Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Vigfús Bjarni Albertsson

Trú og kreppa, efnishyggja

Það sagði við mig útrásarvíkingur einu sinni, reiður: ”Það er ekki til neitt algilt réttlæti, sættu þig við það.” Þannig endaði okkar jafningjatal á förnum vegi. Hvorugur var í vinnunni.

Það er stundum sagt að þegar þrengir að fólk efnahagslega leiti fólk meira í trú, leiti meira inn á við. Það eru mörg dæmi um slíkt, hinsvegar gerist líka að fólk leitar að efnislegum töfralausnum. Kreppur hafa búið til öfganna í mannkynssögunni og oft eru þær afleiðingar öfga, öfganna sem drápu milljónir, tilgangurinn helgaði jú meðalið. Þessar hægri og vinstri öfgar hafa sjaldan hrifist af kristnum boðskap. Hægri öfginn hefur talað um veiklyndan boðskap og sá vinstri um ópíum.

Í góðæri hallast fleiri að frjálshyggjuhugmyndum, einstaklingur verður megnugur alls. Adam Smith útskýrir í 18. aldar riti sínu hvernig kapítalisminn muni verða drifkraftur alls, einstaklingurinn og löngun hans til að eignast er afl allra hluta. Við erum ekki eins jákvæð þessa dagana gagnvart hugmyndum Skotans Smith. Hægri efnishyggjan hræðir okkur. Blind trú á einstaklinginn og getu hans. Við erum búin að sjá og vitum hvernig fór. Uppgjörið hefur því miður talað of mikið um reglur og skort á reglum. Það vantar enn að fólk játi hina blindu trú á efnisleg gæði og gagnrýnisleysi á þau gildi. Það mátti allt og auðurinn var tilgangurinn. Ég held að það sé ekki enn búið að gera upp þann tilvistarlega ótta sem var drifkraftur í þessari græðgi. Er það ekki hinn óttaslegni sem allt þarf að eiga? Var það eitthvað fleira sem gekk kaupum og sölum en hlutabréf, hvernig var manngildinu háttað?

Ég óttast núna aðra efnishyggju, hún er ekkert skárri þótt hún boði félagslegan jöfnuð. Þessari efnishyggju sem ég óttast að eigi meira upp á pallborðið en áður er illa við trú, ekki bara kirkju. Það er vinstri efnishyggjan og hún er ekki betri en hægri efnishyggjan. Það er misskilningur. Mér er illa við hvernig öfl í samfélaginu misbeita hugtökum eins og jöfnuður og réttlæti og reyna að beita sér gegn trú. Því miður eru þau að verða háværari. Ég óttast ekki aðskilnað ríkis og kirkju. Ég óttast hinsvegar boðskap sem talar gegn trú. Því miður blandast þessi umræða saman þessa dagana. Að fjarlægja siðinn úr samfélaginu mun ekki leiða neitt gott af sér.

1. Mig skortir þá skynsemi að það sé eitthvað framfaraskref að þingheimur taki ekki þátt í messu. Mér finnst það dapurlegt að ráðherrar og þingmenn hlusti á ræður um siðlegt efni í nafni viðsýni og það kynnt þannig. Að mikilvægt sé að aðskilja trú og ríki í nafni jafnréttis. Slíkir gjörningar eru alltaf varðir með hugtökunum réttlæti og jafnrétti. Örfáir þingmenn að hlusta á heimspeki mun ekki breyta neinu. Vonandi höfðu þeir gagn og gaman af. Ég bara vona að þeir hafi ekki haldið að þeir væru víðsýnni en þeir sem fóru í kirkjuna. Er ekki alveg hægt að snúa rökum þeirra á hvolf og spyrja hvort heimspeki og ríki fari saman? Ég er ekki hlynntur slíku tali enda útúrsnúningur. Mér finnst bara ekki gott hvernig trúfrelsið er stundum notað og stundum jafnvel gegn frelsi.

2: Mér var sagt að á leikskóla þar sem ég þarf að nota þjónustu væri ekki lengur farið í kirkjuheimsókn fyrir jól. Það var útskýrt fyrir mér með hugtökunum jafnrétti og réttlæti. Ég átti erfitt með slík rök. Sunnudagaskólinn í hverfinu er vel sóttur svo ég óttast ekki þessa þróun þó mér finnist hún neikvæð. Hver eru rökin að það sé jákvætt að ekki farið sé í heimsókn í kirkjuna. Lýst var angist barna sem ekki máttu fara en allir aðrir fóru. Því vega þessar lífsskoðanir svona miklu hærra en lífsskoðun meirihlutans? Hvers eiga börnin að gjalda? Hversvegna er lífsskoðun trúleysis svona gríðarlega mikilvæg að hún líkist Guðsmynd bókstafstrúar?

3: Of oft hef ég líka heyrt undanfarið talað niðrandi um fagþekkingu starfsfólk kirkju. Því hefur jafnvel verið stillt upp sem andstæðingum fagmennsku. Hér held ég að sé mesta hættan en um leið mesta tækifærið fyrir okkur.

Ég trúi því að við sem kirkja getum algjörlega ráðið hvernig fer með umræðuna trú og þjóð. Aðskilnaður eða ekki aðskilnaður. Versta leiðin væri ef veldum að líta ekki í eigin barm í okkar málum. Það væri sorglegt ef við myndum birtast fólki ófaglega og með litla getu til að líta í eigin barm og að vinna að málum. Það er andlegur þorsti til staðar í samfélaginu. Fólk hefur ekki enn hætt að fæðast og deyja, tilvistarspurningunum hefur ekkert fækkað. Þörfin fyrir samfylgd hefur ekkert horfið og mun aldrei hverfa. Stóra verkefnið er og hefur alltaf verið að mæta fólki. Núna á þessum tímum eigum við að sækja fram, ekki af ákafa heldur af fagmennsku og metnaði. Við eigum að sýna getu til opinna samskipta, eigum að gera tungumálið okkar skiljanlegt, eigum að sýna og skapa vettvang til að hlusta og skilja. Nú sem aldrei fyrr er nauðsynlegt að auka menntun og skilning starfsmanna kirkjunnar á reynsluheim fólks. Það er mikilvægt að auka getu okkar til að mæta einstaklingum. Ég er ekki að segja að við gerum ekki vel en við getum alltaf gert betur. Það er stórt verkefni en algjörlega nauðsynlegt. Ekkert mun stuðla betur að einingu trúar og þjóðar. Það er svo góð tíðindi að ef við ræktum fagmennsku okkar munum við eiga fullan aðgang að fólki óháð einhverjum girðingum efnishyggjunnar.

Ég og útrásarvíkingurinn verðum aldrei sammála. Það er í góðu lagi. Í samtalinu gaf ég ekki eftir grundvallargildi mín, ég var ákveðinn en ég reyndi líka að stuðla að opnu samtali þannig að ég gæti skilið hugrenningar hans, ég var ekki hræddur því ég hafði ekkert að óttast. Ég þurfti ekki að móðga hann eða sýna honum fram á að ég vissi betur, þá hefði ég verið hræddur. Ég þurfti ekki að vinna hann því það verður aldrei leið til iðrunar fyrir mig eða hann. Ég ætla að ganga fram, vonandi upplýstur af hugrekki frelsara míns. Einstaklings Mammon eða félagslegi Mammon skilja alltaf eftir sig rústir. Það er ekki mín skoðun, það eru staðreyndir mannkynssögunnar.

Um höfundinn15 viðbrögð við “Trú og kreppa, efnishyggja”

 1. Sigurður Jónsson skrifar:

  Takk fyrir þennan ágæta pistil, kæri séra Vigfús Bjarni!

 2. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Hversvegna er lífsskoðun trúleysis svona gríðarlega mikilvæg að hún líkist Guðsmynd bókstafstrúar?

  Gætirðu útskýrt hvað þú átt við með þessu?

 3. Vigfús skrifar:

  Mér leiðist ósveigjanleiki, mér leiðist hvort sem það er trú eða trúleysi sem útrýmir sveigjanleika,ég kann illa við þegar fólk boðar bókstafstrú trúar eða trúleysis og hættir að virða ólíkar skoðanir. Ég er þarna að tala um trú á trúleysi sem sviptir fólki rétt á öðrum skoðunum, það getur líka gerst. ‘Eg er ekki að tala um allt trúleysi ef þú hefur áhyggjur af því, svo ferkantaður er ég ekki í hugsun. Bæði trúaðir og ótrúaðir þurfa að vernda víðsýni. ‘Eg hef heldur betur upplifað bæði þröngsýni og víðsýni af báðum þessum hópum. Gangi þér vel og takk fyrir lesturinn.

 4. Matti skrifar:

  Vigfús, hefur kirkjan þín verið mjög sveigjanleg? Hefur hún virt skoðanir þeirra sem eru ekki sammála henni? Hefur hún verið víðsýn?

  Svarið er nei.

 5. Matti skrifar:

  Lýst var angist barna sem ekki máttu fara en allir aðrir fóru. Því vega þessar lífsskoðanir svona miklu hærra en lífsskoðun meirihlutans? Hvers eiga börnin að gjalda? Hversvegna er lífsskoðun trúleysis svona gríðarlega mikilvæg að hún líkist Guðsmynd bókstafstrúar?

  Aðeins varðandi þetta mál.

  Áttu virkilega svona erfitt með að skilja að það er erfitt (og ljótt) að taka börn út úr hópnum? Áttu erfitt með að skilja að þetta er ekkert val fyrir foreldra?

  “Hversvegna er lífsskoðun trúleysis svona gríðarlega mikilvæg…”

  Hversvegna er þín lífsskoðun svo gríðarlega mikilvæg að nauðsynlegt er að boða hana í leik- og grunnskólum landsins? Hversvegna er þín lífsskoðun svo mikilvæg að réttlætanlegt er að taka lítil börn úr hópnum, svo þín lífsskoðun komist að.

  Getur verið að þín lífsskoðun sé ekkert rétthárri en mín lífsskoðun?

  Nei, það væri fáránleg hugmynd. Auðvitað hefur þú meiri réttindi en ég, þú ert partur af meirihlutanum. Til fjandands með minnihlutann.

  Við eigum að sýna getu til opinna samskipta,

  Nú hló ég upphátt :-)

 6. höfundur skrifar:

  Mikill meirihluti bekkjarins, foreldra var glaður með heimsókn í kirkjuna. Hún þjónaði þeim. Eins og bent er á er 90% þjóðarinnar í kristnum söfnuðum.Mín lífsskoðun er ekki rétthærri en þín eins og ég hef sagt við þig áður, sama gildir um þína. Það er rangt að meirihlutinn missi af ákveðnum hlutum til að virða mikinn minnihluta, það þarf að þjóna báðum hópum, er ekki hægt að hafa tilboð fyrir báða hópa ? Ég nota ekki svona niðrandi og ofbeldisfullt tal eins og til fjandans, ég nota ekki orðfæri eins og þú hlytur að skilja, það er hrokafullt og kemur skoðunum ´þínum ekki á framfæri. Gangi þér vel og þínu góða fólki.Gott hvað ég kem þér mikið til að hlæja, húmor mýkir samskipti.

 7. Vigfús skrifar:

  ‘Eg segi ekki til fjandans í samskiptum mínum við fólk, ég segi ekki við þig eða aðra, þú hlýtur að skilja. ‘Eg segi ekki við þig eða aðra að mín lífsskoðun sé rétthærri en hún er rétthá. ‘Eg veit dæmi þess að 20 manna bekkur var stoppaður í heimsókn í kirkju vegna eins einstaklings. Foreldrum fannst það miður og börnunum líka.þar hafði ég ekki val fyrir mitt barn, þar hafði mitt barn ekki val, það var svipt næringu og gleði. ‘Eg hef búið í tveimur öðrum löndum, annað fjölmenningarsamfélag, þar voru mörg tilboð í gangi og reynt að rækta hlutina en ekki banna eða sleppa. Þar voru trúarbrögðin virt, leikskólinn gat frætt um ólík trúarbrögð og kynnt ólíka siði. það var dýrmæt reynsla.’Eg mun ekki rökræða niðurstöður við þig, ég álít svo að það sé opið samtal að ég hafi þessa skoðun og ég segi hana og virði þína án þess að tala niður til þín.
  Það gleður mig að ég skuli hjálpa þér til að hlæja. Þú veist að það er ekki opið samtal að tala niður til fólks, það er ekki fagmennska og ekki til árangurs. Um það erum við örugglega sammála, annað væri eins og halda því fram að það væri uppbyggilegt að skella hurðum. Gangi þér vel og þínu góða fólki.

 8. Halldór Logi Sigurðarson skrifar:

  >Kreppur hafa búið til öfganna í mannkynssögunni og oft eru þær afleiðingar öfga, öfganna sem drápu milljónir, tilgangurinn helgaði jú meðalið.
  Öfgar… eins og kannski… öfgarnar sem hafa haft hæst í gegnum sögu siðmenningar? Nefnilega trúarbrögð.

  >Ég óttast núna aðra efnishyggju, hún er ekkert skárri þótt hún boði félagslegan jöfnuð. Þessari efnishyggju sem ég óttast að eigi meira upp á pallborðið en áður er illa við trú, ekki bara kirkju. Það er vinstri efnishyggjan og hún er ekki betri en hægri efnishyggjan. Það er misskilningur. Mér er illa við hvernig öfl í samfélaginu misbeita hugtökum eins og jöfnuður og réttlæti og reyna að beita sér gegn trú. Því miður eru þau að verða háværari. Ég óttast ekki aðskilnað ríkis og kirkju. Ég óttast hinsvegar boðskap sem talar gegn trú. Því miður blandast þessi umræða saman þessa dagana. Að fjarlægja siðinn úr samfélaginu mun ekki leiða neitt gott af sér.

  Útskýrðu fyrir mér hvernig það er slæmt. Ef fólk myndi opinberlega kasta burt kristni, myndi það þá hlaupa út á götuna brjótandi öll boðorðin eins fljótt og þau gætu? Nei, það myndi fátt breytast annað en ríkis sparaði verðmæta milljarða. Kristni er þegar horfin frá anda landans, hversu slæmt ætli það yrði þegar hún færi opinberlega? Og mér finnst leiðinlegt þegar þú gerir lítið úr hugtökum á borð við jöfnuð og réttlæti, leitaðu að þeim í orðabók.

  >1. Mig skortir þá skynsemi að það sé eitthvað framfaraskref að þingheimur taki ekki þátt í messu. Mér finnst það dapurlegt að ráðherrar og þingmenn hlusti á ræður um siðlegt efni í nafni viðsýni og það kynnt þannig. Að mikilvægt sé að aðskilja trú og ríki í nafni jafnréttis. Slíkir gjörningar eru alltaf varðir með hugtökunum réttlæti og jafnrétti. Örfáir þingmenn að hlusta á heimspeki mun ekki breyta neinu. Vonandi höfðu þeir gagn og gaman af. Ég bara vona að þeir hafi ekki haldið að þeir væru víðsýnni en þeir sem fóru í kirkjuna. Er ekki alveg hægt að snúa rökum þeirra á hvolf og spyrja hvort heimspeki og ríki fari saman? Ég er ekki hlynntur slíku tali enda útúrsnúningur. Mér finnst bara ekki gott hvernig trúfrelsið er stundum notað og stundum jafnvel gegn frelsi.

  Það er framfaraskref að þingmenn játi trúleysi séu þeir trúlausir og að kirkjan taki minni þátt í setningu æðsta valds landsins.

  >Hver eru rökin að það sé jákvætt að ekki farið sé í heimsókn í kirkjuna. Lýst var angist barna sem ekki máttu fara en allir aðrir fóru. Því vega þessar lífsskoðanir svona miklu hærra en lífsskoðun meirihlutans? Hvers eiga börnin að gjalda? Hversvegna er lífsskoðun trúleysis svona gríðarlega mikilvæg að hún líkist Guðsmynd bókstafstrúar?

  Það er jákvætt vegna þess að sumir eru trúlausir í þessum hópum og ömurlegt að ætla að allir séu kristnir bara vegna lélegs trúfélagsskráningarkerfis. Og enn þá ömurlegra að börnum sé att út í kirkju og alið upp í slíkum áróðri. Slíkt á heima á heimilum, ekki í skólum. Skólar eiga ekki að vera heilaþvottartól kirkjunnar. Ein kirkjuheimsókn á ári væri í lagi, ef að jafnframt væru heimsótt blót Ásatrúarfélagsins, múslimafélagið heimsótt og svo framvegis.

  >Of oft hef ég líka heyrt undanfarið talað niðrandi um fagþekkingu starfsfólk kirkju. Því hefur jafnvel verið stillt upp sem andstæðingum fagmennsku. Hér held ég að sé mesta hættan en um leið mesta tækifærið fyrir okkur.

  Það er EKKI verið að tala niður til fagþekkingar presta, heldur einfaldlega til hennar þar sem hún stendur ekki sérlega hátt. Prestar, ekki halda að þið séuð sálfræðingar. Þið eruð það nefnilega ekki nema þið séuð menntaðir sem slíkir.

  >skapa vettvang til að hlusta og skilja.

  Hann er hérna. Og margstaðar annars staðar bæði í netheimum og annars staðar. Því miður virðist kirkjan oft ekki fatta það.

  >Nú sem aldrei fyrr er nauðsynlegt að auka menntun og skilning starfsmanna kirkjunnar

  Já, kannski senda alla presta í ALVÖRU sálfræðimenntun svo þeir geti sagst vera sálfræðingar. Og auka skilning starfsmanna kirkjunnar á því að fólk vill aðskilnað ríkis og kirkju.

  >eða sýna honum fram á að ég vissi betur, þá hefði ég verið hræddur.

  Sem sagt, ef að ég ætla að sýna einhverjum fram á að hann hefur rangt fyrir sér á ég að þegja?

  >Ég þurfti ekki að vinna hann því það verður aldrei leið til iðrunar fyrir mig eða hann.

  Sem sagt, til þess að sýna kirkjunni fram á að prestar séu ekki fagfólk, að almenningur sé ekki sannkristinn eða kristinn yfirleitt og vilji aðskilnað og þetta um félagsgjöldin, á ég að þegja?

  >Einstaklings Mammon eða félagslegi Mammon skilja alltaf eftir sig rústir. Það er ekki mín skoðun, það eru staðreyndir mannkynssögunnar.

  Einnig hlutir líkt og ofstjórn kirkju á miðöldum fram til þess dags, galdrabrennur, fórnir, krossfarir, helfarir, styrjaldir við ákveðin mið-austurlönd, stéttaskipting Indlands… ó bíddu aðeins…

 9. höfundur skrifar:

  það eru til margir prestar með langskóla framhaldsnám í áfallameðferð og sorgarmeðferð frá virtustu skólum í þeim fræðum.það er óþarfi að ógilda menntun annarra, best er þegar stéttir vinna saman. Það er óþarfi að óttast að kristnin hafi horfið, ég skynja allt aðra hluti, það er dýpra en samband ríkis og kirkju. Horfinn kirstindómur eða ekki, Það er staðhæfing á móti staðhæfingu og það mun koma í ljós hvor hefur rétt fyrir sér.Bíðum, Þú óhræddur og ég óhræddur.

 10. Matti skrifar:

  Þú segir ekki “til fjandans”, þú orðar það á annan hátt.

 11. Haraldur M. Kristjánsson skrifar:

  Þakka þér fyrir skínandi góða grein séra Vigfús.

 12. Halldór Logi Sigurðarson skrifar:

  >Það er óþarfi að óttast að kristnin hafi horfið,
  Ég ÓTTAST það ekki. Svo sannarlega ekki.

  >það eru til margir prestar með langskóla framhaldsnám í áfallameðferð og sorgarmeðferð frá virtustu skólum í þeim fræðum.það er óþarfi að ógilda menntun annarra,
  Það er alveg rétt, en vegna þess að sumir eru menntaðir þannig er óþarfi að segja að það nái yfir alla stéttina í heild, líkt og virðist vera haldið of oft fram.

 13. Jakob Ágúst Hjálmarsson skrifar:

  Takk fyrir ágæta grein og svo get ég ekki að mér gert að það hlakkar svolítið í mér yfir vanmættinum sem birtist hjá gagnrýnendum þínum. En eitt atriði vil ég minnast á: Þetta með sársaukann yfir því að vera skilinn eftir þegar hópur barna fer í kirkju. Ég vil meina að þar birtist misskilningur á eðli fjölmenningarsamfélagsins. Það á að kenna að eðlilegt sé að sumir velji annað en hinir, hafi aðra siði og trú og hver fái að hafa sitt í friði með annarra samþykki og jafnvel stuðningi svo fremi sem það gengur ekki á annarra rétt. Ég hef skrifað um þetta á http://jagust.blog.is/blog/jagust/

 14. Matti skrifar:

  hlakkar svolítið í mér yfir vanmættinum sem birtist hjá gagnrýnendum þínum

  Maður finnur fyrir vanmætti þegar stór stofnun tekur sig saman um að rangfæra og ljúga til að verja stöðu sína.

  Maður finnur fyrir vanmætti þegar manni er sagt að það skipti engu máli þó maður vilji ekki að börn mann sitji undir kristniboði í skólum. Maður sé “minnihluti” og minnihlutinn skipti ekki máli.

  Maður finnur fyrir vanmætti þegar maður sér illskuna hjá sjálfskipuðum talsmönnum réttlætis hér á landi.

  Já, maður finnur svo sannarlega fyrir vanmætti Jakob.

  Það er enginn misskilningur fólginn í því að segja að það sé erfitt fyrir foreldra að taka börnin sín úr hópnum. Ég hef reynt það, það er svo erfitt að ég gugnaði og endaði með því að senda börn mín í kristniboð (þar sem þeim var m.a. kennt að tala við gvuð) í leikskólanum sínum, jafnvel þó ég sé “hatrammur” gvuðleysingi.

  Af hverju reynið þið aldrei að setja ykkur í spor annarra? Auðvitað er þægilegt að vera í ykkar stöðu, en reynið.. gerið það fyrir mig reynið að horfa á málið frá öllum hliðum.

  Já, ég finn svo sannarlega fyrir vanmætti þessa dagana.

 15. Jón Yngvi Jóhannsson skrifar:

  Ég tek undir með Matta. Það er með algerum ólíkindum hvað fólk innan kirkjunnar, besta fólk sem maður kann vel við og þykir vænt um, getur átt erfitt með að setja sig í spor þeirra sem ekki lifa í trú og sjá enga ástæðu til að halda henni að börnunum sínum.

  Það var ótrúlega raunalegt á sínum tíma að fylgjast með baráttu Matta við leikskólapresta í Seljahverfinu, þeir sem ekki geta fundið til með honum í þeirri baráttu (sem lesa má um á heimasíðu hans) hljóta að vera með hjarta úr steini.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 5850.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar