Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Gunnar Jóhannesson

Ótrúleg frétt: Guð skapaði ekki heiminn.

Stundum heyrir maður ótrúlegar fréttir.

Þann 2. september birtist frétt á vef ríkisútvarpsins þar sem sagt var frá þeirri fullyrðingu Stephen Hawking, sem kemur fyrir í nýrri bók hans, að Guð hafi ekki skapað heiminn. Í bók sinni heldur Hawking því fram að engan Guð hafi þurft til að skapa alheiminn því Miklihvellur sé í raun óhjákvæmileg afleiðing þyngdarlögmálsins. Samkvæmt því sem fram kemur í hinni nýju bók lítur Hawking svo á að þyngdaraflið eitt og sér hafi dugað alheiminum til að skapa sjálfan sig úr engu. Sjálfvirk sköpun (e. spontaneous creation) úr engu er því ástæða þess að alheimurinn er til.

Nú skal það tekið fram að ég hef ekki lesið þá bók sem hér um ræðir. Ennfremur er aðeins vitnað að litlu leyti í efni hennar í áðurnefndri frétt. Hitt er annað mál að ýmislegt er sagt þegar vekja á athygli á nýrri bók og gera hana söluvænlega. Sú upphrópun að Guð hafi ekki skapað alheiminn er sannarlega athyglisverð, ekki síst þegar í hlut á jafn þekktur og virtur vísindamaður og Stephen Hawking. Og annað eins hefur sannarlega heyrst í gegnum tíðina.

En hverju sem því líður eru fullyrðingar hans sannarlega ótrúlegar eins og þær koma fyrir: Alheimurinn er óhjákvæmileg afleiðing þyngdaraflsins! Þyngdaraflið sér til þess að alheimurinn skapi sjálfan sig úr engu! Sjálfvirk sköpun! Margar spurningar skjóta upp kollinum þegar maður heyrir slíku haldið fram.

Maður þarf ekki að vera eðlisfræðingur til að sjá hversu fráleitar slíkar staðhæfingar hljóma. Eðlislögmál eru hluti af alheiminum, þ.e. eiginleikar sem eru að verki innan hans og komu til sögunnar með alheiminum sjálfum. Þau svifu ekki um í einhverju frumspekilegu tómi líkt og platónskar hugmyndir og ákváðu svo allt í einu að gera eitthvað. Hvað er þyngdaraflið án alheimsins (þ.e. án massa og rúms)? Þyngdaraflið, rétt eins og önnur lögmál náttúrunnar, er auðvitað ekki ekki neitt. Þyngdaraflið er sannarlega eitthvað. Það hefur tiltekna eiginleika og hefur tiltekin áhrif. Ef við leyfðum okkur að gera ráð fyrir því að alheimurinn hafi orðið til úr engu þá hljótum við að spyrja hvaðan eðlislögmálin sjálf komu? Hvaðan kom þyngdaraflið sjálft? Þeirri spurningu er ekki hægt að svara nema taka á sig frumspekilegt stökk út fyrir hin vísindalegu mæri.

En ef vísindi (og reynsla okkar og heilbrigð skynsemi) sýna fram á eitthvað þá sýna þau að ekkert leiðir af engu. Ekkert er í réttri merkingu alls ekki neitt og verður ekki skyndilega að einhverju. Hawking gerir auðvitað ekki ráð fyrir því að alheimurinn hafi bókstaflega orðið til úr engu þótt það hljómi sannarlega svo. Þyngdaraflið kom á undan og orsakaði alheiminn. Í raun tekur það sæti Guðs og verður að því leyti hin yfirnáttúrulega orsök sem útskýrir tilvist alheimsins, hin hinsta staðreynd.

Þá má bæta því við að eigi alheimurinn að hafa skapað sjálfan sig úr engu, eins og Hawking virðist halda fram, þá hefur hann þurft að vera til (eins og þyngdaraflið líka að því er virðist) áður en hann varð til – því hvernig átti hann að geta skapað sig að öðrum kosti. En að gera ráð fyrir því er fullkomlega fráleitt enda hrein og klár mótsögn sem röklega fær ekki staðist. Það sem er ekki til er ekki neitt og gerir ekki neitt. Það skapar sannarlega ekki eitthvað – hvað þá sig sjálft. „Það“ sem ekkert er hefur enga eiginleika. Það hefur enga getu til neins og orsakar ekkert. Þegar látið er að því liggja að alheimurinn hafi orðið til úr engu – eins og gjarnan er gert – er yfirleitt gert ráð fyrir því að þetta „ekkert“ sé í raun eitthvað og er það oftar en ekki klætt í einhvern vísindalegan búning. Hins vegar eru slík vísindi yfirleitt grundvölluð á fyrirframgefinni heimsskoðun fremur en einhverju öðru.

Staðhæfingar Hawkings, eins og þær koma fyrir, virðast vera frumspekilegar staðhæfingar fyrst og fremst. Þegar vísindamenn eru farnir að gera sér í hugarlund hvað hafi verið á undan Miklahvelli eru þeir hættir að stunda vísindi og farnir að leggja stund á frumspeki. Nú hef ég alls ekkert á móti frumspeki, síður en svo. En það er ágætt að kalla hluti sínu rétta nafni.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4582.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar