Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Halldór Reynisson

Kirkja og skóli á forsendum barnsins

Umræðan um kirkju og skóla byggir um sumt á misskilningi. Talað hefur verið um tillögu mannréttindaráðs Reykjavíkur sem „bann við trúboði“ eins og trúboð á vegum kirkjunnar sé þar iðkað í stórum stíl. Það er stefna kirkjunnar að eiga samstarf við skólann á þeirri forsendu hans að fræða um trú en ekki boða hana.

Þá hefur verið látið að því liggja að tillögur mannréttindaráðs byggi á tillögum menntasviðs borgarinnar frá 2007 og að fulltrúi kirkjunnar hafi „blessað“ þær. Ég er sá blessaði maður og vil leiðrétta þann misskilning.
Í fimmta lið tillagna mannréttindaráðs segir „Kirkjuferðir skulu ekki farnar á starfstíma…“. Í 2007 skýrslunni segir: „Varðandi börn og nemendur getur samstarf falist í vettvangsheimsóknum … fá kynningu á hátíðum og athöfnum er tengjast lífshlaupi mannsins.“

Tillaga mannréttindaráðs gengur því í þveröfuga átt.

Í sjötta lið tillagna mannréttindaráðs segir „…að tryggt sé að fagaðilar komi að sálrænum áföllum í stað þess að leitað sé til trúar- og lífsskoðunarfélaga“. Í 2007 skýrslunni segir: „Samstarf getur einnig falið í sér að kennarar í leik- og grunnskólum leiti aðstoðar hjá fulltrúum trúar- og lífsskoðunarhópa vegna áfalla sem tengjast nemendum og kennurum skólanna.“

Tillaga mannréttindaráðs gengur í þveröfuga átt.

Varðandi umfjöllun um fermingarfræðslu Þjóðkirkjunnar þá er hugmyndin í tillögunum að banna skólum að veita leyfi til fermingarferða. Í árslok 2007 áréttaði menntamálaráðuneytið að ekki stæði til að banna skólastjórnendum að veita slík leyfi en foreldrar skyldu sækja um en ekki kirkjurnar.

Í rauninni held ég að allir séu sammála um að skólinn sé ekki vettvangur trúboðs. Deilan snýst um hvað kallað er trúboð. Er það að prestur gengur inn í skóla trúboð? Eru englamyndir á litlu jólunum trúboð? Forðumst öfgar, höfum þá siðfræði Aristótelesar að leiðarljósi að dygðin sé fólgin í meðalhófi en lestir í öfgunum.

Loks þetta. Í skólamálaumræðunni er sjónarmið barnsins sjálfs og náms þess nú í brennidepli en ekki hagsmunir kennarans, hvað þá kirkjunnar eða siðmenntar. Hverjir eru hagsmunir barnsins? Hvað nærir það og þroskar? Hvað styður þegar áföll dynja yfir? Hvernig hjálpum við því að auðga sitt andlega líf, hvort sem það er kristið eða trúlaust?

Um höfundinnEin viðbrögð við “Kirkja og skóli á forsendum barnsins”

  1. Halla Sverrisdóttir skrifar:

    Nú fer það að verða býsna aðkallandi, að mínu mati, að embættismenn Þjóðkirkjunnar, sem velflestir staðhæfa að trúboð sé ekki og hafi ekki verið stundað í skólum og leikskólum hérlendis, skilgreini sjálfir með afgerandi hætti hvað Þjóðkirkjan lítur á sem trúboð, í stað þess að varpa spurningunni til okkar hinna eða ítreka enn og aftur að það sé “umdeilanlegt” hvað teljist trúboð. Þjóðkirkjan skilgreinir sig sem “biðjandi, boðandi og þjónandi” og tekur af öll tvímæli á heimasíðu sinni um það að hlutverk hennar sé einkum og framar öðru að boða kristna trú, fræða um kristna trú og kenna kristna trú. Af því leiðir óhjákvæmilega að ef prestur kemur inn í skóla sem prestur, þ.e. er þar ekki sem kennari, finnst mér engin ástæða til að ætla annað en að hann sé þangað kominn til að boða trú, það er yfirlýst starfssvið hans og bein fyrirmæli frá hans yfirboðurum. Ef hann er í skólastofunni sem kennari, hvort sem er í kristnum fræðum, trúarbragðafræði eða öðrum fögum, geng ég út frá því að nálgun hans sé hlutlaus og í samræmi við gildandi námsskrá. Þegar/ef upp koma tilfelli (sem til eru mörg dæmi um) þar sem presturinn áttar sig ekki alveg á því hvar öðru embættinu sleppir og hitt byrjar vil ég sem foreldri geta vísað í skýrar og greinargóðar reglur mér til halds og trausts þegar ég kvarta við skólastjórnandann og kennarann. Þess vegna fagna ég ályktun Mannréttindaráðs.
    Fermingarfræðsluferðir á skólatíma, hvað þá ferðir sem taka heila tvo daga af kennslutíma sem þegar er orðinn allt of stuttur, finnst mér algjörlega fáránleg hugmynd og í því samhengi er mér eiginlega sama hvort það er gert að ósk foreldra, kirkjunnar eða menntamálaráðuneytisins. Fermingarfræðsla er ekki hluti af skyldunámi og ætti hvergi að skarast við starf skóla, alveg burtséð frá því hvaða áhrif slíkar ferðir meirihluta skólasystkinanna hafa á þá unglinga sem ekki fara í þær.
    Hvað varðar kirkjuferðir finnst mér mjög mikilvægt að gera skýran greinarmun á ferðum viðkomandi kennara, hvort sem er í sögu, samfélagsfræði, kristni- eða trúarbragðafræði eða hvaða fagi sem er öðru, í trúarlega stofnun í því skyni að fræða nemendur sína um starfsemi viðkomandi stofnunar (með eða án aðstoð prestsins) í samhengi við það fag sem um ræðir og kirkjuferðum á vegum skóla þar sem nemendur taka þátt í einhvers konar helgihaldi, hvort sem það er fullburða messa eða helgistund þar sem farið er með bæn eða sungnir sálmar. Annað er fræðsla, hitt er trúboð. Ég hef ekkert á móti því fyrra og afskaplega mikið á móti því síðara. Í ályktun Mannréttindaráðs er enda aðeins talað um að taka fyrir kirkjuferðir á vegum skóla „í trúarlegum tilgangi“, vettvangsferðir eru þar hvergi nefndar. Á þessu tvennu er grundvallarmunur og aftur þætti mér hald í því sem foreldri að geta vísað í reglur um þetta ef ég skyldi þurfa að gera athugasemd við vettvangsferð á skólatíma í trúarlega stofnun

    Þeir eru vissulega margir sem finnst gott og gefandi að ræða við prest þegar áföll dynja yfir. Þeir eru ennfremur margir sem finnst gott að leita til hómópata við ýmsum líkamlegum krankleika. Hvort tveggja er frjálst val fullorðins fólks og ekkert um það að segja. En skólahjúkrunarfræðingurinn á að vera klínískt menntaður fagaðili, en ekki hómópati, og ef barn verður fyrir áfalli innan veggja skólans á að kalla til sérmenntaða manneskju á því sviði. Foreldrarnir geta síðan að sjálfsögðu leitað til prestsins, eða hómópatans, upp á eigin spýtur. Ég get einfaldlega ekki annað en litið á sóknarprest sem alternatívan aðila sem kannski og kannski ekki hefur aflað sér sérþekkingar á sviði áfallaaðstoðar en hefur ekki, í krafti háskólamenntunar sinnar, sérmenntun á því sviði og ætti ekki sjálfgefið að skilgreina sem hæfasta aðilann til að sinna börnum í vanda. Með því er ég ekki að segja að presturinn myndi valda neinum skaða heldur aðeins að til eru aðilar með sérhæfða fagmenntun sem frekar ætti að kalla til.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2146.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar