Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Halldór Reynisson

Trúarbragðafræðsla í Evrópu

Fjölmenning og fjölhyggja fer vaxandi jafnt á Íslandi sem annars staðar í Evrópu. Á sama tíma hefur vægi trúarbragða aukist í opinberri umræðu þvert á þá hugmynd að trúarbrögðin væru aðeins einkamál fólks. Ýmsar stofnanir í Evrópu hafa sett málefni fjölmenningar og samræðu trúarbragða á dagskrá þar sem menntun um ólík trúarbrögð og lífsviðhorf er talin mikilvæg.

Stofnanir evrópskrar samvinnu

Þing Evrópuráðsins samþykkti árið 2005 tilmæli um trúarbragðafræðslu. Um leið og trúfrelsi er áréttað þá segir þar að slíkt sé ekki í andstöðu við það sjónarmið að góð þekking á trúarbrögðum stuðli að umburðarlyndi sem sé nauðsynlegt fyrir lýðræðið. Í þessum tilmælum kemur fram sú gagnrýni á menntayfirvöld að þau veiti ekki nógu miklu til kennslu um trúarbrögð og að skortur sé á hæfum kennurum. Hvatt er til að nemendur fái hlutlægan fræðslu um sögu trúarbragða, trú og trúleysi svo og að geta greint öfgafulla trúariðkun.

Evrópuráðið gaf svo út svokallaða Hvíta bók um fjölmenningarlega samræðu (White Paper on Intercultural Dialogue, Strasbourg 2008). Þar eru sett fram grunngildi Evrópuráðsins svo sem umburðarlyndi og jafnrétti. Í Hvítu bókinni gengur fjölhyggjan alls staðar í gegn. Þar er trúarbragðafræðsla talinn mikilvæg til þess að nemendur öðlist fordómalausan skilning á helstu trúarbrögðum. Í skýrslunni kemur einnig fram svipað álit menntamálaráðherra Evrópulanda þar sem þeir leggja áherslu á trúarbragðafræðslu til að efla skilning á menningu og trúarsamfélögum. Þá er þekking á trúarbrögðum talin ein af forsendum þess að þvermenningarleg umræða geti farið fram.
Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (OSCE) gaf út skýrslu sem nefnist Toledo Guiding Principles on Teaching about Religions and Beliefs in Public Schools, (Varsjá 2007). Stofnunin taldi að efla þyrfti skilning á trúarbrögðum og lífsskoðunum til að takast á við fordóma, stimplun og ögranir gagnvart þeim sem hugsa öðru vísi en slíkt hefur oft leitt til spennu og jafnvel ofbeldis í álfunni.Toledo-skýrslan fjallar ítarlega um fræðslu um trúarbrögð í opinberum skólum og hvernig megi tryggja að mannréttindaákvæði um trúfrelsi séu virt sem og sanngirni gagnvart nemendum með ólíkan menningarlegan og trúarlegan bakgrunn. Helstu niðurstöður skýrslunnar eru þær að þekking á trúarbrögðum auki skilning á frelsi allra til að ástunda sína trú eða lífskoðun; slík þekking efli einnig lýðræðislega þátttöku í samfélaginu og hvetji til skilnings á félagslegri fjölbreytni um leið og hún auki félagslega samloðun. Þá kemur fran í Toledo-skýrslunni að eðlilegt sé að trúfélög og skólar eigi með sér samstarf um trúarbragðakennsluna.

Loks skal hér getið getið skýrslu sem nefnist Interreligious and Values Education in Europe, Map and Handbook (Nürnberg 2008). Þar er að finna upplýsingar um trúarbragðafræðslu í flestum löndum Evrópu. Þar segir að því sjónarmiði vaxi nú ásmegin að trúarbragðafræðsla skuli vera hluti af almennri menntun. Fræðslan eigi að miðla þekkingu á trúar- og menningararfi Evrópu, fjalla um gildi sem grundvölluð eru á trú og hafa áhrif á einstaklinga og samfélög. Þá eigi hún að hjálpa nemendum að ígrunda tilvistarspurningar og efla umburðarlyndi þeirra.

Evrópa - Ísland

Trúarbragðafræðsla í Evrópu er talin mikilvæg til þekkingar á rótum evrópskrar menningar, svo og þjálfunar nemenda í umburðarlyndi og lýðræðislegum vinnubrögðum. Víða í Evrópu er heilmikið samstarf við trúfélög en ekki annars staðar. Í þeim heimildum sem hér hafa verið reifaðar er það áréttað að slíkt samstarf sé á þeirri faglegu forsendu skólastarfs að fræða en ekki boða.

Í umræðunni sem hér á sér stað á um tengsl skóla og trúfélaga, einkum þjóðkirkjunnar er gagnlegt að að hafa þetta evrópska sjónarhorn í huga. Þar er lögð áhersla á aukna fræðslu um trúarbrögð og lífsskoðanir, jafnvel í samvinnu við trúfélög. Þeir sem vilja draga úr trúarbragðafræðslu og banna samstarf við trúfélög hér á landi eru að þessu leyti að ganga í öfuga átt miðað við áðurgreinda umræðu í Evrópu.

Um höfundinn4 viðbrögð við “Trúarbragðafræðsla í Evrópu”

 1. Torfi Stefánsson skrifar:

  Athyglisverð úttekt Halldór og takk fyrir hana.

  Þó verður að harma þá grunnforsendu sem mér finnst liggja að baki henni, þ.e. að sýna fram á að umræðan hér á landi (til dæmis vegna skýrslu mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar) sé á skjön við umræðuna annars staðar í Evrópu. Sú umræða gangi þvert á móti út á það að auka trúarbragðafræðslu og halda uppi samstarfi við trúfélögin.

  Nú er í hérlendri umræðu ekkert verið að tala, eins og er, um trúarbragðafræðsluna sem slíka, hvorki um að auka hana né minnka. Hafa bæði Vantrúarmenn og Siðmennt margítrekað það og er kominn tími til að taka það fólk trúanlegt. Annað verður að flokkast undir ósanngirni - og að halda öðru fram verður að flokkast undir ósannindi.

  Hvað samstarf við trúfélög um trúarbragðakennslu varðar er málið ekki eins einfalt. Þar hefur einkum verið gagnrýnt að þjóðkirkjan hafi of greiðan aðgang að skólum (þó eflaust sé gert of mikið úr ásókn hennar), og að þar sé ekki gætt jafnræðis við önnur trúfélög og lífsskoðunarhópa, en ekki verið að tala um að banna eitt né neitt).

  Þá hefur ennfremur verið bent á að aðgangur þjóðkirkjunnar að skólanemendum tengist yfirleitt ekki trúarbragðafræðslunni sem slíkri.
  Má þar nefna frí fermingarbarna (8. bekkjar grunnskóla) frá kennslu í allt að tvo daga - og heimsóknir grunnskólanema í kirkjur á aðventu, alveg óháð því sem verið er að kenna í skólunum á sama tíma. Það síðarnefnda er þannig ekki vettvangsheimsóknir heldur einfaldlega þátttaka í helgihaldi jólanna (og eru þá ákveðnum aðilum leyft að sitja heima, þar sem ekki er um fræðslu að ræða).

  Þess vegna finnst mér eins og innlegg þitt hér sé tilraun til að þokuleggja umræðuna og gera hana tortryggilega.
  Það hefur einkennt viðbrögð kirkjunnar manna undanfarið, með nokkrum undantekningu þar á meðal þig. Þú hefur bent á samastarfsplagg kirkju og skóla, frá 2008 að mig minnir, þar sem lögð er áhersla á að samstarf krikju og skóla farið alfarið fram á forsendum skólans, sem er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt.

  Þetta er þó í annað sinn á stuttum tíma sem þú gefur í skyn að kirkjan eigi einhvers konar “rétt” á að koma að trúarbragðafræðslu í skólum, með sérfræðikunnáttu sína, m.a. vegna þess hve stóran þátt hún eigi í trúar- og menningararfi Evrópu.

  Ég tel slík forréttindi þjóðkirkjunnar vera varhugaverð og legg til að haldið verði fast við samstarfssamninginn frá 2008, um að öll fræðsla um trúar- og lífskoðanir fari áfram fram á forsendum skólans, og að það sé hans að ákveða til hverra sérfræðinga sé leitað um það en ekki að kirkjan krefjist þess að leitað sé til hennar í ljósi einhverrar umræðu úti í Evrópu.

  Að lokum vil ég benda þér á að í nýjum námskrárdrögum fyrir grunnskóla er hætt að tala um að skólastarfið eigi að einkennast af kristnu siðgæði(ákvæði sem hefur verið inni frá því á 8. áratugnum) og í staðinn einungis talað um að starfshættir grunnskóla skuli mótast af “kristinni arfleifð íslenskrar menningar”.
  Hvað finnst þér sem “fræðslustjóri” þjóðkirkjunnar um þá breytingu?

 2. Kristín Þórunn skrifar:

  Takk Halldór fyrir fínan pistil og gott yfirlit um stöðu mála í trúarbragðafræðslu í Evrópu.

 3. Halla Sverrisdóttir skrifar:

  Þetta er áhugavert yfirlit um stöðuna í Evrópu. Ég hygg að allir, sama hver afstaða þeirra til trúarbragða sem slíkra kann að vera, taki undir það sjónarmið að trúarbragðafræðslu þurfi að efla og að hún ætti að vera sem fjölbreytilegust.

  Ég verð hins vegar að taka undir athugasemdir Torfa Stefánssonar hér að ofan; í framhaldi af því bið ég þig að útskýra fyrir mér hverja þú átt við þegar þú talar um “[Þá] sem vilja draga úr trúarbragðafræðslu og banna samstarf við trúfélög hér á landi” og sem eru “að þessu leyti að ganga í öfuga átt miðað við áðurgreinda umræðu í Evrópu.”

  Ég hef fylgst nokkuð vandlega með umræðunni um þessi mál hér undanfarin misseri og minnist þess ekki að hafa séð eða heyrt nokkurn hvetja til minni trúarbragðafræðslu. Varla getur þetta vísað til Mannréttindaráðs og margumræddrar ályktunar þess, þar sem í ályktuninni er hvergi minnst á aukningu né úrdrátt þeirrar fræðslu, enda það ekki í verkahring ráðsins að hlutast til um námsskrár. Ég sé því enga ástæðu til að óttast einhvern undirróður um minni trúarbragðafræðslu; hann fer þá amk fram á einhverjum umræðusvæðum sem ég kem aldrei á. Sé einhver að hvetja til þess væri fróðlegt að frétta af því. Með kveðju, Halla Sverrisdóttir

 4. Guðmundur Ingi Markússon, trúarbragðafræðingur, Cand.mag. skrifar:

  Fróðlegur pistill, en ekki gallalaus.

  “Þeir sem vilja draga úr trúarbragðafræðslu og banna samstarf við trúfélög hér á landi eru að þessu leyti að ganga í öfuga átt miðað við áðurgreinda umræðu í Evrópu.”

  Ég hef tekið þátt í þessari umræðu, m.a. vegna menntunar minnar sem trúarbragðafræðingur (Cand.mag. frá Árósaháskóla). Hvorki ég né nokkur annar sem gagnrýnt hefur óljós mörk boðunar og fræðslu í skólum hefur nokkurn tíma haldið því fram að það eigi að “draga úr trúarbragðafræðslu”.

  Þetta á við umræðuna undanfarið, en einnig þá sem spunnist hefur um kristin fræði áður. ENGINN, hvorki ég, né aðrir hafa NOKKURN TÍMA talað fyrir þessu sjónarmiði. ÞVERT Á MÓTI. (Ég skrifa í HÁSTÖFUM svo þetta komist til skila). Ég og aðrir “gagnrýnendur” höfum nánast undantekningarlaust talað fyrir AUKINNI og vandaðri fræðslu um trúarbrögð.

  Við getum verið ósammála — en hvernig væri að hætta að gera “andstæðingum” upp skoðanir? Ég hef alltaf talið þig vandaðann mann, og þykir leitt að sjá þið halda slíku fram þegar þú hlýtur að vita betur.

  Ég get verið sammála nánast öllu sem kemur fram að ofan. Þú segir í niðurlagi að gagnrýnendur sem vilji “banna samstarf við trúfélög hér á landi eru að þessu leyti að ganga í öfuga átt miðað við áðurgreinda umræðu í Evrópu.” Þetta með “bannið” eru ýkjur, því samkvæmt tillögum Mannréttindaráðs er talað um að heimsóknir fulltrúa trúfélaga séu heimilar innan ramma fræðslunnar og undir handleiðslu kennara.

  En þú leggur miklar áherslu á þetta með samstaf við trúfélög í Evrópu - en hversu mikið atriði er þetta í Evrópu? Þú nefnir aðeins eina skýrslu þar sem mælt er fyrir þessu — Toledo-skýrsluna. Mælir Evrópuráðið fyrir þessu líka?

  Þú nefnir annað rit sem þú kallar skýrslu en skýrir ekki nánar hvað er, sem á að sýna hve mikil áhersla er í Evrópu á samvinnu milli skóla og trúfélaga. Fljótt á litið fæ ég ekki betur séð en þetta sé á vegum European Council of Religious Leaders (ráðs trúarleiðtoga í Evrópu). Varla er hægt að vitna til þessa rits á sama hátt og í skýrslur Evrópuráðsins eða OSCE. Og skyldi kannski engan undra að trúarleiðtogar í Evrópu vilji aukna samvinnu skóla og trúfélaga — kannski eru þeir ekki alveg hlutlausir? (sjá http://www.ci-muenster.de/english/bookshop/items/books/europa11.php og http://www.rfp-europe.eu/).

  Að lokum ber pistill þin keim af þeirri hugmynd, að sjálfir fulltrúar trúarbragðanna og trúfélagann séu best til þess fallnir að stunda trúarbragðafræði og kennslu. Ef sú væri raunin ætti að reka fræðimenn út af skrifstofum trúarbragðafræðideilda háskólanna, og ráða inn búddista til að sinna búddismanum, múslíma til að sinna Islam, o.s.frv. Og henda út hinum fræðilegu nálgunum og módelum fyrir sjálfar trúarhugmyndirnar (og ef við höldum aðeins áfram með þetta, ætti á sama hátt að tæma stjórnmálafræðideildirnar og ráða inn kommúista, frjálshyggjumenn, o.s.frv. í stað fræðimanna). Í slíkri deild skapaðist kannski samræða milli trúarbragða, en akademísk fræði UM trúarbrögð væri fyrir róða.

  Og þetta er einmitt kjarni málsins AUKUM veg og vanda trúarbragðafræðinnar. AUKUM fræðslu um trúarbrögð á grunnskóla- og framhaldsskólastigi. BÆTUM fræðslu um trúarbrögð. Hvernig? Lýtum örlítið nær — lítum til Danmerkur, þar sem öflug trúarbragðafræði er stunduð í amk. þremur háskólum — veraldleg fræðigrein á grunni hug- og félagsvísinda. Danskir trúarbragðafræðingar sinna ekki aðeins háskólastiginu, heldur hafa einnig áhrif á skrif kennslubóka í trúarbragðakennslu á lægri skólastigum.

  Lykillinn er því að EFLA því trúarbragðafræðina sem fræðigrein innan Háskóla Íslands (eða öðrum háskólum).

  Að lokum, gerum kristinni trú HÆRRA undir höfi með því að kenna MEIRA um hana í trúarbragðafaginu í grunn- og framhaldsskólum, eða með sérstökum áherslum í sögu og bókmenntum.

  EKKI halda því fram að hér hafi ég sagst “vilja draga úr trúarbragðafræðslu” — eða þagga niður kristindóminn. Slíkt væri ekki aðeins ósanngjarnt, heldur einnig og rangt (ég hef HÁLETRAÐ svo þetta fari ekki framhjá neinum).

  Með von um málefnalega umræðu, kveðja, Guðmundur

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2903.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar