Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Þórhallur Heimisson

Þjóðkirkja - ríkiskirkja

31. ágúst 2010

Þann 26. ágúst síðastliðinn barst sú frétt að Árni Þór Sigurðsson þingmaður VG ætli sér að leggja fram tillögu fyrir Alþingi í haust um að skilið verði að fullu milli ríkis og kirkju. Í viðtölum sínum við fréttamenn um málið segir þingmaðurinn meðal annars: “Kirkjan þarf auðvitað að taka á sínum málum burt séð frá því hvort hún er ríkiskirkja eða ekki”.

Eitthvað virðist þingmaðurinn hafa misskilið hugtakið ríkiskirkja. Og þar með líklega um leið hvað Þjóðkirkja stendur fyrir. Nú er það svo að skipan málefna kirkjunnar hefur verið með margvíslegum hætti í gegnum söguna. Og er enn. Ríkiskirkjur kallast þær kirkjur sem eru algerlega háðar ríkisvaldinu um alla hluti og ráða sér á engan hátt sjálfar. Danska kirkjan er til dæmis næst því að vera slík ríkiskirkja norrænu Þjóðkirknanna. Þar í landi er kirkjan algerlega háð ríkinu, getur ekki einu sinni tekið til notkunar nýja sálmabók eða Biblíuþýðingu án þess að danska þingið samþykki útgáfuna. Danskir biskupar eru valdir af kirkjumálaráðherra og allur rekstur kirkjunnar er settur undir ráðherra.

Þessi er öfugt farið hér á landi. Þjóðkirkjan íslenska er frjálst og sjálfstætt trúfélag. Hún ræður öllum sínum innri málefnum sjálf innan lagaramma ríkisins. Hver söfnuður Þjóðkirkjunnar er sjálfstæður varðandi eigin rekstur sem byggir á sóknargjöldum sem ríkið innheimtir fyrir Þjóðkirkjuna eins og öll önnur trúfélög. Auk þess greiðir ríkið laun presta, prófasta, vígslubiskupa og biskupsembætisins á grundvelli samnings frá 1907 milli ríkisins og kirkjunnar. Þá afhenti kirkjan ríkinu allar þær jarðir er áður höfðu staðið undir rekstri embættanna. Í staðinn skyldi ríkið greiða laun presta. Þessi samningur var endurnýjaður árið 1997.

En hvað er Þjóðkirkja? Með hugtakinu Þjóðkirkja er átt við kirkju sem stendur traustum fótum í þjóðlegri hefð og sögu hefur fylgt þjóð sinni um aldir. Þjóðkirkja er kirkja þjóðar, vill veita þjóðinni allri þjónustu sína og eiga með henni samleið. Slík kirkja gengur með þjóðinni allri í gleði og sorg, af því að þjóðin vill eiga með henni samleið, án þess þó að önnur trúfélög njóti ekki sama frelsis og allir borgarar ríkisins fulls trúfrelsis.

Danski presturinn og sálmskáldið N.F.S. Grundtvig sem uppi var á 19. öld mótaði hugmyndina um Þjóðkirkjuna og taldi að umfram allt ætti kirkjan að vera “folkelig” eða kirkja fólksins í landinu. Enda kallast danska kirkjan “Folkekirke” - kirkja fólksins. Sama hugtak notaði Grundtvig er hann lagði grunn að dönsku lýðháskólahreyfingunni og kallaði þá skóla “Folkehöjskole” – skóla fólksins, alþýðunnar.

Íslenska Þjóðkirkjan á hugmyndafræði Grundtvigs sameiginlega með dönsku kirkjunni og öðrum norrænum kirkjum. Íslensk þjóð og kirkja fólksins eru samofin. Auðvitað getur farið svo að kirkjan fjarlægist svo fólkið að hún hætti að vera kirkja fólksins. Enn hefur það ekki gerst og fólk heldur áfram að sækja kirkjuna sína í gleði og sorg. Þjóðkirkjan starfar um allt land við sálgæslu, áfallahjálp, andlegan stuðning, handleiðslu og huggun. Fólk sækir til prestanna í viðtöl um sín persónulegu málefni. Hjón sem geta ekki lengur talað saman fá stuðning og styrk til að leita nýrra leiða hjá starfsmönnum Þjóðkirkjunar. Einmana og sorgmæddir fá huggun og samfélag, sjúklingar eru sóttir heim, öldruðum veitt andleg aðhlynning, börnum og unglingum veitt leiðsögn og athvarf á tímum hraða, og félagslegs kulda. Fræðsla í forvörnum er sett á oddinn í unglingastarfinu. Fjölmargt starfsfólk með margskonar menntun og lífreynslu leggur sig fram um að þjóna þjóðinni í Þjóðkirkjunni. Enn fleiri vinna sjálfboðaliðastörf, vilja ekki einu sinni láta þakka sér fyrir heldur starfa í leynum. Og aldrei er sá sem til kirkjunnar leitar spurður um trúfélagsaðild. Þjóðkirkjan þjónar öllum. Á spítulunum fara fram viðtöl milli sjúklinga, aðstandenda, starfsmanna og presta eða djákna. Þjónusta Þjóðkirkjunnar sem fram fer í leynum, fjarri kastljósi fjölmiðlanna, það er sálgæsla í sinni víðustu mynd, sálgæsla við heimilin, sálgæsla á sjúkrastofnunum, sálgæsla í skólum og á elliheimilum, sálgæsla við leik og störf.

Þetta er hin þjónandi Þjóðkirkja, kirkjan sem er jafn virk á Suðureyri og Selfossi, Akureyri og Akranesi, Raufarhöfn og í Reykjavík. Íslenski fáninn, þjóðsöngurinn sem er sálmur, hátíðir kirkjuársins, tungan og þjóðmenningin undirsstrika síðan hin sterku tengsl Þjóðkirkju og þjóðar. Þjóðkirkju sem er fyrst og fremst kirkja fólksins. Kirkja almennings. En er ekki og verður aldrei kirkja ríkisins.

Um höfundinn19 viðbrögð við “Þjóðkirkja - ríkiskirkja”

 1. Arnaldur Finnsson skrifar:

  Góðan daginn! - einsog borgarstjórinn sagði, og þakka þennan pistil. Hann er öllu skýrari en það sem kom, eða kom ekki fram í Kastljósinu fyrir viku síðan. Aftur á móti er að nokkru hæpið að tengja Fólks-kirkjuna beint nafni Grundvigs án þess að minnast á Schleiermacher sem er höfundur hugtaksins, á þýsku: Volk-kirche. (Segir Dr.dr. Sigurjón Árni). Ég er sammála því að stefna þjóðkirkju hvar sem er - þó þær séu nú bara til í N-Evrópu - er sú að sinna almenningi burtséð frá trúfélagsaðild og það er grundvallaratriði. Þó hún sé minnihlutatrúfélag þá á hún að gera það; það er sú menning og hugsjón sem ísl.kirkjan á að standa fyrir. Aftur á móti er mikilvægt að minnast þess í hinu danska samhengi að Grundvig t.d. var ekki ‘þjóðkirkjuprestur’, heldur hluti af safnaðarstarfi sem var ekki staðbundið á sama hátt og hefðbundin sókn (minnir mig). Leysing sóknarbands í upphafi 20.aldar var hluti af áhrifum þessara dönsku reglna, en þessi semi-kongregationella hugsun náði ekki til Íslands m.a. sökum flokkadrátta innan kirkjunnar og sjálfstæðisbaráttunnar. Ég læt þetta ekki verða lengra að sinni, en vil enda á spurningu til þín Þórhallur, hvernig þú metur það: Myndi það vera þjóðkirkjunni til góða ef svipað fyrirkomulag væri og í Danmörku og fólki væri það frjálst á Íslandi að skrá sig í hvaða sókn sem er, stofna nýja sókn jafnvel í kringum vinsælan prest? Ég minni t.d. á þróun í þá átt sem átti sér stað, sbr. greiningu dr. Péturs Péturssonar, með tilkomu Kvennakirkjunnar.
  Bendi í framhjáhlaupi, fyrir áhugasama, á grein um aðskilnað ríkis og kirkju, í vefriti guðfræðinema: ordid.hi.is.

  góðar stundir.

 2. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Sæll og þakka þér. Já, ég er að reyna að benda á þá hugmyndafræði sem stendur að baki norrænu Þjóðkirkjunum - óháð því hvaðan hugtakið sjálft er komið.

  Það mætti líka þýða ÞJÓÐKIRKJA sem National Church og túlka hana sem etnískan veruleika,út frá þjóðernishyggju, þ.e. íslensk kirkja fyrir Íslendinga. Það held ég nú að enginn geri (med fulle fem svo vitnað sé í dönskuna).

  Hin norræna þjóðkirkjuhugsjón eins og hún hefur þróast með ólíkum hætti eftir löndum er hugsjón Grundtvigs - folkelig, fyrir alla, almenning, alþýðu, fólkið. Hún er ekki embættismannakirkja - ekki aristókratísk kirkja. Lesandinn athugi það.
  Sú kirkja sem setur sig á aristókratískan sess er ekki lengur Þjóðkirkja.

  Sjálfur hef ég starfað sem prestur í sænsku kirkjunni og var alinn upp til 11 ára aldurs í þeirri dönsku og norsku, þar sem faðir minn kenndi á dönskum og norskum lýðháskóla sem danska kirkjan og Indre misson stóðu að. Og ég hef unnið sjálfur mikið með finnsku kirkjunni (ekki í nafni eða sem fulltrúi hinnar íslensku heldur fyrir eigin kostnað og áhuga.)

  Ég þekki því vel hinar alþýðlegu kirkjur Norðurlanda.

  Danska kerfið hér? Ekki vil ég það hvað varðar það að danska kirkjan er ríkiskirkja. Hitt þekki ég ekki nógu vel, en öllum er frítt að stofna fríkirkjur hér á landi.

 3. Arnaldur Finnsson skrifar:

  Sæll Þórhallur og þakka viðbrögðin, og ekki efast ég um að þú þekkir vel til kirkjulífsins á Norðurlöndunum. En þarna stendur samt hnífurinn í kúnni því Grundvig var Indre Mission maður, gott ef ekki Biskup yfir ákveðnu svæði. ´Og það er það sem ég á við að danska kerfið hafi boðið uppá, hvernig sem það svo fúnkerar í dag: semsagt Grundvig hafði sína sókn sem samanstóð af þeim sem vildu hans áherslur, en á sama svæði voru aðrar sóknir - og þær jafnvel miklu aristókratískari… þó danska kirkjan hafi á sama tíma heitið ‘folkekirke’ ; rétt eins og þingið heitir á hinum ‘folketinget’ (ekki satt?). Við getum samt ekki haldið því fram að alþingi sé eitthvað alþýðlegt, þrátt fyrir svona hugtakanotkun. Nú vil ég taka fram að ég er ekki að rífast, heldur að vísa í áherslur Sigurjóns Árna í hans námskeiðum og bók um efnið. Hvergi nefnir hann Grundvig. Ég er aftur á móti sammála þér að við ættum að hafa miklu meiri Grundvigskar áherslur í okkar kirkju - og hugsjónin um lýðskólana er þar á meðal. Svo skulum við ekki gleyma því að lýðskóli sem danska kirkjan stendur að - það er lýðskóli sem danska ríkið stendur að og er ekkert sérstakt kirkjulegt kærleiksverk sem rekið er á kostnað sóknargjalda viðkomandi safnaðar.
  Ég vil leiðrétta misskilninginn um að ég vilji danska kerfið hér - heldur er ég að nefna Kvennakirkjuna sem dæmi um ’safnaðarstarf’ - nokkurskonar sókn - sem ekki er staðbundið heldur ferðast um og snérist í upphafi um ákveðna guðfræði og prest sem hélt áfram að vera á launum hjá Þjóðkirkjunni þartil starfsævinni lauk (á þeim forsendum). Síðan þá hefur ekki verið ráðinn nýr prestur til að sinna þessari kirkju, en þær rekið sitt starf sjálfar með aukagjöldum (því allar borga konurnar enn sóknargjöld í þjóðkirkjuna) ásamt örlitlu framlagi frá Þjóðkirkjunni. Hefði ekki verið eðlilegt að hlú betur og áfram að vaxtarbroddi sem þessum í landslagi þeirra safnaða sem rúmast undir þeirri regnhlíf sem Þjóðkirkjan er (eins og kollega þín Guðbjörg sagði í prédikun síðasta sunnudags?).

  Að lokum, er það þá ekki rétt greining að íslenska þjóðkirkjan hafi verið jafn mikil ríkiskirkja og sú danska, fram til ársins 1997?

 4. Arnaldur Finnsson skrifar:

  Í áframhaldi af þessu vil ég biðjast afsökunar á því að stafsetja nafn Grundtvigs ranglega, en auka við þeim upplýsingum sem voru eftir minni og á reiki í fyrri færslu. Grundtvig var umdeildur prestur og mjög pólítískur, en jafnframt mikill hugsuður og vinsæll meðal alþýðu manna. Hann átti aftur ekki uppá pallborðið hjá aristókratíunni að því leyti að honum væri úthlutuð sókn heldur var hann sjúkrahúsprestur, sem seinna hlaut biskupstign í þeirri dönsku ríkiskirkju án þess að tigninni fylgdi neitt ákveðið biskupsdæmi.
  Meginatriðið er þó það að Grundtvig var talsmaður þess að hver og einn söfnuður hefði fullkomið sjálfstæði gagnvart einhverskonar yfirstjórn kirkjunnar og er það einmitt raunin á þeim bænum. Ég veit ekki til annars en að einmitt sá skilningur hafi gert dönsku kirkjunni erfitt að taka þátt í ýmsu norrænu og eukomenisku samstarfi (eins og t.d. Poorvo-samþykktinni); þ.e. sá skilningur að hver og einn prestur hafi umboð sitt aðeins frá sínum söfnuði en ekki „að ofan“.
  Það er sú kongregationella hugsun sem var uppi á borðinu hjá kirkjustjórninni hér á landi fyrir u.þ.b. 100 árum (Þórhallur Bjarnason) og ég er að vísa til með orðum mínum. Góðar stundir.

 5. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Ég held við séum á sama máli Arnaldur. Ég hef lengi saknað Grundtvigs og hugsjóna hans í umræðu kirkjunnar hér á landi. Sem evt sést af því að lítið sem ekkert er um hann rætt af íslenskum guðfræðingum (Sbr tilvitnanir þínar hér í kennslubækur HÍ). Hann lagði mikla áherslu á alþýðleika kirkjunnar, en um leið að mestu skipti að sérhver maður kæmist til nokkurs þroska.

  Hann vildi efla sjálfstæði safnaða og draga úr áhrifamætti kirkjustjórnar, biskupavalds og annars kirkjulegs yfirvalds. Slagorð hans (eitt af mörgum) var “menneske först og kristen saa” - “Fyrst manneskja - síðan kristinn” - sem sagt það er til lítils að krefjast trúar af fólki sem er í öngum sínum í lífinu, brotið og smáð. Fyrst er að hjálpa fólki í neyð þess - hjálpa fólki til mennsku - síðan er hægt að ræða trúmál. Það tel ég líka vera hlutverk kirkjunnar - að berjast gegn öllu sem minnkar mennsku einstaklingsins - og er því á móti hákirkjulegri embættismannastofnun - en predika kirkju fólksins.

  Varðandi hugtök þá tala danskir Grundtviganar um “folkelighed” sem er erfitt að þýða -ekki alþýðleiki og heldur ekki þjóðlegheit,heldur evt eins merking og í stjórnarskrá USA “We the people…”. Þjóðkirkjan ætti að temja sér slíka “folkelighed”.

  Þakka þér spjallið

 6. Halldór Logi Sigurðarson skrifar:

  Hvernig getur Þjóðkirkjan verið svona sjálfstæð ef að hún þarf að taka við milljörðum króna á ári frá ríkinu til þess að standa undir greiðslum? Er kirkjan þá ekki í raun háð ríkinu, líkt og barn móður, og þar með ósjálfstæð?

 7. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Lestu betur Halldór:

  “Þjóðkirkjan íslenska er frjálst og sjálfstætt trúfélag. Hún ræður öllum sínum innri málefnum sjálf innan lagaramma ríkisins. Hver söfnuður Þjóðkirkjunnar er sjálfstæður varðandi eigin rekstur sem byggir á sóknargjöldum sem ríkið innheimtir fyrir Þjóðkirkjuna eins og öll önnur trúfélög. Auk þess greiðir ríkið laun presta, prófasta, vígslubiskupa og biskupsembætisins á grundvelli samnings frá 1907 milli ríkisins og kirkjunnar. Þá afhenti kirkjan ríkinu allar þær jarðir er áður höfðu staðið undir rekstri embættanna. Í staðinn skyldi ríkið greiða laun presta. Þessi samningur var endurnýjaður árið 1997.”

 8. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Eitthvað virðist þingmaðurinn hafa misskilið hugtakið ríkiskirkja. Og þar með líklega um leið hvað Þjóðkirkja stendur fyrir. Nú er það svo að skipan málefna kirkjunnar hefur verið með margvíslegum hætti í gegnum söguna. Og er enn. Ríkiskirkjur kallast þær kirkjur sem eru algerlega háðar ríkisvaldinu um alla hluti og ráða sér á engan hátt sjálfar.

  Kannski notar þingmaðurinn bara aðra skilgreiningu á ríkiskirkja heldur en þú.

  Til dæmis virðist prófasturinn Gunnar Kristjánsson telja að Þjóðkirkjan sé ríkiskirkja:

  Ég tel að íslenska þjóðkirkjan sé ríkiskirkja eins og t.d. danska þjóðkirkjan. Í greinargerðum mínum á Kirkjuþingi með fyrri lagafrumvörpum um þetta efni var farið ofan í saumana á þessu og m.a. bent á doktorsritgerð dr. Bjarna Sigurðssonar sem gerir ráð fyrir því að íslenska þjóðkirkjan sé ríkiskirkja, hún er tengd ríkisvaldinu með sérstökum hætti og m.a. skipar forseti Íslands biskup Íslands. #

  Með hugtakinu Þjóðkirkja er átt við kirkju sem stendur traustum fótum í þjóðlegri hefð og sögu hefur fylgt þjóð sinni um aldir.

  Ég hef einnig heyrt aðrar skilgreiningar á “þjóðkirkja”.

  Ég held að þú verðir bara að sætta þig við það að annað fólk notar orðið “ríkiskirkja” í annarri merkingu, merkingu sem passar við Þjóðkirkjuna.

 9. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Sæll Hjalti. Auðvitað verður dr.Gunnar sjálfur að svara fyrir sig. En þú vilt kannski upplýsa okkur um aldur þessarar tilvitnunar, hvaðan hún er tekin, og hvaða ár doktorsritgerð Bjarna Sigurðssonar var rituð?

 10. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Svona á meðan þú ert að athuga málið Hjalti, þá getur þú gluggað í eftirfarandi um Kirkjuþing.

  Kirkjuþing starfar á grundvelli laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78 frá 1997. Samkvæmt ákvæðum þeirra fer það með æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar innan lögmæltra marka, þ.e. nema önnur ákvæði þeirra eða annarra laga mæli fyrir um annað.

  Á kirkjuþingi eiga sæti 29 kjörnir fulltrúar, 12 vígðir menn og 17 leikmenn, auk þess biskup Íslands, tveir vígslubiskupar og einn fulltrúi guðfræðideildar Háskóla Íslands með málfrelsi og tillögurétt. Hinir kjörnu fulltrúar eru kosnir í níu kjördæmum, sem ná yfir eitt eða fleiri prófastsdæmi og úr hverju þeirra kemur einn vígður maður og einn leikmaður, nema úr þremur þeim fjölmennustu, tveimur Reykjavíkurprófastsdæmum og Kjalarnessprófastsdæmi. Þar eru tveir vígðir menn og þrír leikmenn úr hverju kjördæmi. Auk þess eru tveir leikmenn fyrir Eyjarfjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi og tveir leikmenn fyrir Árnes-, Rangárvalla-, og Skaftafellsprófastsdæmi.

  Forseti kirkjuþings er kosinn til fjögurra ára úr röðum leikmanna. Á þinginu starfa allsherjar-, fjárhags- og löggjafarnefnd og eiga allir fulltrúar, nema forseti, sæti í einhverri þeirra.

  Með þjóðkirkjulögunum frá 1997 var kirkjuþingi fengin heimild til að skipa með starfsreglum flestum þeim málefnum, sem áður var gert með lögum frá Alþingi eða reglugerðum frá kirkjumálaráðuneytinu”.
  ——————–
  PS ritgerð dr.Bjarna, endilega mundu að finna út hvenær hún var rituð minn kæri.

 11. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Sæll, eitthvað hefur vísunin í þessi ummæli klikkað, átti að vera í #-inu aftan á tilvitnuninni. Vonandi virkar þetta núna: Athugasemdir Gunnars

  Ég veit ekki frá hvaða ári þessi ritgerð sem Gunnar vísar í, en mér sýnist Gunnar koma útskýra þarna af hverju hann telur Þjóðkirkjuna vera ríkiskirkju: hún er tengd ríkisvaldinu með sérstökum hætti.

  Ég og aðrir notum orðið ríkiskirkja til að tala um það trúfélag sem nýtur forréttinda og sérstakrar verndar ríkisins.

 12. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Eitt í viðbót:

  Og aldrei er sá sem til kirkjunnar leitar spurður um trúfélagsaðild. Þjóðkirkjan þjónar öllum.

  Þetta er í mótsögn við upplýsingar á heimasíðu Þjóðkirkjunnar um hjónavígslu:

  Þessvegna verður amk annað brúðhjónanna að tilheyra Þjóðkirkjunni… #

 13. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Sæll Hjalti. Sú ritgerð sem hér er vitnað til eftir dr.Bjarna er frá 1985 og fjallar því um allt annan lagaramma en þann sem nú er uppi. Gunnar vitnar hér í sjálfan sig á Kirkjuþingi 1997, aftur fjórum árum fyrir hin nýju Þjóðkirkjulög. En þetta er án efa hans skoðun og verður hann að skýra hana.

  Þjóðkirkjan þjónar öllum og styður alla í gleði og sorg. Hvað varðar lögformlegar athafnir eins og hjónavígslu er prestur í tveimur hlutverkum, vígslumaður ríkis og fyrirbiðjandi kirkjunnar. Sem slíkur fer hann eftir lögum um hjónavígslu.

  Þú veist alveg hvað ég er að tala um, en heldur þig auðitað við hártoganir eins og þú ert vanur. Enginn sem til kirkjunnar kemur og þarf á hjálp að halda er beðinn um Þjóðkirkjuvottorð.

 14. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Fyrirgefið, tilvitnun dr.Gunnars er frá 1993, ekki 1997

 15. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  En þetta er án efa hans skoðun og verður hann að skýra hana.

  Mér sýnist hann einmitt gera það. Mér þykir það ljóst að hann notar allt aðra skilgreiningu en þú á “ríkiskirkja” og því sé ekki sanngjarnt að segja að Árni Þór misskilji það hugtak ef hann notar það í annarri merkingu en þú.

  Ég held ekki að þetta séu hártoganir, þú talar um að kirkjan þjóni öllum án þess að pæla í aðild fólks og ég tel það sjálfsagt að flokka hjónavígslu sem þjónustu Þjóðkirkjunnar. Og það er alls ekki vegna þess að hann sé “vígslumaður ríkis” að þess er krafist að viðkomandi sé í Þjóðkirkjunni.

 16. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Hjalti, þú hefur á röngu að standa- kirkjan þjónar öllum. Svona er það. Sættu þig við það.

  Eins og ég benti þér á er skoðun Gunnars byggð á rökræðu sem átti sér stað fyrir lagabreytingar 1997.

  Þingmaðurinn ættu nú að kannast við þær, sitjandi í samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar. Og ætti að vita betur.

  Lestu betur.

 17. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Hjalti, þú hefur á röngu að standa- kirkjan þjónar öllum. Svona er það. Sættu þig við það.

  Hún veitir ekki utankirkjufólki þá þjónustu að gifta fólk. Svona er það. Sættu þig við það.

  Eins og ég benti þér á er skoðun Gunnars byggð á rökræðu sem átti sér stað fyrir lagabreytingar 1997.

  Þingmaðurinn ættu nú að kannast við þær, sitjandi í samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar. Og ætti að vita betur.

  Eins og ég benti á segir Gunnar að ástæðan fyrir því að Þjóðkirkjan er ríkiskirkja sé sú að “hún er tengd ríkisvaldinu með sérstökum hætti og m.a. skipar forseti Íslands biskup Íslands.

  Þetta á enn við núna árið 2010, þannig að það er alveg hárrétt hjá þingmanninum að kalla Þjóðkirkjuna ríkiskirkju ef hann notar orðið í sömu merkingu og Gunnar.

 18. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Hjalti minn. Lestu betur.

 19. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Þórhallur minn, hvað viltu að ég lesi betur?

Allur réttur áskilinn © 2000-2018 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 3570.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar