Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Örn Bárður Jónsson

Fjölmiðlar undir kastljósi

Tvær helgar í röð fjallaði RÚV um prédikanir presta í útvarpsmessum. Í báðum tilfellum tel ég að fréttamenn RÚV hafi bjagað boðskapinn. Þetta gerðist í hádegisfréttum á RÚV 29. ágúst 2010 þegar greint var frá prédikun sr. Guðbjargar Jóhannesdóttur, formanns Prestafélag Íslands, sem hún flutti í Hafnarfjarðarkirkju sama dag. Í prédikuninni ræddi hún m.a. úrsagnir úr Þjóðkirkjunni og hafði auðvitað ýmislegt við þær að athuga en hennar skoðanir komu hins vegar ekki fram í hádegisfréttum, heldur bara hitt, að fólk vildi segja sig úr kirkjunni. Ég hringdi í fréttastofu RÚV strax í hádeginu og gerði athugasemd við skakkan fréttaflutning.

Viku síðar, 5. september, prédikaði ég sjálfur í útvarpi og kom víða við. Í hádegisfréttum RÚV var getið um það að ég hefði talað um aðskilnað ríkis og kirkju. Ég hvatt til aðskilnaðar og það á forsendum kirkjunnar. Að prestur hvetji til slíks gerist ekki daglega á Íslandi og það í beinni útsendingu! Einnig var þess getið í sömu frétt að ég hefði gagnrýnt fjölmiðla. Reyndar var margt annað í ræðunni sem hefði mátt ræða í fjölmiðlum.

Í Sjónvarpsfréttum um kvöldið var sýnt myndskeið úr messunni. Þar var bara sýnt það sem sagt var um fjölmiðla en ekkert annað (bara hið sjálfhverfa sjónarhorn sjónvarpsmanna) og þegar myndskeiði lauk sást fréttalesarinn, sjálfur útvarpsstjórinn, glottandi á skjánum. Ég tel mig ekki haldinn neinum ofsóknarkvillum en ég hugsaði með mér: Hvaða skilaboð voru fólgin í þessum svipbrigðum?

Miðvikudaginn 15. september var tvennt í sjónvarpi sem vakti sérstaklega athygli mína. Hið fyrra var viðtal í Kastljósi við Úlfar Þormóðsson, sem Helgi Seljan stýrði. Samtalið snerist um bók Úlfars um Biblíuna. Úlfar er leikmaður á því sviði og fáfræði hans um málefnið leyndi sér ekki í viðtalinu. Viðtal þeirra tveggja var ágætt sem slíkt en hins vegar var engin fræðileg umfjöllun um illa grundaðar niðurstöður höfundar, bókstafstúlkun hans á flóknu ritverki og fjandsamleg viðhorf til hinnar helgu bókar. Hefði ekki verið hægt að fá einhvern viðmælanda sem hefði getað spurt Úlfar einhverra bitastæðra spurninga? Voru þetta fagleg vinnubrögð? Hefði ekki átt að fá t.d. guðfræðing til að spjalla við Úlfar?

Síðar sama kvöld birtist svo „uppistandarinn“ Bragi Kristjónsson, bóksali, með troðnar nasir af neftóbaki, í þættinum, Kiljan, og lýsti flesta ef ekki alla karlpresta með eldra próf í guðfræði sem afgangstærð. Orðrétt sagði hann:

„Þetta er stétt afganganna – prestastéttin. Í gamla daga fóru þeir í guðfræði sem féllu í læknisfræði, lögfræði og öðrum fögum. Þess vegna er sko eldri kynslóð presta, hún er bara afgangar, en svo eru að koma inn í stéttina núna – konur, fullt af góður og merkilegum konum – eins og maður sér á þessari konu þarna uppi í Grafarholti, sem er andskoti einbeitt og flott kona.“

Ég tek undir það með Braga að það er mikil vigt í henni séra Sigríði.

Þeir fimbulfömbuðu svo áfram félagarnir, þétti á velli og þéttir í lund, brostu og hlógu að eigin bröndurum.

Látum nú vera þetta innslag bóksalans sem gegnir því hlutverki að vera krydd í þátt sem fjallar um bækur. Bragi er skemmtielgur sem slíkur. En ég spyr svona bara í stríðni í garð Braga: Hvaða próf þurfa menn til að selja gamlar bækur? Við erum víst báðir með próf úr Verzlunarskólanum og ég gæti því kannski skipt um starfsvettvang á efri árum!

En hitt er alvarlegra þegar einhver kemur í viðtal í Kastljós og telur sig vera með uppgötvun sem jafnvel breytir sögunni. Þar þarf að vanda betur umfjöllun. Svo undrast fjölmiðlafólk að ég hafi talað um einelti gagnvart kirkjunni. Einelti birtist m.a. í sífelldu klifi um fréttir sem fjölmiðlar vilja ekki afgreiða vegna þess að það vantar fréttir í gúrkutíðinni og svo kalla ég það einelti þegar stöðugt er verið að grafa undan kirkju og kristni í ríkisfjölmiðlum.

Getur hver sem er fengið rúm í RÚV til þess að fjalla þar um hugðarefni sín og/eða fordóma án þess að nokkur geri athugasemdir við uppistandið? Er stofnunin gjörsneydd hæfileikum til að taka faglega á málum sem snúa að kirkju eða kristni? Hvernig væri að kalla til álitsgjafa með þekkingu á efni sem starfsmenn hafa takmarkað vit á?

Um höfundinn6 viðbrögð við “Fjölmiðlar undir kastljósi”

 1. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Úlfar er leikmaður á því sviði og fáfræði hans um málefnið leyndi sér ekki í viðtalinu. Viðtal þeirra tveggja var ágætt sem slíkt en hins vegar var engin fræðileg umfjöllun um illa grundaðar niðurstöður höfundar, bókstafstúlkun hans á flóknu ritverki og fjandsamleg viðhorf til hinnar helgu bókar.

  Það væri nú gaman að sjá efnislega umfjöllun um þessa bók frá einhverjum prestinum, en ekki bara svona upphrópanir (t.d. bókstafstúlkunar-ásökunin).

  Svo held ég að það sé rangt að hann hafi “fjandsamlegt viðhorf” til biblíunnar, hann hefur bara ekki þá glansmynd af henni sem ein stétt manna boðar.

 2. Kristinn Jens Sigurþórsson skrifar:

  Kærar þakkir fyrir skýran pistil og skarpa gagnrýni. Tók mig til og blaðaði svolítið í bókinni hans Úlfars með það fyrir augum að kaupa hana. Fljótlega varð mér ljóst hverskonar hrákasmíð þar var á ferð þannig að ég var fljótur að láta hana frá mér. Höfundurinn gerir sér ekki minnsta far um að reyna að skilja það samhengi og þá menningu sem textar Biblíunnar eru sprottnir úr og útilokar þannig alla helstu túlkunarlyklana sem notast hefur verið við. Þess í stað æðir hann áfram með bókstaflegan og barnalegan lestrarskilning að leiðarljósi þar sem markmiðið virðist það eitt að gera eins lítið úr boðskapnum og hugsast getur. Útkoman verður svo í samræmi við þetta, eða “fjandsamleg” eins og þú réttilega bentir á.

 3. Guðmundur St Ragnarsson skrifar:

  Hafðu þakkir fyrir þetta Örn Báður. Þú ert einn fárra presta sem þora að bera hönd fyrir höfuð kristnum á Íslandi.

 4. Baldur Kristjánsson skrifar:

  Skemmtilegur pistill og gott innlegg! kv. Baldur

 5. Gunnar Örn Stefánssson skrifar:

  Sæll Örn Bárður,

  Ég held að reynsla þín af fjölmiðlum núna sé nokkuð svipuð og allra sem hafa einhverja sérfræðiþekkingu. Um leið og fjallað er um mál sem þú þekkir til sést bersýnilega að í fjölmiðlum starfa ekki sérfræðingar. Í neinu.

  Það sem þú lýsir sem “sjálfhverfu” er einfaldlega vinnulag fjölmiðla á Íslandi (og víða annars staðar) - tæpt er á þeim atriðum sem fréttamanni þykir mest spennandi, stytt og einfaldað.

  Ástæðan fyrir þessu er einföld: fréttamenn á Íslandi eru láglaunastétt sem fá ekki tíma né önnur úrræði til að afla sér sérfræðiþekkingar. Enginn starfsmaður RÚV er sérfræðingur stofnunarinnar um trúmál, og enginn mun verða það í fyrirsjáanlegri framtíð.

  Það er gott að þú hugleiðir hvort þú sért með ofsóknarvillu í þessu samhengi - það sýnir heilbrigða sjálfsgagnrýni - en ég held að mál kirkjunnar og trúmál yfir höfuð séu ekkert verra meðhöndluð af fjölmiðlum landsins en önnur málefni - ég man í fljótu bragði eftir umfjöllun um vísindi og menntun þar sem mín takmarkaða þekking var greinilega öllu meiri en fréttamanns, og eflaust gæti ég rifjað upp fleiri ef ég gæfi mér tíma.

  Að lokum vildi ég ráða þér heilt með tvennt sem þú gætir bætt í þínum málflutningi: Annars vegar að sleppa að nota orð eins og “einelti,” sem hefur þau áhrif ein að særa þá sem hafa upplifað hana, rýra gildi orðsins í almennri umræðu, og rýra málstað þinn fyrir þeim sem eitthvað þekkja til fjölmiðla eins og tíundað er að ofan. Hins vegar er stríðnisspurning þín til Braga í þessum pistli slæm: “Þú ert ekkert skárri sjálfur” eru og verða alltaf hörmuleg rök þess sem getur ekki varið sig málefnalega.

  Kveðja,
  Gunni

 6. María skrifar:

  Sæll Örn Bárður.
  Ég var að horfa á þennan Kastjós þátt og sá ekkert athugavert við hann. Þarna var maður sem er að leita að Guði og ekki búinn að mynda sér skoðun á honum ennþá. Þeir voru að fjalla um hans hugmyndir og hans bók, en ekki hvað kommentarar guðfræðinga segja um ákveðna kafla biblíunnar.
  Ég tel að prestar eigi að fjalla um þessa erfiðu kafla biblíunnar, þá myndi árekstrum við leitandi manneskjur kannski fækka og þeir mega alls ekki að víkja sér undan þeim. Ég upplifi biblíuna sem þverskurð mannlegrar reynslu, veruleika eins og hann gerist bestur og einnig eins og hann gerist verstur. Tilfinningarnar, ákallið, þjáningin og fleira sem biblían hefur að geyma gefur mér ákveðið rými til að upplifa það að ég megi vera reið og leið í andstreymi lífsins, en einnig sýnir hún mér að ég megi vera þakklát og glöð yfir gjöfum Guðs.
  Ég bið ykkur kirkjunnarþjóna að fara ekki í vörn, njótið þess að tala við fólk sem eru á öndverðum meiði og leitandi. Eða höfum við ekkert lært?
  Bestu kveðjur, María.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3279.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar