Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Pétur Björgvin Þorsteinsson

Kirkjan mótmælir ofbeldi gegn konum

Á borði mínu liggur bæklingurinn„Kirkjan mótmælir ofbeldi gegn konum“ sem Þjóðkirkjan gaf út árið 2003 í íslenskri þýðingu Ragnheiðar Margrétar Guðmundsdóttur. Bæklingurinn hefur að geyma framkvæmdaáætlun sem Lútherska heimssambandið stóð á bak við. Ég man hve vongóður ég var þegar ég hélt fyrst á þessum bæklingi fyrir sjö árum. Ég hélt að við sem íslensk kirkja værum á réttri leið, loksins að taka skref til að losna undan myrkum hliðum karlaveldis miðalda. Fréttir og viðtöl í fjölmiðlum síðustu daga hafa birt mér aðra mynd. Mér líður eins og ekkert okkar í kirkjunni hafi lesið þessa framkvæmdaáætlun, fylgt henni eftir né tekið eitt einasta skref í þá átt að berjast gegn ofbeldi í einhverri mynd.

Þó veit ég betur. Ég hef horft á biskupa, presta, djákna, æskulýðsfulltrúa og fleiri í söfnuðum íslensku þjóðkirkjunnar nota þessa áætlun sem og önnur verkfæri til að taka á því alvarlega vandamáli sem ofbeldi gegn konum er. Og ég veit að þessi hópur er stór innan kirkjunnar. Mörg hafa einnig leitað sér þekkingar og færni á öðrum stöðum og verið virk í því að leggja sitt fram þannig að sigrast megi á þeirri synd sem ofbeldi gegn konum er. Í aðfaraorði að fyrrnefndum bæklingi minnir Ishmael Noko, sem þá var aðalritari Lútherska heimssambandsins á að„Guð þjáist með þolendum ofbeldis“ og hann hvetur okkur sem störfum í kirkjunni til að standa saman og sigrast á öllum tegundum ofbeldis,„því að ofbeldi er brot gegn Guði og mannkyni.“ Það er kominn tími til að við öll (ekki bara stór hópur innan kirkjunnar, heldur öll) gerum þessi orð að okkar orðum og lesum það sem við höfum sett á blað og förum eftir því! Í bæklingnum segir meðal annars:

Kirkjan er samfélag fólks sem er kallað til að frelsa kúgaða; köllunarverk kirkjunnar er að frelsa karla og konur undan menningu þar sem ofbeldi ríkir og koma á samfélagi lífsfyllingar og einingar. Í boðun sinni þarf kirkjan að hrista upp í þeim sem eru ánægð með ráðandi skipan og styðja þau sem eru misrétti beitt.

Það þarf óbilandi staðfestu, mikinn aga og samstillt átak til að vekja fólk til vitundar, hafa áhrif á gildismat þess og koma á fót athvarfi eða öðrum úrræðum fyrir þolendur ofbeldis. Kirkjan getur ekki lengur litið framhjá málefnum kvenna eins og henni komi þau ekki við. (Bls. 11).

Við sem þjóðkirkja höfum brugðist þessu hlutverki okkar. Það dugar ekki að benda á allt það sem vel hefur verið gert og rétt hefur verið að staðið. Jesús Kristur minnir sjálfur á að við bregðumst honum þegar við bregðumst EINU systkini hans (Matteusarguðsspjall, 25.kafli). Og orðin í bæklingnum sem bráðum er tíu ára virðast sem fyrr sönn og þau nísta í hjarta mér:

Það sem enn vantar tilfinnanlega er að prédikarar og fræðarar kirkjunnar lýsi opinberlega yfir vanþóknun sinni á ofbeldi gegn konum og að kirkjan viðurkenni hversu vanmáttug hún er gagnvart því. Kirkjan hefur allt of oft mætt ofbeldi gegn konum„með því að gera lítið úr því, gera það ósýnilegt eða framandi.“ Kirkjan verður því að grandskoða hvort„boðun hennar á fagnaðarerindinu hafi öldum saman ýtt undir tilhneigingu karla til að beita ofbeldi, stuðlað að valdaleysi kvenna og stúlkubarna og innrætt samfélaginu umburðarlyndi gagnvart ofbeldi innan fjölskyldunnar.“ (Bls. 14).

Í bæklingnum er einnig spurt hvað við getum gert. Þegar ég lít yfir þann lista finn ég huggun í því að sumt höfum við sem þjóðkirkja gert, en sú huggun er lítil því betur má ef duga skal. Þar stendur:

 • Gefið út opinbera yfirlýsingu um að allt ofbeldi sé synd sem lítilsvirðir mynd Guðs bæði í ofbeldismanninum og þolandanum og að þetta sé athæfi sem aldrei sé hægt að þola eða afsaka.
 • Upplýsið söfnuðina um að ofbeldi gegn konum fyrirfinnist í ýmsum myndum innan kirkjunnar og í kristnum samfélögum.
 • Markið stefnu og skipuleggið aðgerðir þar sem ofbeldismaðurinn þarf að taka afleiðingum gerða sinna bæði í kirkju og samfélagi.
 • Beinið sjónum að þessu málefni einu sinni á ári, helgið t.d. einn sunnudag á ári„samstöðu með konum“.
 • Ráðið starfsfólk til að taka á ofbeldi gegn konum, ráða bót á því og hafa eftirlit með því. Komið t.d. á fót starfshópi á vegum kirkjunnar.
 • Haldið námskeið fyrir presta og djákna um starfssiðfræði þar sem fjallað er sérstaklega um ofbeldi.
 • Fjallið um ofbeldi gegn konum í prédikunum, fermingarfræðslu og guðfræðilegri umræðu.
 • Komið af stað umræðum um þetta málefni hjá fræðsludeildum og í starfsþjálfun kirkjunnar.
 • Gerið kirkjuna að öruggu skjóli þar sem þolendur ofbeldis geta fundið athvarf, stuðning og uppbyggingu.
 • Gefið bæði þolandanum og ofbeldismanninum tækifæri til að byggja sig upp.
 • Tryggið ykkur stuðning og samstarf yfirvalda. (Bls. 15).

Svona mætti lengi upp telja. Nálgast má bæklinginn á vef kirkjunnar. Best er að hvert og eitt lesi bæklinginn sjálft og að ég láti þessum pistli lokið, ákveðinn í því að gera eftirfarandi orð að mínum:

Jesús lét skýrt í ljós samkennd sína með konum frá öllum lögum samfélagsins og sýndi hinum útskúfuðu og afskiptu sérstaka umönnun. Jesús rauf allar hefðir og forskriftir í meðvitaðri staðfestingu sinni á konum. Þessi afstaða Jesú er okkur fordæmi. (Bls. 36).

Þannig er það sannfæring mín að það er hlutverk hins kristna safnaðar að standa undantekningarlaust með þeim sem brotið er á, með þeim sem verða fyrir ofbeldi, með þeim sem einhverra hluta vegna líða fyrir það sem aðrir hafa gert, hvort heldur um karla eða konur er að ræða!!! Kirkjan þarf að taka afstöðu með lítilmagnanum, alltaf, á öllum stundum og taka slíka afstöðu fram fyrir allt annað, þar með talið embætti, titlatog og tengsl ríkis og kirkju.

Um höfundinn12 viðbrögð við “Kirkjan mótmælir ofbeldi gegn konum”

 1. Guðrún Kr. Þórsdóttir skrifar:

  Takk fyrir pistilinn en það er aðeins talað um konum sem er nauðsynlegt en hvað með fatlaða, seinþroska sem hafa verið misnotaðir andlega og líkamlega í gegnum aldir og ekki síður á okkar tímum? Hvað með okkur sem starfa innan kirkjunnar höfum við ekki líka verið beitt ofbeldi á stundum vegna okkar gerða t.d. með að standa með og greina frá skriflega um börn sem grunur leikur á að hafi orðið fyrir ofbeli? Það er aðeins talað um konur?? Mín fyrstu viðbrögð kveðja

 2. Þór Hauksson skrifar:

  Takk fyrir ágætan pistill. Tek undir með Guðrúnu en vil bæta við ofbeldi gagnvart körlum. Birtingamynd ofbeldis er ekki aðeins líkamlegt heldur og andlegt sem konur og karlar verða fyrir. Þú vitnar í bæklinginn þar sem segir. “Ráðið starfsfólk til að taka á ofbeldi gegn konum, ráða bót á því og hafa eftirlit með því. Komið t.d. á fót starfshópi á vegum kirkjunnar.
  •Haldið námskeið fyrir presta og djákna um starfssiðfræði þar sem fjallað er sérstaklega um ofbeldi.
  •Fjallið um ofbeldi gegn konum í prédikunum, fermingarfræðslu og guðfræðilegri umræðu.”

  Það vantar algjörlega að nefna drengi/karla. Umræðan um ofbeldi verður aldrei trúverðug ef þagað er um ofbeldi gagnvart karlmönnum sem vissulega er staðreynd eins og ofbeldi gagnvart konum. Það þarf að endurskoða þennan bækling áður en að farið verður að nota hann í ljósi umræðunnar tekið tillit til beggja kynja að ég tali ekki um ef hann er notaður í fermingarfræðslu þar sem drengir og stúlkur fá sömu fræðsluna.

 3. Pétur Björgvin Þorsteinsson skrifar:

  Komið þið sæl Guðrún og Þór og hjartans þakkir fyrir ykkar mikilvægu innlegg. Ég er mjög svo sammála ykkur um að þessi vinna megi ekki einangrast við ákveðið kyn eða hóp, gerendur og þolendur eru alls staðar í samfélaginu, utan og innan kirkjunnar, af öllum stærðum og gerðum.

  Mikilvægt í því samhengi sem þú nefnir Guðrún er sú umræða sem fór fram í aðdraganda aðalþings Alkirkjuráðsins (WCC) í Portó Alegre í febrúar 2006 en þar hittist fólk með og án fötlunar innan ramma EDAN (Ecumenical Disability Advocates Network). Þar vil ég sérstaklega benda á framsöguerindi sr. John Naudé sem fer fyrir samtökum í Bretlandi sem nefnast ,,Church Action on Disability” (CHAD). En eins og þú bendir réttilega á er umræðan ekki komin langt og verk að vinna.

  Að sama skapi, takk kærlega fyrir ábendinguna Þór. Okkur sem höfum sótt námskeiðið ,,Verndum þau” sem haldin hafa verið reglulega innan æskulýðsstarfs kirkjunnar hin síðustu ár ætti að vera þetta mjög ljóst og biðst ég afsökunar á því að hafa ekki bent á það samhengi í pistlinum mínum, en þær Ólöf Ásta Farestveit og Þorbjörg Sveinsdóttir, höfundar bókarinnar, tala um að á meðan að gerendur séu í flestum tilvikum karlkyns (ekki algilt) séu þolendur kynferðislegs ofbeldis oftar kvenkyns en jafnvel 20 - 30% þolenda karlkyns (Bls. 22).

  Ofbeldi birtist á fjölbreyttan hátt en það er alltaf synd, synd sem við þurfum að berjast gegn með öllum þeim ráðum sem við höfum. Umræða eins og þessi hér getur verið skref í þá átt. Takk aftur fyrir innleggin.

 4. Pétur Björgvin Þorsteinsson skrifar:

  Leyfi mér einnig í þessu samhengi að benda á að á vef Kvennaathvarfsins má nálgast skjal sem hefur yfirskriftina Ýmsar birtingarmyndir ofbeldis sem minnir okkur á að ofbeldið getur birst í svo ótal formum án þess að við förum nokkuð að ræða það ofbeldi sem einstaklingar á stríðshrjáðum svæðum etc. upplifa.

 5. Þór Hauksson skrifar:

  Varðandi prósentutölur um ofbeldi gagnvart drengjum þá eru til ýmsir sem vilja meina að þær tölur séu hærri en kemur fram í bók þeirra Ólafar Ástu og Þorbjargar eftir að rannsóknir sérfræðinga fóru meira að beinast að ofbeldi gangvart karlkyns þolendum. (ekki stríðsþjáðum svæðum) Samfélagið sem betur fer vegna baráttu Stígamóta og fleiri aðila sem berjast gegn ofbeldi hverskonar viðurkennir að ofbeldi eigi sér stað í skjóli þagnar og þorir að ræða það. Þögnin er nefnilega eitt form af ofbeldi. Sú barátta er sístæð en mín tilfinning er sú að falið ofbeldi gagnvart karlkyns þolendum er mun styttra á veg komið heldur en kvenkyns þolendum. Án þessa að ætla mér að fara í einhvern meting um það. Við erum stödd í þeim efnum á sama stað og þegar hinar ágætu konur sem stofnuðu Stígamót um árið og rufu þagnarmúr ofbeldis gagnvart konum. Þá er hægt að spyrja sig hverjum eða hverju er um að kenna. Ef við leitum af sögudólgum? Mín tilfinning er sú að samfélagið þá sérstaklega karlmenn eru ekki tilbúnir að viðurkenna innan sinna raða að ofbeldi gagnvart karlkyns þolendum af hendi karlmanna eða kvenna eigi sér stað í þeim mæli sem ýmsar rannsóknir hafa bent á. Við karlmennirnir höfum ekki staðið okkur (Ég ekki undanskilin) að ræða um þessa myrku þætti mannlífsins sem snýr að körlum og ofbeldi gagnvart þeim.

  Kynlífsofbeldi beinist ekki bara að konum, eða hafa menn gleymt Breiðavíkudrengjunum, á Kumbaravogi og víðar? Slíkt ofbeldi gegn drengjum og piltum er kynlífs- eða kynferðislegt ofbeld, hefur ekkert með kynbundið ofbeldi. að gera Það er engu minna alvarlegt, að þannig sé brotið gegn drengjum — sjálfsvíg eru skelfilega algeng í hópi fórnarlambanna þar. Þess vegna er mikilvægt í umræðunni hvort heldur riti eða öðru að benda á þessa staðreynd, drengjanna okkar vegna sem og stúlknanna.

  ES.
  Ég fagna og þakka fyrir pistillinn þinn Pétur sem er settur fram í hógværð og án allrar dómhörku sem því miður vill stundum bregða við þegar um þennan mikilvæga og viðkvæma málaflokk er að ræða.

  Stígamót eru samtök sem hafa unnið frábært starf á undanförnum árum - aðstoðað fjölda kvenna sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Einnig karlmönnum - þótt hlutfall þeirra sem leita til Stígamóta sé lágt.

  Þótt hlutfallið sé lágt - er þá víst að það gefi rétta mynd af kynferðislegu ofbeldi gagnvart drengjum?

 6. Pétur Björgvin Þorsteinsson skrifar:

  Þakka þér kærlega mikilvæga viðbót og upplýsingar Þór.

 7. Vigdís Ágústsdóttir skrifar:

  Hér er kannske besti staðurinn til að láta þá skoðun í ljós, að mér finnst að ekki eigi að segja Þjóðkirkja, heldur er þetta hrein Ríkiskirkja, rekin af íslenska ríkinu. Þjóðin hefur hins vegar ýmsar skoðanir á trúmálum, ekki satt ? Ekki er sagt Þjóðarútvarp,heldur Ríkisútvarp , já og Landspítali í stað þess að segja Þjóðarspítali…þó að þetta sé auðvitað hvort tveggja í eigu þjóðarinnar. Ríkið og þjóðin er ekki alveg sama meiningin samt, sýnist mér..Ég sagði mig reyndar úr “Þjóðkirkjunni” loksins um daginn, mál til komið

 8. Pétur Björgvin Þorsteinsson skrifar:

  Þakka þér fyrir þetta innlegg þitt Vigdís. Hvet þig til að kynna þér upplýsingar á vef kirkjunnar Hvað er þjóðkirkjan?.

 9. Guðrún Kr. Þórsdóttir skrifar:

  Blessaður Pétur og Þór mikið er ég þér sammála Þór um ofbeldið gagnvar drengjum það var einmitt það sem kom upp í hugann þegar ég las grein biskups um ofbeldi gegn konum og börnum. Ég var þátttakandi í að aðstoða drengina frá Breiðuvík á sínum tíma í Laugarneskirkju og öll sú umræða kom upp í hugann. Vonandi verður tekið betur á málum í þessum efnum nú í framtíðinni. Þakka ég ykkur báðum kærlega fyrir opna umræðu og einlæga, það er það sem við þurfum innan kirkjunnar að þora að segja sannleikann, tala mannamál og horfa til framtíðar. Kveðja Guðrún Kr.

 10. Þór Hauksson skrifar:

  Umræðan innan kirkjunar og utan verður að vera á þeim nótum að hvort heldur konur eða karlar sem hafa verið beitt ofbeldi finni sig velkomna að ræða sín mál hvort heldur í kirkjunni eða utan hennar. Sú staðreynd að mun færri mál drengja/karla rata inn á borð meðferðaraðila segir það eitt að þöggun samfélagsins gagnvart ofbeldi gegn drengjum/karlmönnum er enn til staðar. Kirkjan þarf að hafa forystu um að opna farveg fyrir fórnalömb kynferðislegs ofbeldis (karlmenn) að koma fram og ræða mál sín af hreinskilni og reisn. Kirkjan hefur tækifæri til að benda á þessa staðreynd og koma þeim skilaboðum út til samfélagsins að hún ætli sér að vera trúverðug í baráttunni gegn hverskonar ofbeldi gagnvart konum og körlum og þegja ekki. Það er ekki nóg að segja hálfsannleikann.

 11. Pétur Björgvin Þorsteinsson skrifar:

  Kærar þakkir bæði tvö, Guðrún og Þór. Þið hafið sannarlega rétt fyrir ykkur.

 12. Djáknafélag Íslands | Kirkjan mótmælir ofbeldi gegn konum skrifar:

  […] Lesa pistil á trú.is […]

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 6188.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar