Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Skyldar færslurLeita

Ragnheiður Margrét Guðmundsdóttir

Gleði og áhyggjur

Úr kvikmyndinni Monica & David

Kvikmyndin Monica og David er einstaklega falleg heimildarmynd um tvo einstaklinga með Downs-heilkenni sem ákveða að giftast.

Myndin er í senn rómantísk og raunsæ og hafði djúp áhrif á mig. Ég bæði hló og grét (sem er það besta sem kemur fyrir mig í bíó). Það er mikil rómantík yfir tilhugalífi unga parsins sem eru yfir sig ástfangin og langar mest af öllu til að giftast, búa saman og helst eignast barn. Í undirbúningi brúðkaupsins kemur í ljós hve móðir og stjúpfaðir Monicu eru allt umfaðmandi en um leið ofverndandi foreldrar. Móðir Davids er einnig ástrík kona sem hefur helgað líf sitt uppeldi sonarins. Það vekur athygli að báðir feðurnir hafa yfirgefið fjölskylduna þegar börnin voru á fyrsta ári. Og það vekur einnig athygli að báðar mæðurnar voru rétt rúmlega tvítugar þegar börnin fæddust.

Ungu hjónin hefja búskap undir verndarvæng foreldra Monicu og þar eru hlutirnir sýndir í raunsæju ljósi. Þau þurfa að læra að elda mat, þvo þvott og mikið púður fer í að búa fallega um rúmið sem sýnir hve samhent þau eru. Monica og David eru stríðin og miklir húmoristar og næra hvort annað af mikilli hlýju. Þau vinna á vernduðum vinnustöðum en virðast ekki hafa tækifæri til að vinna á almennum vinnumarkaði þó að þau gætu það sjálfsagt með stuðningi. Ungu hjónin sýna mikinn dugnað og vilja til að lifa sjálfstæðu lífi og geta það upp að vissu marki. En þau þurfa stuðning og hann fá þau aðallega frá foreldrum Monicu.

En hvað gerist þegar foreldrarnir eru ekki lengur til staðar? Mæður þeirra beggja snertu mig djúpt þegar þær lýstu áhyggjum sínum af því hvort einhver mundi veita börnum þeirra ást og umhyggju þegar þær falla frá. Og þetta eru áhyggjur sem ég held að allir foreldrar fatlaðra einstaklinga deili með þeim.

Um höfundinn2 viðbrögð við “Gleði og áhyggjur”

 1. Fanney Halla Pálsdóttir skrifar:

  Ágæta Ragnheiður

  Yndislegt er að fá góða agaða íslensku, skilning á eðli bókmenntanna (og kvikmynda) og virðingu fyrir manninum í einni lítilli grein.

  Ágætt var einnig að fá að lesa greinina þína hér á síðunni um Trúnna og lífið. Hingað hefur verið ágætt að fara til að lesa góð skrif presta sem mótvægi við þann veraldarhugsunarhátt sem hefur yfirtekið flesta þætti þjóðfélagsins.

  Nú er mikill ágangur og niðurbrot á okkar kristna samfélag og kirkjunnar menn ásakaðir þunglega ef þeir taka ekki þátt í gífuryrðum, æsimennsku og endalausum skrifum um ekki neitt. Ásakaðir þunglega ef þeir aga sitt mál og takmarka við fagmennsku og vönduð vinnubrögð. Stór hluti af okkar menningu og sögu er okkar kristna trú og því er ágætt að fá góða grein hér frá leikmanni nú sem ber vitni um það góða sem okkar íslenska, menning og saga á.

  Fanney Halla Pálsdóttir

 2. Fanney Halla Pálsdóttir skrifar:

  Ágæta Ragnheiður

  Ég skrifaði hér á undan, í annarri málsgrein, að hingað hefur verið ágætt að fara til að lesa góð skrif presta sem mótvægi við þann veraldarhugsunarhátt sem hefur yfirtekið flesta þætti þjóðfélagsins. Langar mig að fá að leiðrétta það og skrifa:

  „Hingað hefur verið ágætt að fara til að lesa góð skrif kirkjunnar manna sem mótvægi við þann veraldarhugsunarhátt sem hefur yfirtekið flesta þætti þjóðfélagsins.„

  Ég met mikils skrif margra kirkjunar manna og þar fremstan meðal jafningja herra Karl Sigurbjörnsson biskup.

  Fanney Halla Pálsdóttir

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2957.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar