Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

G8 hópurinn

Tvenns konar guðfræði

Það er mögulegt að ástunda guðfræði á ýmsa vegu og á mismunandi vettvangi. Guðfræði er til dæmis hægt að stunda í klausturgarði lengst úti í sveit. Það er líka hægt að iðka guðfræði á torgi fyrir framan dómkirkju í miðjum erli borgarinnar.

Guðfræði sem virðist ættuð úr einangrun klaustursins má finna í íhugunarverðum fyrirlestri sem fluttur var við setningu kirkjuþings fyrir skömmu. Fjallaði erindið um stöðu og hlutverk þjóðkirkjunnar í aðdraganda og eftirmála bankahrunsins. Ávarp við þetta tækifæri hlýtur að tjá afstöðu kirkjustjórnarinnar að einhverju marki. Það vekur því athygli og verðskuldar greiningu. Hér verður þess freistað að rýna það út frá því sjónarhorni sem torgið skapar. Við, sem þetta skrifum, teljum okkur hafa tekið okkur stöðu þar m.a. í blaðagreinum sem við höfum birt á undanförnum misserum.

Ræðumaður virðist telja að þjóðkirkjan geti með nokkru stolti skoðað framlag sitt í aðdraganda og eftirleik Hrunsins. Þeirri skoðun til stuðnings segir hann að biskup hafi gagnrýnt græðgina en fengið bágt fyrir. Samtímis lítur fyrirlesarinn svo á að ræður presta hafi almennt snúist um veraldlegt réttlæti sem að hans mati tilheyri ekki hlutverki kirkjunnar.

Þarna er komið að átakalínu guðfræðinnar sem snýst um hvort prestar eigi að boða félagslegt réttlæti eða ekki. Með boðun félagslegs réttlætis telur ræðumaður kirkjuna hafa lent í siðrofi vegna þess að hún blandi sér í veraldlegan málaflokk þar sem hún geti lítið að gert. Þúsundir heimila muni hvort sem er verða gjaldþrota og skúrkar áfram ganga lausir. Hann telur boðun Krists ekki vera mannmiðlæga og kirkjan megi af þeim sökum ekki ala á því viðhorfi að manneskjan sé miðpunktur alheimsins. Hugtakið siðrof notar ræðumaður í svo óljósri og margbreytilegri merkingu að það verður að merkingarlausu mælskubragði. Þeirri hugmynd er að lokum varpað fram í fyrirlestrinum að rétt væri að gefa út almennt fræðslurit um hliðstæður og tengsl rita Biblíunnar við íslenska menningu. Því er til að svara að þau rit eru fjölmörg og fyrirfinnast á hinum ýmsu sviðum. Þau komu hvorki í veg fyrir hið svokallaða siðrof né bankahrunið. Þau munu heldur ekki vega þungt við lausn þeirra vandamála sem stjórnvöld standa frammi fyrir við að koma samfélaginu aftur  á réttan kjöl.

Röksemdarfærsla ræðumannsins virðist byggjast á alvarlegu rofi frá umhverfinu. Ætla mætti að hún hafi orðið til í lokuðum klausturgarði. Rökleiðslan er eins og blaut tuska í andlit þess kristna fólks sem er uggandi um hag þeirra sem verst eru sett og skynja í ysnum á torginu rödd frelsara síns sem segir: Hungraður var ég, … þyrstur … gestur … nakinn … sjúkur … og í fangelsi – og þér komuð til mín (Mt 25.35-37). „Kristur er í nánd“ segir ræðumaður en hvað merkir það? Hvað á kirkjan að gera þangað til?

Guðfræði af þessu tagi er ekki ný af nálinni. Hún byggist á því að greint er á milli himins og jarðar, efnis og anda, veraldlegs og trúarlegs sviðs. Slík guðfræði telur trúna, kirkjuna og guðfræðina eiga að einskorða sig við hið andlega, yfirnáttúrulega eða handanlæga.

Guðfræði torgsins hefur sömuleiðis tekið á sig margvíslegar myndir í tímans rás. Á síðari áratugum hefur hún einkum sagt til sín í guðfræði svartra, frelsunarguðfræði Suður-Ameríku og femínískri guðfræði. Þessi guðfræði gengur út frá því að Jesús var sannur maður um leið og hann birti okkur sannan Guð og hún vill vera undirbúin fyrir það að mæta honum meðal þeirra sem höllum fæti standa hvenær sem er og hvar sem er.

Fyrir rúmri öld héldu margir fram torgsguðfræði sem síðar var réttilega gagnrýnd fyrir að vera of mannmiðlæg. Hún hafði oftrú á möguleikum manneskjunnar til fullkomnunar. Þetta var bjartsýn og bláeyg guðfræði. Hún lokaði augum fyrir villimennsku og syndugu ástandi mannsins sem afhjúpaði sig í tveimur styrjöldum, háðum í miðpunkti hins menntaða heims á þeim tíma — Evrópu.  Í kjölfarið gekk guðfræði Vesturlanda í gegnum kreppu og uppgjör er hún vann úr þessari reynslu. Það sem einkum hefur endurnýjað guðfræði af þessu tagi og gefið henni nýjan trúverðugleika er hvernig hún greinir félagslegan veruleika og tekur sér stöðu með fátækum og smáum, þeim sem hafa mátt þola ofbeldi, þöggun og blekkingar. Slík guðfræði var vegin og léttvæg fundin við upphaf kirkjuþings.

Fagnaðarerindið fjallar um Orðið sem var Guð, en varð hold og bjó með oss, það er um Krist sem sannan Guð og sannan mann. Þessar tvær víddir verða að vera til staðar í öllu því sem ætlað er að efla Krist á meðal okkar, hvort sem um er að ræða bænir eða baráttu fyrir félagslegu réttlæti í ranglátum heimi.

Um höfundinn7 viðbrögð við “Tvenns konar guðfræði”

 1. Skúli skrifar:

  Takk fyrir pistilinn, en af hverju eruð þið ekki með slóð á greinina sem þið eruð að gagnrýna?

  Gagnrýni kirkjunnar á græðgina var vissulega til staðar en hún var ómarkviss, óskipulögð og jafnvel tilviljanakennd. Það ætti að vera hluti af endurmati kirkjunnar í kjölfar hrunsins að kanna hvaða farveg mætti setja á slíka gagnrýni svo að hún hafi raunveruleg áhrif.

  Pólitísk boðun innan kirkjunnar hefur aðeins gildi ef hún sprettur upp af boðun fagnaðarerindisins. Slík samþætting er þó vitaskuld afar eðlileg eins og bent er á.

 2. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Erindið er að finna á vef kirkjuþings, http://kirkjuthing.is/files/ses-hlutverk-og-stada-thjodkirkjunnar.pdf

 3. Torfi Stefánsson skrifar:

  Ég vil þakka G8-hópnum fyrir að vekja athygli á þessu erindi Stefáns Einars Stefánssonar á Krikjuþingi, þó svo að eðlilegra hefði verið að nefna nafn hans í greininni.

  Nú veit ég auðvitað ekki hvor aðilinn er meira einangraður innan veggja hugarfarsklaustursins, G8-hópurinn eða Stefán Einar. Stefán hefur verið á ferð og flugi sem viðskiptasiðfræðingur og verið ráðgjafi banka í þeim málum, en ég man ekki til að G8-hópurinn hafi gert meira á því sviði en að skrifa nokkrar greinar um hrunið á tru.is

  Það sem ég vil nefna hér er athugasemd hópsins við hugmynd Stefáns um að gefa út “almennt fræðslurit um hliðstæður og tengsl rita Biblíunnar við íslenska menningu” eins og segir í grein G8-manna.
  Reyndar nefnir Stefán ekki Biblíuna í þessu sambandi heldur einungis að skrifuð verði (kennslu)bók sem greini frá tengslum á milli “kristinnar kenningar” og íslenskrar menningar.

  Mér finnst hugmyndin góð (þó svo að hugtakið kristin “kenning” sé mjög óljós), enda hef ég verið að rembast við að skrifa slíka bók allt þetta ár, og sendi Stefáni handrit að henni til yfirlestrar fyrir margt löngu - en hef ekki fengið nein viðbrögð frá honum (það væri þokkalegt ef sjálfur viðskiptasiðfræðingurinn sé búinn að stela hugmyndinni frá mér!).

  G-8 hópurinn heldur því fram að til séu “fjölmörg” rit af þessu tagi og fyrirfinnist víða.
  Ég hef lesið fjölmörg rit í leit minni að efnivið til kirkjusöguskrifa minna en hvergi séð neitt það rit sem gæti flokkast undir slíkt - og/eða notast sem kennsluefni í skólum landsins.

 4. Matti skrifar:

  Hefur hópurinn eitthvað út á þessi orð viðskiptasiðfræðingsins í sama erindi að setja?

 5. Jón Yngvi Jóhannsson skrifar:

  Margt má segja missjafnt um þig Matthías. En það verður ekki af þér tekið að þú ert óforbetranlegur bjartsýnismaður!

 6. Matti skrifar:

  Já, ég veit :-)

  Mér þykir bara dálítið magnað að sjá hópinn hér gagnrýna tiltekinn hluta í erindi framkvæmdastjóra Hins íslenska biblíufélags, en líta alveg hjá grófum lygum hans í sama erindi.

  Þar sýnist mér sannast hið fornkveðna - hverjum er ekki drullusama þó drullað sé yfir trúleysingja.

 7. Jakob Ágúst Hjálmarsson skrifar:

  Ég verð að segja að G8 hópurinn hefur spillt gleði minni yfir erindi Stefáns Einars við setning Kirkjuþings. Ég fagnaði áherslu hans á sátt, fyrirgefningu og eilíft líf einmitt þar sem hún var ekki á kostnað félagslegrar ábyrgðar. Kirkja er ekki hjálparstofnun heldur hjálpræðistofnun og erindi hennar er við manninn allann, líkama og sál.
  Ég skil heldur ekki þjóstinn í grein G8 og sé ekki það gagn sem hópurinn hefur ætlað með henni. Og þetta með klausturgarðinn. Ég held einmitt að nokkrir í G8 hafi fullan skilning á gagnsemi þess að stefna fólki í kyrrð og heilaga nærveru. Líklega gætum við þess vegna verið sammála um að erindi kristins manns við heiminn byrjar í nærveru Drottins sem heimurinn er skapaður í og fyrir. Til hans berast allir hlutir til dóms og lausnar,dýrðar og náðar.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3518.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar