Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Halldór Gunnarsson

Þjóðkirkjan og ríkisvaldið

Í 62.gr. stjórnarskrárinnar segir: “Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
Breyta má þessu með lögum.”

Þetta ákvæði stjórnarskrárinnar, sem hefur staðið nær óbreytt frá 1874 hefur ásamt sérkennilegri umfjöllun um fjármál kirkjunnar verið tilefni kröfu margra, einkum utanþjóðkirkjuaðila, um aðskilnað ríkis og kirkju.

Eðlilegt er að spyrja: Hvað er nákvæmlega átt við?

Ef átt er við ákvæði stjórnarskrárinnar frá 1874 er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá, að þar sé kveðið á um tvær stofnanir, annars vegar ríkisvaldið, þ.e.a.s. löggjafar-, framkvæmdar- og dómsvald og þjóðkirkjuna, sem sé lögaðili, sem beri réttindi og skyldur með eignarréttarstöðu, sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Samstarf þessara stofnana hefur verið mjög náið, vegna þess að allt frá kristnitöku hefur siður þjóðarinnar og menning fléttast um hin kristnu gildi, sem hefur verið staðfest í lögum, öll meira og minna leidd út frá boðorðunum tíu.
Íslenska þjóðin er kristin. Nær 100% þjóðarinnar var það áður fyrr, en nú á síðustu árum um 90%, en innan þjóðkirkjunnar eru um 80% íbúa í þjóðkirkjunni. Fríkirkjusöfnuðirnir þrír eru með um 5% íbúa og gætu ef þeir óskuðu eftir og ynnu að því, starfað innan þjóðkirkjunnar og notið frelsis sem fríkirkjusöfnuðir og notið fullra réttinda samhliða, sem þjóðkirkjusöfnuðir.

Í lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 segir í 1.gr: “Íslenska þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni.” Í lögunum segir einnig að þjóðkirkjan ráði starfi sínu og að kirkjuþing hafi æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar innan lögmæltra marka og situr starfsreglur um störf kirkjunnar, sem ber að fara eftir í starfi þjóðkirkjunnar og hefur því reglugerðarígildi eftir löglega auglýsingu. Þetta ákvæði markar sérstöðu um sjálfstæði lútersku þjóðkirkjunnar hér á landi umfram kirkjur annarra landa, sem telja sig njóta sjálfstæðis, s.s. eins og í Svíðþjóð og Þýskalandi.

Ef átt er við þær greiðslur sem þjóðkirkjan fær, þá er það annars vegar félagsgjald, sem öll trúfélög fá, en til viðbótar framlag til jöfnunarsjóðs sem er 18,5% af þessu félagsgjaldi til að koma til móts við kirkjubyggingar 272 sókna út um allt land. Önnur sérframlög til kirkjunnar byggja á samningum tveggja lögaðila, ríkisins og þjóðkirkjunnar, sem að auki eru lögfestir. Þar er einkum um að ræða tvo skuldbindandi eignasamninga, annan frá 1997/1998 um afhendingu kirkjujarða til eignar hjá ríkinu, en á móti komi skuldbinding um greiðslu launa til þriggja biskupa, 138 presta og prófasta og 18 starfsmanna á biskupsstofu, með ákvörðun um að fjölgun eða fækkun innan þjóðkirkjunnar hafi tilhlíðandi áhrif á þessa skuldbindingu. Í framhaldssamningi er kveðið á um að þjóðkirkjan beri fulla ábyrgð á fjármálum sínum og geti fækkað eða fjölgað starfsmönnum án þess að það hafi áhrif á greiðsluskyldu ríkissjóðs. Hinn samningurinn er frá 2006 og fjallar um afhendingu prestssetra til þjóðkirkjunnar ásamt fleiri eignatilfærslum með hækkun framlags til kirkjumálasjóðs þar sem kveðið er á um að fullnaðaruppgjör hafi farið fram milli ríkisins og þjóðkirkjunnar.

Í ljósi þessara staðreynda þarf ekki að spyrja um aðskilnað ríkis og kirkju. Sá aðskilnaður er algjör og sjálfstæði þjóðkirkjunnar betur skilgreint og með meira sjálfstæði frá ríkisvaldi, en hjá nokkurri annarri lútherskri kirkju.

Hins vegar má velta upp mörgum möguleikum á breyttu samstarfi milli ríkisvaldsins og þjóðkirkjunnar, m.a. um stöðu presta, sem opinberra starfsmanna og störf þeirra í þágu kirkju og þjóðar, sameiginlegt samstarf um kristin gildi, menningu, listir og varðveislu kirkjumuna. Þetta samstarf hefur verið gott, en ef því á að breyta, þarf að ræða hvað það eigi að vera, en ekki með innihaldslausri upphrópun um aðskilnað.

Ef fella á út 62. gr. stjórnarskrárinnar breytist ekkert um stöðu þjóðkirkjunnar sem stofnunar, en hins vegar teldi ég að ríkisvaldið með sínum þremur stoðum væri að taka ákvörðun um að fjarlægjast það, sem byggir á því sem rétt er í hinu kristna samfélagi samhjálpar, kærleika og virðingar við allt sem lifir.

Kirkjuþing samþykkti frumvarp til þjóðkirkjulaga 2008, sem bíður enn umfjöllunar og staðfestingar Alþingis, en þar er m.a. opnað á möguleika fríkirkna til formlegrar aðildar í þjóðkirkjunni. Þetta frumvarp bíður nýrrar umfjöllunar hins nýkjörna kirkjuþings, sem kemur saman í nóvember. Þess er vænst að umfjöllun lokinni að Alþingi samþykki það frumvarp.

Um höfundinn4 viðbrögð við “Þjóðkirkjan og ríkisvaldið”

 1. Halldór Logi Sigurðarson skrifar:

  >Þetta ákvæði stjórnarskrárinnar, sem hefur staðið nær óbreytt frá 1874 hefur ásamt sérkennilegri umfjöllun um fjármál kirkjunnar verið tilefni kröfu margra, einkum utanþjóðkirkjuaðila, um aðskilnað ríkis og kirkju.
  Já, umfjöllun ykkar hefur verið ansi sérkennileg.
  >allt frá kristnitöku hefur siður þjóðarinnar og menning fléttast um hin kristnu gildi, sem hefur verið staðfest í lögum, öll meira og minna leidd út frá boðorðunum tíu.
  Sjáum hvaða boðorð eru í lögunum.
  Þú skalt ekki morð fremja.
  Þú skalt ekki stela.
  Einhver fleiri? Nei, bara þessi tvö sem eru í langflestum löndum heimsins, sama hvaða trúfélag hefur verið ríkjandi þar. Einfaldlega náttúruleg siðfræði þar á ferð, ekki trúarbrögð. Af tíu boðorðum eru tvö í lögunum, þau sömu og eru út um allan heim og hafa verið eiginlega frá upphafi siðmenningar.
  >Íslenska þjóðin er kristin.
  Eða: 80% Íslendinga eru skráðir í ríkiskirkjuna, líklega 99% vegna þess að þeir voru við fæðingu skráðir í hana vegna trúfélags móður og hafa ekki nennt að skipta.
  >Fríkirkjusöfnuðirnir þrír eru með um 5% íbúa og gætu ef þeir óskuðu eftir og ynnu að því, starfað innan þjóðkirkjunnar og notið frelsis sem fríkirkjusöfnuðir og notið fullra réttinda samhliða, sem þjóðkirkjusöfnuðir.
  Kannski vilja þeir ekki starfa með ríkiskirkjunni vegna þess að þeim finnst sérstaða hennar og réttindi ósanngjörn.
  >Í ljósi þessara staðreynda þarf ekki að spyrja um aðskilnað ríkis og kirkju. Sá aðskilnaður er algjör og sjálfstæði þjóðkirkjunnar betur skilgreint og með meira sjálfstæði frá ríkisvaldi, en hjá nokkurri annarri lútherskri kirkju.
  NEI! Þegar talað er um aðskilnað kirkju og ríkis er talað um ALGJÖRAN 100% ríki-lætur-trúmál-í-friði. Með öðrum orðum, þegar kirkjan hættir að fá minnsta aur frá ríkinu ÞÁ er kominn aðskilnaður. Meðan stjórnarskráin verndar og ríkið styrkir eitthvað eitt sér-trúfélag, þá er það ekki aðskilnaður fyrir túkall.
  >sameiginlegt samstarf um kristin gildi
  Ég vill ekki að ríkið útskúfi samkynhneigðum, banni kennslu á þróunarkenningunni og sólmiðjukenningunni.
  >Þetta samstarf hefur verið gott, en ef því á að breyta, þarf að ræða hvað það eigi að vera, en ekki með innihaldslausri upphrópun um aðskilnað.
  Slík upphrópun er ekki innihaldslaus. Slík upphrópun þýðir : RÍKI! HALLÓ! LÁTTU TRÚMÁL Í FRIÐI OG KIRKJA! LÁTTU LANDSMÁL Í FRIÐI!
  >Ef fella á út 62. gr. stjórnarskrárinnar breytist ekkert um stöðu þjóðkirkjunnar sem stofnunar, en hins vegar teldi ég að ríkisvaldið með sínum þremur stoðum væri að taka ákvörðun um að fjarlægjast það, sem byggir á því sem rétt er í hinu kristna samfélagi samhjálpar, kærleika og virðingar við allt sem lifir.
  Sem sagt, þú segir að ef kirkjan hyrfi úr ríkinu myndi atvinnubótaleysi hverfa, fangelsi lögð niður, heilbrigiðskerfið selt til Rússlands í kolanámur og allir alþingismenn yrðu blóðþyrstar vampírur. Nei, það er alveg hægt að vera góð manneskja með gott siðferði án þess að þurfa að óttast einhverja súrrealíska über veru. Ríkið er, samkvæmt þessum pistli ef ég skil rétt, kristið. Er það eitthvað sérlega gott í dag? Yrði það virkilega verra ástand ef kirkjan hyrfi úr því?

 2. Toshiki Toma skrifar:

  Mig langar að þakka séra Halldóri fyrir þennan góða pistli og einnig síðastu nokkru pistlana um sama ræðuefnið.
  Sátt að segja hef ég verið næstum eingöngu andstæðingur séra Halldórs hingað til um ýmis mál sem voru tengd við samfélagið og kirkjuna, en í þetta skipti er ég mikið sammála honum að mörgu leyti.

  kveðjur,
  Toshiki

 3. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Ef átt er við þær greiðslur sem þjóðkirkjan fær, þá er það annars vegar félagsgjald,…

  Þetta er auðvitað rangt. En það er ekki eins og ríkiskirkjufólki sé annt um sannleikann.

 4. Matti skrifar:

  Er það ykkur virkilega um megn að eiga í heiðarlegum samskiptum? Hvernig stendur á því að Halldór hefur ekki enn leiðrétt rangfærslur úr síðustu og þarsíðustu grein, heldur bætir bara í.

  Æi, svona virkar nauðvörn.

  Fyrst boðorðin tíu eru meðal annars til umfjöllunar minni ég á áttunda boðorðið. Þið ættuð að kunna það þó illa gangi að tileinka sér boðskapinn.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3150.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar