Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Hjalti Hugason

Hvað má og má ekki — í skólakerfinu?

Trúfrelsi er mikilvægur þáttur almennra mannréttinda. Til eru að minnsta kosti tvær leiðir til að útfæra það. Önnur er sú að líta á trúfrelsi sem skoðanafrelsi, tjáningarfrelsi og félagafrelsi á trúarlega sviðinu, þ.e. frelsi til að iðka trú sína í samræmi við eigin sannfæringu einn/ein eða með öðrum. Hið leiðin er að líta svo á að í trúfrelsi felist frelsi öllum til handa undan því að verða fyrir trúarlegu áreiti sem viðkomandi óskar ekki eftir sjálf/sjálfur.

Báðar þessar leiðir eru færar og farnar. Oftast ræðst það af sögulegum og samfélagslegum aðstæðum hvor er farin. Í Frakklandi var síðari leiðin valin af skiljanlegum ástæðum. Er skýringanna að leita allt aftur til byltingarinnar í lok 18. aldar. Þá reis þjóðin upp gegn ríki og kirkju sem voru tvær algjörlega óaðgreinanlegar stofanir sem lutu æðstu sjórn einvalds sem neitaði að láta af völdum. Í danska ríkinu voru aðstæður aðrar. Einvaldurinn afsalið sér því valdi og þjóðinni var sett stjórnarskrá sem m.a. fól í sér trúfrelsi og rétt til að standa utan allra trúfélaga. Því var eðlilegt að fyrrgreinda leiðin yrði farin í Danaveldi. Þar á meðal hér.

Trúarlegt athafnafrelsi í því sem kalla má opinbert rými ræðst af því hvor trúfrelsishefðin er við lýði. Þar sem trúarlegt tjáningarfrelsi ríkir fær trúarleg tjáning að taka á sig fjölskrúðugar myndir á markaðstorginu. Þar sem frelsi undan trúarlegum áreitum er í öndvegi er reynt að stemma stigu við öllu slíku. Þá er nauðsynlegt að setja boð og bönn. Í fjölhyggjusamfélagi er eðlilegt að val standi milli lítt hefts tjáningarfrelsis og boða og banna. Mörgum kann að virðast leið bannanna hreinleg og umfram allt skilvirk. Byggist fjölmenning hins vegar ekki á að 1000 mislit blóm fái að gróa hlið við hlið og vonandi auðga umhverfið?

Í hinu opinbera rými eru hins vegar staðir þar sem fara ber sérstaklega varlega. Það eru svæði þar sem einstaklingar dvelja skyldugir eða gegn vilja sínum: fangelsi, sjúkrahús og skyldunámsskólar. Innan veggja þeirra þarf sjálfræði og jafnræði einstaklinga af mismunandi trú að vera sem mest.

Nú eru trúarleg áreiti í leik- og grunnskólum Reykjavíkurborgar til sérstakrar umræðu. Tillögur mannréttindaráðs eru sýnilega byggðar á trúfelsisskilningi sem af sögulegum ástæðum hefur lítið sagt til sín hér á landi fram undir þetta. Hugmyndir að fram komnum reglum er augljóslega ætlað að skapa festu, einingu og öryggi á viðkvæmu sviði. En er lausnin endilega sú besta faglega séð?

Þegar um uppeldi, mótun og fræðslu barna er að ræða er aðeins til einn gefinn útgangspunktur. Það er barnið og velferð þess. Þeir sem bera sérstakar skyldur í því efni eru foreldrarnir og heimilið. Þar liggur líka hinn frumlægi uppeldisréttur sem ekki verður af hendi látinn. Í þeim rétti felst m.a. að ákveða á grundvelli hvaða lífsgilda barnið skuli alið upp þar til það öðlast þroska til að taka sjálfstæða ákvörðun. Foreldrarnir og heimilið framselja hluta af uppeldis- og fræðsluhlutverki sínu í annarra hendur. Vegna skólaskyldunnar verðum við foreldrar að framselja skólanum mikilvæg verkefni á þessu sviði. Þegar foreldrar ákveða af fúsum og frjálsum vilja að ber börn sín til skírnar í kristinni kirkju framselja þeir henni einnig ákveðið hlutverk og umboð. Barnsskírn án þess að uppfræðsla fylgi í kjölfarið lítur einkennilega út — líkist töfraformúlu.

Þegar skírt barn á skólaaldri á í hlut eru það sem sé a.m.k. þrjár stofnanir sem eiga eðlilega aðkomu að því að stuðla að jákvæðum þroska þess: heimilið, skólinn og kirkjan. Það er augljóst að hlutverk þeirra skarast og þau mega ekki reka sig hvert á annars horn. Þegar barn á skólaaldri sem ekki er skírt á í hlut eru stonanirnar að þessu leyti aðeins tvær: heimili og skóli. Það er hlutverk skólans að tryggja að þetta barn verði ekki „öðru vísi“ og hugsanlega skotspónn tortryggni eða eineltis ef eitthvað fer fram á skólatíma sem foreldrar þess samþykkja ekki. Þá ber skólanum að tryggja að það hljóti verðug verkefni meðan á slíkum atburðum stendur og að það hljóti sambærilega þjónustu og hin börnin á grundvelli eigin sannfæringar (lesist: sannfæringar foreldranna).

Heilt yfir má segja að leik- og grunnskólar sem ekki eru reknir á kirkjulegum grunni séu alls ekki eðlilegur vettvangur boðunar eða trúariðkunar. Þar með verður varla á það fallist að þar geti ekki farið fram trúarleg fræðsla og kynning á tómstundastarfi á trúarlegum grunni, a.m.k. ef slík kynning er yfir höfuð leyfði þegar t.d. íþróttafélög eiga í hlut. Þá virðist mega búa svo um hnúta að félagsstarf á trúarlegum grunni geti farið fram í húsnæði og í lausum tengslum við starf leik- og grunnskóla ef faglega er að verki staðið og hugað að mismunandi hlutverkum og skyldum kirkju og fræðslustofana.

Það er ljóst að ávallt koma upp fjöldi álitamála þegar a.m.k. þrjár stofnanir koma að mótun sömu barnanna. Hvernig verða þau best leyst þannig að barnið og velferð þess sé í forgrunni? Auðvitað eru bönnin skilvirkust. En hver á að banna og hvað á banna? Skilvirkast er að banna sem mest og að sá sem mest hefur valdið ákveði hvað ekki má. En er það faglegasta og farsælasta leiðin?

Sérhver leik- og grunnskóli er hluti af nærsamfélagi sem er breytilegt frá einu bæjarhverfi til annars. Í sérhverjum for- og grunnskóla starfar fagfólk með trausta uppeldismenntun. Sérhver góður leik- og grunnskóli starfar í náinni samvinnu við heimili og foreldra skólabarnanna. Er það ekki þarna, í grenndarumhverfinu, þar sem ákveða ber hvað má og hvað má ekki m.a. í trúarlegum efnum? Eru það ekki foreldrarnir og fagfólkið sem er hæfast til að leysa vandann? Er ljóst að pólitíkusar sem koma og fara og hafa misjafnar forsendur til að taka faglegar ákvarðanir komist að farsælastri lausn?

Eins og hér hefur verið margsagt er bannið skilvirkasta leiðin til að skera úr um vafaatriði. En bönn eru oftast geld og geldandi. Samræða foreldra og fagfólks — og kirkju þegar svo ber undir — kann að vera seinleg. En hún er hins vegar vænleg til að skapa traust, öryggi og brjóta niður múra. Það er einmitt það sem þarf í lýðræðislegu fjölmenningarsamfélagi.

Um höfundinn11 viðbrögð við “Hvað má og má ekki — í skólakerfinu?”

 1. Matti skrifar:

  Lítur greinarhöfundur svo á að allir foreldra sem bera barn sitt undir skírn séu þar með að samþykkja trúboð í leik- og grunnskólum?

  Æi ég veit, höfundur svarar ekki :-)

 2. Torfi Stefánsson skrifar:

  Það sem mér finnst merkilegt við þessa grein er það að svo virðist sem höfundur hennar taki sér það bessaleyfi að segja hverjar skyldur skólans eru.
  Virðist segi ég því þetta gerir hann án þess að nefna nokkrar heimildir fyrir þessum orðum sínum, vitnar ekki í skólanámskrá eða neitt því líkt.

  Þess vegna verður að líta svo á að hann telji sig umkominn þess að segja skólanum fyrir verkum hvernig hann skuli haga sér í samskiptum við kirkjuna. Hvernig stendur á því að hann telur sig hafa rétt til þess?

  Stefnumótun þjóðkirkjunnar sjálfrar í þessum málum byggir nefnilega á allt öðrum forsendum. Þar er tekið skýrt fram að allt samstarf kirkjunnar við skólann skal fara fram á forsendum skólans (en ekki kirkjunnar).

  Ég vil nefna eitt dæmi um þetta í þessari grein, sem er einmitt mjög mikið álitamál en greinarhöfundur lætur eins og svo sé ekki:

  “Það er hlutverk skólans að tryggja að þetta barn [barn sem ekki tilheyrir þjóðkirkjunni] verði ekki „öðru vísi“ og hugsanlega skotspónn tortryggni eða eineltis ef eitthvað fer fram á skólatíma sem foreldrar þess samþykkja ekki.
  Þá ber skólanum að tryggja að það hljóti verðug verkefni meðan á slíkum atburðum stendur og að það hljóti sambærilega þjónustu og hin börnin á grundvelli eigin sannfæringar (lesist: sannfæringar foreldranna).”

  Málið er einfaldlega það að samkvæmt Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar þá gengur þetta einfaldlega ekki. Þessi aðgreining í skólanum gangi á mannréttindi minnihlutans sem sitja verður eftir á meðan bekkjarsystkinin fara í heimsóknir í kirkju eða séu í fríi frá skólanum þegar bekkjarfélagarnir fara í fermingarbúðir, svo dæmi séu tekin.

  Það er eins og höfundur yppi öxlum og segir:
  Það er á ábyrgð skólans að sjá til þess að þessi hjáseta minnihlutans leiði ekki til eineltis.

  Kirkjan, en við verður að gera ráð fyrir því að höfundur telji sig skrifa hér fyrir hönd hennar, fríir sig þar með frá allri ábyrgð á því að hugsanlega stuðla að einelti innan skólans með þessum tilboðum til skólanna.

  Ég held að það sé kominn tími til, og það fyrir löngu, að kirkjan sýni ábyrgð og taki til í eigin ranni í stað þess að leika alltaf saklausa aðilann í samskiptum sínum við aðra lífsskoðunarhópa.
  Það er auðvelt. Fermingarmót fari fram um helgar eða í vetrarfríum (jafnvel á sumarnámskeiðum) í stað þess að vera á skólatíma eins og nú er yfirleitt raunin.
  Einnig verði hætt að bjóða til kirkju á skólatíma en hafa aðventu- og jólasamverur fyrir þennan aldurshóp utan þess tíma.
  Samverur verði þannig úr garði gerðar að ungmennin komi af eigin sjálfsdáðum (og fyrir tilstilli foreldra) en þurfi ekki á því að halda að skólarnir skipuleggi ferðirnar fyrir þau (eins og nú er gert).

 3. Halla Sverrisdóttir skrifar:

  Ágæti Hjalti, þetta er að sumu leyti prýðileg grein, einkum þar sem þú undirstrikar muninn á því opinbera rými þar sem börn og aðrir dvelja “skyldugir”, þ.e. rými sem er ekki valkvætt. Ég hegg þó eftir því að þú leggur sérstaka áherslu á að börn sem ekki eru skírð séu óskírð vegna sannfæringar foreldranna (setur það sérstaklega í gæsalappir). Get ekki skilið þá undirstrikun öðruvísi en svo að það sé skilningur þinn að “skírt barn” láti stjórnast af eigin sannfæringu, ekki foreldranna. Mér er mjög til efs að ómálga ungabarn, eða barn á grunnskólaaldri, þrói með sér djúpstæða trú eða trúleysi óháð sannfæringu foreldra þess og mæti það ef þú sem aðrir kirkjunnar menn gætir látið af þeim ósið að tala beint eða óbeint um börn sem ekki alast upp við trúariðkun sem fórnarlömb foreldraofstækis en “skírð börn”, eins og þú talar ítrekað um í greininni, sem sjálfstæðar skoðanaverur. Raunar finnst mér þetta tal um “skírð” eða “ekki skírð” börn stappa nærri því að vera ósmekklegt. Íslensk börn eru flest skírð án þess að á bak við það sé mikið annað en hefðarvenja sem í flestra huga er mun nátengdari nafngift en kristnitöku og sú athöfn skilgreinir þau ekki á neinn hátt sem vitsmunaverur eða trúariðkendur. Í sumum tilfellum gefur það að barn er skírt til kynna að foreldrar þess hyggist ala það upp í kristinni trú en það er engan veginn einhlítt.

  Ég er innilega sammála því að virkari samræða milli kirkju, skóla og foreldra hefði verið æskileg, en köllum ýmissa foreldra eftir þeirri samræðu hefur því miður ekki verið sinnt, eða þá að hún hefur farið þannig fram að foreldrar hafa kvartað og ýmist fengið engin svör, “föðurlegar” umvandanir um að það skaði nú ekki börnin þeirra (að mati umvandarans) að fá í æð lífsskoðanir sem foreldrum þeirra hugnast ekki, eða þá misdónalega fyrirlestra um andlega örbirgð og öfgakennt hatur á kirkjunni. Skólastjórnendur hafa svo getað hagað afskiptum kirkjunnar að geðþótta, þar sem engar reglur hafa verið í gildi sem hægt er að vísa í og þeirra svör hafa oftast verið á þann veg að “svona hafi þetta alltaf verið” og foreldrar séu “almennt sáttir”. Það er svo kannski til að æra óstöðugan að benda á að foreldrum “skírðu barnanna” hefur staðið og stendur enn til boða margs konar sýnilegir og ríkisstyrktir möguleikar á stuðningi við trúarlegt uppeldi barna sinna og ættu ekki að þurfa að reiða sig á skólann til þess arna.

 4. Hjalti Hugason skrifar:

  Ég þakka viðbrögðin.

  Vegna ummæla Höllu vil ég taka fram að ég tel ekkert í grein minni renna stoðum undir þá túlkun að ég tali „beint eða óbeint um börn sem ekki alast upp við trúariðkun sem fórnarlömb foreldraofstækis en “skírð börn” … sem sjálfstæðar skoðanaverur“. Óska að mér sé bent á með beinum tilvitnunum í greinina.

  M.g.kv. Hjalti H

 5. Halla Sverrisdóttir skrifar:

  Þú segir í greininni:

  Þá ber skólanum að tryggja að það hljóti verðug verkefni meðan á slíkum atburðum stendur og að það hljóti sambærilega þjónustu og hin börnin á grundvelli eigin sannfæringar (lesist: sannfæringar foreldranna).

  Með því að setja í sviga orðin: (lesist: sannfæringar foreldranna) þegar þú talar um börn sem ekki eru skírð kemst ég ekki hjá því að finnast þú líta svo á að eitthvað annað en sannfæring foreldranna sé uppi á teningunum þegar “skírðu börnin” eiga í hlut. Þ.e. að þar sé það ekki “sannfæring foreldranna” sem ráði för heldur eitthvað annað, sem ég kann reyndar ekki skil á. Ég vil ekki gera þér upp þá skoðun - og játa það á mig að vera hugsanlega dálítið brennd af leiðigjarnri klifun ýmissa kirkjunnar manna á því hvað við sem kjósum að ala börnin okkar upp án trúarlegrar afstöðu erum ofstækisfull, jafnvel afvegaleidd í uppeldisaðferðum okkar - en þar sem þú sást ekki ástæðu til að taka það fram að börn sem væru alin upp við að iðka trú væru undir “sannfæringu foreldra” lagðist þetta illa í mig. Ég sé einfaldlega ekki neina ástæðu til þess að “óskírða” barnið mitt eigi að kalla á sérstakar ráðstafanir í skólakerfinu eða að einhver eigi að þurfa að finna því verkefni við hæfi á meðan önnur börn taka þátt í starfi sem er fyrirfram skilgreint við allra hæfi; það er óæskileg jaðarsetning.

  Ég er hins vegar sammála þér um það að barnaskírn án ásetnings um trúaruppeldi er býsna innihaldslaus gjörningur og finnst reyndar oft að prestar þjóðkirkjunnar mættu gera meiri kröfur til þeirra foreldra sem bera börn sín til skírnar til þess söfnuðar. Ég þekki þónokkra foreldra sem hafa látið skíra börn sín hefðarinnar vegna og án nokkurs ásetnings um að ala börn sín upp í virkri trúariðkun og hef rætt þetta við marga þeirra, engum þessara foreldra fannst sem sá prestur sem skírði barnið hefði verið sérlega áhugasamur um fyrirætlanir þeirra eða eftirfylgni skírnarheitsins sem þau unnu fyrir hönd hvítvoðungsins síns. En það er eiginlega önnur umræða.

 6. Matti skrifar:

  > Ég þekki þónokkra foreldra sem hafa látið skíra börn sín hefðarinnar vegna

  Ég þekki einnig þónokkra foreldra í sömu stöðu.

  Barnaskírn er ekki samþykki foreldra fyrir leik- og grunnskólatrúboði. A.m.k. ekki í öllum tilvikum.

 7. Halla Sverrisdóttir skrifar:

  Nei, það er hárrétt, Matti. Trúboð eða ekki trúboð í skólum er ekki einu sinni sérstaklega tengt umræðunni um aðskilnað ríkis og kirkju. Reyndar hefði ég sennilega ekkert farið að tala um þetta, nema fyrir það að Hjalta er það eitthvað hugleikið hvort barn er skírt eða ekki. Að mínu viti eiga öll börn að njóta trúarlegs hlutleysis í skólarýminu - hvort sem þau eru skírð eða óskírð.

 8. Rannveig skrifar:

  Það að það megi ekki fara í ferð á vegum kirkjunnar á skólatíma finnst mér undarlegt og mikil ábyrgð lögð á krakkana í þeim skilningi að þau verði auðveldlega fyrir aðkasti …

  ég hef 2 drengi á skólaaldri - annar er trúaður og æfir íþróttir, fyrir hann þarf ég að fá frí frá skóla til að fara í keppnisferðir 2-3 sinnum á ári
  hinn er trúlaus og lét ekki ferma sig (er núna í 9. bekk) - hann upplifði ekki neitt neikvætt við það að bekkjarfélagar hans færu í ferð með kirkjunni þegar hún stóð yfir - hans upplifun - þetta er þeirra val á grundvelli trúarbragðs

  ég hef líka fengið leyfi frá skóla til að fara í ferðalög

  skólinn má ekki neita foreldrum um frí handa börnum sínum til að iðka trú, íþróttir eða samvistum með foreldrum sínum …

  ég hef ýmsar skoðanir hvað varðar trú og skólana
  en þetta með ferðalögin get ég alls ekki samþykkt sem vandamál

  mér finnst líka merkilegt í allri þessari umræðu hvað helstu áhrifavöldum í lífi barna er gert lítið undir höfði - foreldum og nánustu fjölskyldu!

 9. Matti skrifar:

  Ég kannast ekki við neitt dæmi um að 90% nemenda í skólaárgangi taki sér frí í tvo daga til að fara í íþróttaferð.

  Auk þess þurfa nemendur sem fara í íþróttaferðir sjálfir að vinna upp það námstap sem þeir verða fyrir, skólastarf leggst ekki niður.

  Á þess er því eðlismunur.

 10. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Frí vegna fermingarferðalaga er mál foreldra og skóla. Það eru foreldrarnir sem biðja um frí fyrir börnin sín.

  Það er ekki hægt að nefna það sem rök gegn þess að svo margir taki þátt, ekki frekar en við myndum nefna það sem rök gegn íþróttaferðum að stór hluti árgangsins tæki þátt í slíku starfi.

  Þvert á móti er það æskilegt að sem flestir taki þátt í jákvæðu, góðu og uppbyggilegu starfi, hvort sem það er á vegum íþróttafélaga, kirkju eða annarra.

 11. Matti skrifar:

  Frí vegna fermingarferðalaga er mál foreldra og skóla. Það eru foreldrarnir sem biðja um frí fyrir börnin sín.

  Þetta heitir að firra sig ábyrgð (fer að verða ákveðið þema). Kirkjan skipuleggur þessar ferðir á skólatíma. Þú getur ekki látið eins og þetta komi kirkjunni ekkert við.

  Það er ekki hægt að nefna það sem rök gegn þess að svo margir taki þáttJú svo sannarlega þegar þetta veldur því að almennt skólastarf leggst niður.

  Árni Svanur, þetta eru útúrsnúningar. Ég var að benda á að það er eðlismunur á því að fimm krakkar í árgangi fái frí einn föstudag til að fara í ferðalag eða hvort allir nema fimm. Í síðara tilvikinu er hætt við því að hefðbundið skólastarf þurfi að víkja. Því er eðlilegt að utanaðkomandi aðilar, eins og kirkjan, skipuleggi ekki ferðir sem þessar á skólatíma.

  Það er allt annað þegar fáeinir krakkar fá frí og þurfa sjálf að vinna upp það sem þau missa úr skóla.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3356.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar