Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Kristín Þórunn Tómasdóttir

Sveitakirkjan mín

Haukadalskirkja

„Starf og þjónusta kirkjunnar nær til landsmanna allra til ystu nesja og innstu dala,“ sagði biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson við setningu kirkjuþings sem nú er að ljúka.

Þinginu sjálfu hugnuðust þessi orð svo vel að þau standa í upphafi þingsályktunar um skýrslu kirkjuráðs, en afgreiðslan á þeirri skýrslu er helsta svar löggjafarsamkundu þjóðkirkjunnar við skýrslu um það sem hæst ber í umsvifum biskups Íslands, biskupsstofu og kirkjuráðs – sem er einskonar framkvæmdavald þjóðkirkjunnar.

Mig langar að staldra aðeins við þessa krúttlegu og rómantísku mynd sem dregin er upp af þjóðinni í orðum biskups og kirkjuþings. Hvar er hina íslensku þjóð að finna, samkvæmt henni? Jú, út við ystu nes og inn í innstu dölum. Þar unir hún sér grandvör, farsæl, fróð og frjáls við ysta haf.

Með fullri virðingu fyrir fólkinu okkar sem stendur vaktina á annesjum um allt land og upp við hálendið, þá birtist mér þessi mynd kirkjunnar af Íslendingum sem töluverð tímaskekkja. Langstærsti hópur fólks býr í Reykjavík, á höfuðborgarsvæðinu - við stræti og torg, stíga og götur, umferðaræðar og gangstéttir, hjólabrautir og botnlanga. Þetta er fólk sem keyrir til vinnu hvern dag, labbar eða tekur strætó, á rætur sínar og mótun í borgarmenningunni og lífinu þar.

Hvers vegna er kirkjan 100 árum á eftir tímanum þegar kemur að því að ávarpa fólkið sitt? Hvers vegna gengur þjóðkirkjunni eins illa og raun ber vitni að jafna þjónustubyrðinni milli landsbyggðar og höfuðborgar? Af hverju eru ennþá sóknir í Reykjavík og nágrenni sem eiga að þjónusta þúsundir með einn prest innanborðs – á meðan urmull sveitapresta hafa skipun til að þjónusta nokkur hundruð sóknarbörn í grösugum, þéttbýlum og samgönguvænum sveitum?

Ef skipta ætti prestsembættunum jafnt niður á meðlimi þjóðkirkjunnar myndu 30-40 prestar bætast við höfuðborgarsvæðið af landsbyggðinni. Við tölum gjarnan um að kirkjan sé fólkið – nú ríður svolítið á að sýna það í verki og láta söfnuðum á höfuðborgarsvæðinu þessa þjónustu í té.

Því miður skortir töluvert upp á að veruleiki borgarsamfélagsins í samtímanum sé viðurkenndur af þjóðkirkjuyfirvöldum. Þar gildi einu hvort horft sé til myndmáls og stemningar sem vakin er til lífs með því að gera útnesjafólk og afdalabændur að höfuðviðtakendum skilaboða kirkjunnar eða til niðurskurðartillagna kirkjuráðs og kirkjuþings.

Þjóðkirkjan er sveitakirkja.

Um höfundinn10 viðbrögð við “Sveitakirkjan mín”

 1. Fanney Halla Pálsdóttir skrifar:

  Ágæta séra Kristín

  „Starf og þjónusta þjóðkirkjunnar nær til landsmanna allra til ystu nesja og innstu dala.“ þýðir einfaldlega að þjónusta kirkjunnar nái til landsmanna allra. Að öllum líkindum segir þar „til ystu nesja og innstu dala“ til að leggja áherslu á skilning og túlkun á „landsmanna allra“. Það þýðir einfaldlega allir landsmenn sama á hvaða byggða bóli þeir búa. Þetta er ákaflega falleg setning og lýsir virðingu og heilindum fyrir öllum mönnum. Þessi setning lýsir viðhorfi sem lítur á alla menn jafna hver sem við erum eða hvar sem við búum hér á landi (en þjóðkirkjan okkar nær eingöngu til Íslands og þeirra sem þar búa).

  Ég las fyrir nokkru pistil hér á síðunni sem nefnist Gleði og áhyggjur eftir Ragheiði Margréti Guðmundsdóttur. Þótti mér yndislegt að fá góða agaða íslensku, skilning á eðli bókmenntanna (og kvikmynda) og virðingu fyrir manninum í einni lítilli grein. Ég leit á færsluna við nafn hennar og sá að hún er íslenskukennari og þýðandi. Ég held að margt svipað því sem þú ritar um leystist af sjálfu sér ef við legðum öll okkar til að virðing sé borin fyrir okkar ögðu íslensku, okkar sögu og okkar bókmenntaarfi. Það var okkar agaða íslenska, þekking á henni og kunnátta að beita henni ásamt þekkingu á sögu okkar og menningu sem veitti okkur okkar fullveldi.

  Góðar kveðjur,
  Fanney Halla Pálsdóttir

 2. Kristín Þórunn skrifar:

  Heil og sæl Fanney Halla.

  Takk fyrir innleggið þitt. Ég tek undir með þér að það er afskaplega gott að lesa pistilinn hennar Ragnheiðar Margrétar - svona er nú margt áhugavert hér á trú.is.

  Mér finnst mikilvægt að við séum meðvituð um að orðin sem við veljum styrkja og móta hvernig við hugsum um hlutina. Við þurfum að nota bæði sveita- og borgarmyndir til að draga upp mynd af veruleika þjóðarinnar sem þjóðkirkjan þjónar.

  Þjónusta kirkjunnar nær til landsmanna allra - til innstu dala og ystu nesja, í háhýsin, miðbæinn og úthverfin.

  Bestu kveðjur,
  Kristín Þórunn

 3. Ragnheiður Sverrisdóttir skrifar:

  Ég var á málþingi um Boðandi kirkju í fortíð, samtíð og framtíða 22.11. Hún fjallaði um kristniboð. Helsta starfssvæði kristniboða mun í framtíðinni vera í borgum því þær vaxa ört og oft er þar mikil eymd. Árið 1910 bjuggu 3% íbúa jarðar í borgun en nú eru það 50%. Þróunin á Íslandi hefur verið á sömu nótunum. Ég segi þetta með allri virðingu fyrir þeimn sem búa ekki í borgum. Á kirkjuþingi var þessi mynd staðfest þegar kosið var í kirkjuráð. Þar er enginn fulltrúi stórborgarinnar nema biskup.

 4. Kristín Þórunn skrifar:

  Takk fyrir þetta innlegg Ragnheiður og fréttir frá kristniboðsmálþinginu. Það er mikilvægt að horfa til almennrar þróunar og framtíðar í þessum málum.

  Það er rétt að í nýju kirkjuráði var enginn fulltrúi höfuðborgarsvæðisins kosinn. Biskup Íslands, sem vissulega býr á Bergstaðastrætinu, situr í kirkjuráði ex cathedra og er sem slíkur ekki fulltrúi borgarinnar heldur landsins alls.

 5. Torfi Stefánsson skrifar:

  Við lestur síðustu Árbókar kirkjunnar (2009) sýnist mér nú helsta vandamálið innan þjóðkirkjunnar ekki vera það að þéttbýlið á suðvesturhorninu beri skarðan hlut frá allsnægtarborði síðustu ára, heldur dreifbýlið. Þú, Kristín Þórunn, getur lesið um það í skýrslum prófastanna (og fráfarandi prests í Kaupmannahöfn), svo sem hjá Haraldi M. Kristjánssyni (bls. 144), prófasti þínum Gunnari Kristjánssyni (bls. 149n) sem talar um mjög ólýðræðislegt ferli á Kirkjuþingi, Þorbirni Hlyni Árnasyni (bls. 166n), Gunnari Eiríki Haukssyni (bls. 169-71) og Döllu Þórðardóttur (bls. 175n). Sameiginlegt öllum þessu athugasemdum er gagnrýni á kirkjuþing og kirkjuráð fyrir að taka ekkert tillit til vilja safnaðanna úti í héruðunum í sparnaðatillögum sínum.

  Dalla bendir á aðrar leiðir til að spara og nefnir sem dæmi að leggja niður Tónskóla þjóðkirkjunnar og starf söngmálastjóra, að prestastefna verði aðeins haldin annað hvort ár, ekki verði ráðið til þeirra starfa sem losna á biskupsstofu, og að upplýst verði um starfsemi hennar til að sjá hvar þar sé hægt að spara - og síðast en ekki síst að samræma störfin á höfuðborgarsvæðinu þar sem vegalengir eru litlar og því hæglega við komið þess vegna.

  Mér finnst sem það heyrist tvær raddir í kirkjunni núna, rödd dreifbýlis annars vegar og rödd þéttbýlis hins vegar - og að biskup hafi með ummælum sínum reynt að brúa þann klofning sem augljóslega virðist vera að myndast innan þjóðkirkjunnar.
  Innlegg þitt er ekki beint til þess fallið að bera klæði á vopnin, gamla vinkona.

 6. Kristín Þórunn skrifar:

  Takk fyrir komment Torfi.

  Mér sýnist að sparnaðarleiðir sr. Döllu hafi allar verið ræddar í nefndum eða á þingfundum þessa og síðustu kirkjuþinga.

  Ég býst ekki við að neinum steini hafi verið ósnúið í leit að sparnaðarleiðum kirkjuþings í þetta sinn.

  Auðvitað er kirkjan margradda - málið er að allar raddir fái að heyrast og séu jafngildar, hvort sem þær koma frá borg eða sveit, körlum eða konum, ungum eða gömlum.

 7. Torfi Stefánsson skrifar:

  Ég fæ nú ekki séð að mikið hafi verið fjallað um sparnaðarleiðir á Kirkjuþingi eftir að hafa rennt yfir þau frumvörp sem þar voru til umræðu.

  Þegar ég renndi yfir starfsmannahald á Biskupsstofu (í Árbókinni) þá sá ég hins vegar að það voru miklu fleiri starfsmenn þar en þeir 18 sem áttu að vera samkvæmt samkomulaginu frá 1997 um fjölda starfsmanna á Biskupsstofu.
  Raunar er fjöldinn sem starfar í Kirkjuhúsinu með þeim ólíkindum, að maður hlýtur að spyrja sig hvað allt þetta fólk sér að gera (og hvort ekkii megi spara þar stórum í mannahaldi)?
  Hjá Biskupi starfar 28 manns. Á vegum Kirkjuráðs starfa að auki sjö manns, Fyrir kirkjugarðana tveir og í Kirkjuhúsinu þrír.
  Þetta gerir 40 manns. Að mínu mati er þetta dæmi um allt of mikla skriffinnsku (á kostnað lifandi starfs úti í söfnuðunum) og hætt við að Parkinssonslögmálið sé þar í fullu gildi.

  Þá tók ég eftir því hve prestafjöldinn á höfuðborgarsvæðinu er mismikill í prestaköllunum. Það eru t.d. starfandi 3 prestar í Dómkirkjunni, sem hefur 4263 meðlimi, en aðeins einn í Bústaðasókn, sem þó hefur fleiri meðlimi eða 4380.
  Finnst þér það ekki dálítið skrýtið Kristín Þórunn?

 8. Fanney Halla Pálsdóttir skrifar:

  Ágæta Kristín

  Um aldir voru rýrustu jarðirnar yfirleitt á ystu nesjum og innstu dölum. Okkar ástsæla sálmaskáld fékk lengst af rýrt brauð á ystu nesjum og margar sögupersónur okkar ástsæla Nóbelskálds bjuggu í kotbýlum í innstu dölum. Þessar jarðir voru yfirleitt rýrar og harðbýlar.

  Við íslenskur almenningur eigum yfir þúsund ára sögu og menningu sem við getum vísað í og skilið flókin fyrirbæri vegna þeirra þekkingar okkar. Mér finnst yndislegt þegar lærðir menn nota jafnt þekkingu í sínum fræðum sem og hafa góða þekkingu á okkar sögu og menningu einnig (sem og virða) og nota til skýringa og vísanna eins og biskupinn okkar herra Karl Sigurbjörnsson gerir sem og einnig hafa yfirsýn (sem þýðir einnig að þeir sleppa okkur við persónulegum ásteytingarsteinum sínum). Á slíkum stundum gleymi ég jafnvel þeirri flækju innihaldslausra fagorða og orðafátæktar sem einkennir opinbera umræðu fagmanna hér á landi nú í yfir áratug.

  Að búa við fátækt og einangrun hér í miðju borgarsamfélaginu er eins og að búa á ystu nesjum eða innstu dölum, fátækt, harðæri og einangrun. Ekkert getur lýst því betur en sú þekking og saga sem við eigum sem þjóð.

  Góðar kveðjur,
  Fanney Halla Pálsdóttir

 9. Kristín Þórunn skrifar:

  Heil og sæl á ný.

  Þetta er fallega sagt hjá þér Fanney Halla, og góð áminning til okkar allra. Það er mikilvægt að taka mið af reynslu þjóðarinnar þegar við drögum lærdóm af því hvar við stöndum - en einnig er mikilvægt að horfa til framtíðar.

  Stundum er sagt að einmanaleikinn sé stærsta mein samfélagsins á okkar dögum og hann er örugglega að finna hvort sem er í hringiðu borgarinnar eða á fámennum stöðum. Andlega og félagslega fátækt er að finna hvar sem er og því er verk að vinna fyrir kirkjuna hvort sem er í sveit eða borg.

  Bestu kveðjur og takk fyrir samtalið.

 10. Kristín Þórunn skrifar:

  Sæll Torfi.

  Ég held að það sé rétt hjá þér að það ríki ójafnvægi á fleiri stöðum en bara milli landsbyggðar - höfuðborgar. Það þarf líka að jafna þjónustubyrðina innan borgar og innan landsbyggðar.

  Stefnumótun sem og niðurskurður er nú í höndum hins nýja kirkjuráðs og kirkjuþings og þú getur fylgt þeirri umræðu eftir til að mynda í fundargerðum kirkjuráðs sem eru birtar á kirkjan.is

  Takk fyrir samtalið.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4285.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar