Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Ninna Sif Svavarsdóttir

Þakkarbæn unglings

„Þakka þér fyrir Guð að þú skapaðir manninn þannig að hann getur gefið öðrum og finnst gott að gefa.“

Þannig hljómaði þakkarbæn eins unglingsins í æskulýðsfélagi Selfosskirkju í bænastund sl. þriðjudagskvöld. Við sátum öll saman inni í kór. Öll ljós voru slökkt en kertaljós loguðu og svo höfðum við sungið tvo sálma við gítarundirleik stúlku í félaginu. Að því loknu báðum við bænir. Við höfum þann háttinn á að leiðtoginn leiðir bæn í upphafi, kyrrir hugann og skýrir hugsun, og svo förum við hringinn og hver og einn biður frá eigin brjósti. Sumar bænir viljum við reyndar að enginn heyri nema Guð einn, og þá segjum við bara „amen“. En aðrar bænir biðjum við upphátt. Og svo endum við á Faðir vor.

Þetta kvöld höfðum við pakkað jólagjöfum í skókassa sem verða sendir til barna í Úkraínu. Hver og einn kom með kassa að heiman og hafði valið í hann skv. leiðbeiningum sem fylgdu. Í hverjum kassa áttu að vera tannbursti og tannkrem og aðrar hreinlætisvörur, skóladót, sælgæti og leikföng, og svo eitthvað fatakyns. „Ég stóð úti í búð og pældi í því hvað ég myndi velja ef ég fengi bara nammi einu sinni á þessu ári“ sagði einn. „Ég ákvað að gefa gömlu uppáhaldsbarbídúkkuna mína, hún er ennþá svo fín“ sagði önnur „fyrst hún var uppáhaldið mitt, og ég á svo svakalega mikið dót, hlýtur stelpa sem á ekkert að verða ánægð með hana“.

Já, það er gaman að gefa.

Þessum gjöfum fylgir líka skynsamur og gjöfull hugur. Unglingarnir sjá sig nefnilega sjálf sem hluta af hinu stóra samhengi veraldarinnar. Þau vita að þau geta gefið af því sem þau eiga og eru, og finnst það gott. Þessir unglingar hafa líka vanist því að láta til sín taka og finnst það eðlilegur hluti lífs síns. Þannig tóku þau þátt í að leysa þrælabörn úr ánauð á Indlandi á landsmóti æskulýðsfélaganna, og nú í nóvember ætla þau að styrkja jólaaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar hér innanlands. Þau eru gerendur í samfélaginu, fólk sem leggur sitt af mörkum til að gera heiminn betri.

Þakkarbænin sem vitnað er til í upphafi sýnir að þau kannast við sig sem manneskjur þegar þau gefa af sér, og skilja þá og skynja hver þau eru í raun. Hluti af hinni góðu sköpun Guðs. Þau eru þakklát fyrir að fá að vera slíkar manneskjur, og kirkjan og samfélagið allt má vera þakklát fyrir slíka unglinga.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3475.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar