hefur talað um að prestar séu að “berja börnin í höfuðið með Nýja testamentinu”? Væri ekki betra að lýsa skoðunum annarra á sanngjarnan hátt.

  Og að þú vitir ekki til þess að trúboð sé stundað í skólum segir afskaplega lítið. Hvað finnst þér t.d. um það að prestur mæti reglulega í leikskóla og láti meðal annars börnin fara með bænir?

 3. Guðrún Karlsdóttir skrifar:

  Takk fyrir að nenna að lesa þetta og bregðast við!

  Halldór Logi, við erum einfaldlega ósammála og höfum ólíka sýn á þessi mál. Ég virði það og vona að þú gerir slíkt hið sama. Ég ætla ekki að fara að hártogast um hvert atriði sem þú nefnir því markmiðið með þessum pistli var einmitt að reyna að komast upp úr skotgröfunum.

  Hjalti, prestar eiga ekki að mæta reglulega í leikskóla og fara með bænir. Ef prestar eða djáknar koma í heimsókn í leikskóla þá á sú heimsókn að vera á forsendum skólans.

 4. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Það er nú gott að þér finnst að prestar eigi ekki að mæta í leikskóla og fara með bænir. Bara ef þetta væri almennt viðhorf hjá starfsmönnum ríkiskirkjunnar.

 5. Halla Sverrisdóttir skrifar:

  Já, ég tek undir með Hjalta að það væri óskandi að fleiri deildu því viðhorfi. Því miður er það ekki svo og þess eru fjölmörg dæmi. Prestar hafa því miður ekki heldur þurft að “hanga á snerlinum”, því sumir skólastjórnendur hafa hrint hurðinni upp á gátt, oft í trássi við yfirlýstan vilja sumra foreldra. Þá þekki ég persónulega dæmi um að starfsmenn sóknarkirkju hafi mætt á frístundaheimilið og smalað saman þeim 6 og 7 ára börnum “sem vildu koma” (þ.e. létu börnin ráða því) yfir í kirkjuna á vistunartíma þeirra í frístundaheimilinu, og í þeim hópi var mitt barn, sem þó hafði verið skráð frá þátttöku í kristilegu æskulýðsstarfi við umsókn um frístundaheimili. Presturinn sem er ábyrgur fyrir “klúbbnum” sem um ræðir hefur ekki svarað kvörtun okkar; hún var reyndar send til ÍTR en hann fékk afrit og ég hefði gjarnan viljað viðbrögð frá honum, svona í anda samræðu. Eða bara afsökunarbeiðni fyrir að hafa tekið barnið af frístundaheimilinu án skriflegs/munnlegs leyfis og reyndar gegn yfirlýstum vilja okkar foreldranna. Í þessum kristilega barnaklúbbi eru börnin áreiðanlega ekki barin í hausinn með guðsorðinu, en þar eru “biblíusögur sagðar með skipulegum hætti”. Klúbburinn er hluti af fastri “klúbba”dagskrá frístundaheimilisins. Sem betur fer er mitt barn ekki það eina sem á svona undarlega foreldra og þetta er henni ekki mikið mál, en kallaði auðvitað á útskýringar og „innrætingu“ (þegar pabbi og mamma segjast ekki trúa á Guð er ungum börnum næstum óhjákvæmilega eðlislægt að finnast að þá eigi þau ekki heldur að gera það) sem við foreldrar hennar hefðum gjarnan viljað hlífa henni við – við sjáum enga ástæðu til að halda að henni trúleysi fremur en trú og þætti æskilegast að hausinn á henni fengi að vera trúarlega hlutlaus sem allra lengst! Þetta virkar kannski ruglingslegt en ég vona að þú skiljir hvað ég er að fara – allir trúlausir foreldrar sem ég þekki hafa lent í svipaðri aðstöðu fyrr en þeir kysu.
  Raunar er það stórfurðulegt í sjálfu sér að það þurfi að segja sig sérstaklega frá þessu starfi við umsókn og segir meira en margt annað um það hversu óeðlilega samofið kristilegt starf er orðið skóla og frístundaheimilum. Ekki þurfti ég að afþakka sérstaklega fótboltaæfingar hjá Þrótti! Við ræddum að sjálfsögðu líka við ábyrgan aðila hjá frístundaheimilinu og þar mættum við miklum vilja til samræðu, sem og skilningi á okkar afstöðu og ákvörðun um endurskoðun vinnubragða við þetta, svo við erum sátt við þau.
  Ég nefni þetta EKKI til að vera með „pillur“ í garð kirkjunnar manna eða gera alla presta ábyrga fyrir agressívum vinnubrögðum sumra kollega sinna, ég er fullfær um að kvarta formlega við viðhlítandi aðila þegar mér finnst eitthvað ámælisvert! En kvartanir okkar trúlausra foreldra hafa of lengi verið afgreidd sem tuð og í seinni tíð sem árásir á kirkjuna og það er mjög miður. Ég virði ósk þína og fleiri kirkjunnar þjóna um samtal, en rétt eins og kirkjan dró lappirnar í málefnum samkynhneigðra þar til samfélagið nennti ekki að bíða lengur hafa trúlausir foreldrar og aðrir foreldrar sem ekki samþykkja trúboð í skólum fullreynt vilja yfirmanns þinnar stofnunar – og margra presta sem hafa skipað sér framarlega í þjóðmálaumræðunni - til samræðu.

  Með bestu kveðju, Halla Sverrisdóttir

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2419.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar