Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Gunnar Kristjánsson

Í öldudal óvissunnar

Helstu mótendur íslenskrar trúarhefðar, þeir séra Hallgrímur og meistari Vídalín fóru sparlega með orðið „kirkja“, orðið kemur ekki fyrir í Passíusálmunum og í Postillunni er Vídalín tamara að tala um kristna menn, kristindóminn eða til hátíðarbrigða á hvítasunnu um „… Guðs kirkju í mannanna hjörtum, í hverjum Kristur býr fyrir trúna, og hann er þar sjálfur kennimaður í sínu hásæti…“ Þeir voru nær hinum lúthersku rótum trúarmenningar þjóðarinnar sem forðaðist stofnanavæðingu trúarinnar og einnig miðstýringu trúarsamfélagsins. Þetta er umhugsunarvert á tímum þegar íslenska þjóðkirkjan siglir úfinn sjó, orðræða um kirkjuna sem stofnun hefur fest sig í sessi. Sjálfsmynd hennar í íslensku samfélagi hefur tekið verulegum breytingum í tímans rás.

Spurt er um trúverðugleika kirkjunnar og sömuleiðis ber talsvert á vangaveltum um réttarstöðu hennar þar sem orðin þjóðkirkja og ríkiskirkja koma reglulega fyrir. Vandkvæði hennar eru samt ekki ný af nálinni, hér er við gamlan vanda að etja sem kirkjan hefur ýtt á undan sér áratug eftir áratug: þar er um hennar eigin sjálfsmynd og sjálfsskilning er að ræða. Um það verður fjallað hér á eftir.

Það er mikilvægt í kirkjumálaumræðunni sem nú fer fram að gera sér grein fyrir þjóðkirkjuhugtakinu, hvað felst í því og hvaða skilningur er að baki? Fyrir einu ári var tilefni til að beina sjónum að orðinu þjóðkirkja af þeirri sögulegu ástæðu að þá var liðin ein öld frá því að Þórhallur Bjarnarson biskup hélt fyrstu prestastefnu sína og valdi henni stað á sögulegum helgistað þjóðarinnar, Þingvöllum. Það má til sanns vegar færa að þjóðkirkjan hafi þá verið formlega innleidd hér á landi eftir alllangan aðdraganda.

Um íslenskan kirkjurétt

Þjóðkirkja er eitt, ríkiskirkja annað. Ríkiskirkja vísar til lögfræðilegrar skilgreiningar á réttarstöðu kirkjunnar. Stærsta þjóðkirkja meginlandsins, þýska kirkjan er ekki ríkiskirkja. Við upphaf Weimarlýðveldisins 1919 var sambandi hennar við ríkisvaldið slitið. Þótt hún hafi verið þvinguð til að stíga það skref vildu áreiðanlega fáir stíga skrefið aftur til fyrra horfs. Breytingar urðu litlar sem engar á starfi hennar – nema ef vera skyldi að samband hennar við opinberar stofnanir varð sjálfstæðara og samskiptin við ríkisvaldið skýrara en ella; þjónustusamningar um eitt og annað sýna að nærveru hennar er óskað og reglulegar skoðanakannanir sýna að starf hennar er metið að verðleikum. Í doktorsritgerð sinni um íslenskan kirkjurétt frá 1986 (Geschichte und Gegenwartsgestalt des isländischen Kirchenrechts) heldur dr. Bjarni Sigurðsson því fram að íslenska þjóðkirkjan hafi sterk einkenni ríkiskirkjunnar enda liggur það í augum uppi þegar grannt er skoðað. Mat hans á enn við rök að styðjast formlega séð þótt lagabreytingin 1997 hafi vissulega breytt mörgu í rétta átt.

Þjóðkirkja vísar hins vegar til ákveðinna guðfræðilegra viðhorfa: til opinnar, breiðrar og umburðarlyndrar kirkju í nánu sambandi og í eindreginni þjónustu við þjóðina. Kirkjan er að þeim skilningi fjarri því að vera „ríki í ríkinu“ sem lætur sér „veraldlegu menningu“ í léttu rúmi liggja og er að sama skapi fjarri því að bera einkenni vakningarhreyfingarinnar sem markar sér ákveðin völl innan samfélagsins með sinn „rétta“ boðskap.

Lögfræði er eitt, guðfræði er annað, það er guðfræðin sem ákvarðar inntak þjóðkirkjuhugmyndarinnar öðru fremur. Hvert er það guðfræðilega inntak sem allt veltur á? Til þessa að leita svara við þeirri spurningu má leita til upphafsins.
Þjóðkirkjuhugsjónin

Þýski guðfræðingurinn Friedrich Schleiermacher setti þjóðkirkjuna á dagskrá, hann notaði fyrstur manna orðið þjóðkirkja (Volkskirche) uppúr 1820, það var baráttuhugtak á erfiðum tímum kirkjunnar eftir Napóleónstímann. Að baki var hugmyndafræði um hlutverk kirkjunnar í samfélaginu, um skipulag hennar og um þá guðfræði sem hún byggir á. Hugmyndafræði hans sló í gegn um alla norðanverða Evrópu. Þýsku mótmælendakirkjurnar byggja enn í grundvallaratriðum á hugmyndafræði hans og sama er að segja um sænsku kirkjuna sem hefur nýlega farið að hennar fordæmi, svo einhverjar kirkjur séu nefndar.

Schleiermacher vildi ekki aðeins losa kirkjuna undan valdi ríkisins heldur einnig undan kirkjuvaldinu sjálfu. Þegar ríkisvaldsins naut ekki lengur við varð kirkjan að skipuleggja stjórnkerfi sitt frá grunni og taka stjórnsýsluna alla í eigin hendur. Í þeim tilgangi setti hann fram hugmyndina um lýðræðislega kjörið kirkjuþing sem færi með eiginlegt vald í sameiginlegum málum safnaðanna. Þá gagnrýndi hann miðstýringu kirkjuvaldsins eindregið og vildi efla valddreifingu, einkum prófastsdæmin eins og gömul mótmælendahefð var fyrir. Hann taldi biskupsembættið ekki nauðsynlegt og studdist þar við hefðina frá Lúther og samstarfsmönnum hans. Málið snýst um kirkju sem nýtur trúnaðar fólksins og talar máli þjóðarinnar. Það er hlustandi og túlkandi kirkja í samfélaginu, hún er ekki aðeins aðili að hinu lýðræðislega samfélagi heldur er hún þar í fararbroddi sem framsækið, menningarlegt umbótaafl.

Þessar hugsjónir mótuðu viðhorf þeirra sem innleiddu þjóðkirkjuna á Íslandi fyrir einni öld. Þeir sem börðust fyrir því að koma þjóðkirkjuskipaninni á til fulls eins og hér er lýst urðu að láta í minni pokann eins og afdrif tillagna og frumvarpa um kirkjumál í upphafi tuttugustu aldar á Alþingi sýna. Íslenska þjóðkirkjan fór því sínar eigin leiðir um langt skeið.
Kirkjuþing og biskupsembættið

Með hliðsjón af nefndum hugmyndum, sem urðu víðast hvar að veruleika í evrópskum mótmælendakirkjum annars staðar en hér, er vandinn í stjórnkerfi íslensku þjóðkirkjunnar augljós. Hún hefur ríghaldið í gamalt pýramídakerfi, þar sem biskupinn trónar á toppi. Málamiðlanir við afgreiðslu kirkjuþings við gerð kirkjulagafrumvarpsins sem Alþingi samþykkti vorið 1997 urðu til þess að pýramídaskipulaginu var ekki afdráttarlaust hafnað. Fyrir það líður kirkjan nú.

Þegar litið er til hugmynda Schleiermachers með eindreginni áherslu hans á lýðræðislegt samfélag – eða hinn „almenna prestsdóm“ svo vísað sé til Lúthers – hlýtur það að vekja til umhugsunar hvernig við Íslendingar hugsum um kirkjuna. Þótt biskup hafi ekki haft atkvæðisrétt á kirkjuþingi eftir 1997 er hann formaður kirkjuráðs sem undirbýr mál undir kirkjuþing og afgreiðir mál eftir kirkjuþing og er í reynd eins konar framkvæmdastjóri – hlutskipti sem hvarvetna er varað við í lútherskum kirkjurétti. Flestum er ljóst að hér er fyrirkomuleg sem orkar tvímælis svo vægt sé til orða tekið. Tregðan við að breyta (og styrkja þar með trúverðugleika kirkjuráðs) dylst fáum sem fylgst hafa með stjórnsýslu kirkjunnar. Kirkjuþing á Íslandi, sem stendur undir nafni, á því ennþá talsvert í land.

Þjóðin og þjóðkirkjan

Þjóðkirkjufyrirkomulagið er í eðli sínu óháð samskiptum við ríkisvaldið. Það eru ekki ótvíræðir hagsmunir þjóðkirkjunnar að vera tengd ríkisvaldinu. Söfnuðir hennar eru t.d. vel starfhæfir samkvæmt þeim samningi, sem er í gildi milli ríkis og kirkju, þótt aðskilnaður yrði. Sumir telja það henta kirkjunni betur að vera sjálfstæð að þessu leyti, aðrir telja það hins vegar hagkvæmara samfélaginu að hafa kirkjuna innan vébanda ríkisvaldsins – en þá verður það einnig að taka ábyrgð á henni og sinna henni af sannfæringu.

Þeir sem settu þjóðkirkjuna á dagskrá treystu henni til að standa vörð um lífsgildi sem voru almennt tekin gild í samfélaginu. Þeir vildu vel menntaða og víðsýna presta til þess að þjóðkirkjan gæti sinnt fjölþættu hlutverki sínu í samfélaginu og fjölþætt safnaðarstarf í vaxandi þéttbýlissamfélagi. Trúin snýst ekki um að afstöðu mannsins til trúarkenninga, hinar djúpu rætur hennar felast í leit mannsins að tilgangi lífs síns. Reynslan sýnir að trúin er afl sem getur haft veruleg áhrif á samfélagið, ýmist æskileg eða óæskileg. Trúin snýst um það sem skiptir manninn mestu máli. Það veltur því á miklu hvaða samfélagslega umgjörð hún hefur. Samfélagið hlýtur með öðrum orðum að taka þátt trúarinnar alvarlega nú ekki síður en á tímum upplýsingarstefnunnar þegar Schleiermacher tefldi sínum hugsjónum fram, þar var að hans dómi ekki um að ræða eitt afmarkað svið í lífi mannsins heldur undirstrauminn í allri tilvist mannsins.

Fimm meginverkefni

Mörg verkefni blasa við íslensku þjóðkirkjunni til þess að finna leiðina út úr öldudal óvissunnar; þar mætti nefna fimm atriði:

 1. Öll stjórnsýsla kirkjunnar falli undir kirkjuþing með forseta þess og fastanefndir í fararbroddi.
 2. Endurreisn biskupsembættisins á nýjum grunni þar sem það er leyst undan allri stjórnsýslu, biskup með kirkjuráð sér til ráðuneytis, verði talsmaður kirkjunnar inná við og útávið.
 3. Valddreifing innan kirkjunnar verði stóraukin með styrkingu prófastsdæmanna og prestakallanna.
 4. Hugað verði að hlutverki prestsembættisins að nýju og hlutverki þess í nýju samfélagi, þar með að menntun prestanna, m.a. markvissri símenntun þeirra og aðkomu þjóðkirkjunnar að þeirri menntun.
 5. Þátttaka leikmanna í störfum og stjórn þjóðkirkjunnar verði aukin verulega, það gerist m.a. með aukinni valddreifingu.

Allt er þetta í anda þeirra kirkjustjórnunar sem best hefur gefist um alllangan tíma í nágrannakirkjum okkar og reist er á hinum lútherska arfi þátttökukirkjunnar, þar sem dyr standa opnar hverjum sem óskar þátttöku.

Lokaorð

Það ætti öllum að vera ljóst að kirkjuskipan í anda löngu liðins tíma er tímaskekkja og kirkjunni til vansæmdar, þar er við engan að sakast nema hana sjálfa. Sömuleiðis ætti öllum að vera ljóst – ekki síst guðfræðingum – að kirkja sem endurspeglar svo háskalega tímaskekkju í stjórnsýslu afhjúpar um leið háskalega tímaskekkju í guðfræði sem jafnframt hefur villst frá guðfræði þjóðkirkjuhugsjónarinnar.

Kirkjan er trúarsamfélag sem byggir á guðfræðilegri hugsun. Það er því mikið í húfi að guðfræði hvers tíma myndi traustan grunn í samskiptum kirkjunnar við þjóðina. Í því efni lagði Schleiermacher grunninn að svonefndri menningarguðfræði sem hefur lagt drjúgan skerf til mótunar á nútímaguðfræði. Einkum á það við samtal guðfræðinnar við manninn á hverjum tíma, hún lætur sér annt um menningu hans, samfélagsgerð, tilvistarspurningar, hún leggur sig fram um að taka þátt í þeirri tilvistartúlkun sem fram fer í samfélaginu, ekki síst í afþreyingarsamfélagi nútímans þar sem spurningar um gildismat krefjast umfjöllunar. Í fjölþættu upplifunarsamfélagi samtímans er kirkjan þátttakandi í merkingartúlkun í þágu mannsins.

Þetta ætti söfnuðurinn að skynja í prédikun þjóðkirkjuprestsins og í fræðsludagskrám sem söfnuðir bjóða uppá. Margir telja að sterkustu einkenni þjóðkirkjukristindómsins séu embættisverk prestanna: skírn, ferming, hjónavígsla og útför, þar eru væntingar miklar, þar er fólkið saman komið. Þar verður hlutverk prestanna að dómi margra guðfræðinga sífellt mikilvægara og þar njóta þeir trausts ef marka má þann stöðugleika sem tengist þessum þætti í þjónustu safnaðanna. Kirkjan þarf að bæta sig á þessum sviðum sem öðrum til þess að koma til móts við þá kröfu sem liggur í loftinu. Og þar þarf hún engu að kvíða sé rétt á spöðunum haldið.

Keppikefli þjóðkirkjunnar ætti ekki að vera samband við ríkisvaldið heldur trúnaðarsamband við þjóðina. Sá trúnaður hvílir á gömlum merg og hann þarf að varðveita.

Birtist í styttri útgáfu í Mbl. 7. sept. 2010.

Um höfundinn2 viðbrögð við “Í öldudal óvissunnar”

 1. iSpeculate » Smáhik við lestur góðrar greinar skrifar:

  […] Viðbrögð við: Í öldudal óvissunnar – Trúin og lífið. […]

 2. Góð grein eftir séra Gunnar Kristjánsson « Eiður Alfreðsson skrifar:

  […] leave a comment » Gamall bekkjarfélagi minn, Halldór Elías Guðmundsson, benti á þetta í fésbókarfærslu: Í öldudal óvissunnar […]

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3733.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar