Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Halldór Gunnarsson

Fjárframlög til þjóðkirkjunnar

Í frétt ríkisútvarpsins 3. október s.l. var sagt að þjóðkirkjan og ýmsar stofnanir og sjóðir kirkjunnar fengju 4,4 milljarða frá ríkinu í næsta fjárlagafrumvarpi og sagt í skýringu að þetta væri nærri tvöfalt meira fé en veita ætti til sendiráða og að helmingi minna ætti að veita til þróunar- og hjálparstarfs.

Úr því fréttamaður ríkisútvarpsins greindi þannig frá væntanlegri fjárveitingu til Þjóðkirkjunnar er rétt að útskýra áætlaða fjárveitingu og á hvaða grunni hún hvílir:

 1. Fjárframlag til Biskupsstofu, kirkjumálasjóðs og kristnisjóðs eru um 1,6 milljarður og greitt samkvæmt samkomulagi um eignaafhendingu á móti fjárhagsskuldbindingu, sem var lögfest með lögum nr. 78/1997 og aftur með viðbótarsamkomulagi 2006, ásamt öðrum sérsamningum. Þetta framlag er áætlað að skerða annað árið í röð, sem þó verður ekki gert einhliða af ríkisstjórn nema með samkomulagi við þjóðkirkjuna, sem Kirkjuþing þarf að staðfesta. Þetta fjárframlag er ekki styrkur frá ríkinu heldur að stærstum hluta arðgreiðsla af afhentri eign, sem nemur vægt reiknað um 0,01% af verðmæti eignarinnar.
 2. Sóknargjald, sem er félagsgjald, er áætlað um 1,6 milljarður ásamt með greiðslu til Jöfnunarsjóðs, sem tengist sóknargjaldi til þjóðkirkjunnar vegna þessa félagsgjalds sem nemur um 0,3 milljarði. Þetta félagsgjald hefur verið skert ár eftir ár, án samráðs við þjóðkirkjuna og önnur sjálfstæð trúfélög. Þessa greiðslu er engan veginn hægt að skilgreina sem greiðslu frá ríkinu til þjóðkirkjunnar, því þetta er félagsgjald, sem var innheimt af sóknarnefnd hverrar sóknar allt frá 1911 til 1988 þegar ríkið ákvað innheimtuna fyrir trúfélögin með lögum nr. 91/ 1987, sem hlutdeild af tekjustofni einstaklinga.
 3. Fjárframlag til kirkjugarða um 850 milljónir er alls ekki greiðsla frá ríkinu til þjóðkirkjunnar og á ekki heima undir fjárlagalið til þjóðkirkjunnar í fjárlögum.

Að þessu sögðu spyr ég fréttamenn ríkisútvarpsins hvar þessir 4,4 milljarðir í fjárlagafrumvarpinu séu og úr því þeir komu með skýringu á fyrirhugaðri fjárveitingu til þjóðkirkjunnar vil ég spyrja þá um framlag hvers Íslendings á skattaframtali til ríkisútvarpsins og biðja þá um samanburð við félagsgjald kirkjunnar eða aðrar útvarpsstöðvar án raunverulegs ríkisframlags tengt einstaklingum. Er það ef til vill félagsgjald ríkisútvarpsins, sem ekki er hægt að segja sig frá?

Um höfundinn22 viðbrögð við “Fjárframlög til þjóðkirkjunnar”

 1. Kristín Þórunn skrifar:

  Góður pistill Halldór.

  Það virðist vera brýnt mál að fá staðfestingu á því af hálfu ríkisvaldsins að þar á bæ deili menn þessum skilningi.

  Gæti hæstvirt kirkjuráð gengið eftir að fá það svart á hvítu?

  Bestu kveðjur.

 2. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Það getur vel verið að sóknargjaldið hafi verið félagsgjald áður fyrr, en núna er þetta klárlega ekki félagsgjald. Að minnsta kosti ef við notum þá skilgreiningu að þetta séu peningar sem séu teknir af fólki fyrir að vera meðlimir í einhverju félagi.

 3. Matti skrifar:

  Getur verið að þú sért að ýkja verðmæti jarðanna oggulítið?

 4. Jakob Hjálmarsson skrifar:

  Það er illt undir því að sitja að málum sé stillt upp á þennan hátt sem fjölmiðlar gera og ekkert annað en áróðurskennd skrumskæling. Á henni græðir enginn neitt. Við höfum valið réttlátt og gæfulegt fyrirkomulag sem við megum vera stolt af. Enginn græddi á því að taka samkomulagið um fjárhagsmálefnin upp. Hins vegar þyrfti að taka á því að prestar skuli teljast ríkisstarfsmenn og fleiru sem varðar tengsl ríkis og kirkju en ekki þessu.
  Verðmæti jarðeignanna er breytilegt eftir markaðinum auðvitað, en þær eru feikiverðmætar og aukast í verðmæti til legnri tima.

 5. Guðrún Karlsdóttir skrifar:

  Takk fyrir þessar þörfu útskýringar Halldór.

  Ég tek undir með Kristínu Þórunni um að hvetja ríkisvaldið til þess að staðfesta þennan skilning á samningnum. Eins og hlutirnir eru settir fram í fjölmiðlum er auðvelt að fá það á tilfinninguna að Þjóðkirkjan og ríkið deili ekki sama skilningi á þessum samningi eða samningum.

  Kveðja,
  Guðrún

 6. Árni Páll Jónsson skrifar:

  Voru þetta ekki jarðirnar ekki eign kaþólsku krikjunnar sem konungar hrifsaði að sér við siðaskipti, gæti kaþólska krikjan ekki farið fram á að hún eigi jarðirnar, kannski bara fáfræði en breytir ekki kjarna málsins sem er:

  Þetta er bara hræsni, hættið að væla yfir peningum, þarf ekki stofnun fjármagnaða af ríkinu til að yðka trú. Notum þessa peninga í eitthvað skynsamlegt eins og t.d að reka sjúkrahús á mannsæmandi hátt.

  Sem dæmi kostar var kostnaður við
  * Heilbrigðisstofnunin Sauðárkróki 822 milljónir á síðasta ári skorið niður í 577, 29% niðurskurður

  *Heilbrigðisstofnunin Vestmannaeyjum 672 milljónir síðasta ári, skorið niður í 512 milljónir, 24%

  *Heilbrigðisstofnun Þingeyinga 925 milljónr á síðasta ári skorið niður í 557 milljónir, 40%

  Sýnist ykkur vera grundvöllur til að væla yfir peningum til TRÚMÁLA í þessu ástandi. Þeir trúmenn og þjóðkirkjumenn ættu að skammast sín. Eintómt kjaftæði, lokum á fjárveitingar og látum þá sem vilja borga sitt félagsgjald af sínum launum, Þetta á við öll trúfélög.

 7. Óli Jón skrifar:

  Af hverju þurfti Ríkiskirkjan að leita á náðir ríkisvaldsins hér í denn fyrst hún átti eignir upp á 16.000.000.000.000 íslenskra króna? M.v. fjárþörf upp á 4,2 milljarða árlega hefði hún getað fjármagnað hana með 0,03% árs ávöxtun umfram verðbólgu. Hver maður með lágmarks vit sér að það hefði ekki átt að vefjast yfir neinum að fá 0,03% ávöxtun í gegnum tíðina.

  Af hverju gaf Ríkiskirkjan frá sér þessa gullgæs?

 8. Matti skrifar:

  Er ekki eðlilegt að miða við verðmæti eignanna árið 1907?

  Er ekki einnig eðlilegt að horfa til þess hvað varð um kirkjujarðasjóð og prestlaunasjóð?

  Er hægt að selja sömu jörðina oft?

 9. Halldór Logi Sigurðarson skrifar:

  Hefurðu þá pælt hversu mikill hluti af þessu sé laun presta?
  Ég taldi gróflega 300 sóknir, samkvæmt vefnum kirkjan.is
  Segjum einn prest í hverja sókn. Hálf milljón á prest, eru það ekki grunnlaunin án talsverðra bónusa?
  =
  1,5 MILLJARÐUR í laun presta (sem auðvitað eiga að vera með há laun enda einhver mikilvægasta stétt samfélagsins)
  1,6 milljarður í kristnisjóð, Biskupsstofu, kirkjumálasjóðs (skvmt þér)
  1,6 milljarður sem sóknargjald
  = 4,7 milljarðar
  og afhverju eru fjárveitingar til kirkjugarða ekki fjárveitingar frá ríkinu, jafnvel þótt þær komi þaðan?

  Og ég er viss um það myndu fleiri vilja halda í ríkisútvarpið heldur en ríkiskirkjuna, enda nýta án efa fleiri sér þá starfsemi

 10. Matti skrifar:

  Kirkjugarðar heyra ekki undir þjóðkirkjuna heldur sér stofnun og eiga því ekki heima þarna. Það er rétt hjá greinarhöfundi.

  Það vill þó svo merkilega til að þegar ríkiskirkjan telur þetta með í Fjármálum Þjóðkirkjunnar (sjá excel skjal neðst á síðu).

  Þannig að nei, ég hef skipt um skoðun. Greinarhöfundur hefur rangt fyrir sér ef eitthvað er að marka kirkjuna.

 11. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Ég vil þakka fyrir þennan pistil.

  Um það er ekki deilt að fjárframlög til þjóðkirkjunnar eru ekki 4.4 milljarðar eins og kemur fram í frétt ríkisútvarpsins heldur 3.6 milljarðar. Þetta þurfti að koma fram og þú orðar það vel Halldór.

  @Halldór Logi: Nafni þinn Gunnarsson skrifar:

  Fjárframlag til Biskupsstofu, kirkjumálasjóðs og kristnisjóðs eru um 1,6 milljarður og greitt samkvæmt samkomulagi um eignaafhendingu á móti fjárhagsskuldbindingu, sem var lögfest með lögum nr. 78/1997 og aftur með viðbótarsamkomulagi 2006, ásamt öðrum sérsamningum.

  Inni í þessari upphæð eru laun 160 starfsmanna kirkjunnar (127 prestar, 12 prófastar, 18 starfsmenn á Biskupsstofu, 3 biskupar). Heildarupphæðin sem kirkjan fær á fjárlögum er það sem kemur fram í lið 1 og 2 hjá Halldóri.

  @Matti: Ég skil Halldór ekki sem svo að hann haldi því fram að kirkjugarðarnir tengist ekki þjóðkirkjunni, en fjárhagur þeirra er ekki hluti af fjárhag hennar. Þeir eru sjálfstæðir og það ber ekki að líta á fjárveitingu til þeirra sem hluta af því fé sem þjóðkirkjan fær á ári hverju.

 12. Matti skrifar:

  Af hverju eru kirkjugarðarnir þá í þessu skjali um Fjármál Þjóðkirkjunnar sem ég vísaði á?

  Af hverju hefur kirkjan haft kirkjugarðana með þegar hún talar um niðurskurð á útgjöldum til kirkjunnar?

  Ég veit það ekki :-)

 13. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Matti, ef þú horfir til umfjöllunarinnar á aukakirkjuþinginu í ágúst, sem var einmitt kallað saman til að fjalla um fjármál og niðurskurð þá sérðu að þar eru kirkjugarðarnir ekki með.

  Svo vil ég vitna í orð Péturs Kr. Hafstein sem sagði á þessu sama kirkjuþingi:

  Óhætt er að segja að með nýlegum samningum þjóðkirkjunnar og ríkisins hafi þessi deilumál verið leidd til bærilegra lykta og þeir hafi markað eignarréttarstöðu kirkjunnar og tilkall hennar til launagreiðslna úr ríkissjóði í framtíðinni. Fyrst var kirkjujarðasamkomulagið gert 10. janúar 1997 og laut það að afhendingu kirkjujarða og meðfylgjandi kirkjueigna til ríkisins, að frátöldum prestssetrum og því sem þeim fylgir. Á móti þessum gífurlegu verðmætum frá þjóðkirkjunni skuldbatt ríkið sig til að greiða tilteknum fjölda starfsmanna kirkjunnar laun um ókomna tíð, prestum, próföstum, biskupum og starfsmönnum biskupsstofu. Skýrlega var tekið fram að þetta samkomulag fæli í sér fullnaðaruppgjör vegna þeirra verðmæta, sem ríkissjóður tók við 90 árum áður eða árið 1907.

  Þetta er fyrsti samningurinn.

  Í kjölfar þessa samkomulags var svo gerður samningur 1998 um rekstrarkostnað vegna prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnað biskupsstofu, framlag til kristnisjóðs og sérframlög til þjóðkirkjunnar.

  Þetta er annar samningurinn.

  Lokahnykkurinn náðist svo 20. október 2006 í samningi um fjárhagsuppgjör milli þjóðkirkjunnar og íslenska ríkisins. Með honum voru prestssetur, þ.e.a.s. prestsetursjarðir og prestsbústaðir, lýst eign þjóðkirkjunnar auk þess sem ríkissjóður hækkaði árlegt framlag sitt til kirkjumálasjóðs. Þessir samningar hafa verið staðfestir af Alþingi með sérstökum ákvæðum í núgildandi þjóðkirkjulögum.

  Og þetta er þriðji samningurinn.

  Allir eru þeir staðfestir af kirkju og Alþingi. Allir miðla þeir samskonar sýn á fjármál kirkjunnar: Þau hvíla á þeim grundvelli að kirkjan afhenti eignir, ríkið greiðir afgjald fyrir þessar eignir. Um þetta þarf ekki að deila, þótt einhverjir vilji karpa um það.

 14. Matti skrifar:

  Pétur Kr. Hafstein er ekki beinlínis hlutlaus í þessari umræðu :-)

  Hvað fólst eiginlega í þessum samningi árið 1907, fékk ríkið ekki jarðir þá og borgaði ríkið kirkjunni ekki fyrir þessar jarðir næstu 90 árin, þar til næst var samið?

  Auðvitað er samt lykilspurningin þessi: Er einhver sanngirni í þessu? Hvað segir G8 hópurinn um það?

 15. Adda Steina skrifar:

  Matti er ekki beinlínis hlutlaus í þessari umræðu heldur.

 16. Matti skrifar:

  Alls ekki, enda hef ég ekkert vitnað í sjálfan mig í þessari umræðu! Hér var vitnað í Pétur Kr. sem kennivald, ég lít einungis á hann sem æðsta mann kirkjunnar.

 17. Einar Þór skrifar:

  Þessi tala, að 1.6 milljarðar séu 0,01% arður (vægt reiknað) af eignunum stenst engan veginn. Hún er svo fjarri öllum raunveruleika að það er algerlega fáránlegt. Sjáið nú sóma ykkar í því að laga þessa vitleysu áður en fólk fer að vitna í þessa grein.

  Þetta samsvarar 16.000.000.000.000 kr, 16.000 milljarðar; 16 milljón milljónir.

 18. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Matti vitnaði hér að ofan til umræðu innan kirkjunnar. Ég benti á umræðu innan kirkjunnar sem styður ekki það sem hann heldur fram (um kirkjugarðana).

  Það skiptir ekki höfuðmáli hver staða Péturs Kr. Hafstein innan kirkjunnar er í þessu sambandi. Til hans var vitnað af því að hann setur þetta fram með skýrum hætti.

  Málið sem er til umræðu varðar fjárhagsleg tengsl ríkis og kirkju.

  Um ákveðinn hluta þeirra tengsla hafa ríki og kirkja gert með sér samninga. Þeir staðfesta sameiginlegan skilning. Þessir samningur hefur verið gerðir oftar en einu sinni.

  Framhjá því verður ekki horft þegar fjallað er um þetta mál.

 19. Matti skrifar:

  Verður horft framhjá því að á heimasíðu kirkjunnar eru kirkjugarðar taldir upp með Fjármálum kirkjunnar (sjá vísun í athugasemd 10).

  Verður horft framhjá því að kirkjan hefur vísað til niðurskurðar á útgjöldum til kirkjugarða þegar fjármál hennar eru til umræðu?

  Þetta er það sem ég benti á Árni Svanur.

 20. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Ég sagði ekki að kirkjan hefði ekki látið sig fjárhag kirkjugarðanna varða, né heldur að hún hefði ekki fjallað um niðurskurð framlaga til þeirra. Enda er það svo að kirkjugarðar og kirkja tengjast. Í lögum um kirkjugarða segir:

  8. gr. Hver kirkjugarður þjóðkirkjunnar er sjálfseignarstofnun með sérstöku fjárhaldi, í umsjón og ábyrgð safnaðar undir yfirstjórn prófasts (í Reykjavík prófasta) og biskups.

  Sóknarnefnd eða sérnefnd kjörin af safnaðarfundi, sbr. 9. gr., hefur á hendi umsjón og fjárhald kirkjugarðs samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum þessum. Er hún hér eftir nefnd kirkjugarðsstjórn.

  Hver kirkjugarður eru sjálfeignarstofnun með skýrt afmarkað starfssvið. Ég geri mér vel grein fyrir því að kirkjugarðarnir eru nátengdir kirkjunni, en ekki er þar með sagt að blanda eigi saman fjárhag kirkju og kirkjugarða. Fé sem er greitt til kirkjugarða á fjárlögum rennur ekki til þjóðkirkjunnar. Það rennur til kirkjugarðanna sjálfra og er notað til að standa straum af verkefnum þeirra.

 21. Halldór Logi Sigurðarson skrifar:

  Adda Steina skrifaði:
  >Matti er ekki beinlínis hlutlaus í þessari umræðu heldur.

  Afhverju ekki? Samkvæmt vefsíðunni hans er hann hugbúnaðartæknir eða svoleiðis, hvorki ríkisprestur né þingmaður, heldur almennur borgari sem óttast um skattpeningana sína. Hann hefur engra hagsmuna að gæta frekar en nokkur annar borgari.

  Í rauninni, þá er enginn hlutlaus hérna. Vegna þess að borgarar borga í ríkissjóð sem borgar kirkjunni, ríkisprestar fá þessa peninga og þingmenn geta ráðstafað þeim. Enginn er hlutalaus. Matti er ekkert minna eða meira ekki hlutlaus en aðrir.

 22. Matti skrifar:

  en ekki er þar með sagt að blanda eigi saman fjárhag kirkju og kirkjugarða.

  Akkúrat. Þess vegna vakti það furðu mína þegar kirkjan tók kirkjugarðana með þegar talað var um niðurskurð á útgjöldum ríkis til kirkjunnar. Ég hef nefnilega sjálfur talað fyrir því að kirkjugarðar væru ekki taldir með þegar fólk fárast yfir þeim upphæðum sem skattgreiðendur borga kirkjunni.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 5704.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar