Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Kristján Björnsson

Sjálfstæði þjóðkirkjunnar fer vaxandi

Sjálfstæði þjóðkirkjunnar hefur farið vaxandi síðasta hálfan annan áratug, sem sést á ýmsan hátt í starfi kirkjunnar og stjórnun hennar. Það er einna skýrast í stöðu kirkjuþings gagnvart stofnunum ríkisins. Stærsta skref í átt til aukins sjálfstæðis var án efa rammalöggjöf Alþingis um stöðu og starfshætti hennar árið 1998. Með þeim lögum minnkuðu afskipti Alþingis til muna og hefur það reynst farsælt fyrir ríki, kirkju og þjóð.

Haldið hefur verið áfram á þessari braut og hafa seinni breytingar leitt til enn aukins sjálfstæðis þjóðkirkjunnar. Einnig hafa verið lögfestir samningar milli ríkis og kirkju sem byggja á eignum og réttindum. Kirkjan er sjálfstæð gagnvart ríkisvaldinu, en í miklum tengslum við þjóðina.

Kirkjuþing hefur æðsta vald í málefnum kirkjunnar. Það er að meirihluta skipað leikmönnum úr kirkjulegu starfi. Vægi þess hefur aukist mikið síðustu ár. Þingið hefst 13. nóvember og þar koma saman 29 kjörnir fulltrúar úr níu kjördæmum til að taka mikilvægar ákvarðanir um starf og starfshætti, fjármál og eignamál og um stefnumörkun fyrir kirkjuna og þjónustu hennar. Þingið á sér fyrirmynd í löggjafarsamkomu landsins og hefur vald til að setja allri starfsemi kirkjunnar starfsreglur. Það hefur endanlegt áhrifavald með samþykktum sínum. Þegar þingið ræður málum til lykta, sem ekki eru ákvörðuð með starfsreglum, er það oftast með þingsályktunum eða öðrum samþykktum. Yfirleitt felur kirkjuþing kirkjuráði að framkvæma það sem felst í þingsályktunum en einnig getur þingið ákveðið að skipa nefnd eða starfshóp til að annast ákveðin mál. Dæmi um þetta má sjá í skipan þjóðmálanefndar kirkjunnar, sem heyrir beint undir kirkjuþing og er ráðgefandi nefnd. Annað dæmi er væntanleg rannsóknarnefnd um viðbrögð kirkjunnar við ásökunum á hendur fyrrverandi biskupi Íslands. Slíkar nefndir eru eins óháðar kirkjustjórninni og hugsast getur og felst í þessari skipan að þær skila niðurstöðu sinni eða áliti til kirkjuþings en ekki til stjórnar þjóðkirkjunnar, þ.e. kirkjuráðs, eða biskups Íslands. Þessi dæmi sýna að kirkjan leitast við að festa sjálfstæði sitt í sessi með því að ráða málum til lykta með lýðræðislegum og skipulögðum starfsháttum sínum í samræmi við lög og reglu í landinu.

Starfsreglum kirkjuþings er best lýst með því að þær hafa gildi fyrir alla sem starfa innan kirkjunnar. Stofnunum kirkjunnar, embættum og starfsfólki er því skylt að fara eftir þeim.

Vegna þess að ákvörðunarvald kirkjuþings er afgerandi er nauðsynlegt að kirkjuþingsmál hljóti ákveðna þinglega meðferð og ítarlega umræðu. Málum er ráðið þannig til lykta að þau fara oftast í gegnum fyrri umræðu og þarf þingið að samþykkja hvort þau fari til nefndar og síðari umræðu. Þingið starfar því annars vegar á þingfundum og hins vegar í þremur nefndum, allsherjarnefnd, löggjafarnefnd og fjárhagsnefnd. Viðkomandi nefnd leggur málið síðan fram með breytingum til seinni umræðu og þar með hlýtur það afgreiðslu ef það er ekki fellt eða dregið til baka.

Nokkur mikilvæg mál liggja fyrir kirkjuþingi 2010, sem hefst á laugardag.

Fyrsta málið er lagt fram af forsætisnefnd, sem eingöngu er skipuð leikmönnum. Það varðar rannsóknarnefndina, sem áður er getið, og er það án efa bæði tímamótaverk og mikið réttlætismál. Meðal annarra mikilvægra mála er frumvarp að nýjum þjóðkirkjulögum sem gengur enn lengra í átt til sjálfstæðis kirkjunnar. Einnig mál er varðar heildarstefnu í grunnþjónustu kirkjunnar um allt land og aukið samstarf. Fjöldi mála snýst um breytingar á fyrri starfsreglum og stefnumörkun kirkjunnar, s.s. í jafnréttismálum og meðferð kynferðisbrota, innri samþykktum kirkjunnar, skipulagi prófastsdæma og samstarfssvæða.

Að þessu sinni eru óvenju mörg mál á málaskrá en auk þess má búast við krefjandi vinnu í þeim málum sem lúta að niðurskurði í samræmi við kröfur ríkisvaldsins og erfiðar aðstæður í peningamálum þjóðarinnar.

Um höfundinn7 viðbrögð við “Sjálfstæði þjóðkirkjunnar fer vaxandi”

 1. Halldór Logi Sigurðarson skrifar:

  >Kirkjan er sjálfstæð gagnvart ríkisvaldinu, en í miklum tengslum við þjóðina.

  Ríkið ræður ekki neinu hjá kirkjunni, en í sameiningu við þjóðina er það svo sannarlega að punga út milljarða tengslum.

  >Stærsta skref í átt til aukins sjálfstæðis var án efa rammalöggjöf Alþingis um stöðu og starfshætti hennar árið 1998.

  Ætli það sé nú ekki samt bara hérna 2010, þegar litið er yfir þá frambjóðendur stjórnlagaþings sem vilja taka út 62. grein stjórnarskrárinnar?

  >Að þessu sinni eru óvenju mörg mál á málaskrá en auk þess má búast við krefjandi vinnu í þeim málum sem lúta að niðurskurði í samræmi við kröfur ríkisvaldsins og erfiðar aðstæður í peningamálum þjóðarinnar.

  Hvað með aðskilnað ríkis og kirkju, verður það eitthvað rætt? Það myndi spara ríkinu heilan helling. OOOOG þá myndi sjálfstæði ríkiskirkjunnar verða algert.

 2. Magnús Erlingsson skrifar:

  Aðskilnaður ríkis og kirkju myndi hvorki spara heilan né hálfan helling!
  Ríkið innheimtir félagsgjöld fyrir kirkjuna og reyndar öll önnur trúfélög landsins. Ég hvet fólk til að lesa 63. gr. stjórnarskrárinnar. Sambærilega grein er ekki finna í neinni annarri evróskri stjórnarskrá en þar er kveðið á um að þeir, sem ekki séu í trúfélagi skuli engu að síður greiða trúfélagsgjald. Við upphaf 20. aldar innheimtu trúfélögin sjálf þetta félagsgjald líkt og íþróttafélögin gera í dag.
  Aðskilnaður ríkis og kirkju er spurning um grundvallarviðhorf. Meginmálið er ekki hvort ríkið gæti sparað einhverjar milljónir heldur hvaða rök er með og á móti algjörum aðskilnaði ríkis og trúar.

 3. Halldór Logi Sigurðarson skrifar:

  Auðvitað myndi það spara helling, t.d. að laun presta yrðu í höndum meðlima kirkjunnar, ekki ríkisins og þar með allra skattgreiðenda. Og að félagsgjöldin myndu hverfa. Ooog trúfélög gætu sjálf séð um innheimtu gjalda.

  http://www.vantru.is/2010/08/16/09.00/

  Þessi grein stjórnarskrárinnar er ósanngjörn er í sjálfu sér aukaskattur á trúleysingja. Ætti að hverfa sem fyrst.

  Meginmálið er einnig hvort ríkið geti sparað peninga, það er einn af hinum stóru þáttum, sérstaklega í dag.

 4. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Aðskilnaður er ekki leið til að spara fé. Umræðan um 62. greinina ætti því ekki að snúast um sparnað. Ég tek undir með Magnúsi:

  Aðskilnaður ríkis og kirkju er spurning um grundvallarviðhorf. Meginmálið er ekki hvort ríkið gæti sparað einhverjar milljónir heldur hvaða rök er með og á móti algjörum aðskilnaði ríkis og trúar.

 5. Halldór Logi Sigurðarson skrifar:

  En… ein rökin eru að spara pening.

  Vitanlega eru þau réttindi manna að lífsskoðunum sé ekki mismunað mikilvægust, en einnig er sparnaður rök.
  Afhverju er aðskilnaður, (4,4 milljarðar eða svo fara í Þjóðkirkjuna á ári), ekki leið til þess að spara?

 6. Gunnar Jóhannesson skrifar:

  Sæll Halldór.

  Ástæða þess er sú að sá samningur sem ríki og kirkja gerðu með sér á grundvelli tilfærslu kirkjueigna til ríkisins gegn greiðslu þess í formi launa til handa prestum þjóðkirkjunnar hangir ekki á þjóðkirkjufyrirkomulaginu sem slíku. Þar er um að ræða tvíhliða samning þjóðkirkjunnar og alþingis á grundvelli kirkjueigna. Sá samningur er einfaldlega annað mál. Á þetta hefur margoft verið bent. En það virðist vera svo að ýmist veit fólk þetta ekki eða kýs að horfa framhjá því af einhverjum ástæðum.

  Með góðum kveðjum.
  Gunnar Jóhannesson.

 7. Halldór Logi Sigurðarson skrifar:

  Ríkið myndi samt sem áður spara pening við að losna við ríkiskirkju apparatið.
  Samningurinn er ekkert annað mál, því að svo virðist sem ríkið hafi nú þegar borgað allar jarðirnar og virðist eiga að halda áfram að borga.
  Þegar jarðirnar hafa verið seldar ríkinu svo að það borgi kirkjunni, hvað er það? Hvað er það annað en samantvinningur ríkis og kirkju?

  >6. Greiðslur til Kristnisjóðs vegna seldra kirkjujarða falla niður. Þó skal ríkissjóður greiða árlega, næstu 8 ár, upphæð er svarar til fastra árslauna 1 sóknarprests.

  Hvað er þetta? Greiðslur umfram kirkjujarðir? Jahérna.

  Meginmálið er þetta:
  Á meðan ríkið á kirkjujarðirnar (sem lútherska kirkjan átti ekki í rauninni) og borgi kirkjunni milljarða á ári, þá er það ríkiskirkja og auðvelt að spara þar.
  http://www.vantru.is/2004/10/14/00.00/

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2992.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar