Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Sigurður Árni Þórðarson

Skilja strax?

Hagatorg

“Ég vil skilja – sem fyrst” hljómar í símanum. “Hvenær fæ ég tíma?” Svo kemur parið á prestsskrifstofuna til að ræða samskipti og sáttahorfur. Ef ágreiningur er mikill og bæði vilja skilja er talað um hagsmuni barna parsins, umgengni, samskiptahætti, eignaskipti og fjölda atriða til að allt verði skýrt. Þegar skilnaðarasi er mikill og andúð kyndir undir fer oftar en ekki illa. Skemmtilegir skilnaðir eru fátíðir. Oftast eru þeir dapurlegir og í einstaka tilvikum hræðilegir. En áfall og kreppu má nýta til góðs. Skilnaðir geta bætt líf heimilismanna þegar mál eru unnin með hagsmuni allra að leiðarljósi. Þetta eru gæðaskilnaðir.

“Ég vil skilja ríki og kirkju – strax.” Setningin var á bloggsíðu og sést og hljómar víða. Of margir telja að hægt sé að efna til skyndiskilnaðar ríkis og kirkju og nánast eftir næstu helgi. Ef gæðaskilnaðir einstaklinga eru vandaverk eru slit ríkis og kirkju sem næst “hið ómögulega” svo vitnað sé í Ögmund Jónasson, “trúmálaráðherra.”

Skilnaður og aðgreining eru sitt hvað og í samhengi ríkis og kirkju skyldi ekki rugla eða grauta þessu tvennu saman. Skilnaður ríkis og kirkju varðar fyrst og fremst 62. grein stjórnarskrárinnar. Þá aðeins verður lögformlegur skilnaður þessara aðila ef stjórnarskárákvæðið verður fellt úr gildi. Allt annað mál er aðgreining ríkis og kirkju. Þjóðkirkjan hefur viljað og ríkið hefur veitt kirkjunni mikið frelsi. Aðgreiningarferli hefur staðið í áratugi. Þjóðkirkjan íslenska er ekki ríkiskirkja eins og sú danska. Þjóðkirkjan íslenska nýtur að lögum sjálfstæðis til jafns við hina sænsku, sem þó er aðskilin frá ríkinu.

Þjóðkirkjan er ekki ríkisrekið apparat. Kirkjan afhenti ríkinu gífurleg verðmæti til eignar. Ríkið greiðir aðeins vexti af þeim höfuðstól. Laun presta eru slík greiðsla en alls ekki framlag ríkisins. Skilja strax? Ja, þá verður ríkið jafnvel dæmt til að skila öllu eignasafninu, sem í eru nokkur helstu dýrmæti Íslands, t.d. Þingvellir, allt land Garðabæjar (land Garðakirkju), Borgarnes (land Borgar). Ríkissjóður Íslands hefur jafnvel ekki burði til að skila eða bæta.

Þjóðkirkjan óskar, að ríkið skipti sér sem minnst af málum hennar. Hún vill góð samskipti því það er þjóðin, sem kirkjan þjónar, og það er sama þjóð, sem ríkið á að þjóna. Höldum áfram aðgreiningarferli. Skiljum ekki fyrr en allt er fullrætt og allir sáttir. Gætum að því að börn þjóðarinnar klemmist ekki í átökum um trú og trúfélög. Aðeins gott aðgreiningarferli getur leitt til gæðaskilnaðar. Skilja strax – nei, kannski seinna.

Um höfundinn11 viðbrögð við “Skilja strax?”

 1. Haukur Jónasson skrifar:

  Sæll Sigurður Árni. Ég vildi einfaldlega benda þér á þessa grein, sem þú hefur greinilega ekki lesið: http://www.vantru.is/2008/10/23/09.00/

  Þér til hægðarauka skal ég segja þér hver niðurstaðan úr henni er: Ríkið skuldar Þjóðkirkjunni ekki krónu. Þessar jarðir eru löngu greiddar, og í raun nema ofgreiðslur ríkisins til kirkjunnar milljörðum.

 2. Halldór Logi Sigurðarson skrifar:

  http://www.vantru.is/2008/10/23/09.00/

  Þessi grein sem ég vísa í hér fyrir ofan hefur svarað þessum pistli… fyrir tveimur árum.

  (smá auka: http://www.vantru.is/2004/10/14/00.00/ )

  http://www.vantru.is/2010/10/22/19.30/ (hversu mikils virði þessar jarðir virðast vera)

  Í hnotskurn; Það var kaþólska kirkjan sem sölsaði undir sig jarðirnar með ofbeldi á einstaklega ó-trúfrjálsum tíma. Ríkið er löngu búið að borga af eignunum.

  Þjóðkirkjan er víst ríkiskirkja, á meðan ákvæði um að hlúa að henni sérstaklega eru í stjórnarskránni og ríkið borgar prestum laun (opinberir starfsmenn?).

  >Þjóðkirkjan óskar, að ríkið skipti sér sem minnst af málum hennar. Hún vill góð samskipti því það er þjóðin, sem kirkjan þjónar, og það er sama þjóð, sem ríkið á að þjóna.

  Fólkið óskar þess að ríkiskirkjan láti þau í friði og hendi sér frá ríkinu.

 3. Matti skrifar:

  > Kirkjan afhenti ríkinu gífurleg verðmæti til eignar. Ríkið greiðir aðeins vexti af þeim höfuðstól

  Geturðu vísað á verðmat á þessum gífurlegu verðmætum. Hvað eru vextirnir sem ríkið greiðir af þessum höfuðstól háir?

  Geturðu útskýrt ástæðu þess að kirkjan afhenti ríkinu þessi gífurlegu verðmæti?

 4. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Þessar greiðslur til kirkjunnar eru komnar til vegna samninga milli ríkisins og þjóðkirkjunnar. Það má til dæmis lesa um þetta hér:

  Samkomulag um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar 10 janúar 1997

  Samkomulag milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um prestssetur og afhendingu þeirra, undirritað 20. október 2006

  Aðilar samninganna eru íslenska ríkið og þjóðkirkjan. Hvorugur þeirra véfengir þann grundvöll sem samningarnir byggja á, að kirkjan hafi afhent ríkinu eignir og að á grundvelli þessarar afhendingar inni ríkið af hendi endurgjald.

  Þetta er lykilatriði og um það er ekki deilt af aðilum samningsins. Að beina athyglinni annað er að drepa málinu á dreif.

 5. Matti skrifar:

  Árni Svanur, ég endurtek spurningu mína. Getur þú vísað á verðmat á þessum gríðarlegu eignum?

 6. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Matti, það gerði ég hér að framan þegar ég vísaði til tveggja samkomulaga milli ríkis og þjóðkirkju. Ríki og þjóðkirkja komust að samkomulagi um að endurgjald vegna jarðeignanna. Út frá því má reikna sig aftur á bak (og áfram) að ætluðu verðmæti eignanna.

  Lykilatriði er þetta: aðilar samningsins eru sammála um að þetta sé sanngjarnt endurgjald fyrir þær miklu eignir sem voru afhentar.

 7. Halla Sverrisdóttir skrifar:

  Sæll Árni! Ég held að Matti - og margir fleiri, þmt. ég - myndi mjög gjarnan vilja sjá svart á hvítu hvernig andvirði kirkjujarðanna var reiknað og metið. Í tölum. Samningana þekkja allir sem hafa eitthvað spáð í þessi mál en í þeim - amk ekki þeim plöggum sem þú vísar í - er ekki tíundað hvaða grunnverðmat er á bak við arðgreiðslurnar, né heldur hvernig þeir útreikningar voru gerðir og af hverjum.

  Þeir útreikningar hljóta þó að vera til, varla hefur það verið samkomulagsatriði að kirkjujarðirnar HLJÓTI bara að vera svo mikils virði að arðurinn af þeim dugi fyrir launum presta og öðru smálegu og vel það?

  (Já, og gaman að sjá glitta í gamalkunnuga “Þingvallahótun” í grein Sigurðar…. :) )

 8. Matti skrifar:

  > Út frá því má reikna sig aftur á bak (og áfram) að ætluðu verðmæti eignanna.

  Nei Árni Svanur. Það er einungis hægt ef menn miðuðu við verðmæti eignanna þegar þeir reiknuðu sig “áfram”.

  Ef miðað var við verðmæti eignanna þá hlýtur slíkt mat að vera til.

  Því spyr ég þig og höfund greinarinnar. Hvert var matið á þeim eigum er kirkjan afhenti ríkinu.

  Hið rétta er að ekki var miðað við verðmæti eignanna heldur þarfir kirkjunnar.

 9. Halla Sverrisdóttir skrifar:

  Ég er að spá í hvort það væri hægt að krefja annars vegar ríki og hins vegar kirkju um þessa útreikninga með því að leggja fram stjórnsýslukæru. Það virðist ekki alveg vera að virka að spyrja kurteislega. Anyone?

 10. Matti skrifar:

  Sigurður Árni hélt því fram í grein sinni að kirkjan hefði afhent ríkinu “gífurleg verðmæti” og að ríkið greiði aðeins vexti af þeim höfuðstól.

  Til að umræðan sé vitræn þarf Sigurður Árni að útskýra fyrir í hverju þessu gífurlegu verðmæti felast og hvaða vexti er um að ræða.

  Að sjálfsögðu mun ekkert svar berast, innlegg Árna Svans eru ekki svör enda engar upplýsingar um þessi verðmæti í vísunum hans.

  Svona er nú umræðan góðir hálsar.

 11. Matti skrifar:

  Ljóst má nú vera að fullyrðing Sigurðar Árna:

  Kirkjan afhenti ríkinu gífurleg verðmæti til eignar. Ríkið greiðir aðeins vexti af þeim höfuðstól.

  Telst afsönnuð.

  Ég geri ráð fyrir að hann leiðrétti þetta í næsta pistli sínum í Fréttablaðinu :-)

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4139.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar