Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Ólafur Jóhann Borgþórsson

Mannréttindaráð á villigötum

Víða í þessari veröld eru framin alvarleg mannréttindabrot á hverjum einasta degi. Það er löngu þekktar og jafnframt sárar staðreyndir að gríðarlegur fjöldi barna er bundinn í þrælavinnu, að vestrænir viðskiptarisar snuði bændur og framleiðendur í fátækari ríkjum og að víða eru fólk hneppt í varðhald segi það skoðanir sínar sem yfirvöldum eru ekki þóknanlegar. Hér á landi eru einnig framin mjög alvarleg mannréttindabrot. Til dæmis mansal og vændi sem er því miður eitthvað sem ekki er hægt að horfa framhjá. Það á að vera eitt af forgangsverkefnunum í samfélaginu að takast á við þessi brot af fullri hörku og af alvöru. Sem betur fer hefur vitund stjórnvalda og þjóðarinnar allrar um þessi mál aukist til mikilla muna og hafa ýmis félög og ráð verið stofnuð til þess að stuðla að því að mannréttindi séu virt í hvívetna. Málstaðurinn er góður og víða hefur tekist að ná mikilli bót á sviði mannúðar og mannréttinda.

• • •

Á vegum Reykjavíkurborgar er starfandi mannréttindaráð sem er ætlað að móta stefnu og taka ákvarðanir í mannréttindamálum borgarinnar. Í síðustu viku bárust þær fréttir að meirihluti ráðsins vilji banna, á forsendum mannréttinda, foreldrum fermingarbarna að fá frí fyrir börnin sín í einn eða tvo daga á allri sinni skólagöngu til að fara í ferðalag á vegum kirkjunnar. Þó er leyfilegt að gefa stutt skólafrí af flestum öðrum ástæðum, rétt eins og foreldrar kjósa hverju sinni.

Meirihluti mannréttindaráðs vill jafnframt banna það að prestar eða aðrir fulltrúar kirkjunnar fari í skólana til þess að segja frá því að æskulýðsfélag kirkjunnar eða annað kirkjustarf sé að hefja starfsemi sína, jafnvel þó öllum öðrum félögum og stofnunum sem standa að barna- og æskulýðsstarfi sé leyft að kynna sína starfsemi. Að auki vill meirihluti ráðsins setja þær skýru reglur að ekki skuli kalla til prest ef andlát eða slys ber að höndum í skólastarfinu.

Mér er ekki kunnugt um að í þau fjölmörgu skipti þar sem prestur hefur komið að því að styðja við nemendur vegna andláts innan skólans hafi um leið verið brotið á mannréttindum eða að það hafi skemmt nokkurn eða meitt. Hins vegar hafa margir syrgjendur notið mikillar huggunar og leiðsagnar prestsins sem hefur hjálpað þeim til að takast á við sorgina og þann dimma dal sem dauðsfallinu fylgir. Samkvæmt hugmyndum meirihluta ráðsins eru boðin og bönnin enn fleiri. Heldur einhver í alvörunni að prestarnir séu með þessu að framkvæma svo alvarleg mannréttindabrot að brýnt sé að stöðva sem allra fyrst?

* * *
Kirkjan er elsta stofnun íslensks samfélags. Boðskapur hennar hefur mótað siði og venjur þjóðarinnar. Allt starf hennar miðar að því að miðla kærleiksboðskap kristinnar trúar. Barna- og æskulýðsstarfið er forvarnarstarf þar sem lögð er áhersla á að allir þátttakendur séu mikilvægir, framlag hvers og eins metið og ekki eru greidd þátttökugjöld. Maður spyr sig hvað það er sem fær meirihluta mannréttindaráðs borgarinnar til að álykta á þann veg sem áður greinir.

Má vera að það hafi áhrif að í téðum meirihluta sitji varaformaður Siðmenntar, félagsskapar sem leggur gríðarlega áherslu á að vinna gegn útbreiðslu kirkju og kristni í samfélaginu? Ætti mannréttindanefnd borgarinnar ekki frekar að taka sér stöðu gegn raunverulegum mannréttindabrotum? Íslenskt samfélag þarf á því að halda nú sem áður fyrr að öllu góðu starfi sem stuðlar að jákvæðni og kærleika sé haldið á lofti. Það skulum við gera hér eftir sem hingað til!

Um höfundinn7 viðbrögð við “Mannréttindaráð á villigötum”

 1. Halldór Logi Sigurðarson skrifar:

  >Í síðustu viku bárust þær fréttir að meirihluti ráðsins vilji banna, á forsendum mannréttinda, foreldrum fermingarbarna að fá frí fyrir börnin sín í einn eða tvo daga á allri sinni skólagöngu til að fara í ferðalag á vegum kirkjunnar.

  Nei, það var verið að meina að skólinn ætti ekki að styðja við slíkt. T.d. þar sem ég bý hefur skóli skaffað rútu, bílstjóra og starfsmann á launum til þess að fara í fermingarferðir. Það er sjúkt og óréttlátt.

  >Meirihluti mannréttindaráðs vill jafnframt banna það að prestar eða aðrir fulltrúar kirkjunnar fari í skólana til þess að segja frá því að æskulýðsfélag kirkjunnar eða annað kirkjustarf sé að hefja starfsemi sína, jafnvel þó öllum öðrum félögum og stofnunum sem standa að barna- og æskulýðsstarfi sé leyft að kynna sína starfsemi. Að auki vill meirihluti ráðsins setja þær skýru reglur að ekki skuli kalla til prest ef andlát eða slys ber að höndum í skólastarfinu.

  Nei, það er verið að banna TRÚBOÐ. Það væri eitt ef prestur kæmi og segði frá því að æskulýðsstarf væri hafið og kæmi síðan ekkert aftur fyrr en á næsta skólaári og væri bara að kynna starfssemina. Svo er einnig verið að tala um leikskóla. Börn á einstaklega viðkvæmu stigi sem trúa hvaða vitleysu sem er, sérstaklega ef hún er nógu sykurhúðuð. Vinsamlegast látið börnin í friði.
  Og auðvitað á ekkert að kalla í prest þegar slys á sér stað, frekar bara lækni og foreldra og HLUTLAUSAN sálfræðilega MENNTAÐAN aðila sem getur kallað sig sálfræðing ef áfall er mikið.

  >Mér er ekki kunnugt um að í þau fjölmörgu skipti þar sem prestur hefur komið að því að styðja við nemendur vegna andláts innan skólans hafi um leið verið brotið á mannréttindum eða að það hafi skemmt nokkurn eða meitt.

  Það skemmir á þann hátt að presturinn er ímynd kristninnar (burtséð frá því hversu mikið kirkja og prestar eru útúrsnúningur boðskaps NT) og á ekkert að kalla í nein trúarbrögð þegar áfall á sér stað. Hlutlaus aðili, MENNTAÐUR í slíkt, eins og til dæmis sálfræðingur , ætti að sjá um slíkt og ekkert blanda trúarbrögðum í það. Þar er einmitt brotið á, því oft virðist fólk ekki gera sér grein fyrir því að sumir eru ekki kristnir í þessu samfélagi.

  >Hins vegar hafa margir syrgjendur notið mikillar huggunar og leiðsagnar prestsins sem hefur hjálpað þeim til að takast á við sorgina og þann dimma dal sem dauðsfallinu fylgir.

  Það getur vel verið. En aðstandendur ættu þá að kalla í prest, ekki yfirvöld. Ef fólk vill stuðning prests þá á það að gera það sjálft og skólinn ekki að ýta undir neitt.

  >Heldur einhver í alvörunni að prestarnir séu með þessu að framkvæma svo alvarleg mannréttindabrot að brýnt sé að stöðva sem allra fyrst?

  JÁ. Það er verið að heilaþvo börn. BÖRN. Sagðist Jesú ekki elska börnin? Mikill kærleikur er í því að reyna að troða sem mestum boðskap í þau áður en þau ná minnsta heilaþroska og rökrænni hugsun. Ráðist á framhaldsskóla í staðin, þar er fólk sem ætti að geta hugsað fyrir sig.

  >Barna- og æskulýðsstarfið er forvarnarstarf þar sem lögð er áhersla á að allir þátttakendur séu mikilvægir, framlag hvers og eins metið og ekki eru greidd þátttökugjöld.

  Fyrir utan hina fjóra milljarða sem skattgreiðendur borga. En það er auðvitað auka atriði.

  >Má vera að það hafi áhrif að í téðum meirihluta sitji varaformaður Siðmenntar, félagsskapar sem leggur gríðarlega áherslu á að vinna gegn útbreiðslu kirkju og kristni í samfélaginu?

  Ójá, einn maður breytir öllu! Skiptir heldur ekki máli, ömurlegt að segja svona. Varaformaður Siðmenntar eða ekki þá eru þetta hans skoðanir og greinilega meirihlutans. Það hann sé í Siðmennt skiptir engu.

 2. Ólafur Jóhann skrifar:

  Ég sé að þú ferð hér mikinn Halldór Logi og þetta virðist vera þér mikið mál. Þú ættir því að kynna þér málið betur.
  1. Í greinargerð mannréttindaráðs er ekki minnst einu orði á rútubílstjórann, rútuna eða slíkt heldur segir. Heldur að ekki ekki sé æskilegt að gefa frí til fermingarferðalaga kirkjunnar.

  2. Ekki hefurðu alveg rétt fyrir þér þarna. Það stendur skýrt í þessari tillögu sem liggur fyrir að heimsóknir starfsmanna trúfélaga til kynningar á starfseminni sé ekki heimil.

  3. Sálfræðingar eru margir mjög færir en það má ekki gleyma því að prestar hafa bæði menntun og mikla reynslu í að styðja og leiðbeina syrgjendum.

  4. Heilaþvottur segirðu. Það þykja mér stór orð því þætti mér gott að fá bæði rök og dæmi um það að prestar hafi stundað heilaþvott í skólaheimsóknum.

  Að lokum - smá leiðrétting. Að sjálfsögðu á að standa ,,kirkjan er ein elsta stofnun íslensks samfélags.

 3. Þórður Aðalsteinsson skrifar:

  Athygliverð lesning, Alltaf gott þegar menn skrifa greinar og segja að eitthvað annað sé miklu mikilvægara, slík rök benda til þess að viðkomandi haf engin betri rök fyrir sínum málstað. Persónulega hefði haldið að kirkjan fagnaði þessum tillögum mannréttindaráðs. Reyndar hefði ég talið að kirkjan stigi fram strax setti fram reglur sínar, reglur sem væru að minnsta kosti það sem mannrættindaráð setur fram. Það hefði sýnt mikinn siðferislegan styrk kirkjunnar, það hefði sýnt að kirkjan væri umburðarlynd, það hefði sýnt náunga kærleik og það hefði sýnt virðingu. En kannski ætti enginn að búast við slíku af kirkjunni.
  Það sem Ólafur Jóhann reynir að gera er að leggja trúboð og skák að jöfnu. Hann reynir að setja þetta upp þannig að kirkjan sé ekkert að gera nema kynna félagsstarf. Kannski kominn tími til fyrir Ólaf Jóhann að kynna þér ágætt skjal sem heitir Stefna og starfsáherslur Þjóðkirkjunnar 2004 - 2010. þarft ekki að lesa langt eða mikið til að sjá þar hvert hlutverk kirkjunnar er. Ég ætla ekki að segja þér það allt, en það sem vakti minn áhuga var það fyrsta sem talið er upp sem hlutverk kirkjunnar. Það er að boða trú, trúboð er s.s. yfirlýst markmið kirkjunnar. Ekki að það hafi verið nein opinberun fyrir mér. En þetta setur hlutina í samhengi. Þar með þarf allt sem kirkjan og þjónar hennar gera að skoðast í þessu samhengi. allt hlýtur það að snúa að hlutverki kirkjunnar, trúboði. Skák er ekki trúboð, handbolti er ekki heldur trúboð, ballet er ekki trúboð. Æskulýðsstarf kirkjunnar ER trúboð. Ef ekki þá getur ekki verið neinn tilgangur að hafa það þar sem hlutverk kirkjunnar er trúboð, fyrsta verkefni kirkjunnar er trúboð.
  Ekki reyna að klæða úlf í sauðagæru og reyna að selja mér sem bláberja marinerað fjallalamb. Fyrst öll starfsemi kirkjunnar gengur svona glimrandi vel þá getur það varla skipta máli að geta ekki gengið inn í skólana með trúboð. ég reyndar þykist þess viss að það séu fáir skólar eftir sem hleypi þjónum kirkjunnar inn. En það má alls ekki vera einhver geðþótta ákvörðun skólastjórnanda sem ræður því. Ég sem foreldri og uppalandi verð að geta treyst því að skólinn eða leikskólinn gangi ekki gegn stjórnarskrár vörðum rétt mínum og minna barna til trúfrelsis með því að hleypa trúboðanum í börnin. Sannfærðu mig, foreldrið en ekki beita börnunum mínum gegn mér.

 4. Torfi Stefansson skrifar:

  Hér er ágætis innlegg í þetta mál:

  http://sannleikurinn.com/heim/prestur-avarpadi-barn

 5. Ólafur Jóhann skrifar:

  Heill og sæll Þórður og takk fyrir þessi viðbrögð.
  Ég held að það sé kunnara en frá þurfi að segja að Þjóðkirkjan er kristið trúfélag. En til áréttingar tek ég það þó fram í niðurlagi pistilsins og er því ekki að reyna að fela eða blekkja. Þú tekur einn þátt út úr pistlinum er varðar heimsóknir í skólana. Það hefur verið stefna kirkjunnar að þegar fulltrúar hennar eiga erindi inn í menntastofnanirnar eru þeir þar á forsendum skólanna. Þegar sagt er frá því í skólunum að kirkjustarfið sé byrjað fer ekki fram trúboð, þar er ekki verið að segja frá lífi og starfi Jesú, ekki sungnir sálmar eða farið með bænir. Hins vegar er sagt frá því að unglingastarfið sé að hefja störf. Ég get ekki séð að í því felist trúboð.

 6. Matti skrifar:

  Það mætti halda að höfundur greinarinnar hafi aldrei farið í leik- eða grunnskóla til að segja börnum sögur af Gvuð og Jesús auk þess að kenna þeim að “tala við Gvuð”.

  Samt eru til ljósmyndir af því, teknar á leikskóla!

 7. Halldór Logi Sigurðarson skrifar:

  >prestar hafa bæði menntun og mikla reynslu í að styðja og leiðbeina syrgjendum.

  Sem og… sálfræðingar? Ég er ekki að gera lítið úr því að margir prestar hafi reynslu og sumir menntun í þessu, ég kann að meta það og skil vel, en almennt eiga opinber skólayfirvöld ekki að hafa samband við neitt trúartengt.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3706.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar