Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Halldór Gunnarsson

Félagsgjöld til trúfélaga

Umræða fjölmiðla um sóknargjöld sem stuðning ríkisins við “ríkiskirkju” hefur verið með þeim ólíkindum að nauðsynlegt er að að rifja upp helstu grundvallaratriði félagsgjaldsins til kirkjunnar og annarra trúfélaga.

Það var fyrst á fardögum 1911 sem kirkjutíund af fasteign og lausafé og öðrum skatti /eignaskatti féll niður og við tók félagsgjald, nefskattur til hverrar sóknarkirkju, þá 75 aurar á hvern fermdan þjóðkirkjumann. Einnig hafði verið lögfest með lögum nr. 40/1909 heimild til sóknarnefndar, með samþykki lögmæts safnaðarfundar og samþykki héraðsfundar að leggja á sérstakt aukagjald, sem síðan var tengt við sóknargjaldið um heimild til allt að helmings hækkunar ákveðið árabil ef sóknin var fjárvana t.d. vegna kirkjubyggingar. Eindagi var 15. október og bar sóknarnefnd að innheimta sóknargjaldið.

Þessi skipan um innheimtu þessara sóknargjalda / félagsgjalda hélst óbreytt allt til 1987. Framkvæmd innheimtunnar var allan tímann þannig að sóknarnefndir innheimtu félagsgjaldið sem ákveðið var árlega í ráðuneytinu með reglugerð, hver upphæðin væri og hækkaði ætíð eftir verðlagi. Við uppbyggingu kirkna í Reykjavík upp úr 1955 var sóknargjaldið hækkað í Reykjavík miðað við sóknargjöld úti á landi um helming, nema viðkomandi sóknir stæðu í kirkjubyggingum, sbr. fyrri heimild laga um allt að tvöföld sóknargjöld. Lögin um sóknargjöld nr. 91/1987 tóku við af þessari innheimtu sóknarnefnda, en í staðinn tók ríkið að sér þessa innheimtu, jafnframt því að taka af heimildina allt frá 1909 um að leggja á allt að tvöfalt sóknargjald. Í staðinn var sóknunum bætt þetta með Jöfnunarsjóði sókna.

Í þessum lögum segir: “Þjóðkirkjusöfnuðir, skráð trúfélög, samkvæmt lögum um trúfélög, nr.18/1975 ….skulu eiga hlutdeild í tekjuskatti…” Síðan segir að gjaldið skuli taka mið af gjaldtöku síðasta árs og hækka síðan samsvarandi meðaltekjuskattsstofni hverju sinni. Þá er einnig tekið fram að ríkisjóði beri að skila af tekjuskatti til Jöfnunarsjóðs “18,5% af gjöldum er renna til þjóðkirkjusafnaða…” Þessi ákvörðun byggir á fyrri lagaheimild allt frá 1911 um heimild til sókna að innheimta helmingi hærra félagsgjald þegar sókn stendur að kirkjubyggingu eða öðrum framkvæmdum tekinni með lögvörðum ákvörðunum, sem lög ákváðu fyrrum, en eftir að lögin um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar frá 1997 tóku gildi, sem í 1.gr. kveða á um að þjóðkirkjan sé sjálfstætt trúfélag, eru þessar ákvarðanir skilgreindar í starfsreglum sem Kirkjuþing setur.

Félagsgjöld þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga er því alls enginn ríkisstyrkur, heldur lögákveðin hlutdeild í tekjuskatti, sem aftur og aftur er búið að brjóta einhliða og án nokkurs samráðs við sjálfstæð félög. Lögákveðið félagsgjald 1997 var kr. 400,24 en árið 2010 er kr. 767,- Ef lögbundin hlutdeild félaganna hefði staðið hefði félagsgjaldið átt að vera kr. 1.031,18 árið 2010 og nemur lækkunin því um 25%. Enn er gert ráð fyrir lækkun samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2011, sem gerir tillögu um að félagsgjaldið verði kr 698,-

Væri ekki rétt í umræðunni að hugleiða fyrir hvað þetta félagsgjald stendur um allt land, byggingu og viðhaldi kirkjuhússins með menningar og safnaðarstarfi og bera það saman við önnur gjöld, t.d. önnur félagsgjöld, sem eru sambærileg ríkisinnheimt gjöld, s.s. markaðsgjald Útflutningsráðs, iðnaðarmálagjald fyrir félög iðnaðarins, búnaðarmálagjald fyrir félagsstarfsemi bænda og ýms önnur gjöld til að standa undir nauðsynlegri starfsemi, sem ekki er ríkisrekin. Hvað hefði gerst í þjóðfélaginu hefði ríkisstjórn ákveðið einhliða að lækka þessi gjöld með sama hætti og félagsgjald trúfélag hefur verið lækkað?

Um höfundinn3 viðbrögð við “Félagsgjöld til trúfélaga”

 1. Jón Yngvi Jóhannsson skrifar:

  Það yrði eflaust meiri sátt um sóknargjöldin ef félög eins og Siðmennt fengju sama rétt og skráð trúfélög til þeirra og þeir sem standa utan allra trú- og lífsskoðunarfélaga greiddu engin gjöld.

  Þetta er einföld spurning um jafnrétti og sanngirni.

  Ert þú sammála því Halldór?

 2. Matti skrifar:

  > Félagsgjöld þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga er því alls enginn ríkisstyrkur, heldur lögákveðin hlutdeild í tekjuskatt

  Lögákveðin hlutdeild í tekjuskatti er ríkisstyrkur. Það er algjörlega ljóst að sóknargjöld eru ekki félagsgjöld, heldur eru þau greidd úr sameiginlegum sjóðum landsmanna.

  Gerið það, hættið að snúa út úr. Ykkur getur ekki liðið vel með þennan spuna.

 3. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Já, eins og Matti bendir á þá er þetta ríkisstyrkjur en ekki félagsgjöld.

  En ég er með spurningu, ef að við eruð virkilega ósátt við að ríkið sé að minnka þessi framlög (sóknargjöld) af hverju leggið þið þá ekki til að þetta verði aftur innheimta á félagsgjöldum, svona svipað og þú lýsir ástandinu árið 1911? Svona:

  nefskattur til
  hverrar sóknarkirkju, þá 75 aurar á hvern fermdan þjóðkirkjumann.

  Af hverju ekki að leggja til að sóknargjöld verði einhvers konar nefskattur, sem að ríkið innheimtir af meðlimum Þjóðkirkjunnar og skráðra trúfélaga? Þannig gætuð sjálf ákveðið hver upphæðin væri.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3475.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar