Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Guðrún Karls Helgudóttir

Fyrirgefðu

Ég hef alltaf trúað á mátt fyrirgefningarinnar.
Ég held að hægt sé að fyrirgefa nánast hvað sem er ef fólk sýnir sannarlega iðrun og biðst fyrirgefningar.
 
Engir þeirra ráðherra, sem Alþingisfólk kaus um hvort dregnir yrðu fyrir landsdóm, hafa beðist fyrirgefningar. Það hafa ekki nokkrir aðrir fyrrverandi eða núverandi alþingismenn, ráðherrar, bankastjórnendur eða aðrir höfundar hrunsins heldur gert.
 
Enda sáum við þegar Alþingi var sett í gær að fólk er brjálað!
 
Fátækt eykst. Bilið á milli ríkra og fátækra breikkar dag hvern í tíð vinstri stjórnar. Ráðherrar og alþingisfólk bendir á hvert annað og tekst á um sekt eða sakleysi samflokksfólks síns.
 
Ég hafði trú á þessari stjórn. Hún fer þverrandi.
 
Ekki að furða þó fólk sé brjálað, kasti eggjum og lyklum.
 
Í gær kom hugrakkur maður fram í fréttatíma Stöðvar 2 og baðst afsökunar. Hann hafði gengið berserksgang hjá félagsmálastofnun í Reykjavík vegna þess að hann átti ekki að fá greiddan húsaleigustyrk fyrr en eftir helgi.
 
Hann var við það að missa herbergið sitt og örvæntingin náði tökum á honum.
 
Það sem þessi maður gerði, og er framandi fyrir alþingisfólk á Íslandi, er að hann baðst fyrirgefningar. Hann kom fram í fréttatíma, lagði sig fram fyrir alþjóð með kostum sínum og göllum, grét og sagði fyrirgefið mér.
 
Viðbrögðin létu ekki á sér standa því símalínur á fréttastofu Stöðvar 2 voru rauðglóandi eftir vitalið. Fólk vildi rétta hjálparhönd.
 
Honum var fyrirgefið.
 
Hugsum okkur að ráðherrar í fyrrum ríkisstjórn hefðu gert slíkt hið sama, hefðu komið fram og beðist fyrirgefningar á meðvituðu eða ómeðvituðu aðgerðarleysi. Á því að hafa sett eigin hagsmuni og heiður ofar hagsmunum heillar þjóðar eða hvað það nú er sem þau mögulega geta verið sek um.  En þetta hefði krafist viðurkenningar á sekt og kjarki til þess að líta í eigin barm. Ég er nokkuð sannfærð um að ef þau hefðu gert það hefði verið auðveldara að ná sáttum.
 
Þjóðin hefði fyrirgefið.
 
Og þetta á ekki aðeins um þessa fjóra ráðherra. Þetta á um öll þau eru voru í síðustu ríkisstjórn. Um ráðherra og alþingisfólk í ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar og Davíðs Oddsonar. Já og um öll þau er mögulega hafa á einhvern hátt tekið þátt í því að stefna fjármálakerfi og siðferði Íslendinga í voða.
 
Ég hef enn fulla trú á fyrirgefningunni. Ef fólk kemur fram sem manneskjur og biðst fyrirgefningar trúi ég að hægt sé að fyrirgefa næstum hvað sem er.
 
Burt með hroka og inn með iðrun og fyrirgefningarbeiðni. Fyrr verður ekki hægt að ná sáttum.

Um höfundinn6 viðbrögð við “Fyrirgefðu”

 1. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Er þetta ekki það versta við kristilegt siðferði? Maður fremur ofbeldi en er ekki bara fyrirgefið, heldur er hann verðlaunaður, vegna þess að hann sýnir iðrun.

  Á sama tíma eru fjölmargir sem ekki beita ofbeldi - en fá engin “verðlaun”.

  Þetta þykir mér ákaflega vont fordæmi og skelfilega vont siðferði.

 2. Adda Steina skrifar:

  Það vakna hjá mér tvær spurningar. Sú fyrsta er hvort mér beri að fyrirgefa manni sem gekk berserksgang á Féló. Er það ekki fólkið sem varð fyrir ofsanum, ef einhverjir voru, sem geta fyrirgefið það. Ég get skilið hvað gerðist en þarna var ekki brotið á mér.
  Dæmið vegna ráðherranna er áhugavert. Það hefur afleiðingar að viðurkenna brot í opinberu starfi. Það getur verið að einhverjir hefðu fyrirgefið (og aðrir ekki) en ráðherrarnir gætu hafa bakað sér skaðabótaskyldu - er það ekki?
  Maður fann hins vegar mjög sterkt eftir hrun að fólk krafðist iðrunar af fólki sem verið hafði í leiðandi stöðum. Sú krafa er hluti af því að finna sökudólginn, ekki bara til að hengja einhvern heldur líka, og etv frekar til að skilja hvað gerðist sem er skref í sáttinni.
  Fyrirgefning er ekki auðvelt mál. Ekki þegar virkilega er gert á hlut einhvers. Og hún á að haldast í hendur við iðrun og yfirbót. En hún er ekki sjálfgefin.

 3. Guðrún Karlsdóttir skrifar:

  Takk fyrir þessar hugleiðingar Adda Steina.

  Fyrirgefning er sannarlega flókið mál og margar hliðar á henni. Hér birtist ein hlið.

  Ég upplifði að maðurinn sem missti stjórn á sér á Félagsmálastofnun hafi verið að biðja þau sem hann braut á afsökunar. Ég fékk að verða vitni af því þó hann hefði ekki brotið á mér persónulega.

  Mér finnst alltaf svolítið skrýtið að fólk geti ekki komið einlæglega fram af ótta við skaðabótaskyldu. Skaðabótaskylda hlýtur að hanga saman við skaða eða brot sem framið er. Ef það að viðurkenna vanrækslu, eða hvað það nú er sem ráðherra (eða hver sem er) telur sig hafa gerst sekan um, opinberlega hefur þær afleiðingar að hann sé skaðabókaskyldur þá er það bara þannig.
  Mér finnst erfitt að hugsa til þess að fólk geti ekki talað frá hjartanu af lögfræðilegum ástæðum þó oft sé það raunveruleikinn.
  Kveðja, Guðrún

 4. Matti skrifar:

  Það mætti halda að ég væri skítugur! :-)

 5. Guðrún Karlsdóttir skrifar:

  Þú ert ekki skítugur í mínum huga Matti ;)!
  Aftur á móti get ég bara ekki svarað þér. Ég hef ekkert að segja við þessu þar sem ég upplifi ekki að við séum að tala um sama hlutinn.

  Kveðja,
  Guðrún.

 6. Matti skrifar:

  Merkilegt, því Adda Steina sagði nokkurn vegin það sama og ég.

  Getur verið að það hafi stuðað þig að ég a) er sá sem ég er og b) talaði um kristilegt siðferði með neikvæðum formerkjum?

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4629.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar