Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Gunnlaugur Stefánsson

Sóknargjaldið er ekki framlag ríkisins

Mynt

Þeir sem kynna sér sögu og tilurð sóknargjaldsins, sem trúfélögin byggja starfsemi sína á, sjá að það er ekki framlag ríkisins, heldur innheimta á sérstöku gjaldi sem ríkinu ber að skila til trúfélaganna. Til hagræðis fyrir ríkið var ákveðið árið 1988 að gjaldinu skyldi bætt við tekjuskattinn, en áður hafði það verið sérstaklega tilgreint á innheimtuseðli.

Í fjárlagafrumvarpi hefur öll upphæð trúfélagsgjalda verið tilreiknuð Þjóðkirkjunni, þó reyndin sé að gjaldið skiptist á milli trúfélaga samkvæmt meðlimafjölda. Það gefur ekki nákvæm skilaboð um fjármál Þjóðkirkjunnar. Þá hefur Alþingi á s.l. árum tekið af trúfélagsgjöldunum væna sneið, eða allt að fimmtu hverja krónu, í ríkissjóð og boðar nú að taka enn meira. Sóknargjaldið rennur til safnaðanna til að standa undir starfinu og þjónustunni í heimabyggð, þannig að úrsögn úr Þjóðkirkjunni bitnar á því.

Því er oft haldið fram að trúfélögin, og þá sérstaklega Þjóðkirkjan, njóti forréttinda með því að ríkið sjái um innheimtu félagsgjaldanna. En svo er alls ekki. Ríkið innheimtir fjölmörg gjöld fyrir frjálsar félagahreyfingar og engum manni dettur í hug að telja þær ríkisvæddar vegna þess. Nærtækt er að benda á innheimtu stéttarfélaga- og lífeyrisiðgjalda ríkisstarfsmanna. Þá hefur ríkið innheimt ýmiss skyldugjöld eins og búnaðarmálagjald af bændum fyrir Bændasamtökin til að fjármagna rekstur sinn, jöfnunargjald alþjónustu fyrir fjarskiptafyrirtæki, markaðsgjald fyrir Útflutningsráð Íslands og iðnaðarmálagjald til að standa undir rekstri frjálsra félagasamtaka iðnaðarins. Þá eru í gildi margvísleg lög um opinbera innheimtu sérstakra skyldugjalda fyrir viðskiptalífið eins og olíudreifingargjald og fiskræktarsjóðsgjald svo dæmi séu tekin.

Það sem greinir ofangreind skyldugjöld frá trúfélagsgjöldunum er, að ekkert eða mjög takmarkað valfrelsi er fyrir greiðandann um hvert þau renna og Alþingi hefur ekki tekið af þeim sneið í ríkissjóð. En fólki er frjálst að velja sér trúfélag þangað sem félagsgjaldið rennur eða standa utan trúfélaga og greiðir þá sitt trúfélagsgjald í ríkissjóð.

Umræður um fjármál Þjóðkirkjunnar eru oft á villugötum þar sem ónákvæmum upplýsingum er beitt í blekkingaskyni, sérstaklega til að rökstyðja að Þjóðkirkjan sé ríkisvædd stofnun. En þeir sem kynna sér málin komast að raun um, að kirkjan er sjálfstætt trúfélag að lögum og aðskilin frá ríkinu, en með samninga við ríkið á ýmsum sviðum eins og gildir um mörg frjáls félagasamtök í landinu.

Um höfundinn29 viðbrögð við “Sóknargjaldið er ekki framlag ríkisins”

 1. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Þeir sem kynna sér sögu og tilurð sóknargjaldsins, sem trúfélögin byggja starfsemi sína á, sjá að það er ekki framlag ríkisins, heldur innheimta á sérstöku gjaldi sem ríkinu ber að skila til trúfélaganna

  Og strax hérna klikkarðu. Ríkið innheimtir ekki sóknargjöld, heldur útdeilir þeim bara. Sóknargjöld eru borguð til trúfélaga úr innheimtum tekjuskatti. Sóknargjöld eru klárlega ekki félagsgjöld

 2. Matti skrifar:

  > Nærtækt er að benda á innheimtu stéttarfélaga- og lífeyrisiðgjalda ríkisstarfsmanna.

  En þessi gjöld eru svo sannarlega dregið af launum starfsmanna.

  Það er ekkert dregið af launum sóknarbarna ríkiskirkjunnar enda eru sóknargjöld greidd til ríkiskirkjunnar fyrir sóknarbörn alveg óháð því hvort þau sóknarbarnið greiðir einhverja skatta.

 3. Halldór Logi Sigurðarson skrifar:

  Það sem væri nær sannleikanum:
  “Umræður um fjármál Þjóðkirkjunnar eru oft á villugötum þar sem ónákvæmum upplýsingum er beitt í blekkingaskyni, sérstaklega til að rökstyðja að Þjóðkirkjan sé EKKI ríkisvædd stofnun.”

 4. Jón Yngvi Jóhannsson skrifar:

  Ég veit ekki betur en valfrelsi mitt um það hvert sóknargjöldin renna sé mjög takmarkað. Það takmarkast við skráð trúfélög, þannig að trúlausir hafa enga möguleika á að nýta sín sóknargjöld til góðra mála til dæmis með því að láta þau renna til Siðmenntar eða hjálparsamtaka.

  Þetta á við um alla sem skráðir eru utan trúfélaga eða í óskráð trúfélög. Þetta er ekki lítill hópur. Finnst sr. Gunnlaugi það eðlilegt?

  Mun þjóðkirkjan aftur berjast gegn því að önnur lífsskoðunarfélög en trúfélög geti notið sóknargjalda ef tillaga þess efnis kemur fram á þingi?

  Það má minna á að núverandi dómsmálaráðherra lagði fram breytingartillögu þessa efnis þegar lög um trúfélög voru samþykkt 1999. Hún var illu heilli felld.

 5. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Ég kannast ekki við að þjóðkirkjan hafi beitt sér á þennan hátt, hvaðan hefurðu það Jón Yngvi?

 6. Jón Yngvi Jóhannsson skrifar:

  Ég get ekki náð í umsögn biskups um lögin á sínum tíma inn á Alþingisvefinn og nenni ekki að leita á timarit.is að ummælum yfirmanna kirkjunnar um sóknargjöld. En margoft hefur komið fram sú skoðun að alls ekki megi sleppa okkur trúleysingjunum við þessi gjöld þannig að fólk sjái sér ekki “ávinning” í því að standa utan trúfélaga.

  En finnst þér eðlilegt Árni Svanur að þú getir ráðstafað hluta af þínum tekjuskatti til að styðja við þína lífsskoðun en ég ekki? (Svona fyrst sr. Gunnlaugur virðist hvorki ætla að svara mér né öðrum)

  Annars er rétt að halda því til haga að Hjalti Hugason skrifaði ágætan pistil hér á tru.is fyrir nokkru þar sem hann lýsti stuðningi við það að önnur lífsskoðunarfélög nytu jafnréttis við trúfélög að þessu leyti. Það er eina dæmið sem ég man um að sú skoðun hafi heyrst innan úr kirkjunni.

 7. Matti skrifar:

  Hér má sjá erindi biskups til nefndar sem fjallaði um sóknargjöld árið 2002.

 8. Matti skrifar:

  Ég er semsagt að vísa á sömu grein og Hjalti vísaði á í fyrstu athugasemd. Lastu hana ekki Árni Svanur?

 9. Gunnlaugur Stefansson skrifar:

  Ég þakka þeim sem lesa þennan pistil minn og ekki síður þeim sem koma með athugasemdir. Ég virði þær og ólík viðhorf, en hér gefst afskaplega takmarkað svigrúm til tjáskipta. En ljóst er að félagsgjaldið er miðað við trúfélög, og valfreslið felst í að velja sér trúfélag eða greiða gjaldið í ríkissjóð. Hin flokkspólitísku félög eru t.d. í flokki með lífsskoðunum, en trúfélögin með trúarafstöðu og rækta trúarlíf? Í hvorn flokkinn vill Vantrú staðsetja sig?
  Kær kveðja
  Gunnlaugur Stefánsson
  Heydölum

 10. Matti skrifar:

  Þetta er misskilningur Gunnlaugur, hér er ekki um “ólík viðhorf” að ræða heldur er það einfaldlega rangt að ríkið innheimti sóknargjöld fyrir trúfélög.

  valfreslið felst í að velja sér trúfélag eða greiða gjaldið í ríkissjóð

  Það er ekki “valfrelsi”.

  Í hvorn flokkinn vill Vantrú staðsetja sig?

  Vantrú kemur málinu ekkert við.

 11. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  En ljóst er að félagsgjaldið er miðað við trúfélög, og valfreslið felst í að velja sér trúfélag eða greiða gjaldið í ríkissjóð.

  Greiða gjaldið í ríkissjóð? Það er ekkert “sóknargjald” greitt til ríkissjóðs.

  Sá eini sem að greiðir sóknargjöld er ríkissjóður. Sóknargjöld eru framlög til trúfélaga beint úr ríkissjóði.

 12. Jón Yngvi Jóhannsson skrifar:

  Viltu ekki svara spurningum mínum Gunnlaugur? Vantrú kemur málinu ekki við, ekki frekar en Frímúrarahreyfingin, Flat Earth Society eða önnur félög sem ég tilheyri ekki.

  Ekki drepa málinu á dreif. Svaraðu bara spurningunum. Það er ótrúlega mikið svigrúm á internetinu til þess.

 13. Jón Yngvi Jóhannsson skrifar:

  Ertu semsagt að gefa í skyn Gunnlaugur að sú afstaða að trúa á guð eða guði sé sé ekki lífsskoðun?

 14. Gunnlaugur Stefansson skrifar:

  Til frekari útskýringa þá vísa ég til predikunar, Sambúð kristni og þjóðar, sem ég flutti 3. október s.l. í Bústaðarkirkju og má lesa hér á vefnum. En spurning mín stendur enn ósvöruð: Á að flokka Vantrú með flokkspólitískum félögum sem hafa lífsskoðun að grundvelli eða trúfélögum sem byggja á trúarjátningu og rækta trúarlíf?
  Gunnlaugur Stefánsson
  Heydölum

 15. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Gunnlaugur, hvernig skilgreinir þú eiginlega félagsgjöld?

  Svo endurtekurðu í þessari predikun þá villu að ríkið sé að innheimta sóknargjöld. Ríkið innheimtir tekjuskatt og trúfélög fá síðan framlag frá ríkinu af honum.

  Svo skil ég ekki þessa flokkaspurningu þína. Vantrú er hvorki stjórnmálafélag né trúfélag ef þú ert að spyrja að því.

 16. Jón Yngvi Jóhannsson skrifar:

  Vantrú kemur þessu máli ekki við eins og bent hefur verið á. Siðmennt gerir það á hinn bóginn. Svarið við því hvar Siðmennt á heima er einfalt. Það þarf að breyta lögum um skráð trúfélög þannig að þau rúmi félög sem “sinni samsvarandi trúarlegum eða félagslegum skyldum og hafi unnið sér sess.”

  Orðin innan gæsalappa eru úr breytingartillögu Ögmundar við lög um skráð trúfélög frá 1999.

  Ef lögunum yrði breytt í þessa veru myndu trúlausir, hvort sem þeir kalla sig húmanista eða ekki myndað félög um sínar lífsskoðanir á sama grundvelli og trúaðir.

  Eigum við ekki að nota svigrúmið til að ræða þetta og hætta að tala um Vantrú þótt það sé merkur félagsskapur og vanmetinn?

 17. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Svo ég svari fyrir mig, Jón Yngvi, þá myndi ég fyrir mitt leyti styðja það að lífsskoðunarfélög gætu fengið skráningu og þú þar með ráðstafað þínum sóknargjöldum til að styðja slíkt félag. Ég man eftir þessum pistli Hjalta og ef ég man rétt hefur Pétur Pétursson, kollegi hans í HÍ, einnig beitt sér fyrir þessu.

 18. Matti skrifar:

  Myndir þú styðja að þeir sem standa utan trúfélaga (eða lífsskoðanafélaga) geti fengið sóknargöld endurgreidd í beinhörðum peningum - og hefðu þar með fjárhagslegan ávinning af því að stunda utan slíkra félaga?

 19. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Spurning Jóns Yngva laut að skilgreiningunni á trúfélögum. Ég svaraði henni. Læt þar við sitja.

 20. Matti skrifar:

  Þetta þykir mér alveg merkilega hrokafullt og dónalegt.

 21. Gunnlaugur Stefansson skrifar:

  Hroki felst í að virða ekki afstöðu fólks. Sr. Árni Svanur sýnir einmitt ólíkum viðhorfum virðingu og mættu margir taka hann sér til fyrirmyndar í þeim efnum. En varðandi skyldugjöldin, þá langar mig til að spyrja andstæðinga trúfélagsgjaldsins hvort þeir vilji þá afnema skyldukvöð á innheimtu og greiðslu lífeyrissjóðsiðgjalda eða auka valfrelsið um hvert renna skuli?
  Gunnlaugur Stefánsson
  Heydölum

 22. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Ég persónulega hef ekki kynnt mér lífeyrissjóðsiðgjöld nogu vel til að hafa skoðun á þeim.

  En það væri gaman að sjá skilgreiningu frá einhverjum hérna á félagsgjöls. Ég hef alltaf skilið það sem gjald sem einstaklingur borgar félagi fyrir það að vera meðlimur í því. Eruð þið ósammála því?

 23. Jón Yngvi Jóhannsson skrifar:

  Af hverju svarar þú aldrei spurningum Gunnlaugur? Þú kemur bara með aðrar spurningar sem koma málinu ekkert við.

  Og fyrst þú spyrð. Nei, ég vil ekki afleggja lífeyrissparnað en vildi gjarnan auka valfrelsi um það hvert hann rennur. En það kemur þessu máli nákvæmlega ekkert við.

 24. Jón Yngvi Jóhannsson skrifar:

  Já, og Árni. spurning mín er endurtekin í svari við öðrum pistli, ef þú myndir svara mér það þyrftir þú að svara Matta líka: http://tru.is/pistlar/2010/10/felagsgjold-til-trufelaga

 25. Gunnlaugur Stefansson skrifar:

  Öllum leyfist að spyrja og svara að vild þó við séum hvorki sammála spurningunum eða svörunum. Og gott er að nálgast mál frá ýmsum sjónarhornum til að víkka skilninginn. Þess vegna er mikilvægt greina önnur skyldugjöld sem ríkið innheimtir fyrir frjáls félög og setja í samhengi. Og þau eru mörg eins og fram kemur í pistli mínum. Ríkið innheimtir ekki aðeins félagsgjöld fyrir sjálfstæða Þjóðkirkju og önnur trúfélög. Hefur það farið framhjá einhverjum?
  Gunnlaugur Stefánsson
  Heydölum

 26. Jón Yngvi Jóhannsson skrifar:

  Nei, Gunnlaugur það hefur ekki farið framhjá neinum. En til þín hefur verið beint nokkrum spurningum í þessum umræðum. Hvers vegna svarar þú ekki? Aðrir, bæði ég, Árni Daníel og Vantrúarmenn hafa svarað spurningum sem til þeirra er beint.

  Eini maðurinn sem engu svarar ert þú. Hvernig stendur á því?

 27. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Ríkið innheimtir ekki aðeins félagsgjöld fyrir sjálfstæða Þjóðkirkju og önnur trúfélög.

  Enn og aftur, ríkið gerir þetta einmitt ekki. Ríkið innheimtir tekjuskatt (er tekjuskattur félagsgjöld?).

  Ef ríkið tæki upp á því á morgun að gefa öllum skákfélögum landsins 1000 krónur fyrir hvern meðlim, væri ríkið þá allt í einu farið að innheimta félagsgjöld fyrir skákfélögin?

  Svo held ég að það sé bara talin almenn kurteisi í svona umræðum að hunsa ekki spurningar annarra. Þú vilt líklega að við svörum spurningunum þínum, hvernig væri að beita gullnu reglunni á það?

 28. Gunnlaugur Stefansson skrifar:

  Ég svara og spyr eins og þið. Stundum verða svörin við spurningum öðruvísi en við væntum, sérstaklega þar sem við erum ekki sammála um allt. Ég virði það og vona að þið gerið það líka.
  Gunnlaugur Stefánsson
  Heydölum

 29. Matti skrifar:

  Lífeyrissjóðsgreiðslur koma fram á launaseðli og eru háðar tekjum launþega. Lífeyrissjóðsgreiðslur safnast upp og eru tengdar einstaklingi sem aflar sér réttinda við að greiða í sjóðinn.

  Sóknargjöld koma ekki fram á launaseðli eða skattfratali og eru ekki háðar því að “sóknarbarn” hafi nokkrar tekjur yfir höfuð. “Sóknarbarn” safnar ekki upp “eign” við það að ríkið greiðir gjöld fyrir hann til trúfélags.

  Því er eðlismunur á þessu og ég skil ekki tilganginn með því að reyna að tengja þetta saman.

  Kíktu á launaseðilinn þinn Gunnlaugur. Þar sérðu hvað er dregið af þínum launum og greitt í lífeyrissjóð, auk þess séru mótframlag vinnuveitanda (ríkisins). Sérðu eitthvað sem tengist sóknargjöldum (annað en launaseðilinn sjálfan)?

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 6179.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar