Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Úlfar Guðmundsson

Kirkjan og kynferðisbrotin

Ég vil hér gera grein fyrir hvernig nokkrir þættir málsins horfa við mér.

Árið 1995 var staðan sú sú að málið var fyrnt fyrir dómstólum. Alþingi bar ábyrgð á því. Fjölmiðlar landsins treystu sér ekki til að fjalla um málið. Ekki var það kirkjunni að kenna. Vilji sannleiksnefnd fá vitneskju um hvernig það gat gerst að meintur kynferðisbrotamaður var kjörinn biskup þarf að rannsaka hvað fjölmiðlarnir höfðu þagað í mörg ár yfir meintum kynferðisbrotum sr. Ólafs Skúlasonar.

Guðrún Jónsdóttir greindi réttilega frá því í Kastljósi að eini möguleiki kvennanna til þess að fá uppreisn æru væri að vekja umræðu í samfélaginu og fá það til þess að horfast í augu við alvarleika málsins. Það hefði verið þeirra einbeitti og fasti vilji að leita allra leiða til þess að ná því fram.

Það var ekki hægt um vik þegar allar dyr voru lokaðar. Ekkert hafði á þessum tíma verið unnið í slíkum málum af hálfu kirkjunnar. Það hafði hins vegar verið gert í Prestafélagi Íslands. Upp úr 1990 var hafinn undirbúningur að nýjum siðareglum fyrir P.Í. Hinar nýju siðareglur voru samþykktar á aðalfundi P.Í. árið 1994 og í ágúst það ár var skipuð siðanefnd P.Í. Rétt er að halda því til haga að sr. Karl Sigurbjörnsson hafði beitt sér fyrir því að ákvæði um kynferðislega áreitni yrði tekið inn í siðareglurnar. Á aðalfundinum vildu sumir prestar fella þetta ákvæði út úr reglunum því ekki væri ástæða til þess að nefna sérstaklega einn málaflokk umfram aðra. Sr. Karl Sigurbjörnsson talaði fyrir því að þessu ákvæði yrði haldið inni og var það gert. Siðanefnd var síðan skipuð í ágúst og var ég formaður hennar næsta áratuginn. Fyrsta mál siðanefndarinnar varðaði hjónaskilnað sóknarprests og hafði það mál verið í fjölmiðlum og því má segja að siðanefndin hafi fljótlega orðið almenningi kunn.

Spurningin var nú hvort P. Í. hefði hér skapað vettvang sem gæti veitt konunum aðgang að fjölmiðlum. Ekki var það þó einfalt því siðanefnd gat ekki tekið mál fyrir sem væri eldra en eins árs. Því varð að yngja málið upp ef svo má segja. Sú leið var farin að kona fór í viðtal til sóknarprests og sagði honum sögu sína og gaf honum leyfi til að segja frá samtali þeirra. Að nokkrum tíma liðnum var sóknarpresturinn kærður til siðanefndar fyrir að láta kyrrt liggja. Þessu máli var lokið með sátt án áminningar. En siðanefndin gerði meira en það. Ég fór ásamt sr. Ragnari Fjalari Lárussyni til fundar við sr. Ólafi Skúlason biskup. Ég las fyrir hann skriflegar frásagnir kvenna og gerði honum grein fyrir alvöru málsins. Siðanefndin greindi konunum og stjórn P.Í. skriflega frá því hvað hún hafði gert 15. febr. 1996.

Nú var ísinn brotinn og málið opinbert. Hver kæran rak aðra til siðanefndar og allt fór beint til fjölmiðla.

Það er ekki rétt að kirkjan hafi brugðist konunum. Það var yfirstjórn kirkjunnar fyrst og fremst sem von var þar sem biskupinn átti í hlut. Prestafélag Íslands veitti konunum áheyrn og siðanefndin. Formaður P. Í. sr. Geir Waage stóð eins og klettur í þessu máli. Hann afhenti öllum prestum landsins bréf frá konunum á fundi í P.Í. Málið var þannig rækilega kynnt. Rétt er að nefna að hann var síðar endurkjörinn formaður félagsins, þannig að hann hafði breiðan stuðning. Prestarnir og allir söfnuðir landsins hafa liðið mikið vegna þessa máls. Guðrún Jónsdóttir greindi frá því að það hefði verið mikill styrkur að stuðningur hefði komið frá prestum. Sr. Halldór Gunnarsson ritaði grein í Mbl. þar sem hann studdi konurnar. En vissulega voru líka prestar sem stóðu með sr. Ólafi. Það voru vinir hans og ýmsir sem trúðu honum og veittust hart að sr. Geir Waage. Greint hefur verið frá því að allir prófastar landsins hafi ritað undir bréf til stuðnings sr. Ólafi en það er ekki rétt. Sr. Einar Þór á Eiðum ritaði ekki undir þetta bréf.

Eitt af hlutverkum siðanefndar er að leita sátta í málum. Það var sjálfsagt mál af okkar hálfu og hefði verið eðlilegast. Það er þó mitt mat að sættir hafi ekki verið mögulegar þannig að konurnar héldu sínum hlut. Þeir sr. Hjálmar og sr Karl kusu að ganga fram hjá siðanefndinni og halda sjálfir fund. Ég skal ekki dæma um hvað þeim gekk til með því. Sr. Ólafur Skúlason efndi einnig til fundar án þess að siðanefndin væri viðstödd. Ummæli sem féllu á þeim fundi voru síðan kærð til siðanefndar. Ég held að engin von hafi verið um árangur af þessum fundum.

Nú er allt þetta umhverfi gjörbreytt. Komnir eru öruggir farvegir fyrir slík brot. Nýjasta dæmið er að sóknarpresturinn á Selfossi var færður til í starfi eftir að hæstiréttur landsins hafði sýknað hann. Kirkjan á sín eigin lög sem ganga lengra lögum landsins. Það þarf þjóðin að vita.

Sr. Karl biskup sagði í blaðagrein: „Eftir á að hyggja hef ég verið of varkár í því að kveða upp dóma.“ Spurningin sem þar þarf að svara er þessi: Er það sanngjörn krafa að biskup Íslands kveði upp dóm í glæpamáli sem ónýtt er fyrir dómstólum og er að auki persónulegur harmleikur öllum aðilum máls? Því verður hver að svara fyrir sig.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2682.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar