Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Baldur Kristjánsson

Kirkjan er ekki að skorast úr leik!

Ríkið innheimtir sóknargjöld fyrir trúfélög í landinu. Þau hafa lækkað töluvert undanfarin ár og eðlilegt að kirkjan fari fram á það að það lækki ekki frekar. Sóknargjöldin standa undir starfi safnaðanna, barnastarfi, öldrunarstarfi, kórastarfi og velferðarstarfi í kreppu. Víða, einkum út um land standa þau vart undir grunnstarfinu lengur. Þess vegna er eðlilegt að kirkjan móist við þegar hætta er á að þau lækki enn frekar.

Nær öll önnur framlög til kirkjunnar eru samningsbundin og er þar lang stærsti liðurinn laun prestanna og starfsmanna biskupsstofu, en starfsmenn þar útbúa barnaefni og annast ýmis sameiginleg verkefni fyrir kirkjuna. Kirkjan seldi jarðeignir sínar í hendur ríkisins gegn því að ríkið greiddi þessi laun. Er talið að upphæðin jafngildi 2-3%rentu af eignasafninu. Þessi samningur er lögvarinn og er talið fullvíst að standi ríkið ekki við hann myndi eignasafnið renna aftur til kirkjunnar. Í Svíþjóð er það t.d. þannig að kirkjan þar afsalaði sér aldrei eignasafni sínu og byggir starf sitt af rentu á því. Það væri alveg hægt hér.

Nú kunna menn sem alast upp við sterkt ríkisvald og veikt kirkjuval d að efast um að kirkjan hafi átt tilkall til eigna sinna hér áður fyrr. En svona var það nú bara. Kirkjan eignaðist þetta og á með réttu og notar til að halda uppi kerfi um allt land sem giftir, grefur og skírir og hjálpar fátækum og boðar guðs náðina sem allir hafa heyrt um og allir sækjast eftir með einhverjum hætti.

Og kirkjan, undirritaður sat kirkjuþing, vill axla byrðar eins og allir. Starfsmönnum verður fækkað og laun verða lækkuð. En það var skoðum allra þeirra sem sóttu þingið að niðurskurður til kirkjunnar ætti að haldast í hendir við niðurskurð til velferðarmála og sú velferðarstjórn sem nú situr reynir að halda niðurskurði til slíkra mála við fimm prósent markið. Kirkjan er því ekki að skorast úr leik heldur vill standa vörð um velferðina. Það á hún sameiginlegt með ríkisstjórninni.

Um höfundinn4 viðbrögð við “Kirkjan er ekki að skorast úr leik!”

 1. Matti skrifar:

  Baldur er einn átta presta og guðfræðinga sem skrifuð greinar í kjölfar hrunsins og kölluðu sig G8 hópinn.

  Þar var dálítið tala um sátt í samfélaginu, réttlæti og þessháttar.

  Nú spyr ég: Er eitthvað réttlæti fólgið í því að stofnun sem allir landsmenn voru neyddir til að vera hluti af geti sankað að sér eigum?

  Er eitthvað réttlæti í því að stofnunin fái greitt fyrir þessar eigur margfalt verðmæti þeirra?

  Og að lokum: skiptir réttlæti einhverju máli í samélaginu eftir hrun eða var tal um það bara látaleikur?

  ps. Eiga útrásarvíkingar rétt á að halda öllum eigum sýnum í ljósi þess að þeir áttu þær einu sinni?

  Ég á ekki von á svari.

 2. Jakob Hjálmarsson skrifar:

  Er Matti að halda því fram að eignir kirkjunnar séu illa fengnar? Eignasafnið varð til sem stofnun í almannaþágu, mynduð af fólkinu sjálfu,sem félagsþjónusta þeirra tíma. Með það var síðan sýslað um aldir og af löngum tíma verða til misjafnar sögur. En hvað um þær þá greiðir fólkið í landinu atkvæði um þessar eignir með fótunum: Arður kirkjunnar af þeim fer eftir aðildartölu Þjóðkirkjuþegna. Fækki þeim lækka tekjur þjóðkirkjunnar. Það er réttát og lýðræðisleg ráðstöfun og því í raun óþarft að ræða þá þætti máls frekar.

 3. Halldór Logi Sigurðarson skrifar:

  Hvað með að slíta sambandi ríkis og kirkju? Þá gæti stofnunin haft eins há sóknargjöld og hún vildi… og þyrfti ekki að neyða trúalausa og fólk úr öðrum trúarbrögðum að borga með!

  @Jakob Hjálmarsson
  “Eignasafnið varð til sem stofnun í almannaþágu, mynduð af fólkinu sjálfu,sem félagsþjónusta þeirra tíma.”
  Nei, kristinni kirkju var komið hingað á með valdi, og lúthersku kirkjunni blóðugu valdi sem “þjóðin” fékk ekkert að segja um.

  “Arður kirkjunnar af þeim fer eftir aðildartölu Þjóðkirkjuþegna. Fækki þeim lækka tekjur þjóðkirkjunnar. Það er réttát og lýðræðisleg ráðstöfun og því í raun óþarft að ræða þá þætti máls frekar.”
  Vandamál. Fólk veit ekki að það geti skráð sig úr Þjóðkirkjunni nét veit það að það borgar 10.000 kr. þangað á ári. Og það er ekkert lýðræðislegt við Þjóðkirkjuna, það að ríkið hampi einu trúfélagi ofar öðru burtséð frá starfsemi þess er óréttlátt.

 4. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  > Er Matti að halda því fram að eignir kirkjunnar séu illa fengnar?

  Ég held því fram að það hafi ekki ríkt trúfrelsi á landinu á þeim tíma þegar eignamyndun ríkiskirkjunnar fór fram.

  Þykir þér það ekki skipta neinu máli Jakob?

  Svo eru náttúrulega dæmi um að eignir séu illa fengnar, en það er ekki aðalatriði. Kjarni málsins er að jafnvel þó við viðurkennum eignarhald kirkjunnar á öllum þessum jörðum hefur ríkið þegar margreitt kirkjunni fyrir jarðirnar. Ef það ætti að fara fram uppgjör tel ég að kirkjan eigi engan rétt á að halda jörðunum í því ljósi.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3380.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar