Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Pétur Kr. Hafstein

Þjóðkirkjan biður ekki um hlífð heldur sanngirni

Aukakirkjuþing var kvatt saman laugardaginn 7. ágúst sl. til að fjalla um viðbrögð þjóðkirkjunnar við 9% niðurskurðarkröfu ríkisins fyrir árið 2011. Brýna nauðsyn þótti bera til þess að nýkjörið kirkjuþing kæmi strax að málinu enda fer þingið með æðsta vald innan þjóðkirkjunnar nema lög mæli á annan veg.

Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra lét hafa eftir sér í Morgunblaðinu skömmu eftir þinglok að hún hefði fullan skilning á því að starfsemi þjóðkirkjunnar væri viðkvæm fyrir frekari skerðingu fjárframlaga. Hins vegar væri „ekkert svigrúm til að hlífa kirkjunni sérstaklega …” Hér er á ferðinni háskalegur misskilningur hjá ráðherra kirkjumála. Þjóðkirkjan hvorki hefur né mun skorast úr leik í þeim þrengingum sem nú eru uppi í samfélaginu. Hún hefur þegar tekið á sig gífurlegar skerðingar frá efnahagshruni og er reiðubúin til að axla þær byrðar sem ýtrasta sanngirni krefst. Þjóðkirkjan biður því ekki um hlífð heldur skilning og réttsýni.

Við setningu kirkjuþings á laugardaginn ræddi ég um samninga ríkisvaldsins og þjóðkirkjunnar sem marka eignarréttarstöðu kirkjunnar og tilkall hennar til launagreiðslna úr ríkissjóði í framtíðinni, m.a. um kirkjujarðasamkomulagið frá 1997, sem laut að afhendingu kirkjujarða og meðfylgjandi kirkjueigna til ríkisins, að frátöldum prestssetrum og því sem þeim fylgir. Um þetta sagði ég:

„Á móti þessum gífurlegu verðmætum frá þjóðkirkjunni skuldbatt ríkið sig til að greiða tilteknum fjölda starfsmanna kirkjunnar laun um ókomna tíð, prestum, próföstum, biskupum og starfsmönnum biskupsstofu. Skýrlega var tekið fram að þetta samkomulag fæli í sér fullnaðaruppgjör vegna þeirra verðmæta, sem ríkissjóður tók við 90 árum áður eða árið 1907. … Þessir samningar hafa verið staðfestir af Alþingi með sérstökum ákvæðum í núgildandi þjóðkirkjulögum. Viðaukasamningurinn um tímabundinn niðurskurð á síðasta ári var einmitt reistur á þessum réttargrundvelli, sem bæði núverandi ríkisstjórn og Alþingi hafa skýrlega viðurkennt með þeirri samningsgerð og samsvarandi breytingu á þjóðkirkjulögunum. Það er þjóðkirkjunni mikils virði að hafa þannig fengið endurnýjaða staðfestingu á því að við fjárhagslegum grundvelli hennar verði ekki hróflað af hálfu ríkisvaldsins nema með gagnkvæmum samningum, sem kirkjuþing og Alþingi verði að fallast á. Það er ekki í anda slíkra gagnkvæmra samninga tveggja jafnsettra samningsaðila að annar þeirra, í þessu tilviki ríkisvaldið, gefi hinum fyrirmæli og hviki í engu frá þeim. Það er rétt að í samningnum á síðasta hausti gerði þjóðkirkjan sitt ýtrasta og kom að fullu til móts við tilmæli ríkisins um niðurskurð á árinu 2010. Hitt er svo annað mál að þanþol kirkjunnar er ekki ótakmarkað og hún má ekki láta innviði kærleiks- og velferðarþjónustu bresta, allra síst í því árferði sem nú ríkir í samfélaginu. Þess vegna og vegna forgangsröðunar í þjóðfélaginu um þessar mundir hlýtur að vera svigrúm til samninga um fram komna niðurskurðarkröfu ríkisins og áframhaldandi lækkun sóknargjalda. Ýmsir virðast telja, í gálausu tali um aðskilnað ríkis og kirkju, að verði 62. gr. stjórnarskrárinnar um þjóðkirkjuna og stuðning ríkisvaldsins við hana felld brott muni kirkjan sjálfkrafa hætta að njóta þeirra framlaga úr ríkissjóði, sem samið hefur verið um á grundvelli eignaskila ríkis og kirkju – ríkinu sparist við fullan aðskilnað stórfé, milljarða verðmæti. Þetta er þó hrein bábilja og kemur vitaskuld ekki til greina vegna þess fyrst og fremst að fjárstuðningur ríkisins við þjóðkirkjuna byggist ekki nema að hluta á sjónarmiðum um sérstöðu kirkjunnar sem þjóðkirkju heldur skýrum rökum um sögulegt eignarréttartilkall hennar til þeirra kirkjujarða og kirkjueigna, sem ríkinu voru endanlega fengnar í hendur með samkomulaginu frá 1997. Hverfi ríkisvaldið frá þessum stuðningi við kirkjuna raknar tilkall hennar til afhentra eigna að sjálfsögðu við. Þessi grundvallarstaðreynd verður að vera öllum skýr og ljós.”

Þjóðkirkjan reisir sjónarmið sín á því að umsvif hennar hafi aukist verulega í kjölfar hrunsins, bæði hvers kyns hjálparstarf og margvíslegur annar stuðingur í rúmhelgri önn hversdagsins þar sem ótti og reiði og vonleysi höfðu gripið um sig og nauðþurftir víða á þrotum. Þess vegna sé það hvorki rétt né sanngjarnt að niðurskurður framlaga til kirkjunnar verði 9% að þessu sinni eins og almennt er í stjórnsýslunni heldur miklu fremur nær þeim 5% niðurskurði sem velferðarþjónustan sætir.

Á síðasta ári og í ár hefur þjóðkirkjan tekið á sig allan þann niðurskurð sem ríkisvaldið óskaði eftir. Vegna hins brýna hlutverks þjóðkirkjunnar í velferðarþjónustu samfélagsins og forgangsröðunar í samfélaginu um þessar mundir verður hins vegar að stemma á að ósi og sýna kirkjunni skilning og sanngirni. Á þessu ári hefur þjóðkirkjan með samningi við ríkisvaldið og staðfestingu Alþingis og kirkjuþings skorið niður um 170 milljónir króna auk þess sem sóknargjöldin hafa jafnframt verið skert verulega. Þetta er um það bil sama fjárhæð og nú á að láta af hendi rakna úr ríkissjóði til að minnast þess að brátt eru 200 ár liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar, m.a. til að leggja nýja heimreið og fjölda bílastæða á fæðingarstað forsetans, Hrafnseyri við Arnarfjörð. Fáir þekkja betur til aðstæðna á Hrafnseyri en þeir Hallgrímur Sveinsson fyrrum bóndi og staðarhaldari þar í 40 ár og Hreinn Þórðarson bóndi á Auðkúlu í Arnarfirði. Þeir vísa þessum fyrirætlunum á bug sem þarflitlum í Opnu bréfi til Íslendinga í Morgunblaðinu 10. ágúst sl. Þeir segja í lokin: „Þetta bréf er skrifað til að vekja athygli á óþarfa peningaaustri úr sameiginlegum sjóði þjóðarinnar. Spyrja má hvort við Íslendingar eigum ekki að stíga á stokk í tilefni af afmæli Jóns forseta og strengja þess heit að hætta öllu óþarfa bruðli. Það mundi honum örugglega þykja góð afmælisgjöf.”

Þetta er skýrt dæmi af mörgum um ranga forgangsröðun í þjóðfélaginu þar sem á öllu veltur nú um stundir að hlúa að velferð, samhjálp, skilningi og kærleika.

Um höfundinn7 viðbrögð við “Þjóðkirkjan biður ekki um hlífð heldur sanngirni”

 1. Ragnar Kristján Agnarsson skrifar:

  Min skoðun er að Pétri Kr. Hafstein mælist vel í ofanskráðri grein og komi framm réttmætum sjónarmiðum.
  Annað er það sjónarmið sem ég persónulega vill vekja athygli á, sem er að fá öflugan fréttaflutning af öllu því mikla jákvæða starfi sem fer framm innan þjóðkirkju og annara kristinna safnaða. Er þetta hér skrifað vegna þeirra tilfynnigar minnar sem venjulegs sjómanns, að við heimkomu af hafi heyri ég umfjallannir fjölmiðla sem eru ekki byggðar á sanngirni gagnvart miklu starfi kirkjunnar og markar grunn að samfélagsímynd íslenskrar þjóðar.

 2. Jón Kristniboði skrifar:

  Er ekki bara komið að aðskilnaði ríkis & kirkju?

  Er hægt að þjóna tveimur herrum mammonni (Peningavaldinu) og guði?

  Hvað teldi kirkjan sig eiga inni hjá ríkinu ef að aðskilnaði yrði?

  Getur kirkjan verið sjálfstæð ef hún þarf alltaf að vera að bukta sig og beygja fyrir dómsmálaráðherranum/ríkinu?
  >Hvort sem um er að ræða kynvillugiftingar eða launakjör.

 3. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Pétur Kr. Hafstein ræddi þessi tengsl líka í ræðu sinni við setningu aukakirkjuþings fyrr í þessum mánuði. Þá sagði hann:

  Ýmsir virðast telja, í gálausu tali um aðskilnað ríkis og kirkju, að verði 62. gr. stjórnarskrárinnar um þjóðkirkjuna og stuðning ríkisvaldsins við hana felld brott muni kirkjan sjálfkrafa hætta að njóta þeirra framlaga úr ríkissjóði, sem samið hefur verið um á grundvelli eignaskila ríkis og kirkju – ríkinu sparist við fullan aðskilnað stórfé, milljarða verðmæti. Þetta er þó hrein bábylja og kemur vitaskuld ekki til greina vegna þess fyrst og fremst að fjárstuðningur ríkisins við þjóðkirkjuna byggist ekki nema að hluta á sjónarmiðum um sérstöðu kirkjunnar sem þjóðkirkju heldur skýrum rökum um sögulegt eignarréttartilkall hennar til þeirra kirkjujarða og kirkjueigna, sem ríkinu voru endanlega fengnar í hendur með samkomulaginu frá 1997. Hverfi ríkisvaldið frá þessum stuðningi við kirkjuna raknar tilkall hennar til afhentra eigna að sjálfsögðu við. Þessi grundvallarstaðreynd verður að vera öllum skýr og ljós.“

  Annars vil biðja þig að nota ekki orðið „kynvilla“ um samkynhneigð á þessum vef Jón. Þetta er niðrandi og særandi orðalag.

 4. Friðrik J. Hjartar skrifar:

  Þakka Pétri góðan málflutning.
  Eftir því sem ég veit best hefur lengi verið vilji innan kirkjunnar til aðskilnaðar við ríkið. Það breytir því ekki að aldrei hefur verið pólitískur vilji hjá stjórnvöldum til að ganga til þessa aðskilnaðar. Þar strandar málið en ekki hjá kirkjunni.

 5. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  > skýrum rökum um sögulegt eignarréttartilkall hennar til þeirra kirkjujarða og kirkjueigna,

  Hefur átt sér stað einhver alvöru umræða um þetta mál - eða dugir að kirkjan telji þetta svona skýrt?

  Þykir Pétri (ég veit, hann mun hvorki lesa athugasemdina né svara) einhverju máli skipta að hér á landi var ekkert trúfrelsi á þeim tíma er kirkjan eignaðist þessari kirkjujarðir og kirkjueignir?

  Teljur Pétur að það geti verið hugsanlega að ríkið hafi þegar greitt kirkjunni margfalt verðmæti þessara eigna eins og haldið er fram í grein á Vantrú?

 6. Halldór Logi Sigurðarson skrifar:

  “Vegna hins brýna hlutverks þjóðkirkjunnar í velferðarþjónustu samfélagsins og forgangsröðunar í samfélaginu um þessar mundir […]”
  Hvaða brýna hlutverk? Ætti ekki frekar að nýta þann auð er fer inn í Þjóðkirkjuna, sem mismunar fólki af öllum skoðunum, í alvöru uppbyggingu á samfélagi en ekki í ofurlaun presta? Eða setja peningana í velferðarþjónustu sem allir geta notað, eða nota yfirleitt?

 7. Berglind skrifar:

  Kæra kirkja, ég tel vera kominn tími til að leggja aðskilja kirkju og ríki, það mundi spara ríkini og venjulegu fólki mikla peninga. Ferming, skírn og öll þjónusta kirkjunnar er ekki gjaldfrí og er þessi þjónusta mikill baggi á barnmörgum fjölskyldum í landinu. Það þarf að setja af stað skoðanakönnun um þetta mál og ég hef grun um hver niðurstaðan verður núna, ekki síst í ljósi þessa hræðilega máls um séra Ólaf Skúlason, en kirkjan virðist hafa verið algerlega blind á þennan eintakling sem var ekkert nema skrímsli sem nauðgaði barni sínu og eflaust tugum kvenna sem ekki hafa látið málið fara hátt. Nú er mælirinn fullur, venjulegu fólki er misboðið og við viljum aðskilnað frá þessari peningasugu frá ríkinu, kirkjan getur séð um sig sjálf. Það var ekki í anda Jesú Krists né Guðsorkunnar að baða sig í gull kirtlum í marmarahöllum. Jésús var fátækur af veraldlegum hlutum en ríkur í anda. Aldrei mundi ég leita til prests með mín vandamál ég er mjög trúuð en ekki á þá trú sem kirkjan boðar það er skrumskæling á alheimsorkunni sem er algóð og umvefjandi. Kirkjan og kikjunnarmenn og konur þjóna sjálfum sér, liggja á ríkinu eins og sníkjudýr. Því miður fyrir kirkjuna þá tala ég fyrir munn margra, en ég var á fundi í gærkvöldi þar sem margir komu saman og ræddu þessi mál.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 5306.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar